Makedóníustríðin

Makedóníustríðin voru nokkur stríð sem Rómverjar háðu, ásamt bandamönnum, gegn Makedóníu og öðrum konungsríkjum í hinum grískumælandi heimi. Venja er að skipta Makedóníustríðunum í fjögur mismunandi stríð Rómverja gegn Makedóníu og eitt stríð gegn Selevkídaveldinu.

Makedónía og önnur grísk konungsríki um 200 f.Kr.

Fyrsta Makedóníustríðið hófst árið 214 f.Kr. eftir að Filippos 5. Makedóníukonungur hafði lýst yfir stuðningi við Hannibal í Öðru púnverska stríðinu. Rómverjar sendu þá herafla til Balkanskagans til þess að halda Makedóníumönnum uppteknum svo þeir myndu ekki senda Hannibal liðsauka. Stríðinu lauk með pattstöðu og friðarsamningi árið 205 f.Kr.

Annað Makedóníustríðið (200–197 f.Kr.) hófst eftir að nokkur minni háttar grísk konungsríki höfðu biðlað til Rómverja að hjálpa sér gegn ofríki Makedóníu. Grísku ríkin óttuðust að Makedónía væri orðin of valdamikil auk þess sem Makedónía og Selevkídaveldið höfðu gert með sér samkomulag um að skipta á milli sín Egyptalandi sem nú var veiklað vegna innanlandsófriðar. Að þessu sinni höfðu Rómverjar sigur og skipuðu Makedóníumönnum að hætta útþenslustefnu sinni. Þrátt fyrir afgerandi sigur drógu Rómverjar sig að mestu til baka frá Balkanskaganum og höfðu ekki mikil afskipti af málum þar um sinn.

Árið 192 f.Kr. braust út stríð milli Rómverja og Selevkída, sem nú ógnuðu fyrrum bandamönnum Rómar í Grikklandi. Selevkídar voru valdamiklir á þessum tíma og Rómverjar töldu þá ógna sér. Ekki bætti úr skák að fyrrum erkióvinur Rómverja, Hannibal Barca, var núna herforingi í þjónustu Antiokkosar 3., konungs Selevkída. Rómverjar og bandamenn þeirra sigruðu Selevkída og neyddu þá til að yfirgefa stór svæði í Anatólíu. Að stríðinu loknu drógu Rómverjar sig aftur frá Balkanskaganum.

Perseus Makedóníukonungur, sonur Filipposar 5., hafði í hyggju að endurreisa vegsemd Makedóníu og hóf á ný útþenslu ríkisins. Rómverjar lýstu yfir stríði á hendur honum, árið 172 f.Kr., eftir að hann hafði reynt að myrða bandamann þeirra, og unnu enn og aftur sigur. Afleiðing stríðsins var sú að Makedóníu var skipt upp í fjögur minni ríki sem voru undir áhrifavaldi Rómar.

Fjórða Makedóníustríðið (150–148 f.Kr.) var uppreisn Makedóníumanna gegn Rómverjum. Uppreisnin var barin niður af Rómverjum og markaði endalok Makedóníu, sem var að lokum skipt niður í rómversk skattlönd.