Tjörnes

skagi á Norðurlandi eystra

Tjörnes er smár skagi á milli Skjálfandaflóa og Öxarfjarðar. Kaupstaðurinn Húsavík sem nú er hluti af sveitarfélaginu Norðurþingi stendur sunnarlega á vestanverðu nesinu en byggðin í Tjörneshreppi nær frá Reyðará sem fellur til sjávar í Héðinsvík skammt norðan Húsavíkur norður að Mánárbakka nyrst á nesinu. Úti fyrir nesinu eru þrjár smáeyjar, Lundey er syðst og stærst þeirra, en norður af nesinu eru tvær smáeyjar, Mánáreyjar, og heita þær Háey og Lágey.

Séð frá Tjörnesi yfir Öxarfjörð hjá Hallbjarnarstöðum
Stór og mikill steinn í fjörunni milli Ytri-Tungu og Hallbjarnarstaða. Hann er talinn hafa borist með hafís frá Grænlandi.
Tjörneslögin
Tjörnesviti í ágúst árið 2021.

Á vestan- og norðanverðu nesinu renna nokkur vatnsföll til sjávar í alldjúpum giljum en flest þeirra eru vatnslítil. Má þar nefna Reyðará, Köldukvísl, Rekaá, Skeifá, Hallbjarnarstaðaá og Máná. Í Skeifá er hár og fagur slæðufoss þar sem áin rennur fram af bökkum niður í sjó og kallast hann Skeifárfoss. Í fjörunni nokkuð sunnan við Hallbjarnarstaðaá er mikill og stór steinn, sem borist hefur með hafís frá Grænlandi. Heitir hann Torfasteinn og er við hann tengd þjóðsaga.

Nyrst á Tjörnesi er jörðin Máná og úr landi þeirrar jarðar hafa verið byggð 2 nýbýli, Árholt og Mánárbakki. Á hinu síðarnefnda er veðurathugunarstöð og hefur verið frá því býlið byggðist 1963 en veðurathugunarstöðin var stofnsett á Máná 1956. Á Mánárbakka hefur einnig verið starfrækt rannsóknarstöð norðurljósa á vegum japanskra vísindamanna síðan 1984. Slíkar stöðvar má einnig finna á Augastöðum í Borgarfirði og Æðey á Ísafjarðardjúpi. Á Mánárbakka er ennfremur minjasafn þar sem finna má margt athygliverðra muna frá síðari ýmsum tímum. Safnið er að miklu leyti staðsett í gömlu timburhúsi sem flutt var frá Húsavík sérstaklega til að þjóna safninu.

Tjörneshreppur sem er að gömlu lagi austasti hreppur Suður-Þingeyjarsýslu nær yfir nesið frá fyrrnefndri Reyðará norður og austur með ströndinni að Skeiðsöxl á nesinu norðaustanverðu.

Í jarðfræðikaflanum hér á eftir er minnst á Surtarbrandslög en um tíma voru kol úr þeim lögum numin og nýtt. Má segja að sú nýting hafi í megninatriðum spannað fyrri hluta 20. aldarinnar. Um eða eftir aldamótin 1900 vöknuðu hugmyndir um að nýta kolin og á árum styrjaldarinnar 1914-1918, mest 1917-1918 voru kol numin á 2 stöðum, annars vegar í landi jarðarinnar Ytri-Tungu og hins vegar í landi Hringvers sem er næsta jörð sunnan við Ytri-Tungu. Náman í landi Ytri-Tungu var rekin af landssjóði Íslands eins og ríkissjóður var oft nefndur á þeim tíma. Námarekstur í landi Hringvers var á vegum Þorsteins Jónssonar athafnamanns sem mun hafa haft mest umsvif á Siglufirði. Við námu ríkisins í landi Ytri-Tungu var árið 1917 reist hús yfir starfsmenn námunnar, þar var meðal annars svefnpláss, mötuneyti og geymslurými. Þetta hús er nú horfið en grunn þess geta kunnugir enn bent á nærri veginum niður í Tjörneshöfn (Tungulendingu). Vegna þess hversu gisin kolalögin voru þurfti að hreinsa út úr námugöngunum heilmikið af efni sem var reyndar ekki alveg laust við að væri einhver eldsmatur í þó ekki nýttist það sem kol. Safnaðist t.d. allstór haugur af því efni, sem ekki nýttist, í fjöruna fyrir neðan aðalgöng námu ríkisins í landi Ytri-Tungu. Í þessum haug kom upp eldur einhvern tíma síðla árs 1918 þegar stutt var í að kolanáminu lyki. Var lifandi glóð í haugnum, sumir heimamenn segja í 3 missiri, eitt og hálft ár, jafnvel í allt að því 3 ár. Var á þeim tíma eins og sæi í rautt auga þegar komið var fram á sjávarbakkann fyrir ofan hauginn eftir að dimma tók. Heimamenn á Tjörnesi og Húsvíkingar nýttu sér kol úr námunum á Tjörnesi í einhverjum mæli allnokkur ár eftir að námarekstri var hætt og síðasta sinn sem kol munu hafa verið tekin til nýtingar á svæðinu var rétt eftir 1950.

Jarðfræði

breyta

Mikil jarðlög er að finna niðri við sjó á vestanverðu Tjörnesi og hafa þau verið nefnd Tjörneslög. Elsti hluti þeirra er syðstur og er um 4 milljón ára gamall en yngstu setlögin á Tjörnesi eru um 1,2 milljón ára gömul. Neðsti hluti laganna er aðallega byggður upp af mismunandi skeljalögum en inn á milli má finna surtarbrandslög. Bendir það til þess að nesið hafi risið og hnigið til skiptis. Eftir að ísöldin gekk að fullu í garð fyrir rúmlega 2 milljónum ára einkennast jarðlögin hins vegar af samfellu fjöldamargra jökulbergs- og hraunlaga. Jökulbergslögin tákna þannig kuldaskeið ísaldar en inn á milli hafa hraun náð að renna til sjávar á hlýskeiðum. Tjörnes er rishryggur og er risið talið vera um 500-600 metrar miðað við bergið suður af nesinu. Hallar jarðlögum á nesinu um 5-10° til norðvesturs.

   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.