Hallgrímur Pétursson

Íslenskur prestur og skáld (1614-1674)

Hallgrímur Pétursson (161427. október 1674) var prestur og mesta sálmaskáld Íslendinga. Ævi hans var að mörgu leyti óvenjuleg en þekktastur er hann í dag fyrir Passíusálmana sína sem voru fyrst gefnir út á prenti árið 1666. Hann var af góðum ættum en bjó lengst af við fátækt. Hann naut mikils stuðnings Brynjólfs Sveinssonar biskups og fékk prestsvígslu frá honum þrátt fyrir að Hallgrímur lyki aldrei formlega prófi. Hallgrímskirkja í Reykjavík og Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd eru nefndar eftir honum.

Brjóstmynd af Hallgrími Péturssyni.
Glerlistaverk af Hallgrími Péturssyni í glugga Akureyrarkirkju.

Hallgrímur var fæddur á Gröf á Höfðaströnd og var sonur hjónanna Péturs Guðmundssonar og Sólveigar Jónsdóttur. Guðmundur var svokallaður Fljótaumboðsmaður, sem þýðir það að hann hafði umboð fyrir þeim jörðum í Fljótum, sem voru í eigu Hólastóls en Pétur var hringjari á Hólum enda voru þeir Guðbrandur Þorláksson, biskup þar, bræðrasynir. Um Sólveigu móður Hallgríms er ekkert vitað og hún kann að hafa dáið þegar Hallgrímur var enn ungur.[1]

Hallgrímur ólst upp á Hólum en fór þaðan sem unglingur í iðnnám til Danmerkur eða Norður-Þýskalands, líklegast um 1630. Sögum ber ekki saman um námsdvöl Hallgríms, en talið er að hann hafi numið málmsmíði í Kaupmannahöfn, Hamborg eða Lukkuborg (sem þá var í Danmörku en nú í Þýskalandi). Hann var nokkrum árum síðar starfandi hjá járnsmið í Kaupmannahöfn og hitti þar Brynjólf Sveinsson, síðar biskup, en Þorbjörg systir Péturs Guðmundssonar var mágkona Brynjólfs Sveinssonar. Brynjólfur kom honum í nám í Frúarskóla í Kaupmannahöfn og var Hallgrímur þar við nám í nokkur ár og sóttist það vel og var kominn í efsta bekk um haustið 1636. Kynni Hallgríms við Brynjólf reyndust afdrífarík enda var Brynjólfur drjúgur stuðningsmaður sálmaskáldsins síðar á ævinni þrátt fyrir að Hallgrími hafi komið illa saman við ýmsa embættismenn.

Þá bar svo til, að þetta haust komu til Kaupmannahafnar nokkrir Íslendingar, sem lent höfðu í Tyrkjaráninu 1627 og verið úti í Alsír í tæpan áratug. Var talið að þeir væru farnir að ryðga í kristinni trú og jafnvel í móðurmálinu. Þess vegna var fenginn íslenskur námsmaður til þess að fara yfir fræðin með þeim og varð Hallgrímur fyrir valinu. Í þessum hópi var kona nokkur frá Vestmannaeyjum, Guðríður Símonardóttir en maður hennar, Eyjólfur Sólmundarson (d. 1636), hafði sloppið við að vera rænt. Urðu þau Hallgrímur ástfangin og æxluðust mál þannig að hann yfirgaf námið og Danmörku og fór til Íslands með Guðríði þegar hópurinn var sendur heim. Komu þau til lands í Keflavík snemma vors 1637 og var Guðríður þá ófrísk að fyrsta barni þeirra. Guðríður var allnokkru eldri en Hallgrímur, talin fædd 1598, d. 18. desember 1682.

 
Hallgrímur og Guðríður bjuggu á tveimur stöðum á Suðurnesjum, sitt hvoru megin á Rosmhvalanesi. Fyrst í hjáleigu frá Njarðvík og seinna á Hvalsnesi, sem er vestan við Keflavíkurflugvöll.

