Púnversku stríðin

Púnversku stríðin voru þrjú stríð milli Rómverja og fönísku borgarinnar Karþagó á annarri og þriðju öld fyrir Krist. Nafn stríðanna er dregið af latneska orðinu Punici sem þýddi Karþagóbúar (afbökun af Poenici, Föníkumenn). Stríðin voru að miklu leyti afleiðing stækkunar áhrifasvæðis Rómar á kostnað áhrifasvæðis hins mikla veldis Karþagó sem þá var. Við lok stríðanna var Karþagóveldið að öllu leyti komið undir vald Rómar. Við byrjun stríðana var Karþagó sterkasti aðilinn á Miðjarðarhafi en við lok þeirra og með sigri Rómverja í Makedóníustríðunum á sama tíma voru Rómverjar búnir að taka við því hlutverki.

Yfirráðasvæði Karþagó og breytingar þess á tíma púnversku stríðanna.
[breyta]
Púnversku stríðin
1. púnverska stríðið
2. púnverska stríðið
3. púnverska stríðið

Fyrsta púnverska stríðið (264 f.Kr. – 241 f.Kr.)

breyta

Bakgrunnur

breyta

Þegar fyrsta púnverska stríðið braust út höfðu Rómverjar tryggt sér yfirráð yfir öllum Ítalíuskaganum sunnan Pó-dalsins. Rómverjar höfðu háð nokkur stríð við nágranna sína áratugina á undan, meðal annars Latneska stríðið, Samnítastríðin og Pyrrhíska stríðið, sem höfðu öll endað með sigri rómverja og stækkun yfirráðasvæðis þeirra. Rómverjar höfðu því sterkan landher þegar fyrsta púnverska stríðið hófst en lítinn sem engan sjóher. Karþagó var öflugasta ríkið við vesturhluta Miðjarðarhafsins í upphafi stríðsins, sérstaklega í Norður-Afríku, Sikiley og á Íberíuskaganum. Karþagómenn voru þekktir sem miklir sæfarar og höfðu þeir yfir að ráða öflugum sjóher sem þeir notuðu til að verja viðskiptaveldi sitt. Her Karþagómanna var að miklu leyti skipaður málaliðum en þó voru flestir herforingjar þeirra innfæddir Karþagómenn.

Stríðið

breyta

Fyrsta púnverska stríðið var háð á landi og sjó, á Sikiley, í Norður-Afríku og á Miðjarðarhafi. Fyrstu aðgerðir Rómverja í stríðinu voru á landi en fljótlega hófu þeir að byggja flota og mættu Karþagómönnum í nokkrum sjóorrustum. Rómverjar höfðu aldrei stundað sjóhernað að neinu marki áður og þurftu því að læra af óvinum sínum, sem voru mun reyndari í sjóhernaði. Rómverjar komu Karþagómönnum á óvart með því að útbúa skipin sín með búnaði sem þeir kölluðu corvus (hrafn). Corvus var einskonar brú sem Rómverjar létu falla á óvinaskip og varð hún til þess að skipin voru þá föst við hvort annað, auk þess gátu hermenn þá farið yfir brúnna yfir í óvinaskipin. Þessi búnaður hjálpaði Rómverjum að vinna nokkrar orrustur, m.a. orrustuna við Mylae. Karþagómenn lærðu þó smám saman að verjast corvus búnaðinum og að lokum hættu Rómverjar að nota hann. Einnig gerðu Rómverjar misheppnaða innrás í Norður-Afríku, undir stjórn Marcusar Atiliusar Regulusar, þar sem Karþagómenn nutu aðstoðar spartneska hershöfðingjans Xanþipposar, sem stöðvaði her Regulusar í orrustunni við Tunis. Stríðið var báðum þjóðum dýrkeypt en Rómverjar höfðu sigur og lögðu undir sig Sikiley, sem varð fyrsta skattland þeirra.

Eftirmál

breyta

Í kjölfar stríðsins átti Karþagó í fjárhagserfiðleikum, ekki síst vegna hárra skaðabóta sem Rómverjar kröfðust, og gátu ekki borgað málaliðum sem þeir höfðu ráðið í stríðinu. Málaliðarnir gerðu uppreisn og út braust stríð sem kallað er málaliðastríðið. Karþagómenn áttu í fullu fangi með að berja niður uppreisnina og áttu því erfitt með að verja áhrifasvæði sín. Rómverjar gripu tækifærið og sölsuðu undir sig eyjarnar Sardiníu og Korsíku. Eftir stríðið var Rómaveldi öflugasta ríkið við vestanvert Miðjarðarhaf og viðskiptaveldi Karþagó var verulega laskað. Karþagómenn hófu þó fljótlega að einbeita sér meira að Íberíuskaganum og stóðu í landvinningum þar næstu áratugina.

Annað púnverska stríðið (218 f.Kr. – 202 f.Kr.)

breyta

Bakgrunnur

breyta

Eftir Málaliðastríðið var hershöfðinginn Hamilcar Barca einn valdamesti stjórnmálamaðurinn í Karþagó. Hamilcar hafði verið einn helsti hershöfðingi Karþagómanna bæði í Fyrsta púnverska stríðinu og í Málaliðastríðinu og nú fór hann með her sinn til Íberíuskagans og einsetti sér að stækka yfirráðasvæði Karþagó þar. Með Hamilcar var sonur hans, Hannibal Barca, sem tók við stjórn Íberíu árið 221 f.Kr. Rómverjar óttuðust aukin umsvif Karþagómanna á Íberíu en gripu þó ekki inní þegar íbúar borgarinnar Saguntum biðluðu til þeirra um aðstoð gegn Hannibal. Hannibal hertók borgina og hóf að því loknu herleiðangur sinn til Ítalíu.

