Tekjuhæstu kvikmyndir allra tíma

Alls hafa 54 kvikmyndir halað inn meira en milljarði Bandaríkjadollara, sex af þessum myndum hafa halað inn meira en tveimur milljörðum dollara. Það hefur engin mynd náð þrem milljörðum enn sem komið er en myndin Avatar er sú mynd sem er næst þrem milljörðum en hún er tekjuhæsta kvikmynd allra tíma.

Rétt er að taka fram að gróði kvikmynda er mældur í hreinum gróða en ef gróði kvikmynda er aðlagaður að öllum gengisbreytingum væri kvikmyndin Gone with the Wind tekjuhæsta kvikmynd allra tíma en sú mynd kom út 1939.

Alls hafa ellefu kvikmyndir hreppt titilinn tekjuhæsta kvikmynd allra tíma frá því mælingar hófust. Fyrsta kvimyndin til að hreppa þennan titil var kvikmyndin Birth of a Nation sem kom út 1915 og hélt metinu allt til ársins 1940 þegar Gone with the Wind tók framúr. Gone with the Wind hélt síðan metinu allt til ársins 1966 þegar The Sound of Music tók framúr en endurheimti titilinn 1971 þegar hún var endursýnd í kvikmyndahúsum en hélt því aðeins í eitt ár þar sem myndin Godfather tók fram úr ári síðar. Godfather hélt metinu til ársins 1976 þegar myndin Jaws sló metið en hélt þó metinu ekki nema tvö ár þar til Star Wars tók fram úr. Star Wars hélt síðan metinu til ársins 1983 þar til myndin E.T sló metið. E.T hélt metinu í heil tíu ár þar til myndin Jurassic Park náði metinu en Steven Spielberg leikstýrði báðum myndunum. Jurassic Park hélt metinu í fimm ár þar til kvikmyndin Titanic sló það met. Titanic hélt metinu allt til ársins 2010 þegar kvikmyndin Avatar sem var einnig í leikstjórn James Cameron sló það met. Avatar hélt metinu til ársins 2019 þegar Avengers: Endgame sló það met en endurheimti titilinn tekjuhæsta kvikmynd allra tíma 2021 þegar hún var endursýnd í kvikmyndahúsum í heimsfaraldri kórónaveiru og er enn tekjuhæsta kvikmynd allra tíma.