Íþróttabandalag Vestmannaeyja

fjölíþróttafélag í Vestmannaeyjum
(Endurbeint frá Knattspyrnufélagið týr)

Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) er stærsta og elsta íþróttafélag í Vestmannaeyjum. Heimildir um starfsemi félagsins ná til sumarsins 1903.[1] Fyrst um sinn gekk félagið undir nafninu Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (KV). KV var eitt af þremur félögum til að keppa á fyrsta Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 1912.

Merki Íþróttabandalags Vestmannaeyja
Fyrir nánari upplýsingar um knattspyrnudeild ÍBV sjá greinina Knattspyrnudeild ÍBV
Virkar deildir ÍBV-Íþróttafélags

Knattspyrna

Handknattleikur
Önnur ÍBV félög

Körfubolti

Sund

Frjálsar

Blak
Aðildarfélög undir öðrum merkjum

Golf

Fimleikar

Badminton

Boccia

KFS

Nafni KV var skipt út fyrir ÍBV á þeim tíma sem héraðsambönd voru sett á laggirnar um land allt, fékk liðið þá nafn héraðsambandsins í Vestmannaeyjum. Enda tilheyrðu Þór og Týr héraðsambandinu ÍBV. Nú til dags getur ÍBV átt við ÍBV-Íþróttafélag annars vegar og ÍBV-Héraðsamband hins vegar, en ÍBV-Íþróttafélag sem og önnur íþróttafélög í Vestmannaeyjum tilheyra því.

ÍBV-Héraðssamband var formlega stofnað 6. maí 1945. Eins og nafnið gefur til kynna er Íþróttabandalag Vestmannaeyja upphaflega bandalag margra íþróttafélaga. Fleira en eitt félag hafði verið starfrækt í Eyjum fyrir stofnun bandalagsins og einnig hafa nokkur félög starfað í gegnum árin samhliða ÍBV-Íþróttafélagi. Íþróttafélögin Þór og Týr höfðu starfað frá öðrum og þriðja áratug 20. aldarinnar og veitt hvoru öðru samkeppni. Félögin höfðu hins vegar ávallt samnefnara þegar kom að því að keppa á landsmótum í meistaraflokkum. KV var sameiginlegt lið Þórs og Týs uppi á landi og þegar gesti bar að garði. Einnig kepptu frjálsíþróttamenn og aðrir undir merkjum KV á landsmótum.

Sem fyrr segir var héraðssambandið Íþróttabandalag Vestmannaeyja formlega stofnað árið 1945. Íþróttafélögin í Vestmannaeyjum höfðu fram að því keppt í nafni KV á meginlandinu fyrir stofnun bandalagsins en frá stofnun héraðssambandsins skyldi keppa undir merkjum ÍBV utan héraðs. Árið 1996 voru félögin Þór og Týr svo sameinuð endanlega innan bæjar sem utan í ÍBV-Íþróttafélag. Í framhaldinu var allt flokkastarf yngri félaga einnig sameinað undir merki ÍBV. Þar með var ÍBV-Íþróttafélag formlega stofnað og tilheyrir það ÍBV-Héraðssambandi í dag.

Heimildir um starf félagsins ná aftur til ársins 1903 þegar Björgúlfur Ólafsson læknir kenndi knattspyrnu og sund sumarið 1903. Þá gekk félagið undir nafninu Knattspyrnufélag Vestmannaeyja. Íþróttafélagið Þór var stofnað 1913, og 1921 var Knattspyrnufélagið Týr stofnað.

Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (1903-1945)

breyta
 
Sameinað lið Þórs og Týs í 2. flokki undir merki KV um 1930.

Litlar heimildir hafa fundist um stofnun Knattspyrnufélags Vestmannaeyja. Vitað er að Björgúlfur Ólafsson læknir bjó í Eyjum sumarið 1903 og kenndi knattspyrnu og sund. Knattspyrnufélag Vestmannaeyja, hét fyrst Fótboltafélag Vestmannaeyja áður en það var síðar endurnefnt[2] og var fyrsta félagið í Vestmannaeyjum þar sem knattspyrna var iðkuð skipulega.[3] Níu árum síðar lögðu 12 leikmenn liðsins á sig tveggja sólarhringa langt ferðalag til Reykjavíkur til að taka þátt í fyrsta Íslandsmótinu 1912.

