Mön

Eyja í Írlandshafi
(Endurbeint frá Mön (Írlandshafi))

Mön er eyja í Írlandshafi í miðjum Bretlandseyjaklasanum. Hún er í konungssambandi við Bretland en nýtur fullrar sjálfstjórnar varðandi flesta hluti og telst ekki vera hluti af Bretlandi. Löggjafarþing eyjunnar, Tynwald, hefur starfað óslitið frá því í kringum 978. Lávarður Manar er þjóðhöfðingi eyjarinnar en titillinn er hluti af titlum Bretakonungs, Karls 3. Landstjóri Manar fer með vald hennar á eyjunni en ríkisstjórn Bretlands fer með utanríkis- og varnarmál. Íbúar eyjarinnar eru nefndir Manverjar á íslensku.

Ellan Vannin
Isle of Man
Fáni Manar Skjaldarmerki Manar
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Quocunque Jeceris Stabit
Þjóðsöngur:
O Land of Our Birth
Staðsetning Manar
Höfuðborg Douglas
Opinbert tungumál enska, manska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Lávarður Karl 3.
Landstjóri Sir Richard Gozney
Forsætisráðherra Howard Quayle
Krúnunýlenda
 • Undir bresku krúnunni 1765 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
196. sæti
572 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2011)
 • Þéttleiki byggðar
203. sæti
84.497
148/km²
VLF (KMJ) áætl. 2010
 • Samtals 2,113 millj. dala (162. sæti)
 • Á mann 53.800 dalir (11-12. sæti)
Gjaldmiðill sterlingspund
Tímabelti UTC/+1
Þjóðarlén .im
Landsnúmer ++44

Eyjan hefur verið byggð frá því fyrir 6500 f.Kr. Manverjar eru ein af sex þjóðum kelta og manska, sem er gelískt mál, kom fram á sjónarsviðið á 5. öld. Játvin af Norðymbralandi lagði eyjuna undir sig árið 627. Á 9. öld settust norrænir menn að á eyjunni. Mön varð síðan hluti af Konungsríki Manar og eyjanna sem náði yfir Suðureyjar og Mön. Magnús berfættur Noregskonungur bar þannig titilinn „konungur Manar og eyjanna“. Árið 1266 varð eyjan hluti af Skotlandi samkvæmt Perth-samningnum. Eftir tímabil þar sem ýmist Skotakonungar eða Englandskonungar fóru með völd á eyjunni varð hún lén undir ensku krúnunni árið 1399. Lávarðstitillinn gekk til bresku krúnunnar árið 1765 en eyjan varð þó aldrei hluti af Breska konungdæminu, heldur hélt áfram að vera sjálfstætt lén undir krúnunni.

Á eyjunni búa rúmlega 80 þúsund manns. Manska dó út sem móðurmál á eyjunni um 1974 og nú tala hana aðeins um 100 manns. Eyjan er skattaskjól með fáa og lága skatta. Undirstaða efnahagslífs eyjarinnar eru aflandsbankaþjónusta, iðnaður og ferðaþjónusta.

Heiti eyjarinnar á mönsku er Ellan Vannin. Ellan merkir „eyja“ en Vannin er eignarfall orðsins Manu eða Mana.[1] Ekki er vitað með vissu hvað Manu eða Mana vísar til. Sumir telja það vísa til keltneska sjávarguðsins Manannán mac Lir, en aðrir telja að guðinn sé nefndur eftir eyjunni. Hliðstæða við nafn Manar er velska heitið á Öngulsey, Ynys Môn. Velska orðið mynydd, bretónska orðið menez og gelíska orðið monadh eru öll af sömu rót og merkja „fjall“ sem gæti vísað til þess hvernig eyjan rís úr Írlandshafi.

Elstu heimildir um eyjuna eru rómversk rit þar sem hún er kölluð Mona, Monapia, Mοναοιδα (Monaoida), Mοναρινα (Monarina), Menavi og Mevania.[2] Írskir höfundar nefndu hana Eubonia eða Eumonia á latínu, í velskum heimildum kemur hún fyrir sem Manaw og í norrænum ritum sem Mön.

