Titanic (kvikmynd frá 1997)

(Endurbeint frá Hjarta Hafsins)

Titanic er bandarísk kvikmynd frá árinu 1997 sem James Cameron leikstýrði, framleiddi og skrifaði. Myndin gerist um borð í hinu fræga skipi RMS Titanic sem sökk í jómfrúarsiglingu sinni. Myndin fjallar um unga stúlku og ungan pilt sem hittast um borð og verða ástfangin. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu sem aftur er byggð á raunverulegum atburðum. Leonardo DiCaprio og Kate Winslet fara með aðalhlutverkin sem Jack Dawson og Rose DeWitt Bukater, ástfangið par hvort úr sinni stéttinni. Gloria Stuart fer með hlutverk Rose aldraðrar og er sögumaður kvikmyndarinnar.

Titanic
Upprunalegt auglýsingaplakat myndarinnar (vinstri) og auglýsingaplakat fyrir endurútgáfu myndarinnar árið 2012 (hægri)
LeikstjóriJames Cameron
HandritshöfundurJames Cameron
FramleiðandiJames Cameron

Jon Landau

Rae Sanchini
LeikararLeonardo DiCaprio

Kate Winslet
Billy Zane
Kathy Bates
Frances Fisher
Gloria Stuart

Bill Paxton
KvikmyndagerðRussell Carpenter
KlippingConrad Buff
James Cameron
Richard A. Harris
TónlistJames Horner
FrumsýningFáni Bandaríkjana 19. desember 1997
Fáni Íslands 1. janúar 1998
Lengd194 mín.
Tungumálenska
AldurstakmarkBönnuð innan 12
Ráðstöfunarfé$200.000.000[1]
Heildartekjur$1.843.201.268

Framleiðsla myndarinnar hófst árið 1995 þegar Cameron fór að flaki skipsins og tók upp atriði á sjávarbotninum. Atriðin sem að gerast í nútímanum voru tekin upp um borð í rússneska rannsóknarskipinu Akademik Mstislav Keldysh sem var einnig bækistöð Camerons þegar hann tók upp atriðin við Titanic. Skipið var seinna endursmíðað í Mexíkó og mörg líkön voru smíðuð til þess að endurskapa síðustu stundir skipsins. Í myndinni voru notaðar mjög háþróaðar tæknibrellur til þess að bæta við stafrænu fólki, vatni og reyk sem að var allt mjög ný tækni á þeim tíma. Myndin var dýrasta mynd allra tíma þegar hún var framleidd og kostaði rúmar 200 milljónir Bandaríkjadala en myndverin 20th Century Fox og Paramount Pictures reiddu fram fjármagnið.[2][3]

Upphaflega stóð til að frumsýna myndina þann 2. júní árið 1997 en seinkanir í eftirvinnslu urðu til þess að útgáfunni var frestað til 19. desember.[4] Titanic varð strax mjög vinsæl á meðal áhorfenda og gagnrýnenda. Hún var tilnefnd til fjórtán Óskarsverðlauna og vann ellefu, þar á meðal verðlaunin fyrir „bestu leikstjórn“ og „bestu kvikmynd“.[5] Myndin varð fljótt tekjuhæsta kvikmynd allra tíma enda tók hún inn rúma 1,8 milljarða Bandaríkjadala um allan heim. Hún hélt því sæti þangað til næsta mynd Camerons, Avatar, kom í kvikmyndahús árið 2009.[6][7] Myndin verður endursýnd í kvikmyndahúsum í apríl 2012 eftir að Cameron hefur sett hana í þrívídd.[8]

Söguþráður

breyta

Árið 1996 fer fornleifafræðingurinn Brock Lovett og teymið hans niður að flaki Titanic í leit að hálsmeninu „Le Cœur de la Mer“ („hjarta hafsins“). Þeir trúa því að hálsmenið sé í peningaskápi Caledon Hockleys sem þeir taka upp með sér. Í stað þess að finna hálsmenið finna þeir teikningu af nakinni konu með hálsmenið á sér sem var teiknuð þann 14. apríl 1912, kvöldið sem skipið sökk. Gömul kona að nafni Rose Calvert fréttir af teikningunni og hefur samband við Lovett til þess að láta hann vita að hún sé konan. Hún og barnabarn hennar, Lizzy Calvert, fara til Lovetts á skipið hans. Þegar hún er spurð hvort að hún viti hvar hálsmenið er þá byrjar hún að segja sögu sína um ferð Titanic og lætur þá vita að hún sé í raun Rose DeWitt Bukater, farþegi á fyrsta farrými sem átti að hafa farið niður með skipinu.

Þann 10. apríl árið 1912 fer Rose um borð í skipið í Southampton í Englandi ásamt unnusta sínum Caledon Hockley og móður sinni Ruth DeWitt Bukater. Ruth leggur áherslu á hversu mikilvæg trúlofun þeirra sé vegna þess að hún muni leysa öll peningavandamál þeirra. Rose líður eins og allar ákvarðanir lífs hennar hafi verið teknar og hún ákveður að fyrirfara sér með því að stökkva fyrir borð. Áður en hún stekkur kemur Jack Dawson, flækingur af þriðja farrými, og telur hana af því að stökkva. Þau verða góðir vinir á næstu dögum.