Fyrsta Íslandsmótið

breyta

Fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu var haldið árið 1912 í Reykjavík og þóttu það mikil tíðindi þá að lið frá Vestmannaeyjum tilkynnti sig og mætti til keppninnar. Á þessu móti, sem markaði upphaf mótahalds knattspyrnuliða á Íslandi, voru aðeins þrjú keppnislið: KR (þá FR), Fram og ÍBV (þá KV). Það tók knattspyrnumenn KV tvo daga að komast til Reykjavíkur. Þeir sigldu með dönsku skipi m/s Pexvie til Stokkseyrar og gengu síðan með pjönkur sínar á bakinu sem leið lá til Selfoss þar sem gist var um nóttina í Tryggvaskála.

Eftir ferðina köstuðu knattspyrnukapparnir sér til sunds í Ölfusána og þótti heimamönnum það hreystilega gert. Daginn eftir var farið með tveimur póstvögnum til Reykjavíkur en menn urðu þó að ganga upp Kambana. Eyjamenn léku fyrst við KR og töpuðu leiknum 0-3 í geysilega hörðum leik sem tók svo mikinn toll af liði KV að þeir höfðu ekki nægilega marga leikmenn ósára til að geta leikið síðari leikinn sem átti að vera móti Fram. Í samtímaheimildum má á einum stað lesa svo um þennan leik:

 
„Meira var hugsað um að hlaupa á manninn en leika boltanum, sumir voru brenglaðir fyrir leikinn og sumir orðið að ganga úr leik meðan á leik stóð svo að uppi stóðu aðeins sjö leikmenn, svo hætt var við frekari keppni og farið með næsta póstskipi til Eyja.”
 
 
Hermann Kr. Jónsson, í Íþróttabandalag Vestmannaeyja 50 ára, Vestmannaeyjar: Íþróttabandalag Vestmannaeyja 1995.

Upphafsmenn félagsins

breyta
 
Leiðin sem leikmenn ÍBV ferðuðust á leið sinni á fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu árið 1912

Segja má að þeir sem hafi tekið þátt í fyrsta Íslandsmótinu árið 1912 séu með réttu meðal upphafsmanna Knattspyrnufélags Vestmannaeyja, en þeir voru:

Leikmaður Staða Leikmaður Staða
Steingrímur Magnússon markvörður Ágúst Eiríksson framherji
Sæmundur Jónsson vinstri bakvörður Árni Gíslason framherji
Árni Sigfússon hægri bakvörður Jóhann A. Bjarnasen framherji
Jón Ingileifsson hægri framvörður Eyjólfur Ottesen framherji
Árni J. Johnsen mið framvörður Georg Gíslason framherji
Ársæll Sveinsson vinstri framvörður Lárus J. Johnsen varamaður

Að ógleymdum Björgúlfi Ólafssyni lækni sem ótvírætt var einn helsti upphafsmaður íþróttaiðkunar í Vestmannaeyjum.

Ungmennafélag Vestmannaeyja (1907-1914)

breyta

Mikil vakning varð í æskulýðsmálum í Vestmannaeyjum í byrjun 20. aldarinnar. Steinn Sigurðsson skólastjóri Barnaskólans í Vestmannaeyjum beitti sér fyrir hreyfingu ungs fólks í Vestmannaeyjum. Hann kenndi sund, glímu og knattspyrnu. Ungmennafélag Vestmannaeyja er talið hafa verið stofnað árið 1907 að frumkvæði Steins Sigurðssonar. Ungmennafélagið lagði hinsvegar upp laupana árið 1914, en þá flutti Steinn frá Vestmannaeyjum og má leiða að því líkum að með brottflutningi hans hafi félagið lognast út af. Segja má að Íþróttafélagið Þór hafi verið eins konar arftaki Ungmennafélagsins, en íþróttafélagið var stofnað árið 1913. Þá starfaði annað ungmennafélag í Vestmannaeyjum á árunum 1927-1929 og gaf meðal annars út félagsblað.

Íþróttafélagið Þór (1913-1996)

breyta
 
Merki Íþróttafélagsins Þór

Bæði Knattspyrnufélag Vestmannaeyja og Ungmennafélag Vestmannaeyja virtust hafa misst mikinn kraft úr starfinu fljótlega í byrjun annars áratugar tuttugustu aldar. Guðmundur Sigurjónsson, íþróttakennari frá Reykjavík, kom til Eyja gagngert til að halda námskeið fyrir unga fólkið í ýmsum íþróttum. Guðmundur beitti sér fljótlega fyrir stofnun sérstaks íþróttafélags. Stofnfundur þessa nýja íþróttafélags var haldinn 9. september 1913 í Þinghúsinu. Stofnfélagar voru 13 talsins og voru þar á meðal margir nafnkunnir menn í bæjarfélaginu.