Eyjan skildist frá Bretlandi og Írlandi vegna hækkandi sjávarborðs fyrir um 10.000 árum. Talið er að menn hafi sest þar að fyrir 6500 f.Kr. á miðsteinöld.[3] Þessir fyrstu íbúar lifðu af fiskveiðum og söfnun. Lítil verkfæri úr tinnusteini og beini hafa fundist sem minjar um þá og er hægt að skoða á Manx Museum.[4] Á nýsteinöld hófst landbúnaður á eyjunni. Þá voru reistir jötunsteinar sem enn sjást á eyjunni. Á bronsöld voru reistir grafhaugar yfir látna einstaklinga.

Á járnöld eru merki um aukin menningaráhrif frá Írlandi og Skotlandi. Þar stóðu Ronaldsway-menningin og Bann-menningin.[5] Hæðavirki voru reist og timburklædd hringhús. Hugsanlega voru fyrstu keltnesku íbúar Manar Bretar frá Bretlandi. Á bronsöld stækkuðu grafhaugarnir og fólk var lagt til hinstu hvílu í skreyttum kistum í steinklæddum grafhýsum. Margir grafhaugar frá þessum tíma eru enn sýnilegur hluti af landslagi á eyjunni.[6] Rómverjar vissu af eyjunni og kölluðu hana Manavia.[7] Þeir virðast þó ekki hafa lagt eyjuna undir sig, því engin rómversk mannvirki hafa fundist þar og aðeins fáir rómverskir gripir.[8]

Samkvæmt arfsögn átti heilagur Maughold að hafa kristnað eyjuna á 5. öld. Á þeim tíma áttu sér stað fólksflutningar til eyjarinnar frá Írlandi og manskan varð til. Hún er náskyld írsku og skoskri gelísku.[9] Á 7. öld féll eyjan í hendur Engilsaxa undir stjórn Játvini af Norðymbralandi sem notaði eyjuna sem bækistöð fyrir ránsferðir til Írlands. Ekki er vitað hversu mikil áhrif þetta hernám hafði í för með sér, en mjög fá örnefni á Mön eru á fornensku.[10]

Norrænir víkingar komu til eyjarinnar á 9. öld og hófu að setjast þar að um 850. Eyjan varð hluti af ríki konunga Dyflinnar og frá 990 til 1079 var hún hluti af ríki Eyjajarla. Þing Manar, Tynwald, var að sögn stofnað árið 979. Árið 1079 lagði Guðröður Crovan eyjuna undir sig og bjó til konungsríkið Mön og eyjar sem náði líka yfir Suðureyjar. Að nafninu til var þetta ríki hluti af veldi Noregskonunga en þeir höfðu í reynd lítið af eyjunni að segja. Árið 1266 fengu Skotar Mön og eyjarnar með Perth-sáttmálanum við Magnús lagabæti. Íbúar Manar börðust gegn yfirráðum Skota en biðu ósigur í orrustunni um Ronaldsway 1275.

Árið 1290 sendi Játvarður 1. Englandskonungur Walter de Huntercombe til eyjarinnar til að taka þar völdin. Árið 1313 náði Robert Bruce eyjunni á sitt valde eftir fimm vikna umsátur um Rushen-kastala. Árið eftir náðu Englendingar eyjunni aftur en 1317 lögðu Skotar hana aftur undir sig og héldu til 1333. Í nokkur ár gekk eyjan þannig fram og til baka þar til Engleningar lögðu hana endanlega undir sig árið 1346.[11] Ýmsir fengu titilinn lávarður Manar frá Englandskonungi næstu ár. Árið 1405 fékk John Stanley af Mön eyjuna sem lén frá Hinriki 4.

Stanleyfjölskyldan ríkti síðan yfir eyjunni næstu aldir, fyrir utan stutt skeið í Ensku borgarastyrjöldinni þegar íbúar risu gegn greifynjunni Charlotte de la Tremoille, eiginkonu James Stanley sem hafði áður verið tekinn af lífi. Oliver Cromwell skipaði Thomas Fairfax lávarð Manar árið 1651, svo stjórn eyjarinnar breyttist ekki neitt, og þegar konungdæmið var endurreist í Englandi tók Stanley-fjölskyldan aftur við völdum. Árið 1736 lést síðasti erfingi titilsins og eyjan gekk til skoska aðalsmannsins James Murray af Atholl. Á 18. öld varð smygl ástæða fyrir afskiptum breska þingsins af málefnum Manar en manska þingið var áfram aðallöggjafi eyjarinnar. Árið 1765 seldi Charlotte Murray af Atholl eyjuna til bresku krúnunnar sem skipaði landstjóra. Atholl-ættin hélt áfram til á herragarði sínum sem hún seldi árið 1828.

