Ludwig Quidde

Þýskur stjórnmálamaður og sagnfræðingur (1858-1941)

Ludwig Quidde (23. mars 1858 – 4. mars 1941) var þýskur stjórnmálamaður og friðarsinni sem varð þekktur fyrir gagnrýni sína á hendur Vilhjálmi 2. Þýskalandskeisara. Ferill Quidde í þýskum stjórnmálum spannaði fjögur tímabil í sögu Þýskalands: valdatíð Bismarcks (til ársins 1890), keisaratíð Vilhjálms 2. (1888–1918), tíma Weimar-lýðveldisins (1918-1933) og loks tíma þriðja ríkisins. Quidde hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1927 ásamt Frakkanum Ferdinand Buisson.[2]

Ludwig Quidde
Fæddur23. mars 1858
Dáinn4. mars 1941 (82 ára)
ÞjóðerniÞýskur
MenntunGeorg-August-háskólinn í Göttingen
StörfStjórnmálamaður, sagnfræðingur
FlokkurÞýski þjóðarflokkurinn,
Þýski lýðræðisflokkurinn,
Róttæki lýðræðisflokkurinn
MakiMargarethe Quidde (g. 1882; d. 1940[1])
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1927)

Æviágrip

breyta

Ludwig Quidde kom úr ríkri kaupmannsfjölskyldu og ólst upp í Brimum, þar sem hann nam sagnfræði og tók þátt í aðgerðum Þýsku friðarsamtakanna (þ. Deutsche Friedensgesellschaft). Á yngri árum var Quidde andsnúinn stjórnarstefnum Bismarcks kanslara. Árið 1881 lauk hann doktorsprófi við Háskólann í Göttingen.

Árið 1894 birti Quidde 17 blaðsíðna bækling með titlinum Caligula. Eine Studie über römischen Caesarenwahnsinn (Caligula: Rannsókn á rómverskri keisarageðveiki). Bæklingurinn fjallaði efnislega aðeins um Rómaveldi á fyrstu öld eftir Krist en með birtingu hans þótti Quidde vera að draga fram samanburð á keisaranum Caligula og Vilhjálmi 2. Þýskalandskeisara og saka báða keisarana um mikilmennskubrjálæði. Quidde hafði birt bæklinginn undir eigin nafni og í reynd lauk fræðaferli hans í sagnfræði eftir að athygli beindist að ádeilunni á Vilhjálm keisara.[3] Árið 1896 var Quidde dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir móðgun við krúnuna vegna niðrandi athugasemda sem hann lét falla um nýjan heiðurspening sem stofnaður hafði verið til heiðurs Vilhjálmi 1. Þýskalandskeisara.[3] Quidde afplánaði fangavistina í Stadelheim-fangelsi.

Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var Quidde líkt og flestir Þjóðverjar afar mótfallinn skilmálum Versalasamningsins. Ástæður hans voru þó ekki hinar sömu og þýskra hernaðarsinna, sem voru aðallega mótfallnir takmörkunum á herafla Þýskalands og háum stríðsskaðabótum sem fólust í samningnum. Quidde og aðrir þýskir friðarsinnar óttuðust hins vegar að ströng skilyrði samningsins myndu leggja grunninn að öðru stríði og vonuðust til þess að sáttastefna Woodrows Wilson Bandaríkjaforseta yrði hefndarhug Frakka yfirsterkari.

Niðurlægð og sundruð þýsk þjóð dæmd til efnahagseymdar væri stöðug hætta gegn heimsfriðinum, alveg eins og vernduð þýsk þjóð þar sem órjúfanleg réttindi og lífsviðurværi eru tryggð væri máttarstólpi slíks heimsfriðar.
Megi þeir sem fara með völdin í dag hugsa lengra fram í tímann og hafa framtíð mannkynsins í huga. Ábyrgð þeirra er gríðarleg. Í dag er hægt að stofna til nýrrar heimsskipunar sem gæti gagnast öllum þjóðum. Skammsýn misnotkun á þessu valdi gæti eyðilagt allt.
(„Yfirlýsing Friðarsamtaka Þýskalands“, 15. nóvember 1918 eftir Quidde)

Þegar Hitler komst til valda árið 1933 flúði Quidde til Sviss og settist að í Genf það sem hann átti eftir ólifað. Árið 1934 birti hann ritgerðina „Landfriede und Weltfriede“ þar sem hann færði rök fyrir því að nútímatækni myndi koma í veg fyrir stríð þrátt fyrir aukna hernaðarhyggju í heimsálfunni:

[…] í dag er það tækniþróun sem hefur breytt nútímastríði í sjálfsmorðskennda martröð og mun binda enda á stríð. Þessu var þegar spáð af Kant, sem bjóst við því að stofnað yrði til „varanlegs friðar“, ekki af fullkomnu siðgæði mannsins heldur vegna nútímalegs stríðsreksturs, sem yrði svo óbærilegur að mannkynið myndi neyðast til þess að tryggja ævarandi frið.

Ludwig Quidde lést í Sviss árið 1941, þá 82 ára.

Tilvísanir

breyta
  1. The International Who's who: Who's who in the World : a Biographical Dictionary of the World's Notable Living Men and Women (enska). International Who's Who Publishing Company. 1911. bls. 876.
  2. „The Nobel Peace Prize 1927: Ludwig Quidde“. Nóbelsverðlaunin (bandarísk enska). Sótt 13. apríl 2020.
  3. 3,0 3,1 „Friðarverðlaun Nobels“. Ísafold. 20. desember 1927.