Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2011

(Endurbeint frá Nýir vinir)

Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2011 var djúp efnahagskreppa á Íslandi, sem hófst í byrjun árs 2008 þegar íslenskar hagvísitölur tóku að falla og verðbólga jókst. Þann 17. mars 2008 hækkaði gengisvísitala íslensku krónunnar um 6,97% og var það mesta fall krónunnar í sögu hennar. Mikil þensla hafði verið í efnahag Íslands á árunum á undan og var hagvöxtur árið 2007 4,9% og atvinnuleysi lítið.[1] Íslensk stórfyrirtæki eins og Stoðir og Exista tilkynntu töp eða minni hagnað. Um miðjan júní var gengisvísitalan 164,7 stig og hafði aldrei verið hærri.[2]

Úrvalsvísitala kauphallarinnar á árunum 1998–2009

Vendipunktur varð þann 29. september þegar tilkynnt var, nær fyrirvaralaust, að ríkið myndi þjóðnýta Glitni, sem var þá þriðji stærsti banki landsins, með kaupum á 75% hlut í honum.[3][4] Hætt var við þau kaup ríkisins en þess í stað voru sett neyðarlög sem veittu Fjármálaeftirlitinu víðtækar valdheimildir til inngripa í rekstri fyrirtækja í einkaeigu. Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur Landsbankans,[5][6] Glitnis[7][8] og Kaupþings fljótlega eftir setningu þeirra.[9][10]

Í framhaldi af því kom upp deilumál vegna skuldbindinga íslensku bankanna í starfsemi erlendis. Í nóvember leystust þessar deilur að hluta til þegar há neyðarlán fyrir milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru afgreidd. Gengi krónunnar hefur aldrei verið lægra og sett hafa verið takmarkanir á viðskiptum með hana. Almenningur hélt reglulega mótmæli þar sem aðgerðum og aðgerðarleysi íslensku ríkisstjórnarinnar, framgöngu leiðandi manna í íslensku fjármálalífi og beitingu hryðjuverkalaganna af hálfu breskra stjórnvalda var mótmælt.

Aðdragandi

breyta
 
Hagvöxtur á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á tímabilinu 2000–2007

Frá 2004 hefur meðaltal hagvaxtar á Íslandi verið 6,1%, sem er nokkuð mikill hagvöxtur (sjá graf til hægri) og lágt atvinnuleysi, 2,7% að meðaltali. Mikill vöruskiptahalli hefur verið á Íslandi á sama tímabili, þ.e. andvirði innfluttra vara meira en andvirði útfluttra vara.[11][12][13]

Einkavæðing bankanna

breyta

Undir lok tíunda áratugar 20. aldarinnar voru íslensku ríkisbankarnir; Landsbanki Íslands, Íslandsbanki og Búnaðarbanki Íslands einkavæddir í skrefum. Síðasti bankinn sem var seldur var Búnaðarbanki Íslands og var sölusamningur undirritaður 16. janúar 2003. Með sölu þeirra hagnaðist ríkissjóður töluvert. Bankarnir hófu margir starfsemi erlendis, keyptu erlenda banka og voru með útibú. Nokkur ánægja hefur verið með einkavæðinguna fram að þessu, t.a.m. sagði í ályktun af landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2007: „Einkavæðing bankanna hefur sýnt okkur þann kraft sem leysist úr læðingi við það að einkaaðilar taki við rekstri. Nýsköpun og þróunarstarf þessara fyrirtækja hefur skilað þeim góðum árangri bæði hér heima og erlendis. Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála.[14] Bankarnir tóku há erlend lán og, í október 2008, kom fram hjá Geir H. Haarde að samanlagt næmu skuldir þeirra tólffaldri þjóðarframleiðslu Íslands.[15]

Stóriðja

breyta

Haustið 2003 hófust framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun af alvöru, áætlaður kostnaður var 80 milljarðar kr.[16] Þúsundir erlendra verkamanna fluttust til landsins til þess að vinna við þetta verkefni þar sem vinnuafl á Íslandi annaði ekki eftirspurn. Framkvæmdirnar einar og sér höfðu talsverð áhrif á íslenskan efnahag. Í apríl árið 2004 var metið sem svo að heildarfjárfesting í verkefnum Landsvirkjunar á Íslandi væri á bilinu 250-300 milljarðar íslenskra króna.[17] Impregilo, aðalverktaki framkvæmdarinnar, keypti vörur og þjónustu af íslenskum fyrirtækjum fyrir rúmlega 8,3 milljarða króna frá upphafi framkvæmda við Kárahnjúka til ársloka 2004.[18] Kárahnjúkavirkjun var byggð með það að markmiði að veita álveri Alcoa í Reyðarfirði rafmagn til framleiðslu á áli. Á eftir sjávarútvegi er álframleiðsla sögð önnur helsta útflutningsvara Íslands.