Árið 1866 fékk eyjan nokkra sjálfstjórn í landstjóratíð Henry Brougham Loch. Þá urðu fulltrúar í kjördeild þingsins, House of Keys, kjörnir fulltrúar, fyrsta járnbrautin var opnuð og skipuleg ferðaþjónusta hófst. Í fyrri og síðari heimsstyrjöld rak breski herinn fangabúðir á eyjunni þar sem meðal annars gistu þýskir stríðsfangar frá Íslandi.[12] Manska hersveitin var stofnuð 1938 og barðist í síðari heimsstyrjöld. Árið 1949 var stofnað framkvæmdaráð með kjörnum fulltrúum. Við það fluttist framkvæmdavaldið smátt og smátt frá landstjóranum.

Eftir miðja 20. öld jókst áhugi á mönsku og öðrum sérkennum manskrar menningar. Tveir þjóðernissinnaðir stjórnmálaflokkar, Mec Vannin og Manski þjóðarflokkurinn, voru stofnaðir. Á sama tíma tók ferðaþjónustu að hnigna vegna samkeppni frá ódýrum sólarlandaferðum. Stjórn eyjarinnar brást við með því að kynna eyjuna sem lágskattasvæði.[13]

Landfræði

breyta
 
Calf of Man frá Cregneash.

Mön er eyja í Írlandshafi norðanverðu, um það bil miðja vegu milli Englands í austri, Norður-Írlands í vestri og Skotlands í norðri. Í suðri er Wales um það bil jafn langt frá Mön og Írska lýðveldið í suðvestri. Eyjan er 52 km að lengd og 22 km á breidd þar sem hún er breiðust. Hún er 572 km2 að stærð.[14] Fyrir utan eyjuna sjálfa, heyra nokkrar smáeyjar undir hana, eins og Calf of Man,[15] Chicken Rock (með ómönnuðum vita), St Patrick's Isle og St Michael's Isle. Síðustu tvær eyjarnar tengjast aðaleyjunni með vegbrúm.

Í norðri og suðri eru hæðadrög, en á milli þeirra er dalverpi á miðri eyjunni. Norðurhlutinn er tiltölulega flatur, aðallega myndaður af jökulruðningi frá vesturhluta Skotlands á ísöld. Nyrsti punktur eyjunnar er Point of Ayre þar sem eru malarfjörur. Eina fjall eyjunnar sem nær yfir 600 metra er Snæfell (620 metrar).[14] Samkvæmt gamalli sögn er hægt að sjá sex ríki af toppi þess: Mön, Skotland, England, Írland, Wales og himnaríki.[16][17] Stundum er sjöunda ríkinu bætt við: hafinu eða ríki Neptúnusar.[18]

Stjórnmál

breyta

Mön er bresk krúnunýlenda og hæstráðandi þar er vararíkisstjóri Manar, sem er skipaður fulltrúi Karls 3. Bretakonungs. Eyjan er ekki formlegur hluti af Bretlandi, en Bretland fer samt með varnir eyjarinnar, ber ábyrgð á að stjórn hennar sé í samræmi við góða stjórnhætti og kemur fram fyrir hönd eyjarinnar á alþjóðavettvangi. Þing og ríkisstjórn Manar fara með öll völd í innri málum eyjarinnar.[19]

Manska þingið, Tynwald, er sagt hafa starfað samfleytt frá 979 eða fyrr, og væri þar með elsta samfellda þing heims (Alþingi er sannarlega eldra, en starfaði ekki frá 1799 til 1845). Elstu heimildir um örnefnið eru þó frá 13. öld og elstu frásagnir um þing þar eru frá 15. öld.[20] Þingið skiptist í tvær deildir: Lykladeildina þar sem 24 fulltrúar eru kosnir beint í 12 tvímenningskjördæmum til fimm ára í senn, og lagaráð Manar með 11 fulltrúa þar sem 8 eru kosnir af þingmönnum lykladeildarinnar, en hinir 3 eru þingforseti, biskup og saksóknari. Báðar deildirnar koma saman þegar þingið situr í sameinaðri deild, Tynwald Court. Flestir frambjóðendur til þings á Mön eru óháðir, þótt þar séu líka til stjórnmálaflokkar.

