Osama bin Laden

Sádi-arabískur hryðjuverkamaður og stofnandi Al-Kaída (1957-2011)

Osama bin Laden (f. 10. mars 1957, d. 2. maí 2011; fullu nafni Osama bin Múhammeð bin Avad bin Laden; á arabísku أسامة بن محمد بن عوض بن لادن), er stofnandi Al-Kaída, hryðjuverkasamtaka súnní-íslamista. Samtökin hafa komið nálægt fjölmörgum árásum á borgaraleg jafnt sem hernaðarleg skotmörk úti um allan heim, þar á meðal eru árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001 sem urðu að minnsta kosti 2.752 manns að bana.

Osama bin Laden u.þ.b. 1997.

Osama taldi sig og samtök sín berjast fyrir hagsmunum múslima; ein krafa hans var sú að bandarískur her færi frá Sádi-Arabíu en í því landi er að finna tvo helgustu staði í íslam. Bandaríkin drógu heri sína frá Sádi-Arabíu 2003 en ekki er ljóst hvort að ákvörðun um það hafði þegar verið tekin fyrir 11. september 2001.

Osama var eftirlýstasti maður vesturlanda og hétu bandarísk stjórnvöld 50 milljónum bandaríkjadala í verðlaun handa hverjum þeim sem veitti upplýsingar sem leiddu til handtöku hans. Dvalarstaður hans var óþekktur en oftast var talið að hann væri í felum í hinu róstusama pakistanska héraði Waziristan, sem er við landamæri Afganistan, eða nálægt hinum pakistanska smábæ Chitral.

Árið 2011 fengu Bandaríkjamenn veður af því að hann dveldist í ákveðnu húsi í borginni Abbottabad í Pakistan, sem er um 75 km norður af Islamabad. Nokkrum mánuðum síðar fengu þeir fulla vissu fyrir því og létu til skarar skríða að skipun Bandaríkjaforseta aðfaranótt 2. maí. Sérsveit gerði árás og eftir snarpan 40 mínútna skotbardaga féll Osama bin Laden ásamt konu sinni inni í herbergi þeirra. Ekki var vitað hvort að Osama Bin Laden hafi verið með sprengjuvesti á sér en það var komið leyfi fyrir því að skjóta hann. Bandaríkjamenn höfðu lík hans á brott með sér út á flugmóðurskip á Arabíuhafi sunnan við Pakistan. Gengið var frá líkinu að hætti Múhameðstrúarmanna og því svo sökkt í sjóinn.