Knattspyrnufélagið Týr (1921-1996)

breyta
 
Merki Knattspyrnufélagsins Týs

Átta árum eftir stofnun Þórs eða árið 1921, kom Knattspyrnufélagið Týr til sögunnar. Aðdragandinn að stofnun Týs var sá að árið 1920 voru bæði Þór og KV illa stödd fjárhagslega. Nokkrir strákar á 18 og 19 aldursári sem höfðu takmarkaðan aðgang að tuðrum innan félagana ákváðu að fjárfesta saman í bolta, þeir höfðu reynt að fá þessu breytt og buðu fram Jóhann Gunnar Ólafsson í stjórn KV. Það gekk ekki og stofnuðu því Tý samhliða fjárfestingu sinni í tuðrunni. Stofnendur félagsins voru 45 talsins, flestir innan við tvítugt. Meðal stofnenda voru Gunnar Ólafsson kaupmaður og útgerðarmaður, Binni í Gröf, Gísli J. Johnsen, Ísleikur Jónsson á vörubílastöðinni, Einar Sigurðsson (ríki), Friðrik Jesson.

Bandalag Þórara og Týrara

breyta

Fljótlega eftir stofnun Týs árið 1921 tóku Týrarar höndum saman við leikmenn úr Þór og reyndu fyrir sér undir sameinuðu merki KV, þegar leikið var við lið utan Eyjanna. KV varð þar með úr sögunni sem sjálfstætt knattspyrnufélag og upp frá því bandalag Þórara og Týrara. Það var upphafið að samstarfi félaganna í knattspyrnu, þar sem merki þeirra vék fyrir sameiginlegu merki Eyjanna. Féllu liðin vel saman sem heild, þótt barist væri innbyrðis á heimavelli. Þórarar og Týrarar tóku af og til þátt í kappleikjum á meginlandinu undir merki KV, en fengu einnig heimsóknir til Eyja. Forsvarsmenn félaganna hafa séð að hvorugt félagið væri nægilega öflugt til að geta náð árangri á landsvísu en sameinuð ættu þau alla möguleika á því eins og varð raunin.

Fyrsta ferð Þórara og Týrara undir sameinuðu merki KV var farin á Íslandsmót til Reykjavíkur árið 1926, en þá voru liðin 14 ár frá því að Eyjamenn höfðu tekið þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu í fyrsta sinn. Fóru leikmennirnir með mótorbáti til Stokkseyrar, en það var þá eina samgönguleið Eyjamanna við meginlandið. [4]

Sameiginlega réðust félögin í að endurbæta völlinn við Hástein um miðjan þriðja áratuginn, en í nokkur ár hafði ekkert verið gert í vallarmálum. Var völlurinn við Hástein notaður til ársins 1937, er íþróttasvæðið inni við Botn var tekið í notkun. Allmörgum árum síðar var svo aftur farið á svæðið við Hástein þar sem nú er aðalleikvangur knattspyrnunnar.

Rígur milli félagana

breyta

Alvaran tók við þegar félögin mættust í kappleik, ef marka má skrif í íþróttablaðinu Þjálfa. Þá var hart barist og gengið eins langt og dómarinn leyfði. Íþróttin var ung og þekkingin lítil á reglunum.

 
„26. júní fór fram 1. flokks kappleikur um vorbikarinn, og sigraði Þór með 3:1. Þótti leikurinn ljótur, mikið um hrindingar og brögð af hvorum tveggja, enda gerðust leikmenn allreiðir - Dómarinn var mjög reikull í dómum sínum, enda alveg óvanur.”
 
 
— 1932 í Þjálfa

Alvara leiksins, þegar heimaliðin mættust í kappleik, var hér í fyrsta sinn dregin fram í dagsljós hins prentaða máls í Vestmannaeyjum. Í fyrsta skipti var minnst á ríg milli félaganna, sem hyrfi reyndar, þegar þau snéru bökum saman gegn andstæðingi utan Eyjanna.

Voru heimsóknir kappliða til Eyja m.a. rómaðar vegna þess að þær þjöppuðu leikmönnum heimaliðanna saman undir merki KV:

 
„Er mjög gott fyrir okkur hér að fá slíkar heimsóknir öðru hvoru, þó ekki væri nema til þess, að við um stund gleymdum hinum viðbjóðslega ríg milli „Þórs“ og „Týs“ og skipuðum okkur undir merki KV.”
 
 
— 1932 í Þjálfa

Áratugir dragnótar og síldveiða

breyta

Atvinnuhættir Eyjamanna settu KV skorður, sem og öðrum íþróttamönnum í Eyjum á fyrstu áratugunum, þegar knattspyrnan var að festa rætur. Frá upphafi var þó markið sett hátt og heimavettvangurinn einn ekki talinn nægjanlegur fyrir íþróttina.