Skuldsetning heimilanna

breyta

Með auknu aðgengi að fjármagni skuldsetti íslenskur almenningur sig hröðum skrefum. Bankarnir veittu fólki lán fyrir íbúðum á betri kjörum en áður hafði þekkst. Íbúðalánasjóður, sem er helsta opinbera stofnunin í samkeppni við bankana á þessu sviði, fylgdi í humátt eftir.[19] Lánsfé var einnig nýtt til kaupa á bílum og í einkaneyslu. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna, opinber stofnun sem veitir fólki ráðgjöf um fjármál, tilkynnti á ársfundi sínum 2008 að „heildarskuldir þeirra, sem leita til Ráðgjafarstofu, [hefðu] aukist um 14,9% á milli ára og vanskil hafa hækkað um 33,5%. Vanskil lána með raðgreiðslusamningi og bílalán hafa aukist mest á milli ára.[20]

 
Tekjur heimilanna duga ekki fyrir útgjöldum þeirra, skuldirnar hrannast upp og nema nú um 240% af ráðstöfunartekjum. Tekjurnar hafa vissulega aukist talsvert á liðnum árum en samt hefur hlutfall vaxtagreiðslna af ráðstöfunartekjum verið að hækka. Nauðsynlegt að horfast í augu við það að mikil skuldsetning íslenskra heimila svo og hækkandi byrði vaxtagreiðslna þýðir að áhætta þeirra vegna skulda hefur aukist. Þau eru orðin mjög viðkvæm fyrir verðbólgu svo og breytingum á vöxtum, tekjum og eignaverði.
 
 
— Vorskýrsla Hagdeildar ASÍ 2007[21]

Á miðju ári 2008 námu skuldir heimilanna við íslenskar lánastofnanir (þ.e. banka, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði, LÍN, tryggingarfélög) 1.760 ma. kr og höfðu þá aukist um 13,5% frá því áramótunum 2007-8, úr 1.551 ma.kr.[22]

Lausafjárkreppan 2007–2008

breyta

Lausafjárkreppan 2007–2008 er alþjóðleg efnahagskreppa sem hefur einkennst af töpum á rekstri, greiðslustöðvunum og gjaldþrotum hjá stórum bönkum og fjármálastofnunum í Bandaríkjunum og í Evrópu. Hana má rekja til undirmálslánakrísunnar svonefndu í Bandaríkjunum en þá er átt við fjölda húsnæðislána sem lánþegar gátu ekki endurgreitt sem varð til þess að stórar bandarískar fjármálastofnanir þ.á m. Indymac Federal Bank, Fannie Mae og Freddie Mac, Lehman Brothers, AIG, Merrill Lynch, o.fl. lentu í miklum skakkaföllum. Bankar í Evrópu og víðar hafa átt í vanda við að útvega sér lausafé í a.m.k. eitt ár, fyrsti bankinn sem varð gjaldþrota var breski bankinn Northern Rock, í september 2007. Þetta hafði einnig áhrif á íslenska efnahagskerfið.

Efnahagskreppa

breyta

Undir lok ársins 2007 féllu bréf í Exista og SPRON töluvert, en nýlega var búið að skrá SPRON á markað og hafði gengið á hlutabréfum í sparisjóðnum fallið um helming á örfáum mánuðum.[23] Á fyrstu þremur viðskiptadögum ársins 2008 féllu íslensk hlutabréf um 10,53%, á alþjóðlegum mörkuðum féllu hlutabréf sömuleiðis en þó ekki jafn mikið. Á einum degi lækkaði Exista mest þeirra félaga sem voru á aðallista íslensku kauphallarinnar eða um rúm 5%. FL-Group lækkaði um rúm 3%, Straumur-Burðarás um 2,5% og Kaupþing um tæp 2%.[24][25]

