Zürich er fjölmennasta kantónan í Sviss með rúma 1,4 milljón íbúa (31. desember 2014). Höfuðborg hennar, borgin Zürich, er mesta fjármálamiðstöð landsins. Íbúarnir eru þýskumælandi.

Zürich
Höfuðstaður Zürich
Flatarmál 1.729 km²
Mannfjöldi
 – Þéttleiki
1.446.100 (31. desember 2014)
836/km²
Sameinaðist Sviss 1351
Stytting ZH
Tungumál Þýska
Vefsíða http://www.zh.ch

Lega og lýsing

breyta

Zürich er sjöunda stærsta kantóna Sviss með 1.729 km2. Hún liggur nær nyrst í Sviss og nemur norðurhlutinn við þýsku landamærin. Aðeins kantónan Schaffhausen liggur norðar. Kantónur sem að Zürich liggja eru Schaffhausen fyrir norðan, Thurgau fyrir austan, St. Gallen fyrir suðaustan, Schwyz og Zug fyrir sunnan og Aargau fyrir vestan. Zürich er hæðótt en ekki hálend, enda liggur hún fyrir norðan Alpafjöll. Hæsta fjallið, Schnebelhorn, er aðeins 1.293 m hátt. Zürichvatn gengur inn í landið í suðri og klýfur suðurhluta kantónunnar í tvennt. Íbúar eru 1,3 milljónir, sem gerir Zürich að fjölmennustu kantónu Sviss.

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Zürich eru tvær rendur á ská. Fyrir ofan til hægri er hvítt en fyrir neðan til vinstri er blátt. Merki þetta kom fram á 15. öld sem dómsinnsigli. Ekki hefur tekist að útskýra tilurð litanna. Í gegnum tíðina hefur ýmislegt skraut verið sett í kringum merkið, svo sem ljón og ríkisörninn. Stundum er það enn notað. Skjaldarmerki kantónunnar Zürich og borgarinnar Zürich eru nákvæmlega eins.

Orðsifjar

breyta

Kantónan heitir eftir borginni Zürich. Rómverjar nefndu staðinn Turicum, en þar voru þeir með hervirki. Talið er að heitið sé forngermanskt en það hefur ekki verið skýrt enn.

Söguágrip

breyta
  • 15 f.Kr. hertóku Rómverjar héraðið.
  • 401 e.Kr. yfirgáfu Rómverjar héraðið og fluttu þá alemannar inn.
  • 843 var ríki Karlamagnúsar skipt og lenti Zürich þá í þýska ríkinu.
  • Á 10. öld myndaðist borgin Zürich.
  • 1351 gekk Zürich í svissneska sambandið.
  • 1467 keypti kantónan borgina Winterthur af Habsborg.
  • 1525 urðu siðaskiptin í Zürich að tilstuðlan Ulrich Zwingli.
  • 1798 hertóku Frakkar héraðið og sameinuðu það helvetíska lýðveldinu.
  • 1803 stofnaði Napoleon kantónuna Zürich.
  • 1831 fær kantónan fyrstu stjórnarskrá sína og verður lýðveldi.
  • 1970 fá konur kosningarétt í kantónunni.

Borgir

breyta

Stærstu borgir kantónunnar:

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Zürich 372 þúsund Höfuðborg kantónunnar og stærsta borg Sviss
2 Winterthur 101 þúsund Stærsta borg Sviss sem ekki er kantónuhöfuðborg
3 Uster 32 þúsund

Heimildir

breyta