Zürich

höfuðborg kantónunnar Zürich, Sviss
(Endurbeint frá Zurich)

Zürich er stærsta borg Sviss með 404 þúsund íbúa (2014) og jafnframt höfuðborg kantónunnar Zürich. Borgin er helsta viðskiptamiðstöð landsins. Hún er einnig mesta samgöngumiðstöð Sviss, en járnbrautarstöðin þar og flugvöllurinn eru stærstu umferðarmiðstöðvar landsins.

Zürich
Skjaldarmerki Zürich
Staðsetning Zürich
LandSviss
KantónaZürich
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriCorine Mauch
Flatarmál
 • Samtals87,88 km2
Hæð yfir sjávarmáli
408 m
Mannfjöldi
 (2018)
 • Samtals415.215
 • Þéttleiki4.700/km2
TímabeltiUTC +1 / UTC +2 (sumar)
Vefsíðastadt-zuerich.ch

Lega og lýsing

breyta
 
Áin Limmat rennur í gegnum miðborgina
 
Fánaberi frá 1585

Zürich liggur við norðurenda Zürichvatns norðarlega í Sviss og rennur áin Limmat í gegnum borgina. Næstu borgir eru Winterthur til norðausturs (25 km), Aarau til vesturs (45 km), Schaffhausen til norðurs (50 km) og Luzern til suðvesturs (60 km). Stórborgarsvæði Zürich nær meðfram allt norðanvert Zürichvatn og búa þar rúmlega 1,1 milljón manns. Svisslendingar tala gjarnan um Zürich sem heimsborg, þrátt fyrir smæðina.

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Zürich eru tvær rendur á ská. Fyrir ofan til hægri er hvítt, en fyrir neðan til vinstri er blátt. Merki þetta kom fram á 15. öld sem dómsinnsigli. Ekki hefur tekist að útskýra tilurð litanna. Í gegnum tíðina hefur ýmislegt skraut verið sett í kringum merkið, svo sem ljón og ríkisörninn. Stundum er það enn notað. Skjaldarmerki kantónunnar Zürich og borgarinnar Zürich eru nákvæmlega eins.

Orðsifjar

breyta

Á 9. öld hét bærinn Turigum og er talið að heitið sé germanskt, ekki latneskt. Bærinn hét einnig þýska heitinu Ziurichi. Merking heitanna er óviss. Gæluheiti borgarinnar er Limmatstadt (Borgin við ána Limmat) og Zwinglistadt (Borg siðaskiptamannsins Zwinglis).

Saga Zürichborgar

breyta

Upphaf

breyta
 
Felix og Regúla. Málverk eftir Hans Leu.

Það voru Rómverjar sem reistu fyrstu byggðina þar sem nú er Zürich. 15 f.Kr. var reist þar lítil herstöð og seinna þorp sem kallaðist Turicum. Þar var einnig tollstöð fyrir vörur sem aðallega voru fluttar yfir Zürichvatn. Á 3. öld liðu systkinin Felix og Regúla píslarvættisdauða og voru grafin í Zürich. Þau voru tekin í tölu dýrlinga og voru tilbeðin þar fram að siðaskiptum. Felix og Regúla eru verndardýrlingar Zürich. Á 4. öld var hafist handa við að reisa virki við bæinn. En Rómverjar yfirgáfu héraðið árið 401 og fluttu þá alemannar þangað í staðinn. Þeir munu hafa haldið húsum og virkinu óbreyttu. Árið 610 er virkinu lýst í ferðasögum heilags Columbans frá Írlandi. En elsta heimildin þar sem nafnið Zürich kemur fram er að finna í klaustrinu í St. Gallen frá árinu 806/810. Þá hefur þar verið þorp. Árið 929 er Zürich lýst sem borg (civitas) í skjölum. Árið 853 stofnaði Lúðvík hinn þýski, fyrsti keisari hins eiginlega þýska ríkis, nunnuklaustur í Zürich. Stofnskjalið er elsta varðveitta skjalið í sögusafninu í Zürich. Borgarmúra fékk Zürich ekki fyrr en í lok 12. aldar.