Cal og Ruth banna Rose að hitta Jack. Hún ögrar þeim með því að hitta Jack samt í stafni skipsins og hún ákveður að hún sé ástfangin af honum en ekki Cal. Þau fara síðan í herbergi hennar og hann teiknar hana nakta með menið um hálsinn, en menið var trúlofunargjöf frá Cal til Rose. Eftir á fara þau niður í farmrými skipsins og hafa kynmök. Þau fara síðan upp á framþilfar skipsins þar sem að þau verða vitni að árekstri skipsins við ísjaka og heyra yfirmenn skipsins tala um hversu alvarlegt þetta væri. Þau ákveða þá að fara og vara móður Rose og Cal við.

Cal finnur teikninguna hans Jack í peningaskápnum sínum og til þess að ná hefndum lætur hann aðstoðarmann sinn smeygja hálsmeninu í vasann hans Jacks til þess að láta það líta út eins og hann hefði stolið því. Jack er þá handtekinn og hann er handjárnaður við rör í herbergi öryggisvarðarins. Rose, Cal og Ruth fara þá að björgunarbátunum og Ruth fer um borð en Rose flýr og fer að finna Jack og bjargar honum.

Næst fara þau upp á þilfar skipsins og finna Cal sem sannfærir hana um að fara um borð í björgunarbát og segir að hann sé kominn með samning sem muni hjálpa bæði honum og Jack. Um leið og Rose er komin um borð lætur Cal Jack vita að samningurinn hjálpi aðeins honum. Rose áttar sig á að hún getur ekki farið frá Jack og stekkur aftur yfir á skipið. Cal verður brjálaður og tekur upp skammbyssu sína og hleypur á eftir þeim og reynir að koma þeim fyrir kattarnef. Þegar hann hefur skotið öllum skotum sínum er hann aftur kominn út á þilfar og áttar sig á að skipið á ekki mikinn tíma eftir svo að hann grípur litla stelpu sem að er týnd og kemst um borð í björgunarbát og segir að hann sé það eina sem að hún á að. Þegar Jack og Rose fara aftur upp á þilfarið eru allir björgunarbátarnir farnir og skutur skipsins er að rísa upp í loftið. Þau hlaupa upp á skutinn. Þegar skipið sekkur eru um það bil þúsund manns í ísköldu vatninu að deyja úr kulda, þar á meðal Jack og Rose. Þau finna þiljubrot úr skipinu og Jack hjálpar Rose að komast upp á það en hann kemst ekki upp sjálfur. Stuttu seinna deyr Jack úr ofkælingu áður en að björgunarbátarnir snúa aftur til þess að bjarga þeim sem fóru í sjóinn með skipinu. Aðeins örfáir voru enn á lífi þá og er Rose ein þeirra. Rose er þá tekin um borð í RMS Carpathia sem flytur hana til New York-borgar.

Þegar Rose hefur lokið sögu sinni fer hún alein að afturhluta skips Lovetts, tekur fram hálsmenið og hendir því í sjóinn. Seinna, þegar hún liggur í rúmi sínu, sér áhorfandinn allar myndirnar hennar frá lífi hennar sem sýna að hún lifði lífinu sem að hún vildi í stað þess að vera fyrsta farrýmis-dama. Áhorfandinn sér þá hina ungu Rose ganga um borð og ganga um skipið ásamt öllum sem dóu þegar skipið sökk, þar á meðal Jack.

