Grikkland

land í Suðaustur-Evrópu
(Endurbeint frá Ellinikí Ðimokratía)

Grikkland (gríska: Ελληνική Δημοκρατία Ellinikí Ðimokratía, Ελλάδα Ellaða; eldra form: Ἑλλάς Hellas) er land í Suðaustur-Evrópu á suðurenda Balkanskaga. Grikkland á landamæri að Búlgaríu, Norður-Makedóníu og Albaníu í norðri og Tyrklandi í austri. Landið liggur að Jónahafi í vestri og Eyjahafi í austri. Landið skiptist í níu landfræðileg héruð: Makedóníu, Mið-Grikkland, Pelopsskaga, Þessalíu, Epírus, Eyjahafseyjar (þar á meðal Tylftareyjar og Hringeyjar), Þrakíu, Krít og Jónísku eyjarnar. Um 80% landsins er fjalllendi og hæsti tindur þess er Ólympsfjall sem nær 2.917 metra hæð. Grikkland á lengstu strandlengju allra landa við Miðjarðarhafið. Íbúar Grikklands eru rúmlega tíu milljónir. Aþena er höfuðborg og stærsta borg landsins, en þar á eftir koma Þessalóníka og Patras.

Hellenska lýðveldið
Ελληνική Δημοκρατία
Ellinikí Ðimokratía
Fáni Grikklands Skjaldarmerki Grikklands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Ελευθερία ή θάνατος
Elefþería í þánatos (gríska)
Frelsi eða dauði
Þjóðsöngur:
Ύμνος εις την Ελευθερίαν
Ýmnos eis tin Elefþerían
gríska: lofsöngur til frelsis)
Staðsetning Grikklands
Höfuðborg Aþena
Opinbert tungumál gríska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Katerína Sakellaropúlú (Κατερίνα Σακελλαροπούλου)
Forsætisráðherra Kýríakos Mítsotakís (Κυριάκος Μητσοτάκης)
Sjálfstæði
 • Yfirlýst 25. mars 1821 
 • Viðurkennt 3. febrúar 1830 
 • Þriðja hellenska lýðveldið 24. júlí 1974 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
95. sæti
131.957 km²
1,51
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
90. sæti
10.413.982
79/km²
VLF (KMJ) áætl. 2024
 • Samtals 430,125 millj. dala (55. sæti)
 • Á mann 41.188 dalir (52. sæti)
VÞL (2022) 0.893 (33. sæti)
Gjaldmiðill evra (€)
Tímabelti UTC+2 (UTC+3 á sumrin)
Þjóðarlén .gr
Landsnúmer +30

Grikkland er oft nefnt sem vagga vestrænnar menningar, sem fæðingarstaður lýðræðis, vestrænnar heimspeki, vestrænna bókmennta, sagnaritunar, stjórnmálafræði, grunnreglna vísinda og stærðfræði, leikhússins og Ólympíuleikanna. Frá 8. öld f.o.t. bjuggu Grikkir í mörgum sjálfstæðum borgríkjum sem nefndust poleis (et. polis) sem risu allt í kringum Miðjarðarhaf og Svartahaf. Filippus 2. Makedóníukonungur sameinaði megnið af því sem í dag er Grikkland með Kórintubandalaginu á 4. öld f.o.t. og sonur hans, Alexander mikli, lagði síðan undir sig stóran hluta hins þekkta heims Grikkja, frá austurhluta Miðjarðarhafs til norðvesturhluta Indlands. Í kjölfarið fylgdi hellenski tíminn þar sem grísk menning og tungumál náðu mestri útbreiðslu. Rómaveldi lagði Grikkland undir sig á 2. öld f.o.t. Austrómverska keisaradæmið var stofnað á Grikklandi. Þar var gríska notuð sem stjórnsýslumál. Gríska rétttrúnaðarkirkjan kom fram á 1. öld e.o.t. Hún átti stóran þátt í mótun grískrar sjálfsmyndar og hefða, sem breiddust út innan Austurkirkjunnar. Eftir fjórðu krossferðina árið 1204 stofnuðu krossfarar af frankverskum uppruna latnesk ríki á Grikklandi, og stór hluti þess var síðan hernuminn af Tyrkjaveldi um miðja 15. öld.

