Karl Carstens

Forseti Vestur-Þýskalands (1914-1992)

Karl Carstens (14. desember 1914 – 30. maí 1992) var þýskur stjórnmálamaður. Hann var forseti Vestur-Þýskalands frá 1979 til 1984.

Karl Carstens
Karl Carstens árið 1978.
Forseti Vestur-Þýskalands
Í embætti
1. júlí 1979 – 30. júní 1984
KanslariHelmut Schmidt
Helmut Kohl
ForveriWalter Scheel
EftirmaðurRichard von Weizsäcker
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. desember 1914
Bremen, þýska keisaradæminu
Látinn30. maí 1992 (77 ára) Meckenheim, Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurKristilegi demókrataflokkurinn (1955–1992)
Nasistaflokkurinn (1940–1945)
MakiVeronica Prior
HáskóliYale-háskóli, Háskólinn í Búrgund, Goethe-háskóli, Ludwig-Maximilian-háskóli, Háskólinn í Königsberg, Hamborgarháskóli
VerðlaunKarlsverðlaunin (1984)
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Karl Carstens fæddist þann 14. desember árið 1914 í Bremen. Hann stundaði lögfræðinám í Dijon, München, Königsberg og Hamborg.[1] Hann lagði jafnframt stund á hagfræði á námsárum sínum og lærði bæði frönsku og ensku.[2] Carstens hlaut mastersgráðu frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum.[3]

Carstens gekk í Nasistaflokkinn árið 1933 en sagði sig úr honum tveimur árum síðar. Hann gekk aftur í flokkinn árið 1940, að eigin sögn til þess að geta haldið áfram í laganámi.[4] Carstens var jafnframt stormsveitarmaður í SA-sveitunum (þ. Sturmabteilung) frá árinu 1933 á tíma nasistastjórnarinnar.[5] Carstens gegndi þjónustu í þýska hernum á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og var þá foringi í loftvarnasveitum Berlínar.[4]

Þegar Carstens var 34 ára var hann sendur til Bonn sem nokkurs konar sendifulltrúi heimaborgar sinnar. Hann varð þar pólitískur lærlingur Konrads Adenauer kanslara og Walters Hallstein og fékk áhuga á utanríkismálum. Í ágúst árið 1954 varð Carstens fulltrúi Þjóðverja við Evrópuráðið í Strassborg.[1]

Á kanslaratíð Kurts Georgs Kiesinger varð Carstens yfirmaður forsætisráðuneytisins. Hann hafði þar afskipti af ólöglegri vopnasölu vestur-þýsku leyniþjónustunnar. Carstens var náinn samverkamaður Kiesingers og hélt áfram stöðu sinni hjá kanslaraembættinu þar til Willy Brandt tók við af Kiesinger árið 1969.[5]

Carstens var kjörinn á þýska sambandsþingið fyrir Kristilega demókrataflokkinn árið 1972. Þrátt fyrir að hafa ekki fyrri reynslu af þingstörfum var hann valinn leiðtogi stjórnarandstöðunnar á þinginu sama ár.[1] Carstens var talinn til hægri vængs Kristilegra demókrata og var ötull andstæðingur austurstefnu stjórnvalda, sem fól í sér bætt samskipti við Austur-Þýskaland og önnur kommúnistaríki Austurblokkarinnar. Árið 1976 var Carstens kjörinn forseti þýska sambandsþingsins með stuðningi bæverska íhaldsleiðtogans Franz Josefs Strauss.[5]

Walter Scheel, forseti Vestur-Þýskalands, ákvað árið 1979 að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Skoðanakannanir sýndu að Scheel naut afgerandi stuðnings meðal almennings til að gegna öðru kjörtímabili en hann hafði ekki stuðning vísan á kjörþinginu sem kýs forsetann. Kristilegir demókratar völdu Carstens sem forsetaefni sitt í forsetakosningunum og hann var kjörinn í mars 1979. Carstens var fyrsti forseti sambandslýðveldisins sem var kjörinn úr röðum stjórnarandstöðunnar.[2]

Á forsetatíð sinni reyndi Carstens að vinna sér velvild Þjóðverja með því að fara í mikla gönguferð þvert yfir Þýskaland, frá Eystrasalti til Alpafjalla. Ætlunin var að koma við í sem flestum þorpum og bæjum á gönguleiðinni og brúa þannig bilið milli alþýðu og stjórnmálamanna. Gönguferðin var ekki farin í einu vetfangi heldur var henni skipt í mánaðarlegar tveggja eða þriggja daga gönguferðir og áætlað að ljúka henni á tveimur árum.[6]

Carstens gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakosningum árið 1984. Flokksbróðir hans, Richard von Weizsäcker, var kjörinn til að taka við af honum í maí það ár.[7]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „Karl Carsten: Tekur hann við af Willy Brandt?“. Alþýðublaðið. 16. mars 1973. bls. 5.
  2. 2,0 2,1 Þórarinn Þórarinsson (25. mars 1979). „Karl Carstens verður eftirmaður Scheels“. Tíminn. bls. 6.
  3. Guðmundur Pétursson (26. maí 1979). „Íhaldsmaðurinn Karl Carsten líklega næsti forseti V-Þýskalands“. Vísir. bls. 6.
  4. 4,0 4,1 „Karl Carstens: umdeildur vegna fortíðar sinnar“. Morgunblaðið. 27. maí 1979. bls. 15.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Nýr forseti Vestur-Þýskalands: Hægri maður með skuggalega fortíð“. Þjóðviljinn. 1. júlí 1979. bls. 5.
  6. Þórarinn Þórarinsson (18. maí 1980). „Söguleg gönguferð þýzka forsetans“. Tíminn. bls. 6.
  7. „Richard von Weizsäcker forseti Vestur-Þýskalands“. Morgunblaðið. 24. maí 1984. bls. 22.


Fyrirrennari:
Walter Scheel
Forseti Vestur-Þýskalands
(1. júlí 197930. júní 1984)
Eftirmaður:
Richard von Weizsäcker