Leikendur

breyta

Skáldaðar persónur

breyta
  • Leonardo DiCaprio fer með hlutverk Jacks Dawsons. Jack er fátækur listamaður frá Wisconsinfylki í Bandaríkjunum sem hóf að ferðast um heiminn (aðallega í París) eftir að foreldrar hans létust. Hann og vinur hans Fabrizio vinna þriðja farrýmismiða á Titanic í pókerspili. Hann laðast að Rose um leið og hann sér hana og hittir hana svo augliti til auglitis þegar hún ætlar að henda sér aftur af skutnum. Margir leikarar komu til greina í hlutverkið þar á meðal Matthew McConaughey, Chris O'Donnell, Billy Crudup og Stephen Dorff en Cameron fannst flestir af þeim vera of gamlir til þess að leika Jack sem átti aðeins að vera tvítugur.[9] [10] [11] [12] Tom Cruise sýndi einnig áhuga á hlutverkinu en himinhá launakrafa hans var aldrei tekin alvarlega.[13] Mali Flinn, sem sá um val leikara, benti Cameron á DiCaprio sem var þá sjónvarpsstjarna í Bandaríkjunum og vinsæll á meðal unglingsstúlkna.[14] Þegar hann skrifaði handritið vissi Cameron ekki að það hafði í raun og veru verið einn „J. Dawson“ (Joseph Dawson) um borð og fórst með skipinu. Það vildi svo til að Joseph Dawson var á svipuðum aldri og Jack Dawson en hann var fæddur í Dublin á Írlandi árið 1888. Joseph Dawson var grafinn í kirkjugarði í Nova Scotia og síðan að myndin kom út hefur fólk allstaðar að heimsótt gröf hans.[15]
  • Kate Winslet fer með hlutverk Rose DeWitt Bukater. Rose er sautján ára gömul stúlka frá Philadelphiu sem er neydd af móður sinni til þess að giftast hinum þrjátíu ára gamla Caledon Hockley til þess að þær geti haldið stöðu sinni sem efristéttar hefðarkonur. Gwyneth Paltrow, Claire Danes og Gabrielle Answar komu allar til greina í hlutverk Rose þangað til að James Cameron fann Kate.[16] Cameron sagði að Winslet væri nákvæmlega það sem hann hefði verið að leita að og að það væri „eiginleiki í andliti hennar og augum“ og að hann „vissi bara að hún gæti klárað verkið“.[17] Cameron sagði samt í athugasemdum sínum árið 2005 að hann væri ekki viss um hvort það væri of augljóst val að fá Winslet hlutverkið fyrst að hún hafði leikið í svo mörgum myndum sem að gerðust á svipuðum tíma í enskri sögu að hún var þekkt í Hollywood sem „Corset Kate“ („Kjóla Kata“). Kate var svo ákveðin í að fá hlutverkið að hún notaði alls konar aðferðir til þess að sýna Cameron hversu mikið hana langaði að leika Rose. Einn daginn lét hún senda rauða rós til hans áritað „Frá þinni Rose“. „Þú skilur ekki,“ sagði hún einu sinni við hann þegar að hún hringdi í hann í bílinn hans, „Ég er Rose! Ég skil ekki af hverju þú er enn þá að taka leikara í prufu.“ Að lokum fékk hún hlutverkið. [18]
  • Billy Zane leikur Caledon Nathan "Cal" Hockley. Cal er hinn þrítugi heitmaður Rose og er sýndur sem svarti sauðurinn í myndinni. Hann er hrokafullur og snobbaður maður, erfingi að miklum auði í Pittsburgh. Hann er niðurlægður og verður afbrýðisamur og grimmur þegar hann kemst að sambandi Rose og Jacks og verður þeim næstum því að bana. Hann fyrirfer sér síðan eftir að hann missir allar eignir sínar í kreppunni árið 1929. Matthew McConaughey var boðið hlutverk Cals eftir að hann hafnaði hlutverki Jacks en Cameron fannst Billy Zane passa betur í hlutverkið.[19]
  • Frances Fisher leikur Ruth DeWitt Bukater, móður Rose. Hún lætur dóttur sína trúlofast Cal til þess að þær geti haldið stöðu sinni sem efristéttar hefðarkonur. Ruth verður hrædd þegar að Rose hittir Jack og hún bannar dóttur sinni að hitta hann.
  • Gloria Stuart leikur hina 101 árs gömlu Rose Dawson Calvert. Rose segir söguna í nútímanum og nefnir Jack í fyrsta skiptið síðan að skipið sökk. Cameron þekkti ekki Stuart áður en að forstjóri leikaravals myndarinnar fann hana af því að hún hafði ekki leikið neitt í yfir tuttugu ár og öll aðalhlutverk hennar höfðu verið á fjórða og fimmta áratug tuttugustu aldar. Stuart, sem að var 86 á þeim tíma, þurfti að láta setja á sig mikið af öldrunar farða til þess að láta það líta út eins og hún væri 101 árs. Stuart sagði í viðtali að hún tryði því að Rose deyi í lok kvikmyndarinnar.[20]
  • David Warner leikur Spicer Lovejoy. Lovejoy er fyrrverandi lögreglumaður sem að vinnur sem lífvörður Cals. Hann grunar að eitthvað sé í gangi á milli Rose og Jack og eltir þau stöðugt.
  • Danny Nucci leikur Fabrizio De Rossi. Fabrizio er Ítali og besti vinur Jacks. Hann vinnur miða á Titanic í pókerspili ásamt Jack.
  • Bill Paxton leikur Brock Lovett. Brock er fornleifafræðingur í fjársjóðsleit að „Le Coeur de la Mer“, hálsmenið sem að hann heldur að hafi farið niður með Titanic. Hann er búinn að vera að leita að því í þrjú ár og hefur farið í marga leiðangra niður til skipsins en aldrei fundið neitt. Lovett játar í enda myndarinnar að þó að hann hafi eytt öllum þessum tíma í að hugsa um Titanic þá hafði hann aldrei skilið harmleikinn í því þangað til að hann heyrði sögu Rosar.
  • Suzy Amis leikur Lizzy Calvert. Lizzy er barnabarn Rose og býr með henni og fer með henni um borð í skip Lovetts.

Sögulegar persónur

breyta
  • Kathy Bates fer með hlutverk Margaret „Molly“ Brown. Hún er farþegi á fyrsta farrými sem að er litið niður á af hinum hefðardömunum á skipinu af því að hún var ekki af ríkum ættum en varð rík á eigin spýtur. Hún er vinaleg Jack og lánar honum jakkaföt (sem að hún hafði keypt fyrir son sinn) þegar að honum er boðið að borða kvöldverð í fyrsta farrýmis borðsalnum. Þó að Brown hafi verið til í raun og veru ákvað Cameron ekki að lýsa hetjudáð hennar eins líflega og frægt er. Molly Brown var seinna gefin nafnið „Hin ósökkvanlega Molly Brown“ af sagnfræðingum af því að hún, ásamt öðrum konum, tóku yfir björgunarbát númer sex frá varðbátsstjóranum Robert Hichens.[21]
  • Victor Garber leikur Thomas Andrews, byggingameistara skipsins. Andrews er sýndur sem góður og hlýr maður. Hann er mikið hrósaður með afrek sitt að hafa byggt stærsta skip í heimi en tekur því með hógværð og leitar stanslaust að hlutum á skipinu sem hægt er að bæta. Eftir að skipið rekst á ísjakann fer hann inn í fyrsta farrýmis setustofuna og verður eftir á meðan að allir hinir leita að björgunarbátum. Það er óvíst hvernig Andrews dó í raun og veru.
  • Bernard Hill leikur kaftein skipsins Edward John Smith. Smith ætlaði að láta ferð Titanics vera sína síðustu og leggjast í helgan stein eftirá. Þegar að Ismay stingur upp á því að hann hækki hraða skipsins þá gerir hann það í von um að nafn hans komist í blöðin. Óvíst er hvort að Smith sökk með skipinu eða fraus til dauða.

