Húgenottar voru meðlimir Frönsku siðbótarkirkjunnar frá 16. öld til 18. aldar. Húgenottar aðhylltust kenningar Kalvíns. Áður hafði gallikanismi verið áberandi í Frakklandi og var í opinberri andstöðu við páfann í Róm. Gallikanistinn Jacques Lefevre gaf út eigin þýðingu á Nýja testamentinu 1523 og síðan alla Biblíuna á frönsku 1528. Meðal nemenda hans voru margir sem snerust til lútherstrúar, eins og Kalvín sjálfur. Eftir 1550 var farið að tala um þessa frönsku mótmælendur sem „húgenotta“.

Bartólómeusarvígin 1572.

Húgenottar nutu oft umburðarlyndis hjá konungi en um leið óx andstaða kaþólsku kirkjunnar við þá. Eftir að Katrín af Medici gaf út Saint-Germain-tilskipunina 1562 þar sem húgenottar voru í fyrsta skipti formlega viðurkenndir og leyft að stunda trú sína á laun hófust Frönsku trúarbragðastyrjaldirnar sem stóðu með hléum til 1598. Í þeim urðu húgenottar pólitískt afl sem nutu stuðnings Búrbóna og Hinriks af Navarra. Með Nantes-tilskipuninni batt Hinrik 4. endi á styrjaldirnar og gaf húgenottum jafnan rétt á við kaþólikka.

Eftir að Loðvík 14. komst til valda jukust ofsóknir á hendur húgenottum aftur og árið 1685 afturkallaði hann öll þau réttindi sem þeir höfðu fengið með Nantes-tilskipuninni með Fontainebleau-tilskipuninni. Afleiðingin var sú að franskir húgenottar flúðu til nálægra landa þar sem mótmælendatrú var leyfð, s.s. Englands, Hollands, Sviss, Danmerkur-Noregs og Prússlands. Stórir hópar húgenotta voru aðeins eftir í einu héraði, Cévennes, í Suður-Frakklandi þar sem þeir gerðu uppreisn 1702-1715.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.