Í vikublaðinu Víði sagði einn Týraranna „Knattspyrnumenn hér í Eyjum, hafa sýnt það á kappmótum í Reykjavík, að þeir eru með bestu knattspyrnumönnum landsins. Þá vantar eigi annað en herslumuninn, og hann er ekki mikill, til þess þeir séu þeir bestu.”.[5] Þátttakan var þó stopul á æfingar oft á tíðum, og sum árin var KV ekki með á Íslandsmótinu, eins og á árabilinu 1934-1942 enda geysaði Kreppan mikla á þeim árum. Árin 1942 og 1943 hristu leikmenn KV loks af sér slenið en með ákaflega litlum árangri. Eyjamenn sigruðu aðeins í einum leik árið 1942 og lentu í 4. sæti ásamt Víking R. í fimm liða keppni.

Það bar til tíðinda haustið 1942, að Axel Andrésson kom til Eyja á vegum ÍSÍ og kenndi knattspyrnu um mánaðarbil. Koma mætra leiðbeinenda til Eyja gat hins vegar ekki keppt við atvinnuhætti Eyjaskeggja á fimmta áratugnum fremur en áður. Tímabilið, sem hægt var að stunda knattspyrnu, hafði styst með tilkomu dragnótaveiða í maí og síldveiða fyrir norðan frá júní-júlí og fram í september. Ungir Eyjamenn sóttu sjóinn sem fyrr eða voru tengdir honum svo nánum böndum, að knattspyrnuiðkun lagðist að mestu niður á meðan á sjósókn stóð. Júní og september voru því nánast einu keppnismánuðirnir í Eyjum, og á meðan svo var nýttist aukin þekking í knattspyrnunni illa. Var svo komið um miðjan fimmta áratuginn, að Eyjamenn náðu ekki í lið í áratug til þess að halda í víking á meginlandið og láta reyna á kunnáttu sína annars staðar en á heimavelli.

Íþróttaráð Vestmannaeyja (1929-1945)

breyta

Árin 1929-1945 var starfandi Íþróttaráð Vestmannaeyja (ÍRV). Það var skipað fulltrúum frá íþróttafélögunum í bænum, Þór og Tý. Tveimur frá hvoru félagi og formaður ráðsins sá fimmti. Tilgangur þess var að halda utan um sameiginlega starfsemi félagana undir merkjum KV. Það var aflagt samhliða KV þegar ÍBV var stofnað árið 1945. Fyrsti formaður ÍRV var Páll Kolka læknir sem gegndi formennsku í ráðinu til ársins 1934.

Héraðssamband Íþróttabandalags Vestmannaeyja (1945-)

breyta

Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (KV) hafði ávallt verið "samfélag" þeirra íþróttafélaga sem voru í Eyjum.[6] Árið 1944 hefst stofnun hérðassambanda um allt land að tilstuðlan Íþróttasambands Íslands (nú ÍSÍ). Í kjölfarið var einnig efnt til stofnfundar slíkst sambands í Vestmannaeyjum og var Íþróttabandalag Vestmannaeyja þar með sett á laggirnar sem héraðssamd fyrir félög í Vestmannaeyjum og var stofnað þann 6. maí 1945.
Árið 1953 og 1954 tóku Eyjaskeggjar þátt í landsmóti 1. flokks í knattspyrnu eftir 10 ára hlé. Þá var keppt í fyrsta sinn undir nýju, sameinuðu merki félaganna í Eyjum, ÍBV, og hafði þátttaka knattspyrnuliða aukist verulega frá því að Eyjamenn tóku seinast þátt í Íslandsmóti 1. flokks. Nú bar svið við að félögum var skipað saman í riðla og lenti lið ÍBV í 2. sæti í sínum riðli fyrra árið með 4 stig. Liðið sýndi ágæta leikmennsku og var spáð þátttökurétti í meistaraflokki fljótlega.

Gullár yngri flokkana

breyta

Sagt er að eftir að „strákarnir hans Lolla“ hófu framfarasókn knattspyrnunnar hjá ÍBV hafi leiðin legið uppá við og næsta 20 ára tímabil verið mjög gæfuríkt fyrir ÍBV. Félagið komst í fremstu röð knattspyrnufélaga á landinu og titlarnir tóku að streyma til Eyja. Sérstaklega er fólki minnisstætt sigurárið mikla 1970 en það ár unnu knattspyrnumenn Eyja helming þeirra verðlaunagripa sem um var keppt á vegum KSÍ.

