Jersey er eyja í Ermarsundi undan strönd Normandí, og annað tveggja umdæma Ermarsundseyja. Umdæminu tilheyra, auk Jersey, óbyggðu eyjarnar Minquiers, Ecréhous, Dirouilles og Pierres de Lecq auk skerja. Bretland hefur umsjón með utanríkismálum og varnarmálum eyjanna, en þær eru þó ekki hluti af breska konungdæminu heldur hertogadæminu Normandí, en Bretadrottning ber einnig titilinn hertogynjan af Normandí. Jersey hefur því sitt eigið löggjafarþing og dómskerfi og sjálfsákvörðunarrétt.

Bailiwick of Jersey
Bailliage de Jersey
Bailliage dé Jèrri
Fáni Jersey Skjaldarmerki Jersey
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
God Save the King
Staðsetning Jersey
Höfuðborg Saint Helier
Opinbert tungumál enska
franska
Stjórnarfar Krúnunýlenda

Konungur Karl 3.
Landstjóri John McColl
Forsætisráðherra Ian Gorst
Breskt yfirráðasvæði
 - Aðskilnaður frá Normandí 1204 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
227. sæti
118,2 km²
0
Mannfjöldi
 - Samtals (2014)
 - Þéttleiki byggðar
198. sæti
99.500
819/km²
VLF (KMJ) áætl. 2013
 - Samtals 5,5 millj. dala (166. sæti)
 - Á mann 57.000 dalir (6. sæti)
Gjaldmiðill sterlingspund
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .je
Landsnúmer +44

Jersey er stærst Ermarsundseyja. Þótt hún sé oft nefnd í sömu andrá og Guernsey þá eru þær algerlega aðskildar stjórnsýslueiningar, eins og eyjan Mön í Írlandshafi. Jersey er ekki hluti af Bretlandi en Bretland ber þó ábyrgð á vörnum eyjarinnar. Jersey er ekki hluti af Evrópusambandinu en hefur sérstök tengsl við það og hefur aðgang að innri markaði sambandsins.

Íbúar Jersey eru tæplega 100 þúsund talsins og þar af býr rúmur þriðjungur í höfuðborginni, Saint Helier. Yfir helmingur íbúa er aðfluttur en íbúafjöldi eyjarinnar hefur farið vaxandi vegna efnahagsuppgangs síðustu áratugi. Höfuðatvinnuvegur eyjarinnar er fjármálaþjónusta en auk þess eru ferðaþjónusta, netverslun og landbúnaður mikilvægir atvinnuvegir.

HeitiBreyta

Í ritinu Itinerarium Antonini Augusti frá 3. öld eða síðar eru Ermarsundseyjarnar taldar upp sem Sarnia, Caesarea, Barsa, Silia og Andium, en ekki er vitað hvaða nafn á við hverja. Frá 17. öld hefur Caesarea verið notað sem latneskt heiti Jersey.[1]

Heitið Jersey er hugsanlega dregið af fornnorrænu orðunum „jarð-“, „jarl“ eða nafninu Geir,[2] og viðskeytinu „-ey“.

SagaBreyta

Menjar um Neanderdalsmenn hafa fundist á Jersey í La Cotte de St Brelade og sýna að menn hafa búið á eyjunni áður en hún varð eyja við að sjávarstaða í Ermarsundi hækkaði. Steindysir frá nýsteinöld sýna að eyjan hefur þá verið byggð og þar hefur líka fundist fjöldi minja frá bronsöld og járnöld. Árið 2012 fundu tveir menn með málmleitartæki það sem talið er vera stærsti sjóður af peningum frá járnöld í Evrópu, um 50.000 rómverskar og keltneskar myntir. Ekki hafa enn fundist neinar menjar um rómverska byggð í eyjunni.

Á miðöldum var Jersey hluti af frankíska ríkinu Nevstríu og varð síðan hluti af hertogadæminu Bretagne þótt hún væri undir erkibiskupsdæminu í Rouen. Víkingar réðust á Jersey á 9. öld og eyjan varð að lokum hluti af hertogadæminu Normandí. Þegar Vilhjálmur bastarður lagði England undir sig 1066 voru hertogadæmið og England undir sömu stjórn. Hertogarnir og aðrir Normannar áttu miklar eignir á eyjunni. Þegar Jóhann landlausi missti lönd sín í Normandí árið 1204 urðu eyjarnar eftir sem leifar gamla hertogadæmisins.

