Donald George «Don» Revie (fæddur 10. júlí árið 1927 í Middlesbrough, dó 26. maí 1989) var enskur knattspyrnumaður og síðar knattspyrnustjóri. Sem leikmaður átti hann 18 ára farsælan feril en varð þó fyrst og fremst kunnur sem aðalarkitektinn að baki sigursælu en afar umdeildu meistaraliði Leeds United á sjöunda áratugnum og í byrjun þess áttunda. Hann tók við enska landsliðinu árið 1974 en árangurinn þar stóð ekki undir væntingum og endaði í illindum og málaferlum.

Don Revie
Höggmynd af Don Revie við heimavöll Leeds
Upplýsingar
Fullt nafn Donald George Revie
Fæðingardagur 10. júlí 1927(1927-07-10)
Fæðingarstaður    Middlesbrough, Yorkshire, Englandi
Hæð 1,80 m
Leikstaða Afturliggjandi sóknarmaður
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
1944-1949 Leicester City 96 (25)
1949-1951 Hull City 76 (12)
1951-1956 Manchester City 148 (35)
1956-1965 Sunderland 64 (15)
1958-1962 Leeds United 76 (11)
Landsliðsferill
1953
1954
1954-1955
Deildarúrvalið
B-landsiðið
England
1 (3)
1 (0)
6 (4)
Þjálfaraferill
1961-1974
1974-1977
1977-1980
1980-1984
1984
Leeds United
England
Sam. arabafurstadæmin
Al Nasr
Al Ahly

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Ævi og ferill breyta

Leikmaðurinn breyta

Don Revie var af fátæku fólki kominn, faðir hans var oft atvinnulaus á tímum kreppunnar miklu og móðir hans lést þegar Don var aðeins tólf ára að aldri. Hann fór snemma að æfa knattspyrnu með unglingaliðum í heimaborg sinni.

Skömmu eftir sautján ára afmælis dag sinn, árið 1944, skrifaði hann undir atvinnusamning hjá Leicester City samhliða því að starfa sem lærlingur hjá múrarameistara. Fyrstu deildarleikirnir komu á leiktíðinni 1946-47. Leicester féll niður úr efstu deild það ár en Revie fylgdi liðinu niður í 2. deildina og fór að vekja athygli fyrir frammistöðu sína. Litlu mátti þó muna að ferillinn yrði stuttur þegar Revie þríökklabrotnaði í leik gegn Tottenham en náði þó bata á undraskjótum tíma.

Árið 1949 átti Revie stóran þátt í að koma Leicester í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í fyrsta sinn í sögunni. Viku fyrir úrslitaleikinn á Wembley fékk hann hins vega heiftarlegar og lífshættulegar blóðnasir og þurfti því að láta sér nægja að hlusta í útvarpinu á liðsfélaga sína tapa fyrir Wolves

Í nýju hlutverki breyta

Í nóvember 1949 var Revie seldur til 2. deildarliðs Hull City fyrir 19 þúsund pund. Stærri félög höfðu sýnt áhuga á kröftum hans em Revie valdi Hull vegna þess að liðið var þjálfað af Raich Carter, sem havði verið ein af goðsögnum enska boltans á millistríðsárunum. Þótt Carter tækist að bæta Revie sem leikmann á ýmsum sviðum var árangur Hull-liðsins ekki eins góður og vonir höfðu staðið til. Bent var á að Revie, sem var lítill og nettur leikmaður á velli, hefði þurft líkamlega sterkari samherja til að verja sig fyrir atlögum varnarmanna andstæðinganna. Þegar Carter hætti störfum hjá Hull árið 1951 fór Revie fram á sölu frá félaginu.

Manchester City úr 1. deildinni féllst á að kaupa Revie fyrir 25 þúsund pund auk varnarmannsins Ernie Philips, sem metinn var á 12 þúsund pund. Revie átti erfitt uppdráttar í fyrstu á nýja staðnum og félagið átti í harðri fallbaráttu fyrstu tvær leiktíðir hans.