Aftur til Íslands

breyta

Þau settust að í smákoti, sem hét Bolafótur og var hjáleiga frá Ytri-Njarðvík, og gerðist Hallgrímur púlsmaður hjá þeim dönsku (kaupmönnunum í Keflavík). Hann var stór maður og luralegur og svo er sagt að hann hafi ekki verið ásjálegur. Einhverja sekt mun hann hafa orðið að greiða, vegna þess að þegar þau komu til Íslands var Guðríður ófrísk og gift en reyndar hafði maður hennar dáið árið 1636. Það vissu þau hjúin ekkert um og voru því ótvírætt brotleg. Einhvern veginn kastaðist í kekki á milli Hallgríms og veraldlegra ráðamanna á Suðurnesjum og munu hann og Torfi Erlendsson, sýslumaður á Stafnesi, aldrei hafa litið hvor annan réttu auga.

Árið 1644 losnaði embætti prests á Hvalsnesi. Þá ákvað Brynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti, að vígja Hallgrím til þessa embættis, þrátt fyrir það að hann hafði ekki lokið prófi. Hann mun samt hafa verið jafn vel menntaður og flestir þeir sem voru vígðir prestar á Íslandi þá. Er sagt að þegar hann var vígður og tók við prestsembættinu á Hvalsnesi hafi Torfi Erlendsson, sem þá var orðinn nábúi hans sagt: „Allan andskotann vígja þeir.“ Einnig er sagt að Hallgrímur hafi verið að yrkja um Torfa er hann kvað:

Áður en dauður drepst úr hor
drengur á rauðum kjóli,
feginn verður að sleikja slor
slepjugur húsgangs dóli.

Sýna þessi ummæli Torfa og kveðskapur Hallgríms að þeim hefur verið lítt til vina.

Á Hvalsnesi bjuggu þau í nokkur ár (til 1651) og mun Hallgrími hafa líkað frekar þunglega. Þar fæddist þeim dóttir, sem hann skírði Steinunni. Hún dó mjög ung og syrgði Hallgrímur hana mjög. Fór hinn smíðamenntaði prestur út á Miðnesheiði og sótti sér stein og hjó í hann grafskrift dóttur sinnar. Er sá steinn ennþá til og var um nokkra áratugi talinn týndur. Það var hann þó aldrei, því að í Suðurnesjaannál, sem skrifaður var um eða fyrir 1880, segir séra Sigurður B. Sívertsen frá því að legsteinn Steinunnar sé í kirkjustétt á Hvalsnesi. Reyndist þetta rétt, því að steinninn kom í ljós þegar gert var við kirkjustéttina eftir miðja 20. öld. Hefur hann síðan verið geymdur í Hvalsneskirkju og er einn af dýrgripum hennar, en hefur látið mjög á sjá í tímans rás.

Árið 1651 fékk séra Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og fluttust þau hjón þangað. Talið er að þar hafi Hallgrími líkað betur. Þar orti hann Passíusálmana og marga aðra sálma, sem frægir eru enn í dag, til dæmis sálminn „Um dauðans óvissan tíma“, sem allt fram á síðustu ár var sunginn yfir moldum hvers einasta Íslendings sem jarðsettur var. Passíusálmarnir eru heimsfrægt verk og hafa verið þýddir á fleiri tungumál en flest annað, sem upprunnið er á Íslandi. Handrit sálmanna gaf hann Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholti í maí 1661.[2] Sagt er að hún hafi haft þá með sér í gröfina.

Síðustu ár sín bjó Hallgrímur á Kalastöðum og loks á Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd og dó þar. Hann hefur þá verið farinn að þjást af sjúkdómnum sem dró hann til dauða, en það var holdsveiki. Þau Guðríður áttu nokkur börn, en aðeins eitt þeirra komst upp og var það Eyjólfur, elsta barnið. Frá honum eru ættir og komu út á bók um eða eftir 1980.

