Wolverhampton Wanderers F.C.

Wolverhampton Wanderers Football Club einnig kallað Wolves (Úlfarnir) er enskt knattspyrnufélag frá Wolverhampton sem stofnað var árið 1877. Liðið hefur verið 63 tímabil í efstu deild á Englandi og unnið titillinn þrisvar ásamt því að hafa unnið FA-bikarinn fjórum sinnum.

Wolverhampton Wanderers Football Club
Fullt nafn Wolverhampton Wanderers Football Club
Gælunafn/nöfn Wolves (Úlfarnir), Wanderers
Stofnað 1877, sem St. Luke's F.C
Leikvöllur Molineux Stadium
Stærð 32.050
Stjórnarformaður Fáni Kína Jeff Shi
Knattspyrnustjóri Gary O'Neil
Deild Enska úrvalsdeildin
2023-2024 14. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Tímabilið 2017-2018 varð liðið meistari í ensku meistaradeildinni og komst í úrvalsdeildina. Síðast voru Úlfarnir frá 2009-2012 í úrvalsdeildinni.

Heimavöllur liðsins er Molineux Stadium sem tekur rúm 32.000 í sæti.

 
Bikarmeistaralið Úlfanna árið 1893.

Wolverhampton Wanderers var stofnað sem St. Luke's Football Club af nokkrum nemendum í Skóla heilags Lúkasar í Blakenhall-hverfinu í Wolverhampton árið 1877. Tveimur árum síðar sameinaðist það krikket- og knattspyrnufélagi í nágrenninu sem gekk undir nafninu The Wanderers og fékk hið sameinaða félag núverandi nafn sitt. Árið 1888 var félagið í hópi stofenda ensku deildarkeppninnar og hafnaði í þriðja sæti strax á fyrsta ári. Á sömu leiktíð komust Úlfarnir í fyrsta sinn í úrslitaleik bikarkeppninnar en töpuðu þar fyrir tvöföldum meisturum Preston North End.

Úlfarnir léku í efstu deild óslitið til 1906 þegar liðið féll í fyrsta sinn. Á því tímabili varð félagið bikarmeistari í fyrsta sinn þegar það lagði Everton að velli 1:0 árið 1893, þar sem úrslitaleikurinn fór í fyrsta og eina skiptið fram á Fallowfield-leikvangnum í Manchester. Troðningur áhorfenda umhverfis völlinn var slíkur að megnið af tímanum stóð hópur fólks inni á leikvellinum. Stjórnendur Everton kærðu framkvæmd leiksins á þessari forsendu en þeim umkvörtunum var vísað frá.

Annar bikar og árin milli stríða

breyta

Árið 1908 urðu Úlfarnir bikarmeistarar í annað sinn eftir 3:1 sigur á Newcastle í úrslitum. Sigurinn var afar óvæntur enda Newcastle í hópi sterkari liða 1. deildar en Úlfarnir miðlungslið í 2. deild. Þetta reyndist hins vegar síðasti stóri titill félagsins í meira en fjóra áratugi.

Lið Úlfanna var lengst af um miðbik 2. deildar og gerði sjaldnast atlögu að sæti í efstu deild. Vorið 1923 féll liðið meira að segja niður í 3. deild (norður) en komst þegar í stað upp aftur sem meistari. Árið 1932 vann félagið svo 2. deildina og komst í hóp þeirra bestu á ný eftir um aldarfjórðungs fjarveru.

Eftir rólega byrjun í 1. deildinni styrktust Úlfarnir þegar leið á fjórða áratuginn og undir lok hans voru þeir komnir í hóp öflugari liða, allan tímann undir stjórn Frank Buckley sem var knattspyrnustjóri félagsins frá 1927 til 1944. Árið 1937 náði liðið fimmta sæti og árið eftir máttu Úlfarnir bíta í það súra epli að enda í öðru sæti eftir að hafa misst meistaratitilinn til Arsenal í lokaumferðinni eftir tap gegn Sunderland sem hafði ekki að neinu að keppa. Arið 1939 fékk liðið aftur silfurverðlaunin, að þessu sinni á eftir Everton. Úlfarnir virtust þó komnir á beinu brautina og aðeins spurning um tíma hvenær liðið yrði fyrst Englandsmeistari, en seinni heimsstyrjöldin átti þó eftir að setja strik í reikninginn.

