Steingervingar á Íslandi

Elstu steingervingar sem hafa fundist á Íslandi eru frá míósen, um 15 milljón ára gamlar plöntuleifar. Auk plöntuleifa hafa fundist steingerðar leifar skordýra frá míósen og plíósen[1].Fundarstaðir steingervinga frá míósen og plíósen eru helst á Vesturlandi og á Vestfjörðum. Í jarðlögum frá ísöld hafa fundist í setlögum, einkum í vatna- og sjávarseti, nokkuð af leifum hryggleysingja. Sjaldgæft er að finna steingerðar landdýraleifar á Íslandi en þó hefur m.a. fundist bein úr hjartardýri[1].

Jarðlög með steingervingum breyta

Á milli hraunlaga íslensku blágrýtismyndunarinnar eru víða rauðleit leirborin silt- og sandsteinslög. Þessi lög eru mynduð úr fornum jarðvegi og í þeim hafa fundist steingerðar leifar plantna. Talið er að um fimm til tíu þúsund ár líði að meðaltali á milli myndunar tveggja hraunlaga í blágrýtismynduninni[1][2]. Tíð eldvirkni með gjóskufalli á nokkurra ára fresti hefur auðveldað jarðvegsmyndun og þar með plöntum við að ná fótfestu. Í þessum setlögum á milli hraunlaganna má víða sjá för eftir stöngla og blöð ásamt koluðum plöntuleifum. Þessi setlög eru þó ekki þau einu sem bera leifar plantna, meðal þykkustu setlaganna í blágrýtismynduninni eru fínkorna silsteins- og leirsteinslög sem myndast hafa í dældum fylltum af fornum stöðuvötnum. Þessi lög innihalda einnig plöntusteingervinga. Í jarðlögum frá ísöld sem orðið hafa fyrir áhrifum jökla hafa fundist í setlögum nokkuð af leifum hryggleysingja, einkum í vatna- og sjávarseti. Gríðarmikið af leifum sjávarhryggleysingja er að finna í setlögum á Tjörnesi[1].

Jurtaleifar breyta

Í setlögum hafa fundist leifar plantna sem lifðu á Íslandi á síðari hluta nýlífsaldar sem gefið hafa upplýsingar um loftslag, gróðurfar og dýralíf á þeim tíma. Plöntusteingervingar finnast helst í setlögum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Aðgengilegar og vel varðveittar plöntuleifar hafa fundist í Þórishlíðarfjalli í Selárdal, í Botni í Súgandarfirði, við Ketilseyri í Dýrafirði, í Surtarbrandsgili í Brjánslæk, við Tröllatungu og í Húsavíkurkleif í Steingrímsfirði, í Mókollsdal í Kollafirði í Strandasýslu og í nágrenni Hreðavatns og Stafholts í Borgarfirði[1][3][4].

Plöntusteingervingar í hraunlögum breyta

Í hraunlögum hafa fundist menjar um gróður frá efri hluta nýlífsaldar og eru holur og för eftir greinar og trjáboli algengastar, t.d. í Kotagili í Skagafirði en einnig á Barðaströnd og Jökulfjörðum[1]. Afsteypur af trjábolum hafa einnig fundist í Strandasýslu, Barðaströnd, Skagafjarðardölum og í Hornafirði[1][5].

Setlög tengd surtarbrandi breyta

Surtarbrand má finna víða í setlögum á milli hraunlaga en hann er kolaður mór eða trjágróður. Viðarbrandur frá Vestfjörðum og Tjörnesi inniheldur einkum leifar barrtrjáa eins og furu, risafuru, vatnafuru og lerki en einnig lauftrjáa[1][3][4]. Í setlögum sem fylgja Surtarbrandinum hafa fundist margs konar plöntuleifar. Leifarnar eru einkum varðveittar í silt- eða sandkenndu vatnaseti t.d. í Surtarbrandsgili í Brjánslæk.

