Sigurður Einarsson

Sigurður Einarsson (19. september 1960) er íslenskur hagfræðingur, kaupsýslumaður og fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. Hann er í hópi hinna svokölluðu íslensku útrásarvíkinga, áður en bankahrunið varð átti hann yfir sex milljarða íslenskra króna og var með 12 milljónir króna á mánuði að meðaltali árið 2007.[1][2] Í yfirlýsingu sem hann gaf út 9. október 2008 sagði hann, og stjórn Kaupþings, af sér vegna „atburðarás[ar] sem enginn sá fyrir eða gat haft stjórn á“.[3]

Breska dagblaðið Observer segir að Sigurður, ásamt öðrum starfsmönnum Kaupþings, sé grunaður um glæpsamlegt athæfi. Hann hafi formlega stöðu grunaðs manns gagnvart sérstökum ríkissaksóknara sem rannsakar bankahrunið.[4]

Réttarhöld

breyta

Þann 11. maí 2010 var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Sigurði, sem ítrekað hafði hundsað boðun um að mæta til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara. Í desember 2013 var hann sakfelldur í héraðsdómi fyrir markaðsmisnotkun og dæmdur til fimm árs fangelsisvistar. Sigurður áfrýjaði ákvörðun héraðsdóms til hæstaréttar þar sem dómur héraðsdóms var staðfestur en refsingin lækkuð um eitt ár, niður í fjögurra ára fangelsisvist.

Sigurður er sonur Einars Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, alþingismanns og utanríkisráðherra, og konu hans Þórunnar Sigurðardóttur. Hann útskrifaðist sem hagfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1987 og öðlaðist réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari á EES árið 1994. Hann starfaði áður hjá Den Danske Bank á árunum 1982-1988 og hjá Iðnaðarbankanum, þar til hann varð að Íslandsbanka, 1988-94. Hann kenndi stundakennslu við Háskóla Íslands 1993-1997. Hann sat í stjórn Kauphallar Íslands 1993-1997.

Sigurður hóf störf á verðbréfasviði Kaupþings hf. árið 1994, varð forstjóri þess 1997 og stjórnarformaður 2003-2008. Hann situr í stjórn Norvestia og Aurora velgerðarsjóðs.

Árið 2003 komust hann og Hreiðar Már Sigurðsson, sem báðir störfuðu þá sem forstjórar Kaupþings, í fréttirnar fyrir háa kaupréttarsamninga á hlutabréfum í Kaupþingi. Davíð Oddsson komst í fréttirnar sömuleiðis er hann sagði upp viðskiptum sínum við Kaupþing vegna þessa. Sigurður og Hreiðar drógu kaup sín á hlutabréfunum til baka og sagði Sigurður ástæðu þess að þeir Hreiðar hefðu hætt við kaupin þá „að samningarnir falla illa inn í íslenskan veruleika og við erum búnir að átta okkur á því núna“.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. „Sigurður Einarsson keypti hús fyrir 10 milljónir punda“. 15. október 2008.
  2. „Hreiðar og Sigurður samanlagt með 250 milljónir í laun í fyrra“. 31. janúar 2008.
  3. „Yfirlýsing frá Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings“. 9. október 2008.
  4. Kaupthing chief named as suspect in fraud investigation, 11. október 2009
  5. „Sigurður Einarsson segir að kaupréttarsamningarnir hafi verið mistök“. 24. nóvember 2003.

Tenglar

breyta
   Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.