Eneas
Eneas (forngrísku: Αἰνείας, Æneias) var í grísk-rómverskri goðafræði tróversk hetja, sonur Ankísesar og gyðjunnar Afródítu (Venusar í rómverskum bókmenntum). Faðir hans var frændi Príamosar, konungs í Tróju.
Eneas kemur fyrir í Ilíonskviðu Hómers, þar sem Póseidon bjargar honum úr einvígi við Akkilles vegna þess að honum voru ætluð önnur örlög en að deyja í Tróju. Í rómverskum bókmenntum var snemma farið að líta á Eneas sem stofnföður rómversku þjóðarinnar og forföður Rómúlusar. Hann er aðalpersóna Eneasarkviðu rómverska skáldsins Virgils en kviðan lýsir m.a. hrakningum Eneasar frá Tróju, komu hans til Ítalíu og baráttu hans þar fyrir því að stofna eigið ríki.