Jarl

titill aðalsmanna á Norðurlöndum og Bretlandi

Jarl er aðalstitill sem á uppruna sinn á Norðurlöndum. Upphaflega var jarl þar æðsti titill aðalsmanns og var yfirleitt aðeins um einn eða tvo jarla að ræða samtímis. Menn voru einkum skipaðir jarlar af þremur ástæðum: þeir voru landstjórar með vald konungs í nýlendum eins og yfir Orkneyjum (Eyjajarlar) eða yfir Íslandi (Gissur jarl), þeir fóru með vald konungs heima fyrir ef konungur var ekki orðinn myndugur eða ef hann var veikur eða fjarverandi (Hákon galinn), börn konungs sem ekki erfðu krúnuna fengu þennan titil í sárabætur og eins krónprinsar og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar. Titillinn var því að mörgu leyti sambærilegur við hertogatitil eða embætti varakonungs í Evrópu. 1237 fékk Skúli Bárðarson titilinn „hertogi“ og í það lagður sá skilningur að hann stæði jörlunum ofar. Hákon háleggur var líka hertogi áður en hann varð kóngur.

Aðalstitlar
Kóróna fursta í hinu Heilaga rómverska ríkis
Keisari og keisaraynja
Kóngur og drottning
Stórhertogi og stórhertogaynja
Stórfursti og stórfurstynja
Fursti og furstynja
Prins og prinsessa
Erkihertogi og erkihertogaynja
Hertogi og hertogaynja
Markgreifi og markgreifynja
Greifi / jarl og greifynja
Vísigreifi og vísigreifynja
Barón / fríherra og barónessa

Í Frakklandi var Göngu-Hrólfur gerður hertogi yfir Normandí í kjölfar friðarsamninga milli Víkinga og Karls einfalda árið 911. Höfuðstaður Normandí var borgin Rouen sem Víkingar kölluðu „Rúðuborg“. Hertogarnir yfir Normandí voru því kallaðir Rúðujarlar á Norðurlöndunum sem aftur bendir til jafngildis jarlstitils og hertogatitils á miðöldum.

Á Bretlandseyjum var titillinn tekinn upp af Engilsöxum sem lén þar sem áður voru sjálfstæð konungsríki þegar England var sameinað í eitt ríki eftir innrás og landnám Víkinga. Lönd jarls voru þannig oft miklu stærri en einstök skíri og jarlinn gat innheimt skatta og haldið eigin hirð. Eftir innrás Normanna urðu skírin að stærstu stjórnsýslueiningu ríkisins og yfir þau voru settir jarlar sem við það urðu jafngildir greifum á meginlandi Evrópu og jarlar máttu ekki lengur innheimta eigin skatta. Hinrik 2. Englandskonungur gerði síðar átak í að draga úr völdum jarlanna með því að eyðileggja eða taka yfir kastala þeirra og gera þá háða konungsvaldinu. Fógetar urðu sjálfstætt stjórnvald í skíri óháð jarlinum. Síðar hafa tengsl jarla og skíra í Englandi rofnað. Nú eru þrettán jarlar í Englandi og nokkrir í Wales og í Skotlandi.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.