Ríkisstjórn Manar er skipuð ráðherrum sem eru kjörnir af þingmönnum. Fram til 1980 var forsætisráðherra Manar alltaf landstjórinn, en síðan þá hefur hann verið kosinn af þingmönnum.

Lagakerfi Manar þróaðist út frá gelískum og norrænum venjurétti og byggist á bindandi fordæmi. Æðsti áfrýjunardómstóll Manar er Allsherjarnefnd bresku ríkisstjórnarinnar. Auk dómafordæma byggist réttarfarið á lögum frá Tynwald og breska þinginu, en tengsl þessara tveggja réttarheimilda eru óljós. Oft er gert ráð fyrir því að bresk lög eigi við um Mön sjálfkrafa af nauðsyn, en stundum þarf að taka það sérstaklega fram af því Mön er ekki formlega hluti af Bretlandi, og stundum þarf þingið á Mön að samþykkja þau lög sérstaklega. Áður var talið að bresk lög hefðu forgang yfir mönsk lög ef þau rákust á, en frá 1980 hefur því verið haldið fram að þessar réttarheimildir séu jafngildar þótt ekki hafi reynt á það. Dæmi um mun á mönskum og breskum lögum er til dæmis þegar Mön samþykkti kosningarétt (einhleypra) kvenna árið 1881, en konur fengu ekki kosningarétt í Bretlandi fyrr en 1928.

Mön hefur ekki sérstakan ríkisborgararétt. Íbúar Manar eru einfaldlega breskir ríkisborgarar.

Stjórnsýslueiningar

breyta
 
Sheadings og önnur stjórnsýsluumdæmi á Mön.

Stjórnsýsla á Mön byggðist áður fyrr á sex sheadings (Glenfaba, Michael, Ayre, Garff, Middle og Rushen), sem aftur skiptust í sautján kirkjusóknir. Þessi skipting hefur ekki lengur neina þýðingu, en núverandi sóknir og kjördæmi byggjast lauslega á henni.

Í dag eru ferns konar stjórnsýsluumdæmi á Mön:

Efnahagslíf

breyta

Þegar ferðaþjónustu hnignaði sem undirstöðuatvinnugrein á síðari hluta 20. aldar ákvað þingið að breyta eyjunni í skattaparadís. Á Mön er enginn skattur á söluhagnað, auðlegðarskattur, stimpilgjald eða erfðaskattur og tekjuskattur er að hámarki 20%. Að auki er skattaþak í gildi sem nemur 115 þúsund pundum á hvern einstakling en tekjuskattur miðast við alþjóðlegar tekjur íbúa fremur en innlendar tekjur.

Fyrirtækjaskattur er í flestum tilvikum enginn. Undanþága frá þessu er 10% skattur á hagnað banka og á leigutekjur af eignum á eyjunni.

Aflandsbankaþjónusta, iðnframleiðsla og ferðaþjónusta eru undirstöðuatvinnugreinar á Mön, en framlag fiskveiða og landbúnaðar fer minnkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Verslun er mest við Bretland og eyjan er í tollabandalagi með Bretlandi. Stærstur hluti vergrar landsframleiðslu kemur frá tryggingaþjónustu og netfjárhættuspilum. Þar á eftir koma upplýsingatækni og bankaþjónusta. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að gera ekki nóg til að koma í veg fyrir peningaþvætti.

Kvikmyndagerð á Mön er styrkt með opinberri þátttöku í framleiðslukostnaði og frá 1995 hafa 80 kvikmyndir verið teknar á eyjunni. Þetta hefur verið gagnrýnt þar sem fjárfestingin skilar miklu tapi.