Síðla árs 1953 varð tímamótaatburður í enskri knattspyrnusögu þegar Ungverjar gjörsigruðu Englendingar á Wembley, 6:3 í leik sem kallaður var Viðureign aldarinnar. Ósigurinn leiddi til mikillar sjálfsskoðunar enskra knattspyrnuforkólfa sem komust að þeirri niðurstöðu að Englendingar væru orðnir eftirbátar meginlandsþjóðanna þegar kæmi að þróun leikkerfa. Í kjölfarið var ráðist í ýmis konar tilraunastarfsemi.

Þjálfarar varaliðs Manchester City gerðu tilraunir með að láta Revie leika í svipuðu hlutverki og Nándor Hidegkuti í ungverska liðinu, sem afturliggjandi framherji sem freistaði þess að draga varnarmenn andstæðinganna út úr stöðu, ekki ósvipað hlutverk og nefnist fölsk nía í nútímaknattspyrnu.

Les McDowall, knattspyrnustjóri City ákvað að veðja á þessa nýju leikaðferð fyrir leiktíðina 1954-55. Stríðsgæfa félagsins batnaði mjög með þessu nýja kerfi. Liðið komst í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar tvö ár í röð, 1955 og 1956. Sá fyrri tapaðist á móti Newcastle en árið eftir vann Manchester City 3:1 sigur á Birmingham í úrslitum, þar sem Revie var valinn maður leiksins. Þrátt fyrir bikarmeistaratitilinn var tími Revie hjá félaginu á enda þar sem honum og stjóranum hafði sinnast illilega eftir að Revie var sektaður fyrir að fara í frí með fjölskyldu sinni og missti þar með af æfingu.

Lokaárin innan vallar breyta

Frá Manchester City lá leið Revie til Sunderland fyrir 22 þúsund pund. Allt stefndi í fall í næstefstu deild í lok leiktíðarinnar 1956-57 en sjö leikja hrina án taps undir lok mótsins gerði það að verkum að liðið hélt sér uppi á einu stigi. Í kjölfarið kom í ljós að Sunderland hafði brotið gegn reglum um greiðslur til leikmanna og uppskar harðar refsingar frá knattspyrnusambandinu og þjálfarinn, Bill Murray, hrökklaðist úr starfi. Eftirmaður hans, Alan Brown, aðhylltist annan og harðari leikstíl sem hentaði Revie illa. Vorið 1958 féll Sunderland niður í 2. deild í fyrsta sinn í sögunni og var Revie leystur undan samningi í lok leiktíðarinnar.

Eftir að hafa verið samningslaus um tíma sneri Revie aftur í efstu deild sem leikmaður Leeds United sem var í miklu basli. Leeds tókst að verjast falli leiktíðina 1958-59 en veturinn 1959-60 varð það ekki umflúið lengur. Revie gerði sér grein fyrir því að leikmannsferill hans væri senn á enda og hann gaf frá sér fyrirliðabandið.

Þjálfarinn breyta

Í mars 1961 var Jack Taylor, þjálfara Leeds, sagt upp störfum. Liðið var þá í basli í neðri hluta 2. deildar. Revie var falið að taka við liðinu sem spilandi knattspyrnustjóri en áður hafði hann sótt um stjórastöðuna hjá Bournemouth sem reyndist ekki hafa bolmagn til að kaupa hann undan samningi hjá Leeds.

Ekki er hægt að segja að hinn ungi knattspyrnustjóri hafi tekið við góðu búi. Vinsælasta íþróttin í Leeds var Ruðningur og dró ruðningslið borgarinnar til sín margfalt fleiri áhorfendur en fótboltafélagið. Revie hófst þegar handa við að styrkja umgjörðina í kringum liðið jafnt í stóru sem smáu. Sumar breytingarnar tóku mið af hjátrú nýja stjórans, sem áleit að fuglar væru óheillamerki og lét því fjarlægja uglu úr félagsmerkinu auk þess sem stuðningsmenn voru lattir til að nota viðurnefnið páfuglarnir.

