1661-1670
1661-1670 var 7. áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu.
Árþúsund: | 2. árþúsundið |
Öld: | 16. öldin · 17. öldin · 18. öldin |
Áratugir: | 1641–1650 · 1651–1660 · 1661–1670 · 1671–1680 · 1681–1690 |
Ár: | 1661 · 1662 · 1663 · 1664 · 1665 · 1666 · 1667 · 1668 · 1669 · 1670 |
Flokkar: | Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður |
Atburðir og aldarfar
breytaEndurreist konungdæmi í Englandi
breytaÞegar Karl 2. Englandskonungur hafði tekið við völdum og enska samveldið lagt niður tók við blómaskeið veraldlegra skemmtana og bókmennta sem er kallað Stúart-endurreisnin. Karl afturkallaði bann þingsins við leiksýningum og kom kirkjuskipan ensku biskupakirkjunnar í það horf sem ríkt hafði fyrir ensku borgarastyrjöldina. Sú bjartsýni sem fylgdi endurreisninni leiddi til almenns stuðnings við Annað stríð Hollands og Englands sem braust út um miðjan áratuginn, meðal annars vegna vaxandi áhrifa Hollendinga sem nú voru orðnir máttugra sjóveldi en Englendingar. Hollendingar báru sigur af hólmi og atburðir á borð við Lundúnabrunann og Lundúnapláguna drógu úr mætti Englendinga.
Einveldið staðfest í Danmörku
breytaÍ ríki Danakonungs hófst Friðrik 3. handa við að koma á þeim stjórnarfarslegu breytingum sem hið nýsamþykkta einveldi gerði mögulegar. Erfðahyllingin í Kaupmannahöfn 1660 var endurtekin í Noregi og á Íslandi. Hæstiréttur Danmerkur var stofnaður 1661 og 1665 voru konungslögin um einveldið undirrituð af konungi. Einveldið fól meðal annars í sér að öll lén voru lögð niður og ömt tekin upp í staðin. Á Íslandi gekk þessi breyting ekki í gegn fyrr en við lát síðasta lénsherrans yfir landinu, Henriks Bjelke, árið 1683.
Selárdalsmálin
breytaÁ Íslandi komu svokölluð Selárdalsmál upp á Vestfjörðum þegar Helga, kona Páls Björnssonar í Selárdal, veiktist af ókennilegum sjúkdómi í desember árið 1668. Þessi galdramál, sem stóðu til 1683, ollu meira en þriðjungi allra galdrabrenna á Íslandi.
Vísindi og menning
breytaÁ þessum árum gerði enski vísindamaðurinn Robert Hooke athuganir sínar með smásjá og gaf þær út í ritinu Micrographia 1665. Tveimur árum síðar uppgötvaði hann að umbreyting blóðs í lungunum væri forsenda öndunar. Hann framkvæmdi margar af tilraunum sínum fyrir Konunglega breska vísindafélagið sem var stofnað 1660.
1669 gaf danski fræðimaðurinn Rasmus Bartholin út rannsóknir sínar á silfurbergi þar sem hann skýrði tvíbrot í fyrsta skipti. Sama ár uppgötvaði gullgerðarmaður frá Hamborg, Henning Brand, fosfór, fyrsta nýja frumefnið sem hafði uppgötvast frá því í fornöld.
Á Íslandi ritaði Jón Ólafsson Indíafari hina þekktu ferðabók sína í upphafi áratugarins, og árið 1666 var eitt þekktasta íslenska bókmenntaverk 17. aldar, Passíusálmarnir, eftir Hallgrím Pétursson, gefið út á Hólum. Ári síðar kom kvæðið Paradísarmissir eftir John Milton út í Englandi.