Eyjarskeggjar tóku þátt í fiskveiðum við Nýfundnaland seint á 16. öld. Í þakkarskyni fyrir þá aðstoð sem George Carteret landstjóri veitti Karli 2. Englandskonungi meðan hann var í útlegð á eyjunni fékk hann land í Norður-Ameríku milli Hudsonfljóts og Delaware-ár sem hann nefndi New Jersey.

Þann 6. janúar 1781 réðist franskur her á eyjuna. Orrustan um Jersey stóð aðeins í hálftíma og lauk með sigri Englendinga. 600 Frakkar voru teknir höndum.

Efnahagslíf eyjarinnar á 19. öld byggðist á landbúnaði, fiskveiðum, skipasmíði og framleiðslu ullarvara. Ferðaþjónusta hófst með bættum samgöngum.

Í síðari heimsstyrjöld voru íbúar fluttir á brott og eyjan var hersetin af Þjóðverjum frá 1. júlí 1940 til 9. maí 1945. Sovéskir stríðsfangar reistu mikil varnarvirki á eyjunni. Eftir innrásina í Normandí 1944 urðu birgðaflutningar til eyjarinnar stopulir. Ermarsundseyjar voru með síðustu stöðum í Evrópu sem losnuðu undan hernámi Þjóðverja.

Eftir 1960 hefur vöxtur fjármálaþjónustu verið áberandi þáttur í efnahagslífi eyjarinnar.

StjórnmálBreyta

Stéttaþing Jersey situr í einni deild. Þingmenn eru 51, tíu öldungaþingmenn (kosnir í almennum kosningum), tólf löggæslufulltrúar sókna og 29 fulltrúar kosnir í einmenningskjördæmum. Þingmenn eru kjörnir til fjögurra ára í senn. Á þinginu sitja líka fimm áheyrnarfulltrúar skipaðir af bresku krúnunni: fógetafulltrúi, landstjóri, prófastur, yfirsaksóknari og yfirlögmaður. Kjörsókn á Jersey er með því minnsta í Evrópu, aðeins um 33%, en meðaltalið í Evrópu er 77%.

Ríkisstjórn Jersey er skipuð forsætisráðherra og níu ráðherrum. Hver ráðherra getur skipað allt að tvo aðstoðarráðherra. Sóknir fara með hluta framkvæmdavaldsins.

Fógetafulltrúi Jersey fer með embætti þingforseta. Hann er einnig yfirmaður dómsvaldsins og fer með táknrænt hlutverk þjóðhöfðingja við ýmis tækifæri.

Þar sem Jersey er krúnunýlenda með fulla sjálfstjórn er eyjan með sitt eigið lagakerfi, stjórnsýslu og skattakerfi. Hlutverk bresku krúnunnar var skilgreint af Konunglegu stjórnskipunarnefndinni árið 1973 og er að tryggja góða stjórnsýslu, undirrita lög, koma fram fyrir hönd eyjarinnar á alþjóðavettvangi í samráði við þing eyjarinnar, tryggja að eyjan uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar og sjá um varnir eyjarinnar.

SóknirBreyta

Stjórnsýslueiningar á Jersey eru tólf sóknir sem allar eiga land að sjó. Þær hétu allar áður eftir dýrlingum sóknarkirkja þeirra. Yfir hverri sókn er sóknarþing sem allir kjósendur sóknarinnar eiga sæti í. Leiðtogi sóknarinnar er löggæslufulltrúi (Connétable) sem er kosinn til fjögurra ára í senn.

 
Sóknir Jersey

LandfræðiBreyta

Jersey er syðst og stærst Ermarsundseyja. Hún er í Ermarsundi, um 22 km frá Cotentin-skaga í Frakklandi og 161 km sunnan við Bretland. Hún rís hæst 143 metra yfir sjávarmál. Yfirborð eyjunnar hallar frá sandströndum í suðri að klettum í norðri. Nokkrir árdalir skera eyjuna frá norðri til suðurs.

Veðurfar er temprað með hlý sumur og milda vetur þar sem Atlantshafið jafnar hitastigið. Hæstur hiti hefur mælst 36° 9. ágúst 2003 og lægstur hiti mældist -10,3° 5. janúar 1894. Snjókoma er sjaldgæf.

TilvísanirBreyta

  1. Marguerite Syvret; Joan Stevens (1998). Balleine's History of Jersey. La Société Jersiaise. ISBN 1-86077-065-7.
  2. Everett-Heath, John. The Concise Dictionary of World Place-Names. Oxford University Press – gegnum www.oxfordreference.com.

TenglarBreyta

 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.