Hjarta hafsins

breyta
 
Hjarta hafsins

Hjarta hafsins (franska: „Le Cœur de la Mer“) er heiti yfir bláa demantinn í kvikmyndinni. Demanturinn er uppspuni handritshöfundar, en er byggður á fræga bláa Hope-demantinum sem geymdur er í Smithsonian-safninu. Einnig er talið að útlit demantsins sé byggt á svipuðu safírmeni sem Titanic-farþeginn Kate Florence Phillips átti. Hún fékk það að gjöf frá nýbökuðum eiginmanni sínur, Samuel Morley, á skipinu. Þau voru að flýja til Bandaríkjanna í leit að betra lífi, en Morley fórst með skipinu. Saga þeirra er talin hafa veitt James Cameron innblástur þegar hann skrifaði handrit myndarinnar. Dóttir hjónanna, Ellen Walker, var getin um borð í skipsinu.[22] Í kvikmyndinni Titanic frá árinu 1943 kemur blár demantur einnig við sögu í ástarsambandi þar sem honum er stolið.

Undirbúningur

breyta

Handritið

breyta

Áður en Cameron hafði ákveðið að láta til skarar skríða og gera mynd um Titanic, hafði hann lengi verið heltekinn af skipbrotum og kallaði RMS TitanicEverestfjall skipbrota.“ Þegar Cameron frétti að fólk hafði farið niður að flaki Titanic og tekið upp IMAX-kvikmynd ákvað hann að búa til Hollywood-kvikmynd til þess að borga fyrir ferð niður að skipinu og gera hið sama.[23] [24] „Þegar ég ákvað að gera Titanic var ég að hugsa: Ég get búið til kvikmyndir þangað til að ég verð áttatíu ára en ég get ekki ferðast niður á hafsbotn þegar ég verð áttræður.“[25]

Cameron skrifaði stuttan útdrátt að handriti fyrir Titanic [26] og fór með það til 20th Century Fox og lýsti því sem „Rómeó og Júlía um borð Titanics.“[27] [28] Það var löng þögn eftir að Cameron kláraði að útskýra myndina og sagði „Og vinir mínir, þetta er mynd sem að gerist í gamla daga, þetta mun kosta ykkur rúmar $150.000.000 og það verður ekki framhald.“ Þeir spurðu þá hvort að það væri einhver möguleiki á því að koma einhverjum vélmennum í þessa þriggja tíma rómantísku hörmungarmynd en Cameron sagði nei.[29] Starfsmenn Fox voru óvissir hvort að þeir ættu að styrkja þessa mynd en í von um að gera samning við Cameron fyrir fleiri hasamyndir leyfðu þeir honum að gera myndina.[30][31] [32]

Cameron sannfærði Fox til þess að fara niður að skipinu og taka upp efni þar og taka myndir af skipinu sjálfu. [33] Á tveggja ára tímabili fór hann niður að skipinu nokkrum sinnum. Cameron sagði að þau myndu þurfa að fara niður að skipinu til þess að kynna myndina og láta Lovett fara og leita að demantinum. Þannig gætu þau líka séð hvernig það hefði litið út um borð í skipinu með því að endursmíða skipið frá nýju myndunum. Starfsmenn myndarinnar fór niður á botn Atlantshafsins ellefu sinnum árið 1995 og eyddi meiri tíma á skipinu heldur en farþegar Titanic höfðu gert.

Eftir að tökum lauk á hafsbotninum, byrjaði Cameron að skrifa handritið fyrir myndina. Hann vildi heiðra minningu þeirra sem að fóru niður með skipinu og eyddi sex mánuðum í leit að heimildum um farþega, áhöfnina og skipið. Hann bjó meira segja til mjög nákvæman tímaás fyrir sögu skipsins. [34] Cameron sagði í viðtali að honum fannst saga skipsins vera eins og „frábær skáldsaga sem að gerðist í raun og veru“ og að tilgangur myndarinnar var að leyfa áhorfendum að upplifa stórslysið. Fjársjóðsleitarinn Brock Lovett átti síðan að tákna þá sem að sjá aldrei mannlegu hliðina við Titanic. Cameron vildi síðan að endirinn yrði þvoglulegur þannig að fólk gæti túlkað það á sinn eiginn máta. [35] [36]

Hönnun

breyta

Harland and Wolff, fyrirtækið sem að byggði skipið, leyfðu framleiðendum myndarinnar að fara niður í skráageymslu þeirra og skoða gamlar teikningar af skipinu og fundu þeir þá teikningar sem að höfðu áður verið taldar glataðar. Framleiðsluhönnuður myndarinnar, Peter Lamont, leitaði að minjum frá byrjun tuttugustu aldar en hann gat ekki notað neinn þeirra sem að hann fann út af því að skipið hafði verið svo nýtt þegar að það sigldi og þess vegna þurfti allt að vera glænýtt.[37] Fox öðlaðist 40 ekra af sjávarbakka, sunnan við Rosarito Beach í Mexíkó og byggingarvinna á skipinu hófst þann 31. maí 1996. Vatnstankur sem tók rúmlega sex milljón lítra af vatni var byggður og notaður sem útsýni fyrir skipið. Skipslíkanið var jafn stórt og skipið sjálft og byggt í réttum stærðarhlutföllum en Lamont ákvað að sleppa því að byggja um það bil 27 metra af 269 metra löngu skipinu. Undir skipinu var bretti sem hægt var að halla 30 gráður upp í loftið og gat því látið líta út fyrir að skipið væri í raun og veru að sökkva. Skutur skipsins var síðan einnig byggður á palli sem hægt var að halla 90 gráður sem að var notað í lokaatriðum myndarinnar þegar að skipið sekkur. Af varúðarástæðum voru allir hlutirnir á skutnum búnir til úr gúmmíi svo að áhættuleikararnir gætu runnið niður það án þess að meiða sig.

