Jón Ólafsson Indíafari

íslenskur rithöfundur og ævintýramaður (1593–1679)

Jón Ólafsson „Indíafari“ (4. nóvember 15932. maí 1679) var íslenskur rithöfundur og ævintýramaður, frá Svarthamri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Hann er hvað þekktastur fyrir reisubók sína um dvöl sína í Kaupmannahöfn og ferð sína til Indlands sem hann skrifaði um 1661 eða 67 ára gamall. Reisubókin var gefin út þrisvar á Íslandi á 20. öld og er einstök heimild um ferðir Jóns, aldafar og mannlíf. Frásögnin skiptist í tvo meginhluta og greinir sá fyrri frá dvöl hans í Danmörku og ferðinni til Svalbarða, en hinn síðari lýsir Indlandsferð hans. Þriðja hlutanum er bætt við eftir dauða Jóns og greinir hann frá ævi Jóns eftir heimkomuna til Íslands.

Foreldrar Jóns voru Ólafur Jónsson og Ólöf Þorsteinsdóttir. Af 14 börnum þeirra náðu þrjú fullorðinsaldri. Faðir hans dó úr blóðsótt þegar Jón var að verða 7 ára, eftir því sem hann sjálfur segir.

Árið 1615 kom Jón sér um borð í enskt skip og samdi við skipstjórann um far til Englands. Þaðan lá leið hans til Danmerkur þar sem hann gerðist byssuskytta á herskipum Kristjáns IV Danakonungs. Fljótlega lá leið hans norður í Hvítahaf, til Svalbarða og árið 1622 sigldi hann suður fyrir Góðrarvonarhöfða, til Seylon sem nú kallast Srí Lanka. Síðar dvaldist hann í virki í dönsku nýlendunni Tranquebar á Indlandi. Í september árið 1624 slasaðist hann illa í sprengingu í fallbyssu, þá þrítugur, og var fluttur til Danmerkur og kom þangað eftir mikla hrakninga sumarið árið eftir. Hafði þá haft viðkomu í Írlandi.

1626 kom hann til Íslands aftur og var að Bæ á Rauðasandi fyrsta veturinn. Hann kvæntist Ingibjörgu Ólafsdóttur 1627 eða 1628 og bjuggu þau fyrst að Tröð og hugsanlega í Eyrardal í Álftafirði. Þaðan héldu þau hjónin til Vestmannaeyja 1639 þar sem Jón tók við sem stjórnandi heimavarnarliðs og byssumaður á Skansinum. Konu hans líkaði illa í Vestmannaeyjum og þau fluttu aftur vestur 1640 og sama haust drukknaði Ingibjörg í Álftafirði. Sonur Jóns sem hét Kristófer Bogi lést skömmu síðar. Aftur kvæntist Jón Þorbjörgu Einarsdóttur og eignuðust þau Ólaf sem síðar bjó á Kambsnesi og nokkur ætt er frá komin. Með Þorbjörgu bjó Jón á Uppsölum í Seyðisfirði í 5 ár frá 1644 og loks í 30 ár frá 1649 til æviloka í Eyrardal við Álftafjörð, á konungsjörð, endurgjaldslaust frá 1654.

Í meginatriðum er hægt að staðfesta frásögn Jóns með samtímaheimildum. Sums staðar tilgreinir hann þó rangt ár eða misminnir um persónur og embætti og stundum virðist dálítill ýkjustíll á frásögnum af ævintýrum hans. Hann var gæddur góðri frásagnargáfu og eru lýsingar hans á mannlífinu í Kaupmannahöfn og siðum framandi þjóða mjög líflegar. Ævisagan þykir einstæð heimild um mannlíf og herþjónustu í danska flotanum á 17. öld. Hafa Danir látið gera útdrátt úr henni sem lestrarefni handa börnum og unglingum í dönskum skólum.

Tenglar

breyta