Gangur stríðsins

breyta

Annað púnverska stríðið er frægt fyrir herleiðangur Hannibals, herforingja Karþagómanna, yfir Alpana. Hann gerði innrás í Ítalíu úr norðri og fékk í lið með sér gallíska ættbálka á norður-Ítalíu sem þegar höfðu hafið uppreisn gegn Rómverjum. Hannibal sigraði Rómverja fljótlega í tveimur stórum orrustum, Orrustunni við Trebia árið 218 f.Kr. og Orrustunni við Trasimene árið 217 f.Kr. Eftir þetta hélt Hannibal suður Appenínaskagann með her sinn en ákvað að ráðast ekki á Rómaborg sjálfa, þrátt fyrir að Rómverjar hefðu lítinn herafla tiltækan til að mæta honum. Þess í stað hélt hann til suður-Ítalíu og því fengu Rómverjar tíma til að safna liði. Rómverjar mættu Hannibal í orrustunni við Cannae, árið 216 f.Kr., þar sem Rómverjar biðu sinn versta ósigur í stríðinu og misstu þar bróðurpartinn af herdeildum sínum á Ítalíu. Svar Rómverja við ósigrinum var að mæta Hannibal ekki í stórum bardögum heldur að ráðast gegn flokkum hans sem voru í fæðuleit og einnig að skilja eftir sig sviðna jörð svo Hannibal ætti erfiðara með að útvega mönnum sínum vistir. Helsti höfundur þessarar herkænsku var Fabius Maximus og var þetta til þess að Hannibal náði aldrei hinu endanlega markmiði sínu að grafa undan stjórnmálasambandi Rómaveldis og bandamanna þess.

Rómverjar sendu snemma í stríðinu herafla til Íberíuskagans undir stjórn bræðranna Gnaeusar Corneliusar Scipio Calvusar og Publiusar Corneliusar Scipio (sem var faðir Scipio Africanusar). Þar börðust þeir gegn Hasdrubal Barca og Mago Barca, bræðrum Hannibals, og hindruðu að þeir gætu sent liðsauka til Hannibals á Ítalíu. Scipio-bræðurnir féllu báðir í bardaga gegn Barca-bræðrunum árið 211 f.Kr. og árið eftir tók Scipio Africanus við stjórn Rómverja á Íberíu. Scipio var sigursæll á Íberíu, og sigraði Karþagómenn árið 206 f.Kr. í Orrustunni við Ilipa en í kjölfarið yfirgáfu Karþagómenn Íberíu fyrir fullt og allt. Sikiley og Balkanskaginn komu einnig við sögu í stríðinu og höfðu Rómverjar alls staðar sigur. Að lokum var barist í Africu og Karþagómenn voru sigraðir í orrustunni við Zama af rómverskum her undir stjórn Scipios Africanusar.

Eftirmál

breyta

Í kjölfar stríðsins misstu Karþagómenn öll ítök sín á Íberíuskaganum og í Númidíu og voru landsvæði þeirra takmörkuð við tiltölulega lítið svæði umhverfis Karþagó. Einnig þurfti Karþagó að greiða Rómverjum himinháar stríðsskaðabætur auk þess sem Rómverjar settu Karþagómönnum skorður varðandi uppbyggingu á herafla þeirra. Rómverjar öðluðust varanleg ítök í Íberíu og tóku stórt skref í átt til þess að verða ráðandi afl yfir öllu Miðjarðarhafi. Rómverjar háðu Fyrsta makedóníska stríðið á meðan Öðru púnverska stríðinu stóð, á næstu áratugum áttu þeir í frekari átökum á Balkanskaga og í Anatólíu og juku með þeim enn frekar völd sín og áhrif við Miðjarðarhafið.

Þriðja púnverska stríðið (149 f.Kr. – 146 f.Kr.)

breyta

Bakgrunnur

breyta

Á árunum á milli annars og þriðja púnverska stríðsins náði Karþagó að borga Rómverjum stríðsskaðabæturnar og átti miklum efnahagslegslegum uppgangi að fagna á árunum fyrir þriðja stríðið. Margir Rómverjar litu enn á Karþagó sem ógn við Rómaveldi og frægastur þeirra er Cato eldri sem endaði lengi allar ræður sínar í öldungaráðinu með orðunum „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði“. Rómverjar litu svo á að Karþagó væri undir áhrifavaldi Rómar og þegar Karþagó myndaði her og háði stríð gegn Númidíu (sem þeir töpuðu) töldu Rómverjar að Karþagómenn væru að brjóta gegn samningum þeirra eftir Annað Púnverska stríðið.

Stríðið

breyta

Þriðja púnverska stríðið var að mestu leyti langt umsátur um Karþagó sem lauk með því að borgin var lögð í rúst. Rómverjar sendu um 80.000 manna herlið til norður-Afríku árið 149 f.Kr. og hófu umsátur. Næstu tvö árin náðu Rómverjar ekki teljandi árangri í stríðinu en árið 147 f.Kr. tók Scipio Aemilianus við stjórn umsátursins og náði að knýja fram sigur árið eftir.