Nákuðungur
Nákuðungur (fræðiheiti: Nucella lapillus) er sæsnigill af dofraætt.
Nákuðungur | ||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Tveir kuðungar Nákuðungs frá Norður Wales.
| ||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||
| ||||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||||
Nucella lapillus (Linnaeus, 1758) |
Útbreiðsla
breytaNákuðung má finna við strendur Evrópu frá Lófóten í Noregi suður til Gíbraltarsunds. Á austurströnd Norður-Ameríku lifir hann frá Nýfundnalandi og suður til New York-fylkis í Bandaríkjunum. Ísland er á norðurmörkum útbreiðslusvæðis hans þar sem rétt er nógu heitt fyrir hann. Er hann algengur einkum í grýttum þangfjörum við suðvestur- og vesturströndina á 0 til 55 m. dýpi.[1] Um 1900 lifði hann ekki við norður- né austurströndina en með hlýnandi veðráttu hefur þetta breyst og nú finnst hann víða meðfram norðurströndinni þótt hann sé þar sjaldgæfari en sunnan og vestan. Hefur til dæmis mikið af honum fundist við Húnaflóa og einnig við Tjörnes. Við Austfirði er sjórinn of kaldur til að hann þrífist þar í einhverjum mæli, en þó hafa fundist lifandi eintök í Bakkafirði og Berufirði. [2] Algengt er að finna nákuðung í allri fjörunni að sumarlagi en yfir háveturinn liggur hann í dvala.
Skelin (kuðungurinn)
breytaNákuðungurinn verður stærstur um 24 mm á breidd og 40 mm á hæð. Kuðungurinn er oftast sterkbyggður þar sem hann lifir í skjólgóðum fjörum en þynnri í grýttum fjörum þar sem brim er mikið. Er þetta talið vegna meiri hættu frá afræningjum (rándýrum) í skjólgóðum fjörum.[3] Oftast er kuðungurinn rauðbrúnn, móleitur eða brúnn með litabeltum en ýmis önnur litbrigði eru til enda tegundin mjög breytileg frá dýri til dýrs.
Hyrnan er stutt, keilulaga og þrefalt styttri en kuðungurinn allur. Vindingarnir eru fimm, með ávölum brúnum og grunnum saum; lítið kúptir að undanskildum grunnvindingnum sem er áberandi og allkúptur. Hvirfillinn oddmyndaður og snubbóttur. Munninn er egglaga og yfirleitt jafnlangur hálfri kuðungslengdinni eða lengri. Útrönd munnanns jafnt bogadreginn, halinn stuttur en breiður, oft með sýling í endann og endabrúnin örlítið aftursveigð. Yfirborðið oftast hrjúft með misbreiðum þver- og langrákum svo skelin verður rúðumynstruð, eða þá að hyrnan er rúðumynstruð en grunnvindingurinn þverröndóttur og gárulaus.
Almennt
breytaNákuðungurinn er afræningi (rándýr) og kjötæta sem notar skráptunguna til að vinna á bráðinni og framleiðir einnig lamandi vökva sem slævir hana. Aðalfæða hans er fjörukarl (hrúðurkarl) og litlir kræklingar. Aðferð hans er að reka skráptunguna inn á milli skelja bráðarinnar og ná þannig til dýrsins inni í henni. Ef það dugar ekki til notar hann skráptunguna til að bora gat á skelina, rekur hana svo inn um gatið og étur. Það getur tekið hann langan tíma að vinna á skelinni, jafnvel nokkra daga. Kræklingurinn getur þó varið sig fyrir nákuðungnum með því að líma við hann festuþræði til að gera honum allar hreyfingar erfiðari.
Nákuðungurinn er einnig fæða margra fugla eins og tjaldurs, tildru og sendlings. Einnig éta æður og máfar nákuðunga með því að gleypa þá í heilu lagi. Bogkrabbi étur einnig nákuðung.
Um þriggja ára aldur verður kuðungurinn kynþroska og getur lifað í allt að tíu ár á Íslandi. Nákuðungar færa sig neðst í fjöruna á veturna þar sem þeir hópast saman undir steinum og liggja í dvala. Þeir verpa síðan eggjum sínum á sumrin í keilulaga hylki sem þeir festa á hart undirlag í kletta- eða stórgrýtisskorningum þar sem nægur raki er.
Fortálknar eins og nákuðungurinn hafa á innraborði möttulsins slímkirtil sem algengast er að gefi frá sér venjulegt slím. Meðal vissra tegunda gefur hann þó frá sér efni – nefnt purpuri – sem verður fjólublátt er sólin skín á það. Það var notað til litunar frá fornöld og langt fram eftir öldum. Nákuðungurinn er eini kuðungurinn hér við land sem framleiðir slíkt efni, og ekki er vitað til þess að það hafi verið nýtt hérlendis.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Fjaran og hafið“. Hafransóknarstofnun og Námsgagnastofnun. Sótt 25. Mars, 2012.
- ↑ Ingimar Óskarsson (1962). Skeldýrafána Íslands II, sæsniglar með skel.
- ↑ „Greiningalykill um smádýr“. Námsgagnastofnun. Sótt 25. Mars, 2012.
Heimildir
breyta- Ingimar Óskarsson (1962). Skeldýrafána Íslands II, sæsniglar með skel.