Síðmiðaldir

breyta
 
Fulltrúar Zürich sverja eiðinn við inngönguna í svissneska sambandið 1351
 
Rudolf Stüssi, borgarstjóri Zürich, ver brúna gegn Svisslendingum 1443 en fellur að lokum í valinn

Zürich hlaut borgarréttindi 1250. Eftir að konungar og keisarar þýska ríkisins voru tíðir gestir í Zürich í nokkrar aldir, veitti erlendi konungur þýska ríkisins, Ríkharður af Cornwall, borginni fríborgarstatus 1262. Þá var nýbúið að mynda borgarráð. Ráðið ákvað að gera bandalag við héruðin Uri og Schwyz 1291. Þetta passaði ekki í kramið hjá Habsborgurum, en Albrecht fógeti þeirra sat í borginni Winterthur fyrir norðan Zürich. Borgarráðið sendi því her til Winterthur til að berja á fógetanum. En leiðangurinn mistókst hrapallega. Í bardaganum þar féllu svo margir úr her Zürich að borgin stóð nærri því varnarlaus eftir. Albrecht sendi því her til Zürich skömmu síðar og sat um borgina. Þá tóku konurnar í Zürich til sinna ráða og klæddu sig karlaföt og gripu til vopna. Þannig mynduðu þær herdeild og stilltu sér upp svo Albrecht gæti séð. Albrecht varð undrandi og taldi að borgin hefði á einhvern hátt náð að sækja varnarlið annars staðar frá. Hann létti því á umsátrinu og fór heim. Albrecht náði hins vegar að hertaka Zürich ári síðar. Borgin var í því í Habsborgarhöndum næstu áratugi á eftir. Her frá Zürich neyddist til að ganga með Habsborgurum til orrustu gegn Svisslendingum við Morgarten 1315, en hinir síðarnefndu höfðu stofnað svissneska sambandið tveimur áratugum fyrr. Við Morgarten gjörsigruðu Svisslendingar hins vegar óvini sína. Sökum mikils óróa, bæði efnahagslegra og stjórnmálalegra, leitaði borgarráðið eftir samstarfi við Sviss. Og 1351 fékk borgin og landsvæðið í kring formlega inngöngu í svissneska sambandið. Það var í fyrsta sinn sem nýtt hérað fékk inngöngu eftir stofnun sambandsins. Zürich varð að fimmtu kantónunni. Albrecht II af Habsborg varð ævarreiður. Þrisvar sinnum sat hann um borgina Zürich, 1351, 52 og 54 en varð ætíð frá að hverfa. Eftir fráfall hans naut Zürich friðar í heila öld. En 1439 ásældist borgin landsvæði við Zürichvatn í eigu kantónunnar Schwyz. Þar sem hinar kantónurnar studdu allar Schwyz í þessu, leitaði Rudolf Stüssi, borgarstjóri Zürich, til Habsborgara með málið. Þetta töldu Svisslendingar vera drottinsvik og lýstu stríði á hendur Zürich. Árið 1443 dró til orrustu við borgardyr Zürich. Þar biðu borgarmenn lægri hlut fyrir sameinuðum Svisslendingum og féll Stüssi borgarstjóri sjálfur. Miklar efnahagsþrengingar tóku við hjá borginni, en íbúum hennar fækkaði við þetta úr 7.000 niður í 5.000. En borgin náði sér þó furðu fljótt aftur. Þrátt fyrir að vera í útjaðri Sviss vestanmegin, varð Zürich fljótt að mesta efnahagssvæði Sviss. Þar að auki keypti borgin nokkur landsvæði síðla á 15. öld, svo sem héraðið Winterthur.

Siðaskiptin

breyta
 
Ulrich Zwingli árið 1531. Málverk eftir Hans Asper.
 