Gróðurfarssaga breyta

Íslenskar gróðurmenjar eldri en 10 milljón ára gamlar bera vott um skyldleika við tegundir sem uxu í laufskógabelti Norður-Ameríku og bera vitni um mildara loftslag en nú er ríkjandi á landinu[1][3][6]. Það er því líklegt að á þessum tíma eða fyrr hafi verið landbrú á milli frum-Íslands og Norður-Ameríku[1]. Meðalhiti hefur verið um 8-12°C þegar þær plöntur sem nú finnast steingerðar í Botni, Selárdal, við Brjánslæk og Seljá uxu hér[1][4].

Heittemprað loftslag breyta

Gróðurmenjarnar í Þórishlíðarfjalli í Selárdal eru um 15 milljón ára gamlar og innihalda leifar heittempraðs skógs lauf- og barrtrjáa. Mest ber á beyki, kastaníu, álmi, lind, magnólíu, hjartartré, vatnafuru, risarauðviði og fornrauðviði[1][4][7][8].

Temprað loftslag breyta

Jurtaleifar í Dufansdal í Fossafirði (í botni Arnarfjarðar) innihalda 13,5 milljón ára gamlar leifar skógs sem óx í tempruðu loftslagi. Mest ber á beyki, birki, agnbeyki og álmi en dulfrævingar eru meira áberandi en berfrævingar[1][8]. Leifarnar í Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk og við Seljá í Vaðalsdal eru taldar um 12 milljón ára gamlar. Mest áberandi eru þinur, greni, risafura, lárviður, magnólía, hlynur, elri, birki, víðir, túlípantré, álmur og hesliviður[1][4]. Á þessum tíma voru lauftré farin að víkja fyrir barrtrjám og beyki var ekki lengur aðaltré. Plöntuleifar úr setlögum við Tröllatungu og í Húsavíkurkleif í Steingrímsfirði og í Hólmatindi við Reyðarfjörð eru 10-9 milljón ára gamlar. Burknar, víðir, hlynur, magnolía, birki, valhnota og hikkoría virðast hafa verið ríkjandi í láglendisgróðri á þessum tíma[1][4]. Í Hrútagili í Mókollsdal í Strandasýslu eru 9-8 milljón ára gamlar jurtaleifar þar sem beyki virðist aftur hafa verið algengt en einnig finnst hlynur, birki, elrir, álmur, vænghnota og hesliviður[1][4].

Kaldtemprað loftslag breyta

Leifar í nágrenni Hreðavatns eru taldar 7-6 milljóna ára gamlar en þar eru birki, víðir og barrtré orðin ríkjandi fremur en kulvísari tegundir. Loftslag fór kólnandi á efri hluta míósen eins og leifarnar við Hreðavatn bera með sér. Leifar við Sleggjulæk í Borgarfirði benda til frekari kólnunar en þær er líklega um 3,5 milljón ára gamlar. Birki, víðir og grös urðu sífellt meira áberandi á sama tíma og skógurinn fór minnkandi[1][4].

Ísaldarloftslag breyta

Fyrir um 2,6 milljón árum mynduðust svo jökulbergslög í Borgarfirði sem benda til enn frekari kólnunar[1][9]. Í setlögum í Breiðuvík á Tjörnesi finnast jurtaleifar neðst í setlögunum. Um er að ræða um tveggja milljón ára gömul frjókorn af furu, elri, birki og grösum. Því hefur skógurinn verið að mestu horfinn á þessum tíma og runnagróður tekinn við ásamt barrtrjám og elri. Á seinni hlýskeiðum ísaldar virðist birki hafa verið eina skógartréð og gróður svipaður því sem nú er[1]. Í Bakkabrúnum í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu hafa fundist um 70m þykk setlög sem virðast um 1,7 milljón ára gömul. Þar eru víða blaðför eftir birki, víði, elri og lyng[1][4]. Í Stöð á norðanverðu Snæfellsnesi hafa einnig fundist menjar um svipaðan gróður, þó yngri, um 1,1 milljón ára gömul[1][4]. Í 120 metra þykkum setlögum á Svínafellsfjalli í Öræfum finnast blaðför þar sem elri er algengt. Leifarnar eru taldar um 800 þúsund ára gamlar[1][4]. Í Elliðavogi við Reykjavík er um 20 cm þykkt lag af koluðum viðarleifum sem hvíla á völubergi en viðarleifarnar eru rétt neðan við Reykjavíkurgrágrýtið. Í þessum lögum, líklega seint frá ísöld hafa fundist fræ og aldin af ýmsum núverandi landlægum plöntutegundum ásamt frjókornum af birki, víði og öðrum jurtum[1][3]. Gróður á ísöld færðist smám saman í núverandi horf. Af um 440 tegundum háplantna sem nú lifa hér á landi teljast 97% vera evrópskar að uppruna, einungis um 10 tegundir eru af amerískum uppruna[1][10].

