Marcus Licinius Crassus

Marucus Licinius Crassus (um 115 f.Kr.53 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og hershöfðingi sem tók þátt í þeim miklu stjórnmála- og hernaðarátökum sem einkenndu síðustu áratugi rómverska lýðveldisins.

Marcus Licinius Crassus

Crassus var stuðningsmaður Súllu í átökum Súllu gegn Gaiusi Maríusi. Crassus varð síðar gríðarlega efnaður á fasteignabraski og er talinn hafa verið ríkasti maðurinn í sögu Rómaveldis. Crassus átti stærstan þáttinn í að kveða niður þrælauppreisnina sem skylmingaþrællinn Spartacus leiddi, þó hann hafi á endanum þurft að deila heiðrinum með Pompeiusi. Frægt er hve miskunnarlaus Crassus var við uppreisnarmennina, en hann lét krossfesta um sex þúsund þræla að átökunum loknum.

Crassus var helsti bandamaður Júlíusar Caesars þegar sá síðarnefndi tók sín fyrstu skref í stjórnmálum Rómaborgar og var fjárhagslegur bakhjarl hans. Crassus og Pompeius voru alla tíð miklir keppinautar um völd og vegsemd en Caesar fékk þá til að sættast og slást í hóp með sér í stjórmálabandalag. Þetta óformlega bandalag, sem er nú þekkt sem fyrra þremenningabandalagið, var stofnað árið 60 f.Kr. og var upphaflega leynilegt en fljótlega duldist engum að þremenningarnir höfðu öll völd í heimsveldinu.

Orðstír Crassusar sem herstjórnanda féll í skuggann af glæstum ferlum Pompeiusar og Caesars og hann virðist hafa ætlað að rétta hlut sinn er hann hélt í herleiðangur til Parþíu. Herferðin mistókst hrapalega og endaði með ósigri Rómverja í orrustunni við Carrhae árið 53 f.Kr. Orrustan var einn versti ósigur Rómverja í sögu heimsveldisins og féllu tugir þúsunda hermanna. Crassus sjálfur var drepinn þegar hann reyndi að semja um vopnahlé. Sagan segir að sjóðheitu fljótandi gulli hafi verið hellt ofan í hálsinn á Crassusi og með því hafi Parþarnir verið að gera grín að peningagræðgi Crassusar.[1] Með dauða Crassusar var úti um þremenningabandalagið og fljótlega hófst borgarastyrjöld milli Caesars og Pompeiusar.

  1. Cassius Dio 40.27