 
Hallgrímskirkja (Saurbæ á Hvalfjarðarströnd)

Margar kirkjur eru kenndar við Hallgrím Pétursson: Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd (byggð 19541957) og Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti í Reykjavík (byggð 19451986). Einnig er lítil en falleg kirkja: Hallgrímskirkja Vindáshlíðar í Kjós. Sú kirkja var áður í Hvalfirði en var flutt eftir að Vindáshlíðarkonur höfðu mikið beðið fyrir að fá kirkju.

Hallgrímur Pétursson var mjög virkt ljóðskáld. Meðal hans frægustu verka eru Passíusálmarnir, 50 talsins, sem hann skrifaði á árunum 16561659. Þeir komu á prent árið 1666 og eru varðveittir í eiginhandarriti skáldsins í Landsbókasafni (JS 337 4to). Í þessu handriti finnst líka einn þekktasti sálmur Hallgríms, Um dauðans óvissan tíma, sem er líka stundum nefnt eftir upphafslínu, Allt eins og blómstrið eina, eða einfaldlega Sálmurinn um blómið. Hallgrímur var undir miklum áhrifum frá skrifum Martin Mollers, sérstaklega Soliloquia de passione Jesu Christi sem var þýtt á dönsku árið 1647 en á íslensku árið 1593 af Arngrími Jónssyni.[3] Þýðing Péturs Einarssonar lögréttumanns á þessu verki Mollers kom út á bundnu máli árið 1661.[4]

Hann orti líka pólítisk ljóð eins og Aldarhátt.

Á síðustu æviárum Hallgríms var píetismi að ryðja sér til rúms í Norður-Evrópu. Passíusálmar Hallgríms féllu í góðan jarðveg hjá þeim sem aðhylltust píetisma á Íslandi og urðu mjög vinsælir á 18. öld. Verk skáldsins dreifðust víða í prentuðum og handskrifuðum eintökum. Þó hafa fá eiginhandrit Hallgríms varðveist og ýmsir sálmar hafa verið eignaðir honum í gegnum tíma sem eru sennilega eftir samtímaskáld hans.

Þjóðsögur um Hallgrím

breyta

Til eru nokkrar þjóðsögur um Hallgrím þar sem hann er sagður vera kraftaskáld.

Ein þjóðsagan segir frá því að hann var við guðsþjónustu og hafi skyndilega litið út um litla trégluggann og sá tófu bíta fé. Þá orti hann þessa vísu:

Þú sem bítur bóndans fé,
bölvuð í þér augun sé,
stattu nú sem stofnað tré,
steinadauð á jörðunne.

Við þetta féll tófan niður dauð og segir sagan að þar hafi hann misst skáldgáfuna vegna þess að hann misnotaði hana með þessum hætti í miðri guðsþjónustu. Samkvæmt sögunni fékk hann hana aftur þegar hann hóf að semja Passíusálmana 1656-1659.[5]

Áhrif á samtímamenningu

breyta

Sálmurinn um blómið er nafn á bók eftir Þórberg Þórðarson en vísar í Allt eins og blómstrið eina.

Sögulegar skáldsögur um Hallgrím Pétursson:

Tilvísanir

breyta
  1. Margrét Eggertsdóttir (2005). Barokkmeistarinn: List og lærdómur í verkum Hallgríms Péturssonar. Stofnun Árna Magnússonar. bls. 163.
  2. „Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. ágúst 2011. Sótt 24. júní 2012.
  3. Arne Møller (1922). Hallgrímur Péturssons Passionssalmer. En studie over islandsk salmedigtning fra det 16. og 17. aarhundrede. Gylgendalske Boghandel. bls. 100-101.
  4. Arne Møller (1922). Hallgrímur Péturssons Passionssalmer. En studie over islandsk salmedigtning fra det 16. og 17. aarhundrede. Gylgendalske Boghandel. bls. 104-105.
  5. Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, 1, 1862, bls 466.

Heimildir

breyta
  • Íslenskar æviskrár, Páll Eggert Ólason, Reykjavík 1952
  • Hallgrímur Pétursson, ævi hans og starf, Magnús Jónsson, Reykjavík, 1947.

Tenglar

breyta

Verk eftir Hallgrím

breyta