Land- og ferskvatnsdýraleifar breyta

Leifar land- og ferskvatnsdýra finnast sjaldan í lögum íslensku blágrýtismyndunarinnar enda geymast þær illa í kalksnauðum setlögunum og leysast fljótt upp[1].

Ferskvatnsdýr breyta

Af ferskvatnsdýrum hafa fundist örsmá svipudýr og stoðnálar úr litlum svampdýrum í surtabrandslögunum í Brjánslæk[1][6]. Vatnaflær hafa fundist í Mókollsdal og Langavatnsdal[1][11]. Í gili ofan við Illugastaði í Fnjóskadal hafa fundist setkjarnar úr samlokum sem líklega lifðu í fersku vatni en nokkuð er af leifum af plöntum og kísilþörungum í setinu[1].

Landdýr breyta

Leifar landdýra hafa sjaldan fundist í íslenskum jarðlögum[1].

Landskordýr breyta

Bjölluleifar hafa fundist í surtabrandslögunum við Brjánslæk og skjaldlúsum hefur verið lýst úr setlögum við Tröllatungu í Steingrímsfirði[1][3]. Í Hrútagili innarlega í Mókollsdal hafa fundist vel varðveitt rykmý og blaðlús[1][11]. Blaðlúsin tilheyrir tegundinni Longistigma caryae, stóru hikkoríublaðlúsinni. Þessi lús lifir nú í austurhluta Norður-Ameríska laufskógabeltisins. Er þetta elsta eintak þessarar tegundar sem fundist hefur. Einnig er þetta með stærstu blaðlúsum sem fundist hafa[1].

Leifar hjartardýrs breyta

Í Þuríðargili í Hofsárdal í Vopnarfirði fundust leifar Hjartardýrs[1][12]. Þær voru í rauðu siltsteinslagi í um það bil 330 metra hæt yfir sjó. Þarna fundust leifar beina úr herðasvæði ungs dýrs og má greina hluta úr herðablaði. Aldur setlagsins er 3,5-3 milljónir ára og því eldra en byrjun Ísaldar. Það má því vera ljóst að dýr og plöntur hafa einangrast á landinu eftir að það varð eyja[1].

Leifar frá hlýskeiði breyta

Einu landdýraleifarnar sem fundist hafa frá hlýskeiði eru skordýr og vatnakrabbar sem fundust í setlögum með koluðum jurtaleifum í Elliðavogi við Reykjavík[1]. Lítið hefur fundist af landdýraleifum frá síðjökultíma. Þó hefur fundist jaxl úr ísbirni í um það bil 13.000 ára gömlum setlögum í Röndinni við Kópasker[1][13]. Við Elliðaár við Reykjavík hafa fundist fótspor eftir sundfugl[1][13] og bein úr æðarfugli í sjávarsetlögum í Melabökkum í Melasveit[1].

Sædýraleifar breyta

Allvíða hafa fundist leifar sædýra sem fyrrum lifðu við strendur landsins. Mest er um lindýr en má finna leifar fiska og sjávarspendýra. Rostungsbein hafa til dæmis fundist allvíða á svæðinu frá Faxaflóa til Húnaflóa; hauskúpur, tennur, rifbein og reðurbein[1].

