Alexander 7. (13. febrúar 159922. maí 1667), upphaflega Fabio Chigi, var páfi frá 7. apríl 1655 til dauðadags. Hann var frá Siena af hinni frægu Chigi-ætt. Hann lærði heimspeki, guðfræði og lögfræði við Siena-háskóla.

Alexander 7.

Hann var skipaður rannsóknardómari á Möltu og síðar sendifulltrúi páfa í Köln til 1651. Þegar Vestfalíufriðurinn var saminn til að binda endi á Þrjátíu ára stríðið 1648 neitaði hann að taka þátt í samningaviðræðunum þar sem hann vildi ekki tala við fólk sem hann áleit trúvillinga og hann mótmælti samningnum sjálfum. Þremur árum síðar gerði Innósentíus 10. hann að ríkisritara. Þegar Innósentíus lést var hann kjörinn páfi, þrátt fyrir andstöðu Mazarins kardinála. Sama ár og hann var krýndur staðfesti hann endurskírn Kristínar Svíadrottningar í Róm.

Hann átti alla tíð í deilum við Mazarin kardinála og gallikanista innan frönsku kirkjunnar. Hann dró taum Jesúíta gegn Jansenistum og hratt Formáladeilunni af stað þegar hann krafðist þess að allir klerkar í Frakklandi undirrituðu sérstakan formála gegn kenningum Jansenista.

Hann studdi líka kröfur Spánar gegn Portúgal sem hafði lýst yfir sjálfstæði árið 1640.


Fyrirrennari:
Innósentíus 10.
Páfi
(1655 – 1667)
Eftirmaður:
Klemens 9.