Eftir langt sjálfstæðisstríð, varð Grikkland sjálfstætt þjóðríki árið 1830. Fyrstu hundrað árin var landið konungsríki sem reyndi að stækka við sig í Balkanskagastríðunum snemma á 20. öld, og fram að hörmulegum ósigri Grikkja í herförinni til Litlu-Asíu 1922. Árið 1924 var skammlíft lýðveldi stofnað, en átti erfitt uppdráttar vegna klofnings innanlands og vandamála sem fylgdu grísku flóttafólki frá Tyrklandi. Árið 1936 frömdu konungssinnar valdarán og því fylgdi langt einræðistímabil sem lauk með hernámi Grikklands, borgarastyrjöld og herforingjastjórn. Lýðræði var endurheimt 1974-5 og núverandi lýðveldi stofnað.

Grikkland er einingarríki sem býr við þingræði. Landið er þróað ríki og hátekjuland, með hæstu landsframleiðslu allra ríkja á Balkanskaga þar sem það er líka stór fjárfestir. Grikkland er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, tíunda aðildarríki Evrópusambandsins og hefur verið hluti af evrusvæðinu frá 2001. Grikkland á aðild að fjölmörgum öðrum alþjóðastofnunum, eins og Evrópuráðinu, Atlantshafsbandalaginu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Efnahags- og framfarastofnuninni. Ferðaþjónusta og skipasmíði eru sögulega stórir geirar í efnahagslífi landsins. Landið er í 19. sæti yfir lönd eftir fjölda heimsminja og níunda mest heimsótta land heims árið 2022.[1]

Á forngrísku er heiti landsins Ἑλλάς Hellas eða Ἑλλάδα Hellada. Í nútímagrísku verður þetta Ελλάς Ellas eða Ελλάδα Ellaða. Hellas kemur víða fyrir sem heiti Grikklands í kveðskap og í afleiddum orðum eins og „hellenskur“ (sbr. þriðja hellenska lýðveldið). Opinbert heiti ríkisins er „hellenska lýðveldið“ Ελληνική Δημοκρατία Elleníkí Dímokratía.[2]

Heiti Grikklands á flestum erlendum málum er dregið af latneska heitinu Graecia (dregið af gríska heitinu Γραικός Graikos). Þetta var upprunalega heiti á íbúum borgar í Böótíu sem voru með fyrstu landnemum í Magna Graecia (Suður-Ítalíu).[3] Hugsanlega kemur það af frumindóevrópsku rótinni *ǵerh₂- „að eldast“.[4][5] Í nokkrum Asíumálum er heiti landsins dregið af Jóníu sem var grískt ríki í Litlu-Asíu því orðið यवन yawan í sanskrít er dregið af því.

Í fornöld urðu til á Grikklandi fyrstu háþróaðu menningarsamfélög í Evrópu. Á meðal fyrstu menningarsvæðanna má nefna Mínóísku menninguna (um 2700–1500 f.Kr.) og Mýkenumenninguna (um 1900–1100 f.Kr.). Á 8. til 4. öld f.Kr. blómstruðu borgríki á Grikklandi þar sem var að finna fjölbreytta menningu og ýmis konar mismunandi stjórnskipulög. Helsta menningarborg Grikklands á þessum tíma var Aþena en aðrar mikilvægar borgir voru meðal annarra Sparta, Þeba og Korinta. Á þessum tíma breiddist grísk menning út um víðan völl, til dæmis til Litlu-Asíu, suður-Ítalíu og um strendur Svartahafsins. Á 5. öld f.Kr. geisuðu Persastríðin þar sem grísku borgríkjunum tókst að verja sjálfstæði sitt gegn innrásarherjum Persa. Í kjölfar persastríðanna hófst gullöld Aþenu sem er talið vera eitt mikilvægasta skeið vestrænnar menningar. Listir, bókmenntir, heimspeki og vísindi ýmis konar blómstruðu á þessum tíma. Gullöld Aþenu leið undir lok í kjölfar Pelópsskagastríðsins, þar sem Aþena barðist við Spörtu um yfirráð og áhrif á Grikklandi og beið lægri hlut.