Fyrsta heila tímabil Revie sem knattspyrnustjóri Leeds einkenndist af basli. Að frátöldum Billy Bremner og Jack Charlton var leikmannahópurinn skipaður minni spámönnum sem flestir höfðu komið víða við. Ungmennastarfið stóð hins vegar í miklum blóma og átti á næstu árum eftir að skila af sér fjölda leikmanna sem mynduðu kjarnann í Leeds-liðinu á komandi árum.

Viðsnúningurinn breyta

Revie lagði skóna á hilluna í mars 1963 til að einbeita sér að stjórastarfinu. Með innspýtingu fjármagns í félagið gat hann styrkt leikmannahópinn verulega. Þar á meðal var Bobby Collins, leikmaður skoska landsliðsins sem kom frá Everton. Collins var þegar gerður að fyrirliða og átti harka hans á leikvelli stóran þátt í því að Leeds fékk orðspor fyrir að leika gróft, ef ekki óheiðarlega. Átti það orð eftir að hvíla á liðinu allan stjóratíð Revie og raunar löngu síðar.

Leeds endaði á toppi 2. deildar leiktíðina 1963-64. Liðið byrjaði dvölina í efstu deild með látum í bæði beinni og óbeinni merkingu þess orðs. Mikið hneyksli varð úr því þegar dómari þurfti að flauta af leik Everton og Leeds á Goodison Park þegar leikmenn beggja liða létu hendur skipta. Litlu mátti muna að Leed ynni tvöfalt strax í fyrstu tilraun, því liðið komst í úrslit bikarkeppninnar en tapaði fyrir Liverpool í framlengingu. Í deildinni missti Leeds af meistaratitlinum á grátlegan hátt þar sem Manchester United vann á markatölu eftir að Leeds mistókst að vinna botnlið Birmingham City í lokaumferðinni.

Fótað sig í efstu deild breyta

Frammistaðan 1964-65 gerði það að verkum að Leeds keppti árið eftir í fyrsta sinn í Evrópu, nánar tiltekið í Borgakeppninni. Liðið komst alla leið í undanúrslitin þar sem mótherjarnir voru Real Zaragossa frá Spáni. Liðin unnu hvort sína viðureignina og þurfti því að kosta upp krónu um hvar oddaleikurinn færi fram. Spænska liðið reyndist hlutskarpara bæði í hlutkestinu og oddaleiknum. Í deildinni mátti Leeds annað árið í röð sætta sig við annað sætið, að þessu sinni á eftir Liverpool.

Leiktíðin 1966-67 byrjaði afleitlega og Leeds vann ekki nema þrjá af fyrstu ellefu leikjum sínum. Engu að síður náði liðið fjórða sæti í deildinni. Í Borgakeppninni fór Leeds alla leið í úrslitaleikinn þar sem mótherjarnir voru Dynamo Zagreb. Júgóslavarnir unnu fyrri úrslitaleikinn 2:0 á heimavelli og gerðu markalaust jafntefli á Elland Road.

Leeds hafnaði aftur í fjórða sæti deildarinnar 1967-68, en athygli vakti að fyrir leiktíðina fékk Revie fjölkunnugan sígauna til að reyna að aflétta bölvun sem hann taldi hvíla á heimavelli félagsins. Öllu hagnýtari fjárfesting var þó líklega sú ákvörðun að kaupa framherjann Mick Jones frá Sheffield United fyrir metfé. Leeds vann sinn fyrsta stóra tiltil í sögunni í mars 1968 þegar liðið bar sigurorð af Arsenal í úrslitum deildarbikarkeppninnar. Síðar um vorið varð Leeds svo sigurvegari í Borgakeppni Evrópu í Búdapest með því að gera markalaust jafntefli við Ferencváros í seinni viðureign í tveggja leikja einvígi.