Zürich 1581

1518 var Ulrich Zwingli ráðinn sem prestur við dómkirkjuna (Grossmünster) í Zürich. Hann hóf brátt að predika nýja trú í kirkjunni. Árið 1523 var söfnuður endurskírenda stofnaður sem hafnaði kaþólskri trú. Leiðtogar þeirra voru dæmdir og teknir af lífi. En Zwingli hélt áfram sinni eigin siðbót. Hann reyndi að samræma nýju trú sína við siðbót Lúthers í Þýskalandi, en trúarmunurinn var of mikill. Þrátt fyrir það tóku borgarbúar við nýju trúnni. Zürich var þar með fyrsta kantónan þar sem siðaskiptin fóru fram. Hinar kantónurnar, sem enn voru allar kaþólskar, litu hornauga á atburðina gerast og reyndu að stöðva þá. Zürich gerði þá bandalag við aðrar siðaskiptaborgir í nágrenninu, svo sem Schaffhausen, St. Gallen og Basel (sem enn voru ekki svissneskar á þessum tíma). Þetta litu hinar kantónurnar sem samsæri við sig og blésu til stríðs. Fyrsta Kappeler-stríðið 1529 lauk með samningum án átaka. En 1531 hófst annað Kappeler-stríðið gegn kaþólskum borgum innan svissneska sambandsins. Í orrustunni við Kappeln sigruðu kaþólikkar og féll Zwingli sjálfur í valinn. Aðeins fimm árum síðar héldu siðaskiptin samt áfram er eftirmaður Zwinglis stofnaði reformeruðu kirkjuna í Sviss. Nýja trúin breiddist út í Sviss og náði með tímanum að útiloka kaþólsku kirkjuna í nær öllum kantónum. Ásamt Genf varð Zürich að miðstöð reformeruðu kirkjunnar og kalvínismans. Eftir þetta lægði trúaróróinn og við tók mikil menningarleg uppsveifla í borginni næstu tvær aldir. Kaþólsk kirkja var ekki leyfð í borginni á ný fyrr en 1807.

Franski tíminn

breyta
 
Frakkar skjóta á Zürich 1803

Þegar franska byltingin gekk í garð 1789 varð mikill órói í nærsveitum Zürich, sem vildu meira sjálfræði gagnvart borginni. Margir heimtuðu meira að segja ákveðnar nýjungar sem byltingarmenn í Frakklandhöfðu komið á. Árið 1798 réðust Frakkar inn í Sviss og hertóku landið í einni svipan. Borgríkið Zürich var þá lagt niður og var innlimað í helvetíska lýðveldinu. Tvær orrustur áttu sér stað við borgardyr Zürich milli Frakka og Austurríkismanna. Árið 1799 sigruðu Austurríkismenn, sem við það frelsuðu borgina. En strax ári síðar birtust Frakkar aftur og sigruðu Austurríkismenn í síðari orrustunni. Í kjölfarið hertóku þeir borgina, lögðu skatt á borgarbúa og breyttu stjórnarfarinu. Árið 1802 yfirgáfu Frakkar borgina. Íhaldsstjórnin sem þá tók við var svo óvinveitt helvestíska lýðveldinu (þ.e. Sviss), að Svisslendingar sendu herlið þangað til að neyða Zürich til hlýðni. Þessum óróa lauk ekki fyrr en Frakkar hertóku borgina á nýjan leik. Árið 1804 var kantónan Zürich endurskipulögð. Borgin Zürich varð höfuðborg hennar og var fremsta borg Sviss á þeim tíma.