Gengi krónunnar

breyta

Í mars var metvelta á íslenskum gjaldeyrismarkaði, þann 7. mars nam veltan 88,2 milljörðum króna.[26] Þann 17. mars 2008 féll gengisvísistala íslensku krónunnar um 6,97% og var það mesta fall í sögu hennar. Gengisvísitala krónunnar hafði þá ekki verið hærri síðan í desember 2001, um svipað leyti og flotgengistefna Seðlabankans var tekin upp.[27] Seðlabankinn brást við 25. mars og hækkaði stýrisvexti um 1,25% í 15%.[28] Í kjölfarið komu upp umræður um að s.k. jöklabréfum væri um að kenna. Frá Seðlabankanum bárust ásakanir um að erlendir vogunarsjóðir[29] og aðrir „óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið.“[30] Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, sakaði fjóra erlenda vogunarsjóði um kerfisbundnar árásir á íslenska hagkerfið: Trafalgar, Landsdowne, Ako Capital og Cheney. Fram kom að hagnaður þeirra næmi tugum eða hundruðum milljarða króna.[31]

Háir stýrivextir

breyta

Íslenski Seðlabankinn hækkaði vexti sína í 15,5% þann 10. apríl og voru þeir þá þeir hæstu í Evrópu. Strax daginn eftir gaf Seðlabankinn út þá spá að fasteignaverð á Íslandi myndi lækka að raunvirði um 30% til ársins 2010 og þá yrði verðbólgumarkmiðum Seðlabankans náð.[32] Framangengin ár hafði fasteignaverð á landinu öllu hækkað mjög mikið, á árinu 2007 „námu heildarviðskipti með fasteignir tæplega 410 milljörðum króna, sem er mesta velta á fasteignamarkaði á Íslandi á einu ári.[33] Þann 28. apríl gaf Hagstofa Íslands út að verðbólga væri 11,8% og hefði mælst jafn mikil síðan í september 1990.[34] Tveir prófessorar við Háskola Íslands sögðu opinberlega að nú væru horfurnar dökkar, talað var um efnahagsvanda og kreppur.[35][36]

Gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands

breyta

Eitt af hlutverkum seðlabanka hvers lands er að veita ríkisábyrgð (e. lender of last resort) ef nauðsyn þykir. Í ljósi þess að íslenska krónan er bundin við hagkerfi Íslands, þ.e. hana er ekki hægt að nota utan landsins, ólíkt öðrum gjaldmiðlum s.s. bandaríkjadollari og evran, hefur Seðlabanki Íslands haft gjaldeyrisvaraforða eða gjaldeyrisvarasjóð. Í mars 2008 leitaði Seðlabanki Íslands til Seðlabanka Danmerkur, Englandsbanka, Seðlabanka Evrópu, Alþjóðagreiðslubankans í Basel og Seðlabanka Bandaríkjanna eftir gerð gjaldeyrisskiptasamninga. Á fundum hjá AGS í apríl 2008 var krafist álitsgerða frá AGS af hálfu Mervyn King, seðlabankastjóra Englandsbanka, og í kjölfarið skiptu ofangreindir aðilar um skoðun og höfnuðu hugmyndum um gjaldeyrisskiptasamniga.[37] Í maí 2008 tilkynnti Seðlabankinn gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabankaa Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur að andvirði 500 milljónir evra hver.[38] Stuttu áður kom út skoðun Viðskiptaráðs Íslands um að gjaldeyrisvaraforðinn væri of lágur.

 
Þegar rætt er um að taka lán til efla gjaldeyrisvarasjóð eða eiginfjárstöðu Seðlabankans og styrkja þannig trúverðugleika íslensks fjármálakerfis er því ekki verið vinna að hagsmunum þröngs hóps á kostnað almennings. Þvert á móti er slík aðgerð óumflýjanlegt fyrsta skref til að koma í veg fyrir víxlverkandi vítahring verðbólgu, gengisveikingar og vaxtahækkana.
 