Tjörneslögin breyta

Á Tjörnesi má finna mikil sjávarsetlög eldri en frá ísöld (þau elstu um 5 miljón ára) og er heildarþykkt laganna vart minni en 500 metrar[1][14]. Þar hafa fundist leifar af mismunandi samfélögum sædýra og hafa hvergi á Íslandi fundist fleiri tegundir sjávardýra í íslenskum setlögum. Aldursgreiningar benda til þess að lögin hafi tekið að hlaðast upp fyrir um 5 milljón árum. Mest ber á lindýrum, krabbadýrum og götungum en einnig hafa þar fundist leifar fiska og sjávarspendýra, það er sela, rostunga og hvala[1][14][15]. Skipta má lögunum í þrjú belti, neðsta og elsta gáruskeljalag, í miðið tígulskeljalag og efst og yngst er krókskeljalag[1][14].

Gáruskeljalagið breyta

Þrjár tegundir gáruskelja hafa fundist í gáruskeljalaginu og lifir ein þeirra nú ekki norðar en í Norðursjó[1].

Tígulskeljalagið breyta

Tígulskeljar í samnefndu lagi eru nú útdauðar. Tegundir sem finnast í gáru- og tígulskeljalögunum eru þær sömu og finnast í öðrum álíka gömlum setlögum annars staðar við Norður-Atlantshafið. Hins vegar lifa margar þeirra í hlýrri sjó en nú er við landið[1].

Krókskeljalagið breyta

Neðst í krókskeljalögunum breytist sædýrafánan með tilkomu tegunda sem áður voru óþekktar á svæðinu. Má þar nefna beitukóng, hafkóng, krókskel, halloku og rataskel (Hiatella arctica) en þessar tegundir eru nú meðal algengustu skeldýrategunda hér við land[1][15]. Í krókskeljalögunum hafa fundist um 80 tegundir lindýra, aðalega snigla- og samlokutegundir[1][15]. Í Breiðuvík á Tjörnesi er um 125 metra þykk setlagasyrpa mynduð að hluta til af sjávarseti sem inniheldur leifar sædýra, einkum götunga, krabbadýra og lindýra[1].

Hnyðlingar breyta

Í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu hafa fundist molar úr silt- eða sandsteini með skeldýraleifum hér og þar í móbergi. Svipaðir molar eða hnyðlingar hafa fundist í móbergi í Surtsey og Heimaey. Hnyðlingarnir hafa brotnað úr gosrásum og borist upp með gosefnum[1][3].

Búlandshöfði breyta

Á norðanverðu Snæfellsnesi frá Kirkjufelli vestur að Skarðslæk má rekja allt að 50 metra þykkar setlagasyrpur. Í þessum syrpum við Búlandshöfða hafa fundist kaldsjávartegundir eins og jökultodda, trönuskel, rataskel, lambaskel og turnrósa[1][16]. Neðst í lögunum við Búlandshöfða eru hins vegar hlýsjávartegundir eins og kræklingur, kúskel og fjörudoppa. Flest bendir til að lögin í Búlandshöfða hafi því myndast við lok jökulskeiðs og við byrjun eftirfarandi hlýskeiðs. Aldursgreining á lögunum við Búlandshöfða benda til þess að þau séu elst um 1,1 milljón ára[1][16].

Ísaldarlög við Reykjavík og Seltjarnarnes breyta

Í Háubökkum í Elliðavogi við Reykjavík eru setlög undir Reykjavíkurgrágrýtinu með skeljum; gljáhnytlu, halloku og smirslingi[1][17]. Setlög má finna varðveitt á Setjarnarnesi og í norðanverðum Fossvogi sem geyma leifar sædýra; götunga, snigla, samloka og krabbadýra. Þessi lög hafa myndast í sjó við lok síðasta jökulskeiðs[1].

Nákuðungslögin breyta

Menjar um hærri sjávarstöðu á núverandi hlýskeiði nefnast nákuðungslögin, einkum þekkt við Húnaflóa annars vegar og Eyrarbakka og Stokkseyri hins vegar. Lögin innihalda dæmigerða strandfánu og eru nákuðungar og doppur þar helst[1].