Geimferðir

breyta

Mön hefur orðið að miðstöð fyrir geimferðir einkaaðila. Margir þátttakendur í Google Lunar X Prize eru frá eyjunni. Árið 2010 var eyjan í fimmta sæti yfir þær þjóðir sem talið er að muni næst lenda á tunglinu. Manska fyrirtækið Excalibur Almaz hefur verið að þróa þar geimstöðvar sem byggja á hlutum frá sovésku Almazáætluninni.

Íbúar

breyta

Íbúar Manar árið 2021 voru um 85.000, og um 26.000 búa í höfuðborginni, Douglas. Tæplega helmingur er fæddur á Mön, en tæplega 40% eru fædd í Bretlandi samkvæmt manntali árið 2021.[21] Miðaldur er 46,5 og fer hækkandi þar sem brottflutningur ungs fólks er meiri en aðflutningur. Um helmingur íbúa er ekki starfandi á vinnumarkaði. Ríkisstjórn Manar hefur sett fram áætlun um fjölgun íbúa í 100.000 fyrir árið 2037.[22] Fólksfjölgun síðustu áratuga hefur aðallega verið vegna aðflutnings fólks og hlutfall innfæddra Manverja hefur lækkað. Gelíska málið manska er einungis talað af nokkur hundruð manns sem hafa lært það sem annað mál, en sá hópur fer þó stækkandi.[23]

Rúmlega helmingur Manverja telur sig vera kristinn, en yfir 40% segjast ekki aðhyllast neina trú.[24] Lífslíkur kvenna á Mön eru 82,5 ár meðan lífslíkur karla eru 78,6 ár.

Menning

breyta
 
The White Boys er hefðbundinn látbragðsleikur frá Mön sem er fluttur þegar líða tekur að jólum.

Menning Manar er oft sögð vera undir áhrifum frá keltneskum og í minna mæli norrænum uppruna íbúa. Bresk menning hefur þó verið ríkjandi á eyjunni, að minnsta kosti frá 18. öld. Tungumálið manska hefur látið undan síga og síðasti íbúinn sem talaði hana sem móðurmál lést 1974. Gert hefur verið átak í að endurheimta málið, meðal annars með nýjum þýðingum. Áhugi á tungumálinu, sögu Manar og tónlistarhefð hefur farið vaxandi síðustu áratugi.

Um aldir hefur tákn Manar verið þrífætla með þremur sveigðum fótum, sem hver ber spora, sem mætast í miðjunni. Engin ein opinber útgáfa merkisins er til og ólíkar útgáfur koma fyrir í opinberum skjölum, á gjaldmiðlum, fánum, frímerkjum og hjá ferðaþjónustuaðilum. Til er saga um að Manannán mac Lir hafi breytt sér í þrífætluna og rúllað sér niður hæð til að sigra innrásarlið.

Margar söngvahefðir tengjast Mön 19. aldar, eins og sálmalög og jólalög (carvals) sem voru sungin í kirkjum eftir að jólamessunni lauk. Þessi lög urðu víða vinsæl undir lok 19. aldar þegar þau voru gefin út í nótnaheftum.[25] Manx Music Festival er tónlistarhátíð sem var fyrst haldin í Douglas árið 1892. Lagið sem seinna varð þjóðsöngur Manar, „Arrane Ashoonagh Vannin“, var fyrst flutt á hátíðinni árið 1907. Í síðari heimsstyrjöld voru þýsku tónskáldin Hans Gál, Egon Wellesz og Marjan Rawicz í fangabúðum Breta á eyjunni um stutt skeið. Yn Chruinnaght er keltnesk þjóðlagahátíð haldin í Ramsey sem rekur uppruna sinn til ársins 1924, en var endurreist í núverandi mynd árið 1978.[26]

Sérstakt menningarráð, Culture Vannin, starfar á Mön og veitir árleg menningarverðlaun sem nefnast Reih Bleeaney Vanannan.