Stan Cullins kemur til skjalanna

breyta

Úlfarnir voru í dauðafæri að verða fyrstu Englandsmeistararnir eftir stríð, leiktíðina 1946-47. Liverpool og Úlfarnir mættust í hreinum úrslitaleik um titilinn í lokaumferðinni, Liverpool vann 2:1 og Úlfarnir máttu sætta sig við þriðja sætið. Þetta var jafnframt síðasti leikur Stan Cullins í búningi Wolverhampton Wanderers en ári síðar átti hann eftir að snúa aftur, þá í hlutverki knattspyrnustjóra.

Þegar á fyrsta ári sínu landaði Cullins titli þegar Úlfarnir urðu bikarmeistarar vorið 1949 eftir 3:1 sigur á Leicester. Úrslitin voru ekki talin óvænt enda hafði Leicester verið í fallbaráttu í 2. deild og mætti í leikinn án síns besta leikmanns, Don Revie. Leiktíðina 1949-50 misstu Úlfarnir Englandsmeistaratitilinn til Portsmouth á markatölu. Í kjölfarið komu tvö tímabil þar sem Úlfarnir höfnuðu í neðri hluta deildarinnar en leiktíðina 1952-53 blandaði liðið sér á ný í slaginn um meistaratitilinn og hafnaði í þriðja sæti, fast á hæla Arsenal og Preston North End.

Að lokum tókst að brjóta ísinn veturinn 1953-54. Ríkjandi meistarar Arsenal áttu afleitt tímabil og féllu niður í tólfta sæti en nágrannaliðin og erkifjendurnir Wolves og West Bromwich Albion bitust um titilinn. Úlfarnir náðu mest átján leikjum án ósigurs í deildinni og luku keppni fjórum stigum á undan WBA á toppnum. Knattspyrnustíll liðsins undir stjórn Cullins var mjög skilvirkur og var oft lýst sem kick & rush (sparkað og hlaupið).

Á alþjóðasviðinu

breyta

Í kjölfar meistaratitilsins óx frægð Úlfanna mjög, einnig utan landsteinanna. Árið 1953 varð félagið eitt af þeim fyrstu til að koma sér upp öflugum flóðljósum sem gerðu það mögulegt að leika kvöldleiki í miðri viku yfir vetrarmánuðina. Þar var einkum um að ræða vináttuleiki við erlend félög, sem vakið gáðu gríðarlega athygli og skilað miklum tekjum. Enska landsliðið var í sögulegri lægð eftir afhroð gegn Ungverjum á árinu 1953 og leituðu knattspyrnuáhugamenn huggunar í að fylgjast með leikjum félagsliða við útlend lið.

Meðal mótherja Úlfanna í þessum vináttuleikjum voru Real Madrid, Spartak Moskva, landslið Sovétríkjanna og argentínska félagið Racing Club. Mesta athygli vakti þó 3:2 sigur á Honvéd með Ferenc Puskás í broddi fylkingar sem sjónvarpað var á BBC. Með sigrinum voru Úlfarnir taldir endurheimta hluta af stolti enska fótboltans eftir afhroðið gegn ungverska landsliðinu árið áður og gripu sum götublöðin til þess að kalla Úlfana heimsmeistara í knattspyrnu. Sú athygli sem Honvéd-leikurinn vakti og vinsældir slíkta alþjóðakappleikja í miðri viku undir flóðljósum er talin veigamikil ástæða fyrir því að ákveðið var að stofnsetja Evrópukeppni meistaraliða.