Herbergin innan í skipinu voru byggð nákvæmlega eins og þau voru í skipinu, samkvæmt ljósmyndum og teikningum frá byggingarmeistörunum Harland and Wolff. Herbergin, gólfteppin, húsgögnin, skreytingarnar, hnífapörin og leirtauið var allt búið til nákvæmlega eins og það var á skipinu. Cameron réð einnig tvo Titanic-sagnfræðinga, Don Lynch og Ken Marschall, til þess að passa að allt hafði verið gert samviskusamlega.

Tökur

breyta

Tökur á nútímaatriðunum hófust í júlí 1996 um borð rússneska rannsóknaskipsins Akademik Mstislav Keldysh. Á meðan að tökum stóð á eitraði einn starfsmaður fyrir allri áhöfninni með því að setja okskynjunarlyf í súpuna sem að James Cameron og margir aðrið borðuðu það kvöld og meria en 50 manns þurftu að leggjast inn á spítala. Cameron gubbaði upp matnum áður en að lyfin náðu að segja til sín. Lewis Abernathy sagði að fólk hefði bara farið að leggjast á gólfið og fá ofsjónir. Það kom aldrei í ljós hver hafði framkvæmt glæpinn. [38][39] Í nóvember 1996 hófust tökur á atriðunum sem að gerðust árið 1912 í Baja, Mexíkó. Þann 15. nóvember voru atriðin í Southampton tekin upp. [40] Cameron réð siðaregluþjálfa í vinnu til þess að kenna leikendum myndarinnar hvernig fólk bar sig og hegðaði sér í byrjun 20. aldar.

James Cameron var sá sem að teiknaði nektarmyndina af Rose sem að Jack átti að teikna í myndinni. Atriðið þar sem að Jack teiknar myndina var það fyrsta sem að Leonardo DiCaprio og Kate Winslet léku í saman. Cameron sagði að það hafði bara gerst af tilviljun að atriðið hafi verið tekið upp svona snemma í kvikmyndunarferlinum, „Þau voru bæði svo taugaveikluð. Þau höfðu æft atriðið en aldrei fyrir framan myndavélina. Við vorum bara að leita að atriðum til þess að kvikmynda út af því að stóra upptökuverið fyrir loka atriðin var ekki ennþá tilbúið.“

 
Teikningin af Rose sem að Jack teiknaði í myndinni

Tökurnar á myndinni voru mjög erfiðar og þurfti Cameron að ráða til sín helling af sérfræðingum til þess að passa að leikararnir væru aldrei í lífshættu. Kate Winslet sagði í viðtali að hún hefði oft verið óttaslegin og haldið að hún myndi drukkna í stóra vatnstankinum sem að skipið var látið sökkva ofan í. [41] Vinur Camerons, Bill Paxton, sem að lék Lovett í nútímaatriðunum hafði unnið með honum í fyrri myndum hans og sagði að „Þetta var stór hópur að fólki sem að vann að myndinni. Jim er bara ekki einn af þeim mönnum sem að eyðir tíma í það að kynnast öllum og verða vinur þeirra.“ Starfsmenn myndarinnar sögðu að á meðan að tökum stóð væri til einn góður James Cameron og einn illur Cameron. [42]

Upprunalega átti það bara að taka 138 daga að kvikmynda Titanic en seinkarnir, veikindi og bilanir töfðu tökur og tók það 22 aukadaga. Mikið af leikurunum fengu kvef, flensu og sýkingar eftir að eyða mörgum klukkustundum í köldu vatni. Kate Winslet var ein af þeim sem að fengu nýrnasýkingu og sagði hún að hún myndi aldrei aftur vinna með James Cameron nema að hún „nema að hún fengi helling af peningum.“ Eftir að þrír áhættuleikarar brutu í sér bein ákvað Screen Actors Guild að hefja rannsókn og komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert hættulegt við aðstæður á upptökuverum myndarinnar. [43] Leonardo DiCaprio sagði að tökurnar hefðu verið erfiðar sérstaklega út af því að hann væri svo mikil kuldaskræfa en að honum hafði aldrei liðið eins og líf hans væri í hættu út af því að það voru svo margir sérfræðingar á staðnum til þess að passa að allt færi fram heilu og höldnu. [44]

Myndin átti upprunalega að kosta yfir 100 milljónir bandaríkjadala en á meðan að tökum stóð fór ráðstöfunarfé myndarinnar að hækka og varð að lokum um það bil $200.000.000. Starfsmenn 20th Century Fox, eitt af tveimur myndverum sem að reiddu fram fjármagn myndarinnar, fylltust af skelfingu og vildu að Cameron myndi fjarlægja klukkutíma af myndinni, sem á þeim tíma var yfir þrjár klukkustundir í lengd. Þeir sögðu að ef að myndin væri svona löng þá væri ekki hægt að sýna hana nógu oft til þess að myndin gæti grætt einhvern pening. Cameron neitaði að leyfa Fox að klippa myndina og sagði, „Ef þú vilt klippa myndina mína? Þá verðurðu að reka mig! Ef þú vilt reka mig? Þá verðurðu að drepa mig!“ [45] Starfsmenn Fox ákváðu að hefja ekki framleiðslu á ný út af því að það myndi kosta of mikið, en þeir neituðu líka að taka á móti tilboði Camerons að gefa þeim hluta hans af ágóða myndarinnar út af því að þeir héldu að myndin myndi hvors sem er aldrei skila hagnaði. [46]