 
— Skoðun Viðskiptaráðs[39]

Í Viðskiptablaðinu kom fram sama skoðun.[40] Yfirmaður greiningardeildar Kaupþings taldi 500 milljarða kr. heimild til lántöku í þeim tilgangi skref í rétta átt.[41] Gylfi Magnússon, þá dósent í hagfræði við Háskóla Íslands sem seinna var skipaður viðskiptaráðherra Íslands, sagði það „mjög stór og alvarleg mistök að stækka ekki gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans í samræmi við vöxt fjármálakerfisins“ og átt þá við að það væri orðið of seint.[42]

Í lok september, stuttu fyrir bankahrunið, tilkynnti Seðlabanki Bandaríkjanna gjaldeyrisskiptasamninga við norrænu löndin, að Íslandi undanskildu, auk Seðlabanka Ástralíu. Seðlabanki Íslands leitaði þá, og svo aftur í byrjun október, til Seðlabanka Bandaríkjanna um hliðstæðan samning en því var hafnað vegna þess að „fjármálakerfið á Íslandi væri svo stórt í hlutfalli við þjóðarbúið að skiptasamningur yrði að vera stærri en svo að bandaríski seðlabankinn sæi sér fært að standa að gerð hans“.[37]

Bankahrunið

breyta

Snemma í október tilkynnti Seðlabanki Íslands að hann hyggðist kaupa 75% hlut í Glitni þar sem bankinn ætti í miklum lausafjárvanda. Stutt var síðan að Lárus Welding, bankastjóri Glitnis, hafði sagt í viðtali í Silfri Egils að bankinn stæði traustum fótum. Í flókinni atburðarrás næstu daga varð Landsbanki Íslands og Kaupþing sömuleiðis gjaldþrota. Alþingi setti neyðarlög sem heimiluðu Fjármálaeftirlitinu að taka yfir stjórnir fyrirtækja og voru skipaðar skilanefndir til þess að sjá um rekstur bankanna. Mikil óvissa um fjármálalegan stöðugleika er áfram varðandi íslenskan efnahag þrátt fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi veitt Íslandi neyðarlán upp á 2,1 milljarða bandaríkjadala.

Milliríkjadeilur Íslendinga vegna skuldbindinga íslenskra einkabanka erlendis

breyta
 
Alls voru viðskiptavinir Icesave-spariþjónustu Landsbankans í Bretlandi um 300 þúsund.

Þann 8. október lækkaði Englandsbanki stýrivexti um 0,5%. Sama dag var Heritable, banki í eigu Landsbankans, settur í greiðslustöðvun og Kaupþing sömuleiðis. Með vísan til sérstakra laga um fjármálastarfsemi[43] hafði hann fært þjónustu með innistæðureikninga Kaupthing Edge, sem var nafn erlendrar starfsemi Kaupþings, yfir til hollenska bankans ING Direct. Varðandi Icesave, innistæðuþjónustu Landsbankans tilkynnti hann að, þó svo að um íslenskan banka væri að ræða, myndi breska ríkið ganga í ábyrgðir á innistæðum viðskiptavina þess.[44]

Þetta var degi eftir símtal milli Darlings og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra Íslands, þar sem Árni hafði tekið fram að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst innistæður erlendis.[45] Í Kastljósviðtali kvöldið áður hafði Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, verið með svipaðar yfirlýsingar. Þá ákvað breska ríkisstjórnin að frysta eigur Landsbankans sem og íslenska ríkisins í Bretlandi í krafti hryðjuverkalaga. Kaupthing Singer & Friedlander var sett í greiðslustöðvun af breska fjármálaeftirlitinu.[46] Notast var við ákvæði í hlutum (e. sections) 4 og 14 og tímaáætlun (e. schedule) 3 í hryðjuverkalögunum (e. Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001).[47] Þessi ákvörðun var tekin vegna þess að innan breska fjármálaráðuneytisins var talið að ákveðnir einstaklingar sem annað hvort tilheyrðu ríkisstjórn eða væru þegnar annars lands hefðu tekið eða myndu hugsanlega taka ákvörðun sem sköðuðu breskan efnahag.[48]

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði að aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins hefðu verið allt að því ólöglegar og algjörlega óásættanlegar. Hann sagði bresk yfirvöld hafa fryst eigur íslenskra fyrirtækja í Bretlandi.[49]

 
They have failed not only the people of Iceland; they have failed people in Britain
 
 
— Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands um íslenska Fjármálaeftirlitið. 10. október 2008[49]

Aðgerðir almennings vegna bankahrunsins

breyta

Í fyrri hluta október hófu ýmsir aðilar úr hópi almennings að standa fyrir mótmælum og opnum borgarafundum. Þúsundir manns hafa oft komið saman á Austurvelli til að mótmæla og svokallaðir opnir borgarafundir hafa verið haldnir í Iðnó og á skemmtistaðnum Nasa. Þann 15. nóvember voru haldnir samstöðutónleikar í Egilshöll.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009.

