Péturskirkjan í Bremen

Péturskirkjan í Bremen (St. Petri Dom) er dómkirkjan í Bremen og jafnframt elsta nústandandi kirkja borgarinnar. Hún var í byggingu í heilar tvær aldir og vígð á 13. öld. Kirkjan stendur á aðaltorginu í miðborg Bremen, við hliðina á ráðhúsinu.

Péturskirkjan í Bremen

Saga Péturskirkjunnar

breyta

Upphaf

breyta

Dómkirjan á sér tvo fyrirrennara. Sú fyrri var smíðuð úr timbri og vígð árið 789 af enska kristniboðanum Willehad. Kirkjan var brennd niður af söxum aðeins þremur árum síðar. Seinni kirkjan var gerð úr grjóti snemma á 10. öld. Þar sat meðal annarra Ansgar, einnig kallaður postuli Norðurlanda. Árið 1035 var hafist handa við að rífa þá kirkju og reisa nýja dómkirkju. En 1041 eyddi stórbruni fjölda bygginga í Bremen, þar á meðal nýsmíðinni. Núverandi dómkirkja var reist strax í framhaldið. Hún var í byggingu í hartnær tvær aldir með hléum. Fyrirmyndir hennar voru dómkirkjan í Köln og dómkirkjan í Beneventum á Ítalíu. Turnarnir tveir voru nokkru lægri en þeir eru í dag. Þeir voru ekki hækkaðir fyrr en á 19. öld.

Siðaskipti

breyta
 
Dómkirkjan 1695. Suðurturninn er hruninn.

Árið 1522 hófust siðaskiptin í borginni hægt og örugglega. Næstu árin varð hver kirkjan á fætur annarri lútersk. Hins vegar þótti borgarbúum siðaskiptin ganga hægt í dómkirkjunni. Því var mynduð borgarahreyfing sem ruddist inn í kirkjuna árið 1547 og lokaði henni. Var hún ekki í notkun í heil 15 ár þar til viðeigandi lúterskur kennimaður var ráðinn til að messa. En hann lenti í deilum við upphafsmenn siðaskiptanna og var rekinn. Aftur var dómkirkjunni lokað í fleiri ár. Trúarórói þessi varð til þess að Bremen var rekið úr Hansasambandinu 1563, í þriðja sinn í sögu borgarinnar. Árið 1638 hrundi suðurturninn og eyðilagði tvö íbúðarhús fyrir neðan. Átta manns biðu bana í þessu slysi. Árið 1656 sló eldingu niður í kirkjuna og brann hún að innan, ásamt norðurturninum. Hann fékk flatt bráðabirgðaþak, sem reyndar entist í rúm 250 ár.

Nýrri tímar

breyta

Dómkirkjan var einturna allt til loka 19. aldar. Það var ekki fyrr en 1888 að byrjað var að gera kirkjuna upp, bæði að innan og að utan. Suðurturninn var endurreistur og báðir turnarnir fengu há þök. Þeir urðu 99 metra háir og þar með er dómkirkjan hæsta kirkjubyggingin í Bremen. Útsýnispallar eru í báðum turnum og eru þeir í 68 metra hæð. Til að komast þangað upp verður að ganga upp 265 þrep. Framkvæmdum lauk loks 1901. Í heimstyrjöldinni síðari varð dómkirkjan fyrir skemmdum í loftárásum bandamanna. Í fyrstu sprungu allir gluggarnir en stuttu fyrir stríðslok sprakk ein sprengjan við hliðina á byggingunni. Þak kirkjuskipsins hrundi og stórskemmdi kirkjuna alla. Ári eftir stríðslok var hafist handa við að lagfæra skemmdirnar, þar sem enn var mikil hætta á frekara hruni. Árið 1950 var nýtt þak komið á en ýmis brot úr því gamla eru til sýnis í kirkjunni til minningar um eyðileggingu stríðsins.

Blýkjallarinn

breyta
 
Ein af múmíunum í blýkjallaranum

Undir kirkjunni er hinn svokallaði blýkjallari. Þar fundust af tilviljun nokkrar múmíur í viðarkistum 1698. Múmíurnar voru orðnar þurrar og mjög gráar. Menn héldu að blý hefði sest að í þeim og því fékk grafreiturinn heitið blýkjallarinn. Fundurinn þótti stórmerkilegur í þeim tíma. Múmíurnar eru til sýnis í hliðarhúsi kirkjunnar. Summar þeirra var hægt að nafngreina, en aðrar ekki. Talið er að ein þeirra hafi verið yfirmaður einhvers hers í 30 ára stríðinu.

Heimildir

breyta