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

 1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 1,10 1,11 1,12 1,13 1,14 1,15 1,16 1,17 1,18 1,19 1,20 1,21 1,22 1,23 1,24 1,25 1,26 1,27 1,28 1,29 1,30 1,31 1,32 1,33 1,34 1,35 1,36 1,37 1,38 1,39 1,40 1,41 1,42 1,43 1,44 1,45 1,46 1,47 1,48 1,49 1,50 1,51 1,52 Leifur A. Símonarson & Jón Eiríksson (2012). Steingervingar og setlög á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 82 (1-4). bls. 13-25.
 2. Kristján Sæmundsson (1979). Outline of the Geology of Iceland. Jökull 29. bls. 7-28.
 3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Leifur A. Símonarson (1981). Íslenskir steingervingar. Náttúra Íslands 2. útg. bls. 157-173.
 4. 4,00 4,01 4,02 4,03 4,04 4,05 4,06 4,07 4,08 4,09 4,10 Denk, T., Friðgeir Grímsson, Zetter, R. & Leifur A. Símonarson (2011). Late Cainozoic floras of Iceland. Topics in Geobiology 35. bls. 854.
 5. Leifur A. Símonarson, Friedrich, W.L. & Páll Imsland (1975). Hraunafsteypur af trjám í íslenskum tertíerlögum. Náttúrufræðingurinn 44. bls. 140-149.
 6. 6,0 6,1 Friedrich, W.L. (1966). Zur Geologie von Brjanslaekur unter besonderer Berücksichtigung der fossilen Flora. Sönderveröffentlichungen des Geologischen Institutes der Universität Köln 10. bls. 1-10.
 7. Friðgeir Grímsson & Leifur A. Símonarsson (2006). Beyki úr íslenskum setlögum. Náttúrufræðingurinn 74. bls. 81-102.
 8. 8,0 8,1 Friðgeir Grímsson, Denk, T. & Leifur A. Símonarson (2007). Middle Miocene floras of Iceland - the early colonization of an island? Review of Paleobotany and Palynology 144. bls. 181-219.
 9. Jón Eiríksson (2008). Glaciation events in the Pliocene-Pleistocene volcanic succession of Iceland. Jökull 58. bls. 315-329.
 10. Eyþór Einarsson (1963). The elements and affinities of Icelandic flora. North Atlantic biota and their history. Pergamon Press, Oxford. bls. 297-302.
 11. 11,0 11,1 Friedrich, W.L., Leifur A. Símonarson & Heie, O.E. (1972). Steingervingar í millilögum í Mókollsdal. Náttúrufræðingurinn 42. bls. 4-17.
 12. Leifur A. Símonarson (1990). Fyrstu landspendýraleifarnar úr íslenskum tertíerlögum. Náttúrufræðingurinn 59. bls. 189-195.
 13. 13,0 13,1 Jóhannes Áskelsson (1961). Um íslenska steingervinga. Náttúra Íslands. Almenna Bókafélagið, Reykjavík. bls. 47-63.
 14. 14,0 14,1 14,2 Guðmundur G. Bárðarson (1925). A stratigraphical survey of the Pliocene deposits at Tjörnes, in Northern Iceland. Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, Biologiske Meddelelser 4 (5). bls. 1-118.
 15. 15,0 15,1 15,2 Leifur A. Símonarson & Jón Eiríksson (2008). Tjörnes - Pliocene and Pleistocene sediments and faunas. Jökull 58. bls. 331-342.
 16. 16,0 16,1 Ólöf E. Leifsdóttir (1999). Ísaldarlög á norðanverðu Snæfellsnesi. Setlög og skeldýrafánur. Óbirt M.Sc. ritgerð. Háskóli Íslands, Reykjavík.
 17. Þorkell Þorkelsson (1935). A fossiliforeus interglacial layer at Elliðaárvogur, Reykjavík. Vísindafélag Íslendinga, Greinar 1. bls. 78-91.