Englandsmeistari í fyrsta sinn breyta

Leiktíðina 1968-69 lögðu Leeds-menn höfuðkapp á að landa sínum fyrsta Englandsmeistaratitli í sögunni. Það tókst með miklum yfirburðum. Leeds tapaði aðeins tveimur deildarleikjum á tímabilinu og lauk keppni með 67 stig, sex stigum meira en Liverpool og setti ýmis stigamet í leiðinni. Revie var staðráðinn í að gera enn betur á næsta ári og sló félagið meðal annars leikmannakaupametið í Englandi með því að greiða 165 þúsund pund fyrir Allan Clarke frá Leicester fyrir tímabilið 1969-70. Stefnan var tekin á að vinna alla þrjá stærstu titlana, en uppskeran varð engin. Leeds hafnaði í öðru sæti á eftir Everton í deildinni, tapaði fyrir Chelsea í endurteknum úrslitaleik í enska bikarnum og í frumraun félagsins í Evrópukeppni meistaraliða tapaði það fyrir Celtic í undanúrslitum að 136.505 áhorfendum á Hampden Park, sem er met.

 
Frá úrslitaviðureign Leeds og Juventus í Borgakeppninni 1971.

Revie hafnaði svimandi háu tilboði um að gerast knattspyrnustjóri Birmingham og ákvað að framlengja dvöl sína hjá Leeds þess í stað. Leikmannahópurinn 1970-71 var nálega sá sami og verið hafði árið áður. Arsenal og Leeds höfðu mikla yfirburði á öll önnur lið í deildarkeppninni, en að lokum fór Lundúnaliðið með sigur af hólmi. Betur tókst til í Borgakeppni Evrópu sem haldin var í síðasta sinn áður en farið var að keppa um UEFA-bikarinn. Leeds þurfti að styðjast við regluna um mörk skoruð á útivelli til þess að slá Dynamo Dresden úr leik í 2. umferð og eitt mark frá Billy Bremner skildi Leeds og Liverpool í undanúrslitaeinvíginu. Úrslitaleikirnir gegn Juventus urðu sögulegir. Fyrsti leikurinn í Tórínó var blásinn af eftir um 50 mínútur þar sem völlurinn var vatnsósa. Tveimur dögum síðar mættust liðin að nýju og gerðu 2:2 jafntefli. Í Leeds nokkrum dögum síðar skildu liðin jöfn, 1:1 og enn vann Leeds á útivallarmarkareglunni.

Fleiri titlar breyta

Eftir að hafa orðið Englandsmeistari, Borgameistari Evrópu og deildarbikarmeistari sem knattspyrnustjóri vantaði Revie enn enska bikarinn í safnið. Úr því var bætt leiktíðina 1971-72. Leeds bar sigurorð af Arsenal, 1:0 í leik sem þótti grófur og ekki sérlega íþróttamannslega leikinn. Enska deildin var óvenju jöfn þetta árið þar sem aðeins eitt stig skildi efsta og fjórða sætið. Leeds fékk 57 stig ásamt Liverpool og Manchester City en Derby County undir stjórn Brian Clough endaði á toppnum með 58 stig. Áttu þeir Clough og Revie eftir að elda grátt silfur saman á næstu árum.

Árið 1972-73 hafnaði Leeds í þriðja sæti deildarinnar og komst í tvo úrslitaleiki en tapaði þeim báðum. Í bikarkeppninni beið Leeds lægri hlut gegn 2. deildarliði Sunderland og í Evrópukeppni bikarhafa tapaði það 1:0 fyrir AC Milan í Grikklandi. Norman Hunter fékk rautt spjald í úrslitaleiknum og var þrálátur orðrómur um að grískur dómari leiksins hefði þegið mútur til að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Síðasta ár Revie með Leeds var veturinn 1973-74 og því lauk á viðeigandi hátt með meistaratitli. Leeds endaði fimm stigum á undan Liverpool. Áherslan á að vinna deildina var í fyrirrúmi og tefldi Revie fram byrjunarliðum án leykilmanna í Evrópukeppninni sem þýddu að liðið datt snemma úr keppni. Með annan Englandsmeistaratitilinn í höfn ákvað Revie að róa á önnur mið. Hann var kvaddur með tárum af stuðningsmönnum félagsins en í hópi stjórnarmanna fögnuðu margir því að sjá á bak honum. Brian Clough, harðasti gagnrýnandi Revie, var ráðinn í hans stað en entist ekki nema 44 daga í starfi þrátt fyrir að ná á þeim tíma að verja meiri peningum í leikmannakaup en Revie hafði gert á þrettán ára stjórnartíð sinni.