Afrekalisti yngri flokka ÍBV árin 1964-1980:

  • 2. flokksmeistarar: 5
    • 1969, 1970, 1972, 1975, 1980
  • Bikarmeistarar 2. flokks: 4
    • 1960, 1969, 1970, 1972
  • Meistari eldri flokks: 1
    • 1991
  • 3. flokksmeistarar: 2
    • 1970, 1971
  • 4. flokksmeistarar: 3
    • 1964, 1967, 1970
  • 5. flokksmeistarar: 2
    • 1969, 1976

ÍBV-Íþróttafélag (1996-)

breyta

Eftir að Þór og Týr voru aflögð í desember 1996 var ÍBV-Íþróttafélag stofnað. Tilgangur félagsins var að taka yfir yngriflokkastarf félaganna í knattspyrnu og handknattleik.[7] Í upphafi voru hugmyndir um að láta félagið heita KH-ÍBV, en var að lokum nefnt ÍBV-Íþróttafélag.[8] Í kjölfarið að stofnun ÍBV-Íþróttafélags var starfsemi Þórs og Týs endanlega lögð niður. Þar með var orðið eitt sameiginlegt rekstarfélag um starfsemi knattspyrnu og handknattleiks í Vestmannaeyjum undir nafni ÍBV í öllum flokkum.

ÍBV hafði hingað til einungis verið sameiginlegt merki félaganna útá við í efstu flokkum félagsins og í keppnum utan hérðas, en það hafði haft lítið sem ekkert bakland. Það hafði í raun verið eignalaust og enginn vildi eiga það þegar illa gengi. Það hafi því lent á fáum aðilum að reka félagið fyrir sameininguna. Einnig hafi verið mikið óhagræði að því að reka þrjár einingar með tveimur þjálfurum, framkvæmdastjórum og tvöföldu kerfi á öllu. Því hafi verið skynsamlegt að sameina rekstur þessara tveggja félaga alfarið undir eitt merki. Árið 2011 var sett á laggirnar Íþróttaakademía ÍBV-Íþróttafélags í samvinnu við Framhaldskólann í Vestmannaeyjum. Ári síðar bættist Grunnskóli Vestmannaeyja við í samstarfið.

Merki og búningar

breyta

Þegar KV ákvað að taka þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu 1912, kom félagið sér upp keppnisbúningum. Það voru blá- og hvítröndóttar skyrtur og hvítar buxur. Þessir búningar lágu síðan lítið notaðir um nokkurra ára skeið þar sem lítið fór fyrir starfi félagsins eftir Reykjavíkurförina. Íþróttafélagið Þór var stofnað árið 1913 og árið 1915 fór stjórn Þórs þess á leit við KV að Þór fengi að nota búningana í keppni við lið ofan af landi. Það var auðsótt mál, enda lá starf KV þá nær algerlega niðri. Síðan þá voru bláröndóttu skyrturnar félagsbúningur Þórs. KV hafði legið í dvala eins og áður sagði en var endurreist á ný árið 1916, mestmegnis af gömlum félögum KV og félögum Þórs sem hafði verið vikið úr félaginu fyrir brot á bindindisreglum félagsins. Þá stóð KV frammi fyrir því að þurfa að verða sér úti um nýja búninga, því að sjálfsögðu lét Þór ekki félagsbúning sinn af hendi.

Úr varð að félagið fékk nýja búninga, grænar peysur og svartar buxur, sem varð hinn nýi félagsbúningur KV. En dýrðin stóð ekki lengi. Árið 1921 kom upp ósætti í KV, vegna stjórnarkjörs og fleira, sem varð til þess að flestir af yngri félagsmönnum klufu sig út úr KV og stofnuðu nýtt félag, Knattspyrnufélagið Tý. Þetta þýddi endalok KV sem sjálfstæðs félags og var samþykkt að félagsbúningurinn skyldi fylgja nýja félaginu. Síðan léku liðsmenn Týs ævinlega í grænum skyrtum. Búningar beggja félaganna Þórs og Týs var því arfleið frá forvera þeirra. Forsvarsmenn beggja félaganna héldu nafni KV á lofti um margra ára skeið, með því að keppa ávallt undir nafni KV þegar um landskeppni var að ræða og félögin mættu sameinuð til keppni. Í knattspyrnunni skiptust félögin þá á um að keppa í bláröndóttum eða grænum búningum en í frjálsum íþróttum var nær ævinlega keppt í hvítum búningum og nafn KV letrað á bolinn.[11] Við stofnun ÍBV-Héraðssambands árið 1945 sem arftaka KV og nýs sameiningartákns félaganna úr Vestmannaeyjum varð hvíti liturinn fyrir valinu. Hann hafði einnig verið notaður af félögunum sameiginlega í frjálsum íþróttum undir merkjum KV.