Gullöldin

breyta

Úlfunum tókst ekki að fylgja meistaratitlinum 1954 á næstu leiktíð. Þeir höfnuðu í öðru sæti, fjórum stigum á eftir Chelsea. Leiktíðina 1955-56 deildu Úlfarnir og Blackpool öðru og þriðja sætinu, heilum ellefu stigum á eftir Manchester United undir stjórn Matt Busby. Árið 1956-57 gekk allt á afturfótunum og Úlfarnir enduðu í sjötta sæti. Stjórnin ákvað þó að halda tryggð við Stan Cullins og sú ákvörðun átti eftir að reynast gifturík.

 
Billy Wright

Leiktíðarinnar 1957-58 er af flestum minnst fyrir flugslysið í München sem þurrkaði út helminginn af tvöföldu meistaraliði Manchester United. Úlfarnir komu hins vegar sterkir til leiks og enduðu á toppnum fimm stigum á undan Preston North End. Úlfarnir vörðu titilinn 1958-59, þar sem fyrirliðinn Billy Wright lagði skóna á hilluna eftir lokaleikinn. Úlfarnir kepptu einnig í Evrópukeppni meistaraliða sem haldin var í annað sinn þennan vetur. Þeir féllu úr leik gegn Schalke strax í fyrstu umferð.

Ekki tókst Úlfunum að vinna þriðja árið í röð leiktíðina 1959-60, þótt litlu mætti muna. Þeir voru á toppnum eftir lokaleik sinn en Burnley átti leik til góða og nældi sér í meistaratitilinn með naumindum. Í bikarkeppninni urðu Úlfarnir hins vegar meistarar eftir 3:0 sigur á Blackburn Rovers í úrslitum. Evrópukeppni meistaraliða fóru Úlfarnir ágætlega af stað en brotlentu svo í fjórðungsúrslitum á móti Barcelona, 4:0 og 5:2.

Tottenham Hotspur tókst leiktíðina 1960-61 þar sem Úlfarnir og Manchester United höfðu árangurslaust reynt á árunum á undan, að verða fyrsta liðið á 20. öldinni til að vinna tvöfalt. Úlfarnir máttu sætta sig við þriðja sætið en Evrópukeppni bikarhafa bauð upp á mestu skemmtunina. Mótið var haldið í fyrsta sinn og einungis tíu lið voru skráð til leiks. Úlfarnir og Rangers frá Skotlandi mættust í undanúrslitaeinvígi þar sem Glasgow-liðið hafði betur. Áratugur átti eftir að líða uns Úlfarnir tóku aftur þátt í Evrópukeppni.

Hallar undan fæti

breyta

Gengi Úlfanna fór hnignandi sjöunda áratugnum. Árin 1962 og 1964 hafnaði liðið í 18. og 16. sæti. Eftir afleita byrjun leiktíðarinnar 1964-65 var Stan Cullins rekinn eftir átján ára þjónustu, en brottreksturinn kom þó ekki í veg fyrir fall þá um vorið. Árin í 2. deildinni urðu þó ekki nema tvö að þessu sinni. Sumarið 1967, eftir að efstu deildar sætið var tryggt á nýjan leik, héldu Úlfarnir í víking til Bandaríkjanna þar sem þeir tóku þátt í knattspyrnudeild með ellefu öðrum evrópskum og suður-amerískum félagsliðum. Úlfarnir kepptu þar undir heitinu Los Angeles Wolves og fóru með sigur af hólmi í mótinu sem var undanfari NASL-deildarinnar vestanhafs.

Eftir nokkur róleg ár í 1. deildinni áttu Úlfarnir gott tímabil 1970-71 þar sem þeir höfnuðu ásamt Tottenham í þriðja til fjórða sæti. Það tryggði báðum liðum keppnisrétt í Evrópukeppni félagsliða næsta vetur, sem átti eftir að reynast sögulegt.

Enskir úrslitaleikir

breyta

Úlfarnir fengu strembið verkefni í fjórðungsúrslitum Evrópukeppni félagsliða 1971-72 þegar þeir mættu Juventus. Skotinn Jim McCalliog jafnaði metin í fyrri viðureigninni í Tórínó og á Molineux náði liðið að herja fram 2:1 sigur. Í undanúrslitum voru mótherjarnir Ferencváros frá Ungverjalandi. Úlfarnir jöfnuðu metin, 2:2, seint í útileiknum og unnu svo 2:1 á heimavelli. Þar með var ljóst að úrslitaleikir keppninnar yrðu enskir, þar sem Tottenham Hotspur tryggði sér hitt sætið.