Landsliðseinvaldur breyta

Alf Ramsey sem gert hafði Englendinga að heimsmeisturum 1966 lét af störfum eftir að hafa mistekist að koma liðinu á HM í Vestur-Þýskalandi 1974. Valið á Revie var lítt umdeilt og hann talinn nokkuð sjálfsagður arftaki. Revie einsetti sér að koma á góðum samskiptum við íþróttafréttamenn og kynnti til sögunnar nýjungar á borð við árangurstengdar bónusgreiðslur til landsliðsmanna.

Í forkeppni EM 1976 lenti England í strembnum riðli. Aðeins eitt lið komst áfram í næstu umferð og varð það lið Tékkóslóvakíu, sem endaði að lokum á að vinna keppnina. Það voru einkum jafntefli í báðum leikjunum gegn Portúgal sem kostuðu enska liðið toppsætið. Enska pressan var mjög gagnrýnin á frammistöðuna og var Revie legið á hálsi fyrir að hræra um of í liðinu, nota leikmenn í öðrum stöðum en þeir væru vanir að spila og að sniðganga aðra á borð við Emlyn Hughes og Alan Ball.

England var ekki í efsta styrkleikaflokki þegar dregið var í forkeppni HM 1978 og endaði í riðli með Ítölum. Hin tvö líðin í riðlinum voru Finnland og Lúxemborg. Skömmu áður en undankeppnin hófst mátti Englands sætta sig við annað sætið á eftir Skotum í Bretlandseyjakeppninni í knattspyrnu, sem þá var enn í talsverðum metum.

Englendingar og Ítalir unnu hvorir sinn heimaleikinn gegn hinu liðinu 2:0 og unnu síðan alla leikina gegn hinum liðunum tveimur. Ítalir skoruðu hins vegar fleiri mörk og tryggðu sér farseðillinn til Argentínu á markatölu. Áður en forkeppninni var lokið hafði Revie bak við tjöldin hafið samningaviðræður um að taka að sér landslið Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hann fór fram á að fá samningi sínum við Enska knattspyrnusambandið rift en eftir að bresk götublöð upplýstu um hin fyrirhuguðu vistaskipti ákvað knattspyrnusambandið að úrskurða hann í tíu ára bann frá allri knattspyrnuiðkun fyrir að sverta ásýnd íþróttarinnar. Því banni var síðar hnekkt fyrir almennum dómstólum.

Í Miðausturlöndum breyta

Þjálfarastarfið í furstadæmunum færði Revie mikinn auð en skaðaði orðspor hans í Englandi stórkostlega. Árangurinn með landsliðið var ekkert til að hrópa húrra fyrir og árið 1980 var ákveðið að endurráða hann ekki heldur veðja þess í stað á þjálfara sem kynni arabísku. Síðar, þegar Sameinuðu arabísku furstadæmin komust á HM 1990 var þó viðurkennt að Revie hefði reist mikilvægar undirstöður í starfi sínu sem landsliðsþjálfari.

Hann sneri sér aftur að félagsliðaþjálfun með Al-Nasr í Dúbaí um nokkurra ára skeið og síðar Al Ahly í Egyptalandi. Hann sneri aftur til Englands árið 1984 og lést fimm árum síðar eftir glímu við taugasjúkdóm.

Heimildir breyta