Saga íþróttagreina innan ÍBV-Héraðssambands

breyta

Nokkur aðildarfélög eru að ÍBV-Héraðssambandi og hefur þeim ýmist fjölgað eða fækkað eftir virkni og ástundun. Þau félög sem virk eru í dag eru ÍBV-Íþróttafélag, Körfuknattleiksfélag ÍBV, Sundfélag ÍBV, Frjálsíþróttafélag ÍBV, Golfklúbbur Vestmannaeyja, Fimleikafélagið Rán, Badmintonfélag Vestmannaeyja, Íþróttafélagið Ægir og Knattspyrnufélagið Framherjar Smástund.[12] Hvert aðildarfélag leggur aðeins stund á eina íþróttagrein, að ÍBV-Íþróttafélagi undanskyldu. Nokkur aðildarfélög hafa lagt upp laupana eða liggja hugsanlega í dvala. Þar má nefna; Hokkífélagið Jakarnir, Vélhjólaíþróttafélag Vestmannaeyja og Hnefaleikafélag Vestmannaeyja.

Íþróttavellir í Eyjum

breyta

Margir íþróttavellir hafa verið í Eyjum gegnum tíðina og eru enn talsvert margir.

 
Hásteinsvöllur á öðrum eða þriðja áratug 20. aldar
 
Botn Friðarhafnar

Hásteinsvöllur

breyta

Hásteinsvöllur er aðalleikvangur Eyjanna og heimavöllur ÍBV. Sögur af vellinum ná aftur til ársins 1912, en á þeim tíma var hann varla meira en lítt ruddir móar. Völlurinn var endurbættur árið 1922 en þótti aldrei boðlegur sem keppnisvöllur í knattspyrnu né fyrir aðrar íþróttagreinar. Merk tímamót urðu 1960 er Hásteinsvöllurinn var sléttaður og stækkaður í 100x66 metra og sáð í hann grasfræjum. Hann var síðan tekinn í notkun að nýju árið 1963 og hefur verið aðalleikvangur Eyjanna síðan.

Botn Friðarhafnar

breyta

Á kreppuárunum, á miðjum fjórða áratugi þessarar aldar, var gerður íþróttavöllur úr sandflötunum vestan við innri höfnina í Vestmannaeyjum. Hann var unninn í atvinnubótavinnu en var aðeins notaður í sjö eða átta ár því seinna varð hann að víkja fyrir stækkun hafnarinnar. Þá misstu margir Eyjabúar þar kálgarða sína, sem þeir höfðu ræktað um árabil. Í dag má þar finna Friðarhöfn og Friðarhafnarbryggju.

Helgafellsvöllur

breyta

Í einni svipan breytti eldgosið á Heimaey 1973 æðaslætti mannlífsins í Eyjum og rás viðburða tók óvænta stefnu. Nýir straumar léku um bæjarlífið á næstu árum af efnislegum sem óefnislegum toga, sem enginn sá fyrir. Meðal annars varð mjög óvænt til nýr grasvöllur við rætur Helgafells, þegar hlíðar fjallsins voru hreinsaðar af vikri. Árið 1973 var því ákveðið að hlífa Hásteinsvellinum vegna vikurs í grassverðinum.

Í stað þess að flytja vikurinn á brott var honum einfaldlega rutt niður á láglendið og sléttað úr honum. Myndaðist á þann hátt mikil flatneskja, sem síðar var tyrfð, og þar með var til orðinn stór grasvöllur, Helgafellsvöllurinn.

Þórsvöllur

breyta

Þórsvöllurinn stendur við Þórsheimilið, stærð hans er rúmleg stærð á keppnisvelli. Hann er helst notaður á Shellmótinu og Pæjumótinu, en þá er vellinum skipt í marga vallarfleti.

Týsvöllur

breyta

Týsvöllurinn er austanmegin við Hásteinsvöll, þar fara flestar æfingar yngriflokka fram á sumrin og líkt og Þórsvöllurinn þá er hann einnig notaður á Shell- og Pæjumótum.
Túnið var áður kennt við sauðfjárbóndann Stebba á Sléttabóli. Við framkvæmdir vallarins sumarið 1987 þurfti að beita stórvirkum vinnuvélum og sprengiefnum til þess að ryðja burt hraungrýti og síðan var slétt úr moldinni. Var að lokum lagt torf yfir síðla sumars 1987 og völlurinn settur á vetur. Völlurinn var vígður sumarið eftir, árið 1988

Íþróttamannvirki í Eyjum

breyta
 
Gamli-salurinn eins og hann lítur út í dag
 
Æfing í Eimskipshöllinni

Gamli-salurinn

breyta

Gamli-salurinn er keppnissalur handknattleiksdeildar ÍBV Íþróttafélags og körfuknattleiksfélags ÍBV. Salurinn er parketlagður og í honum er aðstaða fyrir handbolta, körfubolta, blak, fimleika og badminton. Framkvæmdir við salinn hófust 1975 og voru hluti af uppbyggingarstarfinu eftir Heimaeyjagosið 1973. Framkvæmdir gengu hratt fyrir sig og var salurinn vígður árið 1976.