Eftirvinnsla

breyta

Tæknibrellur

breyta

Cameron vildi að atriðin í myndinni væru eins og raunveruleg og hægt væri og réð fyrirtækið Digital Domain til þess að vinna að tæknibrellunum með sér. Mikið af fyrri myndum um RMS Titanic sýndu vatn í „slow motion“, sem að Cameron fannst ekki líta út fyrir að vera sannfærandi. [47] Hann hafði tekið upp endurgerð hans af skipinu eins og að hann „væri að taka upp auglýsingu fyrir skipið.“ [48] Eftirá, bætti Cameron við stafrænu vatni og reyk til þess að gera það raunverulegra. Síðan tóku þeir upp fólk fyrir framan blátjald og bættu þeim við á skipið í gegnum tölvu. Fyrir atriðið þar sem að skipið brotnar í tvennt var 20 metra langt líkan byggt af skipinu og látið klofna. [49] Flest herbergin á skipinu voru endurbyggð fyrir utan fyrsta farrýmis setustofuna. Til þess að spara peninga lét Cameron aðeins byggja lítið líkan af setustofunni og leikararnir léku atriðið út fyrir framan blátjald. [50] Starfsmenn myndarinnar fundu út að vélarnar á skipinu SS Jeremiah O'Brien voru af sömu gerð og þær í RMS Titanic en þær í Jeremiah voru meira en helmingi minni en þær í Titanic. Til þess að láta það líta út eins og vélarrýmið væri í réttri stærð voru smækkuð líkön af pöllum stillt upp í rýminu. Síðan voru vélarmenn settir inn í herbergið með blátjaldi. [51]

 
Titanic var fyrsta kvikmyndin um skipið til þess að sýna skipið klofna í tvennt.

Risastór 19.000.000 lítra vatnstankur var notaður til þess að sökkva skipinu og voru herbergin svo lækkuð ofan í tankinn. Til þess að sökkva stóra stiganum voru 340.000 lítrar af vatni sturtaðir ofan á sviðsmyndina á meðan að hún var lækkuð ofan í tankinn. Allt í einu rifnaði stiginn á meðan að vatnið helltist yfir hann og sögumönnum myndarinnar fannst að það væri líklegt að hið sama hefði gerst á skipinu sjálfu en stiginn komst ekki af þegar að það sökk. Atriðin sem að gerðust eftir að skipið sökk voru tekin upp í grunnum vatnstanki í myndveri og voru leikararnir málaðir með púðri til þess að það liti út eins og þau væru dauð.[52]

Hápunktur myndarinnar, þegar að skutur skipsins fer ofan í vatnið, var tekinn upp á palli sem að gat hallað 90 gráður upp í loftið, og voru 150 aukaleikarar og 100 áhættuleikarar í atriðinu. Cameron gagnrýnendi hvernig flestallar kvikmyndir um RMS Titanic sýndu skipið sökkva hljóðlega og með reisn. Honum langaði að „sýna hversu skelfilegar síðustu mínúturnar voru á skipinu.“ Í atriðinu þurfti fólk að vera hoppandi af skipinu en út af því að skipið var svo hátt upp í loftinu var það of hættulegt að láta áhættuleikara hoppa í alvörunni. Í staðinn voru leikarar teknir upp fyrir framan blátjald og síðan settir inn í myndina.

Klipping

breyta

Það voru nokkrar sögulegar staðreyndir sem Cameron þurfti að klippa út úr myndinni. Það mikilvægasta var það um skipið SS Californian sem var í nágreninu við Titanic en hafði slökkt á útvarpinu sínu og heyrði ekki neyðarkall skipsins.

Á fyrsta klipparafundi myndarinnar, breytti Cameron upprunalega endanum sem fjallaði meira um Brock Lovett heldur um Rose og Jack. Í upprunalega endanum sjá Brock og Lizzy hina öldruðu Rose við skut skipsins og halda að hún ætli að hoppa. Þau hlaupa að henni og Rose sýnir þá að hún sé með hálsmenið, „Le Coeur de la Mer“, og það liggi ekki niðri á hafsbotni. Hún leyfir Lovett að snerta það en handir því síðan í hafið svo að það komist niður að flakinu. Rose fer síðan aftur í klefann sinn til þess að sofa eins og gerðist í loka útgáfu myndarinnar. Cameron ákvað að sleppa þeim hluta myndarinnar af því að honum fannst að áhorfendum myndi ekki langa að sjá meira af Brock Lovett.

Eftir að starfsfólk Camerons hafði að mestu lokið við klippingu á myndinni, var hún forsýnd fyrir framan áhorfendur til þess að fá gagnrýni. Í þeirri útgáfu af myndinni lofar Cal að gefa Lovejoy „Le Coeur de la Mer“ ef hann kemur Jack fyrir kattarnef. Hann eltir Jack og Rose niður í skipið á meðan það sekkur og þau slást við hann áður en að þau sleppa. [53] Cameron hafði skrifað það til þess að fá meiri spennu inn í myndina en það var klippt út af því að áhorfendum fannst það „kjánalegt“. Mörgum fannst atriðið vera óraunhæft út af því að „enginn myndi setja sig í lífshættu fyrir peninga.“ Önnur atriði voru klippt út úr myndinni til þess að passa að hún færi ekki yfir þrjár klukkustundir.