Martin Shivers skoraði tvö mörk fyrir Tottenham í 1:2 sigri gestanna í fyrri leiknum. Brekkan var því brött á White Hart Lane þar sem liðin skildu jöfn 1:1. Úlfunum hafði því mistekist að bæta Evróputitli í bikarasafn sitt.

Deildarbikarar og fölsk dögun

breyta

Keppni um enska deildarbikarinn hófst leiktíðina 1966-67. Árið 1973 komust Úlfarnir alla leið í undanúrslitin en féllu þar naumlega úr leik fyrir Tottenham. Árið eftir komst liðið alla leið í úrslitaleikinn á Wembley og sigraði þar Manchester City 2:1 með marki undir lokin. Þetta var fyrsti verðlaunagripur félagsins frá bikarsigrinum 1960 ef Ameríkumótið er undanskilið.

Sex árum síðar, árið 1980, urðu Úlfarnir deildarbikarmeistarar í annað sinn. Í það skiptið eftir 1:0 sigur á Nottingham Forest með marki Andy Gray. Gray hafði verið keyptur til félagsins fyrir nýtt enskt félagaskiptamet, 1,49 milljónir punda og með hann innanborðs náði liðið sjötta sæti og komst í Evrópukeppni í fyrsta sinn í áraraðir.

En það sem leit út fyrir að vera byrjun á nýju blómaskeiði var fljótt að snúast upp í andhverfu sína. PSV Eindhoven sló Úlfana úr leik ´strax í fyrstu umferð Evrópumótsins. Úlfarnir enduðu tveimur stigum frá falli og eini ljósi punkturinn á tímabilinu 1980-81 var að félaginu komst í undanúrslit bikarkeppninnar en tapaði þar fyrir Tottenham í aukaleik. Verra átti þó eftir að taka við.

Í frjálsu falli

breyta

Eigendur Wolverhampton Wanderers réðust í löngu tímabærar framkvæmdir á heimavelli liðsins árið 1979 en þær reyndust félaginu þungar í skauti. Keppnistímabilið 1981-82 var leikið í skugga þrálátrar umræðu um mögulegt gjaldþrot félagsins og liðið féll sama ár með langverstu markatölu allra liðanna í 1. deildinni. Tvísýnt var hvort Úlfarnir hefðu fjárhagslegt bolmagn til að mæta til keppni í 2. deildinni 1982-83. Á síðustu stundu steig þó gamall leikmaður, Derek Dougan inn með fjármagn og félagið komst beint aftur upp í 1. deildina. Leynilegir fjárhagslegir bakhjarlar Dougan reyndust vera kaupsýslumenn frá Sádi Arabíu sem höfðu hug á að reisa verslunarmiðstöð á hluta af landi félagsins.

Endurkoman í 1. deild varð skammvinn. Úlfarnir sátu rækilega á botni deildarinnar nær alla leiktíðina 1983-84 og féllu niður á nýjan leik. Skoski reyndluboltinn Tommy Docherty var fenginn til að stýra liðinu í 2. deildinni en tókst ekki að koma veg fyrir að Úlfarnir enduðu í botnsætinu annað árið í röð. Þótt ekki væri búist við neinum stórræðum í 3. deildinni veturinn 1985-86 áttu fæstir von á þriðja fallinu á jafn mörgum árum. Úlfarnir enduðu næst neðstir og höfðu þar með farið úr efstu niður í neðstu deild ensku deildarkeppninnar á skemmsta mögulega tíma.

