Beitukóngur
Beitukóngur (fræðiheiti: Buccinum undatum) einnig nefndur ætikóngur, bobbi eða nákóngur er stór sæsnigill af Kóngaætt sem mikið er veiddur til beitu en einnig til matar.
Beitukóngur Tímabil steingervinga: 28.5Mya - Present | ||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||||
| ||||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||||
Buccinum undatum (Linnaeus, 1758) |
Útbreiðsla
breytaBeitukóngur er algengur um allt Norður-Atlandshaf, allt frá Svalbarða í norðri og suður til Frakklands og við austurströnd Norður-Ameríku allt suður til New Jersey í Bandaríkjunum. Hann finnst allt í kringum Ísland. Algengastur er hann á innan við 50 metra dýpi en lifir þó allt frá neðri hluta fjörunnar og niður á 1200 metra dýpi.
Skelin (kuðungurinn)
breytaKuðungur beitukóngsins getur verið breytilegur á lit, hvítur, grænn, gulur, brúnn eða rauðleitur. Traustur, með stuttri eða langri hyrnu sem er töluvert odddregin. Vindingar 7-8, í minna lagi kúptir og er grunnvindingurinn stór eða oft uþb. 70 prósent af lengd kuðungsins. Skelin hefur gróft kaðalmynstur sem liggur í reglulegum, bugðóttum röðum þvert á vindingana. Síðasti vindingurinn hefur um það bil 12 slíkar raðir sem dofna við neðra borð hanns. Munnopið er egglaga og er ytri vörin lítið eitt sveigð út. Neðst í munnopinu er renna sem öndunarpípa dýrsins liggur í. Lokan fyrir munnopið er sporöskjulaga með baugamynstri.
Baugarnir á lokunni myndast við mismunandi vöxt dýrsins eftir árstímum þannig að með því að telja baugana í lokunni má greina aldur þess. Elsti beitikóngurinn hér við land sem aldursgreindur hefur verið á þennan hátt var 13 ára.
Fullvaxinn beitukóngur er uþb. 7–10 cm á hæð en stærsti lifandi kuðungur sem mældur hefur verið hér á landi var 15 cm hár. Breiddin er um 60 prósent af hæðinni. Beitukóngur er ákaflega afbrigðaauðug tegund og hafa sex ólík afbrigði hans fundist hér við land.
Almennt
breytaOft er kuðungur beitukóngs þakinn dýrum sem festa sig við skelina svo sem hrúðurkörlum og kalkpípuormum. Kalkskorpuþörungar og aðrir lágvaxnir þörungar vax líka oft á honum og þar sem beitukóngurinn lifir grunnt er skelin sjálf stundum grænleit eða rauðleit þeirra vegna.
Nokkrar tegundir sæsnigla af sömu ættkvísl og beitukóngurinn lifa hér við land og hafa fundist margar skyldar tegundir sem líkjast honum nokkuð að stærð og lögun. Algengt er að beitukóngi sé ruglað saman við hafkóng (Neptunea despecta) en hann þekkist frá honum á kaðalmynstri í skel og því að á skel hafkóngsins er oftast röð af útstæðum hnúðum meðfram efra borði vindinganna.
Nytjar
breytaBeitukóngur hefur lengi verið veiddur til matar, einkum á Bretlandseyjum, í Belgíu og Hollandi. Mestar hafa þó verið veiðar Frakka á níunda áratugnum sem náðu hámarki með um 10.000 tonnum á ári í lok áratugarins. Veiðar Frakka hafa síðan minnkað og voru árið 1993 aðeins um 1.000 tonn. Það ár var heildarveiði beitukóngs í Evrópu um 5.000 tonn. Veiðin hefur aftur aukist síðan og eru Írar nú mestir veiðiþjóða en þeir veiddu um 6.000 tonn árið 1995. Í Kanada hefur beitukóngur einnig verið veiddur og þar var aflinn mestur 1.300 tonn árið 1987.
Hér á landi var beitukóngur veiddur fyrr á öldum og notaður til matar og til beitu við handfæraveiðar. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna (1772) er þess getið að beitukóngur sé notaður sem beita á vesturlandi þó einkum við Breiðafjörð. Eggert Ólafsson greinir þar frá sæsniglum og segir frá því að algengasti snigillinn sé ætikóngur eða bobbi, sem eyjaskeggjar á Breiðafirði telja góða átu. Hann getur þess að bobbarnir séu einkum tíndir á vetrum í nýrri tunglfyllingu eins og kræklingurinn.[1]
Einnig lýsir Eggert neysluvenjum Breiðfirðinga á beitarkóng: „Eru þeir ýmist steiktir eða soðnir niður í vökva þeim, sem þeir gefa frá sér, þegar þeir hitna. Hver aðferðin sem notuð er, þá eru þeir bragðgóðir, og verður mönnum gott af þeim. Sniglarnir eru öðrum skelfiski sætari og þykja holl og góð fæða. Þó þora menn hvergi að éta þá nema hér (þ.e. í Breiðafirði).“ Ekki eru til heimildir um að kuðungaát hafi tíðkast hér við land annars staðar en við Breiðafjörð.
Samkvæmt sömu heimild voru þeir veiddir þannig að net var strengt á gjörð og bleytt þorskroð bundið í netið. Gjörðin var lögð neðst í fjöruna um fjöru og dregin upp aftur með útfallinu. Hafði þá aragrúi kuðunga lagst á roðið til að sjúga úr því næringu. Eggert og Bjarni segja einnig frá því að notuð hafi verið harðfiskroð sem þrædd voru á band og lögð við stein á botninn þar sem menn vissu að von var á kuðungi. Í dag er beitukóngurinn veiddur í gildrur.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Hef ekki enn reiknað kvikindið út“. mbl.is. 19. október 2005. Sótt 3. janúar, 2012.
Heimildir
breyta- Ingimar Óskarsson (1962). Skeldýrafána Íslands II, sæsniglar með skel.
- Karl Gunnarsson og Sólmundur Tr. Einarsson (2000). Lífríki sjávar – Beitukóngur og hafkóngur.