Nýrri tímar

breyta
 
Credit Suisse er einn af fjölmörgum bönkum í Zürich

Eftir fall Napoleons var ný stjórnarskrá samin fyrir kantónuna, en í henni var gert ráð fyrir að öll sveitarfélög yrðu jafnrétthá og borgin sjálf í kantónuþinginu. Önnur stjórnarskrá fylgdi 1831, þar sem lýðfrelsi og skattajöfnun var í hávegum haft. Stjórnarskrá þessi þótti með eindæmum frjálsleg og var höfð að fyrirmynd víða í Evrópu. Eftir að borgarmúrarnir voru rifnir niður 1830 fór borgin að þenjast út. Mikill efnahagssveifla fylgdi í kjölfarið. Árið 1833 var háskóli stofnaður. Árið 1847 var fyrsta járnbrautin í Sviss tekin í notkun, en hún gekk milli Zürich og Baden. Sama ár var fyrsti nútíma bankinn í borginni stofnaður, en borgin er í dag eitt mesta bankaveldi Evrópu. Zürich varð á 19. öld að mjög nútímalegri borg, reyndar svo mikið að öðrum borgum í Sviss leist ekki á blikuna. Íbúum fjölgaði hratt. Árið 1885 voru þeir enn aðeins 40 þúsund en voru komnir í 200 þúsund árið 1915. Zürich varð að stærstu borg Sviss, bæði hvað varðaði íbúafjölda og efnahag. Í heimstyrjöldinni síðari greip mikill ótti um sig í borginni, sérstaklega er nasistar réðust inn í Holland, enda hafði Zürich engar varnir. Borgin varð tvisvar fyrir loftárásum, í bæði skiptin af nasistum. 27. desember 1940 og aftur 4. mars 1945 gerðu létu þýskar flugvélar sprengjum rigna yfir borgina. Menn veltu fyrir sér hvort hér var um hefnd að ræða fyrir ætlaðar vopnasendingar frá borginni til bandamanna. Skömmu eftir stríð heimsóttu bandarískir hermenn borgina, en þeir ferðuðust þangað gjarnan í fríi frá bandaríska hernámssvæði Þýskalands. Winston Churchill sótti borgina heim 1946 og hélt þrumuræðu í háskólanum um sameinaða Evrópu. Á sama ári var alþjóðaflugvöllurinn í Zürich-Kloten tekinn í notkun. Í dag er Zürich enn langstærsta borgin í Sviss og að sama skapi efnahagsleg og menningarleg miðstöð landsins.

Íþróttir

breyta

Aðalknappspyrnulið borgarinnar eru tvö: Grasshopper Club Zürich og FC Zürich. Grasshoppers hefur 27 sinnum orðið svissneskur meistari (síðast 2003) og átta sinnum bikarmeistari. FC Zürich hefur ellefu sinnum orðið svissneskur meistari (síðast 2007) og sjö sinnum bikarmeistari. Auk knattspyrnufélaganna er alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, með aðalskrifstofur í borginni.

Íshokkíliðið ZSC Lions er sexfaldur svissneskur meistari. Liðið er fyrsta félagið til að sigra í meistaradeild Evrópu (Champions Hockey League) í þessari íþrótt 2009. Alþjóðaíshokkísambandið, IIHF, er með aðalaðsetur í Zürich.

Í handbolta er félagið Grasshopper-Club Zürich helsta lið borgarinnar. Það hefur oftar orðið svissneskur meistari en nokkurt annað félag eða 21 sinni. Auk þess er félagið ZMC Amicitia Zürich einnig mjög árangursríkt og hefur fjórum sinnum orðið svissneskur meistari.

Árlega er Maraþonhlaup þreytt í Zürich, síðan 2003. Þolkeppnin Ironman Switzerland fer einnig árlega fram í Zürich.

Skákfélag borgarinnar, SG Zürich, er elsta nústarfandi skákfélag heims en það var stofnað 1809. Þekktasti meðlimur félagsins er Viktor Kortschnoi, sem flutti til Sviss 1976.

Í Zürich er mesti fjöldi sundhalla í Evrópu miðað við höfðatölu eða 25 alls. Þær eru sóttar af um tveimur milljónum baðgesta árlega.