Tónlist

breyta

Tónlistin fyrir myndina var samin af James Horner. Horner réð norska söngkonu, Sissel Kyrkjebø, til þess að syngja í myndinni. Horner vantaði söngkonu til þess að syngja allskonar hljóma yfir tónlistina í myndinni og fékk um það bil 30 söngkonur í prufu fyrir hann áður en hann valdi Sissel sem „röddina sem átti að búa til 'hugarástand' myndarinnar.“ [54]

Horner skrifaði einnig lagið „My Heart Will Go On“ ásamt Will Jennings án þess að Cameron vissi út af því að hann vildi engin sönglög í myndinni. [55] Céline Dion söng demó af laginu fyrir James Horner eftir að umboðsmaður hennar fékk hana til að fallast á það. Horner sýndi Cameron svo lagið og eftir að hann hafði spilað lagið nokkru sinnum ákvað hann að setja það í myndina. Cameron taldi það líka líklegt að ef að lagið yrði vinsælt þá gæti myndin líka orðið vinsæl og náð inn fleiri tekjum en myndverin áttu von á. [56]

Útgáfa

breyta

Paramount Pictures og 20th Century Fox reiddu fram fjármagn myndarinnar og áttu von á að James Cameron myndi klára Titanic snemma á árinu 1997 til þess að hægt væri að gefa hana út í kvikmynda hús 2. júlí það ár. Starfsmenn fyrirtækjanna höfðu viljað fullnýta sér sumarið þegar stórmyndir fá vanalega hærri tekjur. Í apríl sagði Cameron að það yrði ómögulegt að koma myndinni í kvikmyndahús þá enda væru brellu atriðin allt of flókin og ekki væri hægt að flýta þeim. Paramount seinkaði þá frumsýningu myndarinnar til 19. desembers. [57]

Forsýningar.

breyta

Fyrsta forsýningin af Titanic átti sér stað í Minneapolis þann 14. júlí 1997 og þótti umtal áhorfenda mjög jákvætt. Þegar Paramount hafði seinkað útgáfudegi myndarinnar fóru sögusagnir um það að myndin sjálf væri „stórslys“. Eftir forsýninguna breyttist umtal töluvert og var mikið rætt um hana á netinu. Titanic var frumsýnd þann 1. nóvember 1997 á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tókýó en samkvæmt The New York Times voru viðbrögð áhorfenda ekkert sérstök. [58] Hins vegar, þegar Hollywood-frumsýningin átti sér stað þann 14. desember þótti ganga vel og þótti áhorfendum myndin frábær.