Tilvísanir

breyta
  1. Kinvig, R. H. (1975). The Isle of Man: A Social, Cultural and Political History (3rd. útgáfa). Liverpool University Press. bls. 18. ISBN 0-85323-391-8.
  2. Rivet, A. L. F.; Smith, Colin (1979). „The Place Names of Roman Britain“. Batsford: 410–411.
  3. Bradley, Richard (2007). The prehistory of Britain and Ireland. Cambridge University Press. bls. 8. ISBN 978-0-521-84811-4.
  4. „Hunter Gatherers“. gov.im. Isle of Man government. 16. mars 2012. Afritað af uppruna á 16. mars 2012. Sótt 15. ágúst 2019.
  5. „First Farmers“. gov.im. Isle of Man government. 8. nóvember 2012. Afritað af uppruna á 8. nóvember 2012. Sótt 15. ágúst 2019.
  6. „Home – Manx National Heritage“. gov.im. Isle of Man government. Afrit af uppruna á 30. júní 2004. Sótt 10. nóvember 2017.
  7. Esmonde Cleary, A.; Warner, R.; Talbert, R.; Gillies, S.; Elliott, T.; Becker, J. „Manavia Insula“. Pleides. Pleiades. Afrit af uppruna á 6. nóvember 2018. Sótt 26. febrúar 2016.
  8. Conservation, Institute of Historic Building. „10,000 years of settlement on the Isle of Man“. designingbuildings.co.uk.
  9. „Celtic Farmers“. gov.im. Isle of Man government. 16. mars 2012. Afritað af uppruna á 16. mars 2012. Sótt 15. ágúst 2019.
  10. Moore, A.W. (1890). The Surnames & Place-Names of the Isle of Man. London: Elliot Stock. bls. 303.
  11. Barron, Evan MacLeod (1997). The Scottish War of Independence. Barnes & Noble. bls. 411.
  12. Urður Gunnarsdóttir (11. febrúar 1996). „Fangarnir frá Íslandi“. Morgunblaðið. 84 (35).
  13. International Monetary Fund, Isle of Man: Financial Sector Assessment Program Update: Detailed Assessment of Observance of the Insurance Core Principles (IMF, 2009). ISBN 1451986653, 9781451986655
  14. 14,0 14,1 „Geography – Isle of Man Public Services“. gov.im. Isle of Man government. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. maí 2012. Sótt 10. nóvember 2017.
  15. Archer, Mike (2010). Bird Observatories of Britain and Ireland (2nd. útgáfa). A&C Black. ISBN 978-1-4081-1040-9.
  16. „Snaefell Mountain Railway“. Isle of Man Guide. Maxima Systems. Afrit af uppruna á 9. maí 2008. Sótt 5. júní 2008. „From the top on a clear day it is said one can see the six kingdoms. The kingdom of Scotland, England, Wales, Northern Ireland, Mann and Heaven.“
  17. „Snaefell Mountain Railway“. gov.im. Isle of Man Government. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. maí 2008. Sótt 5. júní 2008.
  18. „Snaefell Summit“. Isle-of-Man.com. Afrit af uppruna á 14. maí 2008. Sótt 5. júní 2008. „It is the answer to the often posed question as to where can one see seven kingdoms at the same time? The seven Kingdoms being the four mentioned by Earl James, the Kingdom of Man, of Earth (in some answers that of Neptune) and of Heaven.“
  19. „Political“. isleofmanfinance.gov.im. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. október 2008. Sótt 10. nóvember 2017.
  20. McDonald, Russell Andrew (2007), Manx kingship in its Irish sea setting, 1187–1229: king Rǫgnvaldr and the Crovan dynasty, Four Courts Press, bls. 174, ISBN 978-1-84682-047-2. See also: Broderick, George (2003), „Tynwald: a Manx cult-site and institution of pre-Scandinavian origin?“, Studeyrys Manninagh, Centre for Manx Studies, 1 (4), afrit af upprunalegu geymt þann 14. apríl 2012.
  21. Isle of Man Government (Janúar 2022). „2021 Isle of Man Census Report Part I“ (PDF).
  22. „Isle of Man hopes to increase population to 100,000 in next 15 years“. ItvX. 19. júlí 2022. Sótt 8.2.2023.
  23. Sarah Whitehead (2. apríl 2015). „How the Manx language came back from the dead“. The Guardian. Sótt 8.2.2023.
  24. „Isle of Man Population 2022“. UK Population Data. Sótt 8.2.2023.
  25. Guard, Charles (1980). The Manx national song book. 2. árgangur. Douglas, Isle of Man: Shearwater Press. ISBN 0-904980-31-6.
  26. „Trad music in the Isle of Man“. Ceolas.org. Sótt 1. október 2017.

Tenglar

breyta