Rauði krossinn

Alþjóðleg mannréttindahreyfing

Rauði krossinn er alþjóðleg fjöldahreyfing sem hefur það að markmiði að vernda líf, heilsu og mannréttindi fólks, stuðla að virðingu fyrir mannfólki, og koma í veg fyrir eða lina þjáningar, án þess að gera upp á milli þjóðernis, kynþáttar, trúarskoðana, þjóðfélagsstéttar eða stjórnmálaskoðana.

Rauði krossinn og rauði hálfmáninn, algengustu tákn Rauðakrosshreyfingarinnar

Í íslömskum löndum er í flestum tilfellum notast við rauðan hálfmána í stað rauða krossins á fánum hreyfingarinnar, þar sem krossinn þykir of tengdur kristinni trú, og á ensku er hreyfingin titluð The International Red Cross and Red Crescent Movement. Einnig hefur verið notuð rauð Davíðsstjarna, en á árinu 2005 var samþykkt nýtt merki, rauði kristallinn, sem hefur engar trúarlegar tilvísanir.

Orðið Alþjóða rauði krossinn er oft notað um hreyfinguna, en í raun er engin stofnun til með því nafni. Hreyfingin samanstendur af nokkrum mismunandi stofnunum sem eru lagalega sjálfstæðar hver frá annarri, en sameinast undir merkjum hreyfingarinnar á grundvelli sameiginlegra gilda, markmiða, táknmynda, reglugerða og stjórnsýslu. Hreyfingin samanstendur af eftirfarandi hlutum:

  • Alþjóðaráð Rauða krossins er líknarfélag stofnað 1863 í Genf í Sviss. Ráðið, sem í sitja 25 meðlimir, hefur sérstakt hlutverk undir alþjóðalögum, við að vernda líf og virðingu fórnarlamba stríðsátaka.
  • Alþjóðasamband Rauða kross félaga stuðlar að samstarfi og samskiptum hinna fjölmörgu landsfélaga Rauða krossins og skipuleggur neyðarhjálp vegna náttúruhamfara eða annarra atburða á alþjóðlegum vettvangi.
  • Landsfélög Rauða krossins eru starfandi í flestum löndum heims, og eru nú um 186 landsfélög viðurkennd af Alþjóðasambandi Rauðakrossfélaganna. Hvert félag starfar í sínu heimalandi í samræmi við gildi alþjóðlegra mannréttindalaga og samþykktir alþjóðahreyfingarinnar. Þau geta líka starfað að einstökum verkefnum sem ekki tengjast alþjóðahreyfingunni beint.

Tengill breyta