Uppgangur Makedóníu hófst um miðja 4. öld f.Kr. þegar Filippos 2., makedóníukonungur, lagði undir sig allt Grikkland. Sonur hans, Alexander mikli, lagði svo undir sig gríðarstór landsvæði, meðal annars allt Persaveldi og Egyptaland. Með þessu breiddist grísk menning út til miðausturlanda, mið-Asíu og Indlands. Eftir dauða Alexanders bútaðist veldi hans niður í nokkur ríki, en Makedónía hélt að mestu völdum á Grikklandi. Á 3. öld f. Kr. hófu Rómverjar afskipti af málefnum Grikklands og mættu Makedóníu í Makedóníustríðunum sem leiddu til þess að Rómverjar náðu yfirráðum yfir öllu Grikklandi. Grísk menning hafði mikil áhrif á menningu Rómverja og með vaxandi veldi þeirra urðu landssvæðin í kringum Miðjarðarhafið að grísk-rómversku menningarsvæði. Kristin trú hóf að breiðast um Grikkland á 2. öld en gömlu grísku trúabrögðin voru þó einnig iðkuð áfram um nokkurra alda skeið.

Í kjölfar skiptingar Rómaveldis seint á 4. öld tilheyrði Grikkland Austrómverska ríkinu. Í Austrómverska ríkinu náði grísk tunga með tímanum yfirhöndinni og þar varð til Gríska rétttrúnaðarkirkjan, sem að lokum sleit sig algerlega frá Rómversk-kaþólsku kirkjunni í Róm. Austrómverska ríkinu var stjórnað frá Konstantínópel, en á 6. öld missti ríkið að miklu leyti völdin á meginlandi Grikklands í hendur Slava, en hélt þó völdum í stærri borgum, til dæmis Aþenu og Þessalóníku. Á 9. öld náði Austrómverska ríkið aftur völdum yfir mestöllu Grikklandi. Í fjórðu krossferðinni árið 1204 féll Konstantínópel í hendur krossfara og í kjölfarið skiptist Grikkland í fjölmörg smáríki og áhrifasvæði, til dæmis gríska ríkið Epírus, Latneska keisaradæmið og svæði sem stjórnað var af Feneyingum. Seint á 13. öld fór hluti Grikklands undir yfirráð hins endurreista Austrómverska keisaradæmis.

Á 14. og 15. öld lagði tyrkneska Ottómanveldið undir sig allt Grikkland að undanskyldum nokkrum eyjum sem Feneyingar héldu völdum yfir. Tyrknesk yfirráð höfðu í för með sér trúabragðaárekstra, þar sem mismunað var gegn kristnum þegnum í hinu múslimska tyrkjaveldi, og efnahagslega lægð á Grikklandi. Á 18. öld tók þó hagur Grikkja að vænkast er þeir tóku að stunda siglingar og viðskipti í meira mæli. Árið 1821 gerðu Grikkir uppreisn gegn yfirráðum Tyrkja og árið 1830 var Grikkland viðurkennt sem sjálfstætt konungsríki. Upphaflega náði þetta ríki aðeins yfir hluta af því svæði sem tilheyrir Grikklandi í dag, en Grikkir stóðu í landvinningum út 19. öldina og fram á þá 20. Grikkir hófu þátttöku í Fyrri heimsstyrjöldinni árið 1917 og börðust með bandamönnum. Á árunum 1919-1922 börðust Grikkir við Tyrki, en biðu lægri hlut og í kjölfarið flúði um ein og hálf milljón grískumælandi þegna Tyrklands frá Tyrklandi til Grikklands. Í Síðari heimstyrjöldinni var Grikkland hertekið af Þjóðverjum og Ítölum. Tugir þúsunda Grikkja voru teknir af lífi á meðan hernáminu stóð og hundruð þúsunda létust úr hungursneyð.

