Konungslögin (danska: Kongeloven; latína: Lex Regia) voru lög sem Friðrik 3. Danakonungur undirritaði 14. nóvember 1665. Lögin voru hinn lagalegi grundvöllur einveldisins sem konungur hafði áður komið á með erfðahyllingu stéttaþings árið 1660. Hann nýtti sér það ósætti sem var milli aðalsins, borgara og presta í kjölfar Karls Gústafsstríðsins 1657-1660 til að ógilda hina ströngu handfestingu sem hann hafði neyðst til að undirrita þegar hann komst til valda. Þar með tókst honum að brjóta vald danska ríkisráðsins á bak aftur. Konungslögin voru samin af Peder Schumacher. Fáir vissu af lögunum fyrr en þau voru lesin upp í heyranda hljóði við krýningu Kristjáns 5. árið 1670. Lögin voru fyrst prentuð árið 1709. Konungslögin voru aldrei formlega staðfest á Íslandi og Jón Sigurðsson taldi þau því aldrei hafa gilt á Íslandi en með erfðahyllingunni í Kópavogi 1662 undirrituðu fulltrúar Íslendinga eið að einveldinu.

Prentuð útgáfa Konungslaganna varðveitt í Friðriksborgarhöll.

Konungslögin, og þar með einveldið, voru í meginatriðum afnumin með dönsku stjórnarskránni 1849 en kaflinn um ríkiserfðir var þó í gildi þar til ný lög um það voru sett 1851. Danska stjórnarskráin var aldrei lögtekin á Íslandi þar sem Þjóðfundurinn 1851 hafnaði henni. Með stöðulögunum 1871 var einveldið því fyrst formlega afnumið á Íslandi.

Tenglar breyta