Félaginu bjargað

breyta

Sumarið 1986 misstu hinir illa þokkuðu sádi-arabísku eigendur félagið úr höndum sér og borgarstjórn Wolverhampton steig inní og festi kaup á leikvangi liðsins. Úlfarnir léku í fjórðu efstu deild í fyrsta sinn í sögu sinni 1986-87 og höfnuðu í fjórða sæti, sem þýddi að þeirra beið þátttaka í umspili sem tekið var upp í fyrsta sinn sama ár. Ekki var farið að leika umspilsúrslitaleiki á Wembley heldur voru tveir leikir, heima og heiman þar sem Úlfarnir töpuðu fyrir Aldershot. Lykilmaður liðsins þetta árið var tvítugi framherjinn Steve Bull sem átti eftir að verða markakóngur félagsins átta ár í röð og níu sinnum alls á næstu þrettán árum sínum hjá Úlfunum.

Undir forystu Bull unnu Úlfarnir 4. deildina veturinn 1987-88 og urðu að euki bikarmeistarar liða í 3. og 4. deild þegar þeir unnu Burnley í úrslitum. Knattspyrnustjóri liðsins var Graham Turner.

Leiktíðina 1988-89 urðu Úlfarnir fyrsta liðið í sögu ensku knattspyrnunnar til að vinna allar fjórar deildinar þegar félagið endaði á toppi 3. deildar. Steve Bull varð markakóngur og fyrstur allra til að skora meira fimmtíu mörk, tvö tímabil í röð. Þessi frammistaða, þótt í neðri deildunum væri, vakti slíka athygli að Bull var valinn í enska landsliðið sumarið 1989 þrátt fyrir að vera enn tæknilega 3. deildar leikmaður og var slíkt afar óvenjulegt. Alls lék Bull þrettán sinnum fyrir enska landsliði og skoraði fjögur mörk, en hann var ekki valinn í leikmannahópinn fyrir HM á Ítalíu.

Í næstefstu deild

breyta

Eftir að hafa farið sex sinnum milli deilda á sjö árum rann loks upp tími stöðugleika hjá Úlfunum, sem voru í næstefstu deild óslitið frá 1989 til 2003. Deildin skipti þó um nafn á tímabilinu í kjölfar stofnunar Ensku úrvalsdeildarinnar og var heiti hennar breytt úr 2. deild í 1. deild. Árin 1995, 1997 og 2002 komust Úlfarnir í umspil um að fara upp í efstu deild en töpuðu í öll skiptin í undanúrslitum. Árið 2003 tókst þó loks að höggva á hnútinn undir stjórn stjórans David Jones. Úlfarnir unnu Sheffield United á Millenium-leikvangnum í Cardiff.

Dvölin í Úrvalsdeildinni varð ekki löng, því Úlfarnir voru eitt þriggja liða sem enduðu á botninum með 33 stig. Félagið fór því aftur niður í næstefstu deild en var þó reynslunni ríkara.

Sveiflukennt gengi

breyta

Glenn Hoddle, fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga, tók við liði Úlfanna á miðju tímabili þegar fallið blasti við og hélt áfram með liðið í næstefstu deild. Arftaki hans, Mick McCarthy, tók við árið 2006 og átti eftir að stýra félaginu næstu árin. Vorið 2009 komst félagið á ný upp í úrvalsdeildina og tókst að halda sér uppi fyrstu tvö árin. Leiktíðina 2011-12 fór hins vegar allt í skrúfuna og Úlfarnr kolféllu. Árið eftir féll liðið aftur niður um deild, þótt dvölin í þriðju neðstu deildinni varði ekki nema í eitt tímabil. Knattspyrnustjóraskipti voru ör á þessum árum og þjálfarar komu og fóru.

Eftir fjögur ár í næst efstu deild fóru Úlfarnir upp sem meistarar árið 2018. Hefur liðið verið í úrvalsdeild til þessa dags (2023). Þegar á fyrsta árinu, 2018-19 náðu Úlfarnir sjöunda sæti sem dugði þeim til þátttöku í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. Vegna Covid-faraldursins fóru síðustu umferðir Evrópudeildarinnar fram með óvænjulegu sniðu þar sem liðin mættust á hlutlausum velli í einni viðureign í stað þess að leika heima og heiman. Úlfarnir féllu naumlega út fyrir meistaraefnum Sevilla.

Heimildir

breyta