Erlend umfjöllun

breyta

Umfjöllun erlendra fjölmiðla um þróun mála á Íslandi hófst vorið 2008. Í marsmánuði ársins 2008 árið var fjallað um hversu hátt skuldatryggingarálag Landsbankans (610 stig) og Kaupþings (856 stig) væru.[50] Í lok mars birtist ritstjórnargrein í breska fjármáladagblaðinu Financial Times og því gefinn gaumur hversu mikil uppbygging og skuldsetning hefði átt sér stað hjá svona smáum efnahag. Þó var það áréttað að hann stæði föstum fótum og ekki væri ástæða til að óttast um afdrif hans.[51]
Haustið 2008 settu íslensk stjórnvöld upp upplýsingamiðlun vegna efnahagskreppunnar á vefsíðunni iceland.org þar sem leitast var við að kynna málstað íslendinga, gefa yfirlit yfir atburðarás og aðgerðir og ennfremur veita erlendum almenningi svör vegna hruns íslensku bankanna.[52]

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Helstu lykiltölur“. Hagstofa Íslands. Sótt 6. október 2008.
  2. „Gengi krónunnar aldrei lægra“. MBL.is. 18. júní 2008.
  3. Forsætisráðuneytið, Fréttir: Samkomulag um að ríkissjóður leggi Glitni til nýtt hlutafé (29.9.2008)
  4. Glitnir banki, Fréttir: 29.09.2008, Íslenska ríkið kaupir 75 prósent hlut í Glitni
  5. „Fjármálaeftirlitið, Fréttir: Á grundvelli nýsettra laga grípur Fjármáleftirlitið inn í rekstur Landsbankans til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi (07.10.2008)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. október 2008. Sótt 9. október 2008.
  6. „Landsbanki Íslands, Fréttir: Starfsemi Landsbankans óbreytt og bankastjórn ber áfram ábyrgð á daglegum rekstri (7. október 2008)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. janúar 2009. Sótt 26. janúar 2009.
  7. „Fjármálaeftirlitið, Fréttir: Á grundvelli nýsettra laga grípur Fjármáleftirlitið inn í rekstur Glitnis til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi (07.10.2008)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. janúar 2009. Sótt 9. október 2008.
  8. Glitnir banki, Fréttir: Starfsemi Glitnis óbreytt og forstjóri ber áfram ábyrgð á daglegum rekstri (08.10.2008)
  9. „Fjármálaeftirlitið, Fréttir: Á grundvelli nýsettra laga grípur Fjármáleftirlitið inn í rekstur Kaupþings hf. til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi (07.10.2008)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. janúar 2009. Sótt 9. október 2008.
  10. Kaupþing Banki, Fréttir: Kaupþing leitar til Fjármálaeftirlitsins: Yfirlýsing frá Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings (09.10.2008)
  11. „Dregur úr vöruskiptahalla“. MBL.is. 29. nóvember 2007.
  12. „Viðskiptajöfnuður við útlönd óhagstæður um tæpa 57 milljarða á 1F“. Viðskiptablaðið. 4. júní 2008.
  13. „Viðskiptajöfnuður óhagstæður um tæpa 130 milljarða á 2F“. Viðskiptablaðið. 4. september 2008.
  14. „Ályktun um iðnaðarmál“. Sjálfstæðisflokkurinn. 2007.
  15. Gróflega má áætla að þessi upphæð sé um 12-14 milljarðar, eftir því miðað við hvaða gengi íslensku krónunnar er miðað. Sjá: „Skuldir bankanna þjóðinni ofviða“. MBL.is. 6. október 2008.