Árið 1973 var konungsríkið lagt niður og árið 1975 tók gildi ný lýðræðisleg stjórnarskrá. Árið 1980 varð Grikkland meðlimur NATO og árið 1981 meðlimur í Evrópusambandinu.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Frá sveitarstjórnarumbótum Kallikratiss 1. janúar 2011 hefur Grikkland skipst í 13 héruð sem aftur skiptast í 325 sveitarfélög. Gömlu lögsagnarumdæmin 54 hafa haldist sem undirskipting héraðanna. Sjö sjálfstjórnarumdæmi ná yfir eitt til þrjú héruð. Það er líka eitt sjálfstjórnarsvæði, Atosfjall, við landamæri Mið-Makedóníu.

 
Nr. Hérað Höfuðstaður Stærð (km²) Íbúar[6] VLF (milljarðar)[7]
1 Attíka Aþena 3.808,10 3.828.434 €103,334
2 Mið-Grikkland Lamía 15.549,31 547,390 €12,530
3 Mið-Makedónía Þessalóníka 18.810,52 1.882.108 €34,458
4 Krít Heraklíon 8.259 623.065 €12,854
5 Austur-Makedónía og Þrakía Komotini 14.157,76 608.182 €9,054
6 Epírus Jóannína 9.203,22 336.856 €5,827
7 Jónísku eyjar Korfú 2.306,94 207.855 €4,464
8 Norður-Eyjahaf Mytílene 3.835,91 199.231 €3,579
9 Pelopsskagi Trípólí 15.489,96 577.903 €11,230
10 Suður-Eyjahaf Ermoupoli 5.285,99 309.015 €7,816
11 Þessalía Larissa 14.036,64 732.762 €12,905
12 Vestur-Grikkland Patras 11.350,18 679.796 €12,122
13 Vestur-Makedónía Kozani 9.451 283.689 €5,564
Nr. Sjálfstjórnarríki Höfuðstaður Stærð (km²) Íbúar VLF (milljarðar)
(14) Atosfjall Karyes 390 1.830 N/A

Menning

breyta

Íþróttir

breyta

Grikkland er heimaland ólympíuleikanna. Fyrstu nútíma ólympíuleikarnir voru haldnir í Grikklandi árið 1896 og sumarólympíuleikarnir voru haldnir í Aþenu höfuðborg Grikklands árið 2004.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „International Tourism – 2023 starts on a strong note with the Middle East recovering 2019 levels in the first quarter“ (PDF). webunwto.s3.eu-west-1.amazonaws.com. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 2. ágúst 2023.
  2. „Government and Politics“. Ministry of Foreign Affairs. Afrit af uppruna á 27. desember 2019. Sótt 28. apríl 2020.
  3. Aristóteles, Meteorologica I.xiv
  4. Starostin, Sergei (1998). The Tower of Babel: An Etymological Database Project.
  5. Watkins, Calvert (2000). The American Heritage Dictionary of Indo-European Roots. Boston, New York: Houghton Mifflin Company. ISBN 0618082506.
  6. „Πίνακας 1: Προσωρινά αποτελέσματα του Μόνιμου Πληθυσμού της Ελλάδος“ (PDF). GR: National Statistical Service. 22. júlí 2011.
  7. „Regional gross domestic product (million EUR), by NUTS 2 regions“. Eurostat. 2008. Sótt 25. október 2011.