Heimildir

breyta
  1. http://www.the-numbers.com/movies/1997/TITAN.php, 1997
  2. http://boxofficemojo.com/movies/?id=titanic.htm, Box Office Mojo
  3. Garrett, Diana (20. apríl 2007) http://www.variety.com/article/VR1117963551?refCatId=1019, Variety
  4. Weinraub, Bernard (21. apríl 1997) http://www.nytimes.com/1997/04/21/movies/hollywood-braces-for-likely-delay-of-titanic.html?pagewanted=1, The New York Times
  5. http://awardsdatabase.oscars.org/ampas_awards/SessionTimeout.jsp;jsessionid=9D2FAA481D5DF167CD4CF648C06B5BF3, Academy Award Database
  6. http://boxofficemojo.com/alltime/world/, Box Office Mojo
  7. Associated Press(3. febrúar 2010) http://www.newsday.com/entertainment/movies/cameron-does-it-again-as-avatar-surpasses-titanic-1.1741190, Newsday
  8. Baig Ed (11. mars 2010) http://content.usatoday.com/communities/technologylive/post/2010/03/james-cameron/1, USA Today
  9. IMDB, http://www.imdb.com/title/tt0120338/trivia, International Movie Database
  10. Starfsfólk EW, http://www.ew.com/ew/article/0,,290182_2,00.html Geymt 12 mars 2011 í Wayback Machine, Entertainment Weekly
  11. IMDB (22. júní 2000), http://www.imdb.com/news/wenn/2000-06-22#celeb8 Geymt 22 september 2016 í Wayback Machine, The International Movie Database
  12. IMDB (25. ágúst 1998), http://www.imdb.com/news/sb/1998-08-25#film8 Geymt 18 mars 2012 í Wayback Machine, The International Movie Database
  13. IMDB (22. júní 2000), http://www.imdb.com/news/wenn/2000-06-22#celeb8 Geymt 22 september 2016 í Wayback Machine, The International Movie Database
  14. Starfsfólk Entertainment Weekly, http://www.ew.com/ew/article/0,,290182,00.html Geymt 25 mars 2015 í Wayback Machine, Entertainment Weekly
  15. IMDB (22. júní 2000), http://www.imdb.com/news/wenn/2000-06-22#celeb8 Geymt 22 september 2016 í Wayback Machine, The International Movie Database
  16. Starfsfólk Forbes (25. febrúar 2009), http://www.forbes.com/2009/02/25/nicole-kidman-gwyneth-paltrow-kate-winslet-business-media_star_misses.html, Forbes
  17. Heimildarmynd: „Heart of the Ocean: The Making of Titanic. Best of.“. 1997, 1998.
  18. Titanic. Man overboard! After a production as lavish and pricey as the doomed ship itself, James Cameron finally unveils his epic film. But will it be unsinkable?", Grein í Entertainment Weekly (23. ágúst 2010)
  19. http://www.media-awareness.ca/english/resources/educational/teachable_moments/deconstructing_titanic_6.cfm Geymt 9 júní 2011 í Wayback Machine, Media Awareness
  20. Beverly Fortune (11. október 1999) Wheel of Fortune, Lexington Herald Post
  21. Barczewski, Stephanie L. (2004).http://books.google.com/?id=yYX4s1_6IlEC&pg=PA30, Continuum International Publishing
  22. Sally Pook (4. nóvember 2006), http://www.telegraph.co.uk/news/uknews/1533245/Child-of-lovers-who-inspired-Titanic-has-ashes-spread-at-sea.html, The Telegraph
  23. Realf, Maria, http://www.eyeforfilm.co.uk/feature.php?id=756, Eye for Film
  24. Bilmes, Alex (14. desember 2009). http://www.gq-magazine.co.uk/comment Geymt 31 desember 2010 í Wayback Machine, GQ Magazine
  25. Realf, Maria, http://www.eyeforfilm.co.uk/feature.php?id=756, Eye for Film
  26. James Cameron. (2005) (DVD). Deep Dive Presentation. 20th Century Fox.
  27. Realf, Maria, http://www.eyeforfilm.co.uk/feature.php?id=756, Eye for Film
  28. Bilmes, Alex (14. desember 2009). http://www.gq-magazine.co.uk/comment Geymt 31 desember 2010 í Wayback Machine, GQ Magazine
  29. http://www.ew.com/ew/article/0,,290182,00.html Geymt 25 mars 2015 í Wayback Machine, Entertainment Weekly bls. 7
  30. http://www.ew.com/ew/article/0,,290182,00.html Geymt 25 mars 2015 í Wayback Machine, Entertainment Weekly bls. 7
  31. http://www.media-awareness.ca/english/resources/educational/teachable_moments/deconstructing_titanic_6.cfm Geymt 9 júní 2011 í Wayback Machine, Media Awareness Network
  32. Schultz, Rick,http://www.industrycentral.net/director_interviews/JC01.HTM, Industry Central
  33. James Cameron. (2005) (DVD). Deep Dive Presentation. 20th Century Fox.
  34. Realf, Maria. http://www.eyeforfilm.co.uk/feature.php?id=756. Eyeforfilm.co.uk.
  35. http://www.media-awareness.ca/english/resources/educational/teachable_moments/deconstructing_titanic_6.cfm Geymt 9 júní 2011 í Wayback Machine, Media Awareness Network
  36. Schultz, Rick,http://www.industrycentral.net/director_interviews/JC01.HTM, Industry Central
  37. Marsh og Kirkland, 1988, bls. 33-35
  38. Godwin, Christopher (November 8, 2008), http://entertainment.timesonline.co.uk/tol/arts_and_entertainment/film/article6902906.ece Geymt 16 september 2011 í Wayback Machine, The Times
  39. Andrew Gumbel (January 11, 2007)http://www.independent.co.uk/news/world/americas/lights-cameras-blockbuster-the-return-of-james-cameron-431615.html Geymt 15 maí 2020 í Wayback Machine, The Independent
  40. Ed W. March(2005), Titanic: The Deluxe Edition (DVD),
  41. Ed W. March(2005), Titanic: The Deluxe Edition (DVD),
  42. Godwin, Christopher (8. nóvember, 2008). "James Cameron: From Titanic to Avatar". London: The Times.
  43. Jon Landau, Kate Winslet, Gloria Stuart, Victor Garber. (2005) (DVD). 20th Century Fox
  44. Joe Leydon (Desember 1997) http://www.youtube.com/watch?v=eZPnEEtvXTU, YouTube
  45. http://www.ew.com/ew/article/0,,290182,00.html Geymt 25 mars 2015 í Wayback Machine, Entertainment Weekly
  46. Schultz, Rick. http://www.industrycentral.net/director_interviews/JC01.HTM. industrycentral.net.
  47. Marsh and Kirkland, bls. 147–154
  48. Marsh and Kirkland, bls.65
  49. (DVD) VFX Shot Breakdown. 20th Century Fox. 2005.
  50. (DVD) VFX How To For First Class Lounge. 20th Century Fox. 2005.
  51. Marsh and Kirkland, bls. 161–168
  52. Marsh and Kirkland, bls. 161–168
  53. James Cameron. (2005) (DVD). Deleted scene commentaries. 20th Century Fox.
  54. Hitchner, Earle (12. mars, 1998). http://online.wsj.com/article/SB889672431117893500.html?mod=googlewsjThe Wall Street Journal.
  55. Starfsmaður IMDB (28. maí 1997) http://www.imdb.com/news/sb/1997-05-28#film4 Geymt 6 september 2011 í Wayback Machine, International Movie Database
  56. Starfsmaður Media Awareness (1997), http://www.media-awareness.ca/english/resources/educational/teachable_moments/deconstructing_titanic_6.cfm Geymt 9 júní 2011 í Wayback Machine, Media Awareness Inc,.
  57. Starfsmaður IMDb (28. maí 1997), http://www.imdb.com/news/sb/1997-05-28#film4 Geymt 6 september 2011 í Wayback Machine, International Movie Database
  58. IMDb (4. nóvember 1997), http://www.imdb.com/news/sb/1997-11-04#film4 Geymt 23 apríl 2012 í Wayback Machine