Íþróttasalur Þórs

breyta

Við byggingu félagsheimilis Þórs árið 1987 kom í ljós að um 150 fermetra rými yrði undir húsinu með þriggja hæða lofthæð og fannst þá flestum upplagt að nýta þetta rými undir íþróttasal. Íþróttasalurinn var hugsaður fyrir iðkun knattspyrnu og handknattleiks ásamt skalltennis, körfubolta, blaks, badminton o.fl. Íþróttasalurinn sem og félagsheimilið var vígt 28. febrúar 1988.[13]

Íþróttasalur Týs

breyta

Ákveðið var á aðalfundi Týs, 27. janúar 1990, að reisa íþróttasal við vesturenda nýja félagsheimilisins á félagssvæði Týs undir Fiskhellum og taka hann í notkun á afmælisárinu 1991. Hófst jarðvegsvinna við bygginguna í mars 1990, uppsláttur í júlí og síðan var unnið sleitulaust við húsið fram á næsta ár. Tókst að ljúka verkinu á tilsettum tíma. Á 70 ára afmælisdegi Týs, 1. maí 1991, flykktust Týsfélagar inn á félagssvæði Týs til þess að vera viðstaddir, vígslu nýs íþróttasalar. Salurinn er 15x30 metrar að stærð og því löglegur sem körfuknattleikskeppnisvöllur.[14]

Nýi-salurinn

breyta

Nýi-salurinn er 2.700 fm íþróttasalur sem hægt er að skipta niður í tvo handboltavelli eða tvo körfuboltavelli.[15] Áhorfendarými er í salnum fyrir 800 – 1000 manns, og er gólfdúkur á öllum salnum. Í horni hans er gryfja fyrir fimleika. Framkvæmdir hófust 17. júní árið 2000 með skóflustungu Guðjón Hjörleifsson þáverandi bæjarstjóra. Þann 28. desember 2001 var húsið síðan tekið í notkun og heildarflatarmál Íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum þá orðið 6.400 fm. Heildarkostnaður framkvæmdarinnar við salinn var áætluð um 300 milljónir króna og var það Vestmannaeyjabær sem stóð að framkvæmd salsins.[16]

Eimskipshöllin

breyta

Eimskipshöllin er knattspyrnuhús sem er hálfur knattspyrnuvöllur að stærð en húsið er stækkanlegt í heilan völl. Í húsinu er 50 sinnum 60 metra knattspyrnuvöllur með góðu gervigrasi. Þá eru brautir fyrir frjálsar íþróttir lagðar tartanefni. Framkvæmdir við húsið hófust í ársbyrjun 2009 og var húsið vígt 8. janúar 2011.[17]

Stuðningsmenn

breyta
 
Línuritið sýnir meðalfjölda áhorfenda á Hásteinsvelli 1990-2012

Íþróttabandalag Vestmannaeyja hefur öfluga stuðningsmenn. Þrátt fyrir fámenni byggðarlagsins má yfirleitt reikna með 500 manns hið minnsta á leiki karlaliðs ÍBV í knattspyrnu á Hásteinsvöllinn, er það rúmlega 10% af byggðinni. Tímabilið 2010 mættu 882 að meðaltali á leiki liðsins á Hásteinsvöll. Þótt töluverð ferðalög séu á útivelli liðsins, þá á ÍBV eitt af öflugustu stuðningsliðum liða á útivelli og má því gera ráð fyrir að brottfluttir Vestmannaeyingar á höfuðborgarsvæðinu sem og aðrir stuðningsmenn liðsins séu í meirihluta þess hóps sem mætir á útileikina. Heimamenn eru þó ekki síður duglegir að gera sér ferð í bæinn til að fylgja liðinu sínu. Knattspyrna er ekki eina áhugamál stuðningsmanna ÍBV, því Gamli salurinn heimavöllur ÍBV í handknattleik er svo gott sem fullur á hverjum heimaleik liðsins og ekki óvanalegt að þar séu á milli 200-300 stuðningsmenn jafnt sem á leikjum karla og kvenna í Olís deildinni.