Viðburðir

breyta
 
Böögg brenndur árið 2005 í Sechseläuten-hátíðinni

Sechseläuten er mikil vorhátíð í Zürich. Hún er haldin í tilefni af vorkomunni. Bjalla í dómkirkjunni hringdi þá klukkan sex að kvöldi á vorjafndægri og þaðan kemur heitið. Hátíðin byrjar á skrúðgöngu gildanna um götur borgarinnar en þau eru 26 talsins. Allir eru í búningum og yfirleitt fylgir þeim tónlist. Klukkan 18 er risabrúða brennd. Brúðan er tákn um snjókarlinn (veturinn kvaddur) og heitir Böögg. Í höfði brúðunnar eru flugeldar og springa þeir með látum þegar eldurinn magnast. Við það tætist höfuð Böögg-brúðunnar í sundur. Því fljótar sem hún missir höfuðið, því fegurra verður sumarið. Í lok brennunnar er siður að áhorfendur noti heita öskuna til að grilla kjötmeti sem þeir koma með.

Street Parade er heiti á teknógöngu í Zürich og er hún sú stærsta í heimi síðan að Loveparade í Berlín lagði upp laupana. Gangan er einnig stærsti árlegi viðburður sem fram fer í borginni. Árið 2010 tóku 650 þús manns þátt í hátíðinni.

Zürifäscht er stórhátíð sem fram fer á þriggja ára fresti í miðborginni og við Zürichvatn. Hér er um langstærstu fólkshátíð í Sviss að ræða. Hátíðin stendur yfir í þrjá daga og sækja um milljón manns borgina heim þegar flugeldasýningin í lok hátíðarinnar fer fram. Á hátíðinni er boðið upp á tónlistarviðburði utandyra, mat hvaðanæva að úr heiminum, markaði, flugsýningar og margt fleira. Hún fer yfirleitt fram í byrjun júlí.

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Nokkrir þekktir einstaklingar leituðu hælis í Zürich meðan stríð geysaði í Evrópu. Má þar nefna Lenin, James Joyce (sem hvílir í borginni), Thomas Mann og Bertolt Brecht. Albert Einstein starfaði um tíma sem prófessor í háskólanum.

Vinabæir

breyta

Zürich viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Dómkirkjan Grossmünster
  • Grossmünster er heiti á aðalkirkju miðborgarinnar. Tvíburaturnarnir eru einkennismerki borgarinnar. Kirkjan var reist 1100-1220. Turnarnir voru hins vegar ekki reistir fyrr en 1487-92. Í kirkjunni voru líkamsleifar píslarvottanna Felix og Regúlu. Því var kirkjan pílagrímskirkja á miðöldum. Það var svo í þessari kirkju sem siðaskiptin í Sviss upphófust er Ulrich Zwingli byrjaði að predika þar 1519. Umskiptin sjálf urðu 1524 og voru þá kaþólskar helgimyndir fjarlægðar, ásamt líkamsleifum Felix og Regúlu. 1763 eyðilagði elding báða turnana, er þeir brunnu niður. Þeir voru endurreistir í núverandi formi 1781-87.
  • Vatnakirkjan (Wasserkirche) er gömul kirkja sem reist var á litlum hólma í ánni Limmat í miðborg Zürich. Á þessum hólma voru Felix og Regúla tekin af lífi fyrir að neita að færa heiðnum goðum fórn. Aftakan fór fram á grettistaki, en það er staðsett inni í kirkjunni, sem reist var á staðnum í kringum árið 1000. Fram að siðaskiptum var hún því mikilvæg pílagrímskirkja. Á 17. öld var kirkjunni breytt í bókasafn. Hólminn sjálfur er löngu horfinn.
  • Urania heitir stjörnuathugunarstöðin í miðborginni. Hún var reist 1905-1907 og er elsta slíka stöðin sem er aðgengileg almenningi í Sviss. Byggingin er sömuleiðis elsta steypta húsið í Zürich. Turninn er 51 metra hár. Sjónaukinn getur stækkað allt að 600 falt. Stöðin er opin almenningi. Úr turninum er auk þess gott útsýni yfir borgina. 1989 var byggingin friðuð.

Heimildir

breyta