    Í viðtali við Friðrik Má Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík kom fram að samanlagðar skuldir Íslendinga (banka og almennings) næmu áttfaldri þjóðarframleiðslu eða um 9 milljarðar. Sjá: „Bankar selji eignir eða flytji burt“. RÚV. 3. október 2008.
  16. „Frá samningum til framkvæmda“ (pdf). 1. apríl 2004. Sótt 5. mars 2009.
  17. „Skýrsla forstjóra um starfsemi Landsvirkjunar“ (pdf). 2. apríl 2004. Sótt 5. mars 2009.
  18. „10.2.2005: Átta milljarða króna viðskipti Impregilo við íslensk fyrirtæki“. Sótt 28. ágúst 2006.
  19. „Innkoma bankanna á fasteignalánamarkað mun hafa áhrif á efnahagsframvindu“. Morgunblaðið. 14. september 2004.
  20. „Ársfundur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna 200“. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna. 17. apríl 2008.
  21. „Aukin misskipting í góðæri“ (pdf). ASÍ. 4. september 2007.
  22. „Vefrit fjármálaráðuneytisins“ (pdf). Fjármálaráðuneytið. 16. október 2008.
  23. „Exista og SPRON lækka mikið“. Morgunblaðið. 19. desember 2007.
  24. „Gustar um hlutabréfamarkaðinn“. RÚV. 8. janúar 2008.
  25. „Á hádegi: Exista lækkar um 7,7%“. Viðskiptablaðið. 9. janúar 2008.
  26. „Áhættuflótti grefur undan gengi íslensku krónunnar“. Morgunblaðið. 8. mars 2008.
  27. „Gengisvísitala krónunnar ekki hærri síðan í desember 2001“. Viðskiptablaðið. 17. mars 2008.
  28. „Seðlabanki Íslands hækkar stýrivexti“. Seðlabanki Íslands. 25. mars 2008.
  29. Kaupthing accuses hedge funds of 'smears
  30. „Ræða Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á ársfundi bankans 28. mars 2008“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. nóvember 2010. Sótt 6. október 2008.
  31. „Fjórir vogunarsjóðir stóðu fyrir árásum“. Visir.is. 9. apríl 2008.
  32. „30% lækkun íbúðaverðs að raunvirði til ársloka 2010“. 11. apríl 2008.
  33. „Fasteignamarkaðurinn 2007 - leiðrétting“. 10. janúar 2008.
  34. „Vísitala neysluverðs í apríl 2008“. Hagstofa Íslands. Sótt 29. apríl 2008.
  35. „Erfitt að leysa efnahagsvandann“. RÚV. 29. apríl 2008.
  36. „Hagkerfið komið í kreppu“. RÚV. 3. maí 2008.
  37. 37,0 37,1 „Gjaldeyrisskiptasamningar og viðleitni til eflingar gjaldeyrisforða“. Sótt 18. mars 2009.
  38. „Seðlabanki Íslands gerir gjaldmiðlaskiptasamninga“. Sótt 18. mars 2009.
  39. „Sterkari seðlabanki er hagsmunamál allra“ (pdf). Viðskiptaráð Íslands. 8. maí 2008.
  40. „Ókeypis gjaldeyrisvarasjóður“. Viðskiptablaðið. 16. maí 2008.
  41. „Segir gjaldeyrisvarasjóðinn að komast í þokkalegt horf“. Visir.is. 27. maí 2008.
  42. "Alvarleg mistök í hagstjórninni". RÚV. 21. maí 2008.
  43. Lögin höfðu verið sett vegna gjaldþrots Northern Rock bankans fyrr á árinu. Sjá „Banking (Special Provisions) Act 2008“. Breska fjármálaráðuneytið. 8. október 2008. Sótt 13. nóvember 2008.
  44. „Statement by the Chancellor on financial stability“. Breska fjármálaráðuneytið. 8. október 2008. Sótt 13. nóvember 2008.
  45. „The Darling-Mathiesen Conversation before Britain Used the Anti-Terrorism Legislation against Iceland“. Iceland Review. 24. október 2008. Sótt 13. nóvember 2008.
  46. „Landsbanki Freezing Order 2008“. 8. október 2008. Sótt 13. nóvember 2008.
  47. „Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001 - 2001 CHAPTER 24“. 14. desember 2001. Sótt 19. janúar 2009.
  48. „Financial Sanctions - Landsbanki“. 8. október 2008. Sótt 19. janúar 2009.
  49. 49,0 49,1 „Brown condemns Iceland over banks“. BBC. 8. október 2008. Sótt 19. janúar 2009.
  50. „Iceland's banks top 'riskiness league'. This is money. 16. mars 2008. Sótt 13. október 2008.
  51. „Fjármálakreppa ekki endilega fylgifiskur samdráttar á Íslandi“. Morgunblaðið. 26. mars 2008. Sótt 10. október 2008.
  52. „Iceland.org, Icelandic government's information center“.

Tenglar

breyta

Íslenskir fjölmiðlar

breyta

Erlendir fjölmiðlar

breyta

Breskar stofnanir

breyta

Evrópuráðsþingið

breyta