Áhorfendamet

breyta

Stuðningsmenn ÍBV hafa verið iðnir við að fjölmenna á leiki liðsins á fastalandinu. Eru þeir sekir um að eiga núverandi áhorfendamet á eftirfarandi völlum í knattspyrnu karla:

Þekktir stuðningsmenn

breyta

Meðal þekktra stuðningsmanna ÍBV; Páll Magnússon fv. útvarpsstjóri, Ásgeir Sigurvinsson, Hermann Hreiðarsson, Elliði Vignisson, Árni Johnsen, Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari, Geir Jón Þórisson fv. yfirlögregluþjónn Reykjavíkur, Birkir Kristinsson athafnarmaður og fv. landsliðsmarkvörður, Þorsteinn Hallgrímsson golfari, Þorsteinn Gunnarsson fv. íþróttafréttamaður, Sighvatur Jónsson útvarpsmaður, Sveinn Waage skemmtikraftur og Elva Ósk Ólafsdóttir leikkona.

Formenn Íþróttabandalags Vestmannaeyja (Héraðssambands)

breyta

Titlar félagsins

breyta

Karlaflokkur

breyta

Kvennaflokkur

breyta

Karlaflokkur

breyta

Kvennaflokkur

breyta

Karlaflokkur

breyta

Íþróttamenn úr Eyjum

breyta

Vestmannaeyjar með ÍBV í farandbroddi hafa alið af sér marga afbragðsgóða íþróttamenn, eins og sjá má í lista yfir íþróttamenn úr Eyjum.

ÍBV Íþróttamaður ársins[19]

breyta

Íþróttamaður æskunnar

breyta

Ársþing Íþróttabandalags Vestmannaeyja, haldið 8. maí 2003, samþykkti að taka upp sérstaka viðurkenningu, og sá er hana hlyti, fengi nafnbótina Íþróttamaður æskunnar. Skal sama valnefnd og sér um val á Íþróttamanni Vestmannaeyja, sjá um þá viðurkenningu. Skal miða aldur Íþróttamanns æskunnar við 14 ára til og með 18 ára.

Tilvísanir og heimildir

breyta
  1. Saga knattspyrnufélagsins Týs bls.9
  2. https://timarit.is/page/7295273?iabr=on#page/n6/mode/2up
  3. Haraldur Guðnason: Afmælisrit Íþróttafélagsins Þór 1913-1963. 50 ára afmælisrit Þórs. 1963
  4. Saga knattspyrnufélagsins Týs bls.13
  5. Víðir, 33. Tölublað (04.07.1931), Blaðsíða 3
  6. https://timarit.is/page/7295273?iabr=on#page/n6/mode/2up
  7. ÍBV íþróttafélag og Sparisjóður Vestmannaeyja semja[óvirkur tengill]. ÍBV.
  8. Unnið að stofnun KH-ÍBV í Eyjum grunnur að stórveldi Ákvarðanir um sameiningu. Morgunblaðið.
  9. Páll Scheving nýr verksmiðjustjóri ráðinn í FES Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine. Eyjafréttir.
  10. Bibbi ráðinn framkvæmdastjóri ÍBV-íþróttafélags[óvirkur tengill]. ÍBV.
  11. Sigurgeir Jónsson: Íþróttafélagið Þór í Vestmannaeyjum 100 ára. 100 ára afmælisrit Íþróttafélagsins Þórs. 2013. bls 30
  12. Aðildarfélög Íþróttabandalags Vestmannaeyja. ÍBV.
  13. Sigurgeir Jónsson: Íþróttafélagið Þór í Vestmannaeyjum 100 ára. 100 ára afmælisrit Íþróttafélagsins Þórs. 2013
  14. Vestmannaeyjar: Knattspyrnufélagið Týr 70 ára Nýr íþróttasalur við félagsheimili. Morgunblaðið.
  15. Kostnaður um 300 milljónir. Morgunblaðið.
  16. Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja Geymt 30 október 2013 í Wayback Machine. Vestmannaeyjabær.
  17. Nýtt fjölnota íþróttahús vígt. Morgunblaðið.
  18. Lið og uppgjör 16.umferðar. Fótbolti.net.
  19. Íþróttamaður Vestmannaeyja. ÍBV.
  • Þór Í. Vilhjálmsson (1983). Íþróttafélagið Þór 70 ára. ÞÓR.
  • Hermann Kr Jónsson (ábyrgðarmaður, margir höfundar) (1995). Íþróttabandalag Vestmannaeyja 50 ára. ÍBV.
  • Birgir Þór Baldvinsson/Rútur Snorrason (2006). Saga Knattspyrnufélagsins Týs. Útgáfustjórn Knattspyrnufélagsins Týs. ISBN 9979701951.
  • Sigurgeir Jónsson (2013). Íþróttafélagið Þór Vestmannaeyjum í 100 ár. Íþróttafélagið Þór, Vestmannaeyjum.

Tenglar

breyta