Worms er gömul keisaraborg í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz og er með 80 þúsund íbúa (31. desember 2013). Worms hefur gengið í söguna sem Niflungaborgin, en hún er einnig þekkt Lútherborg.

Skjaldarmerki Worms Lega Worms í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Rínarland-Pfalz
Flatarmál: 108,73 km²
Mannfjöldi: 80.296 (31. des 2013)
Þéttleiki byggðar: 738/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 100 m
Vefsíða: www.worms.de

Orðsifjar breyta

Borgin hét Borbetomagus á tímum fyrir Rómverja, sem þýðir landið við ána Borbet. Rómverjar breyttu heitinu í Vangionen eftir keltneska þjóðflokknum vangjóna. Allt fram á 16. öld kölluðu borgarbúar sig Vangjónar. Úr Vangionen verður Wormatia, sem breytist í Worms á miðöldum. [1]

Lega breyta

 
Worms stendur við Rínarfljót. Til vinstri er Niflungabrúin.

Worms liggur við Rínarfljót austast í sambandslandinu, gegnt Hessen. Næstu borgir eru Mannheim til suðurs (15 km), Mainz til norðurs (20 km) og Kaiserslautern til suðausturs (30 km).

Skjaldarmerki breyta

Skjaldarmerki Worms er hvítur lykill á rauðum grunni. Uppi til hægri er gul fimmarma stjarna. Lykillinn er tákn fyrir Pétur postula en hann er verndardýrlingur dómkirkjunnar. Tákn þetta var tekið upp árið 1500 en 1890 var stjörnunni bætt við.

Saga Worms breyta

Upphaf breyta

Borgina sem slíka stofnuðu Rómverjar á 1. öld e.Kr. en keltar munu hafa búið þar áður. Samkvæmt söguhring Niflunganna var Worms heimaborg Niflungaættarinnar. Þangað kom Sigurður Fáfnisbani eftir að hafa drepið Fáfni, og kvæntist Grímhildi, systur Gunnars konungs. Lítið er þó vitað um borgina á þessum tíma. Enn í dag er borgin gjarnan kölluð Niflungaborgin Worms. Á 9. öld gerði Karlamagnús Worms að vetraraðsetri sínu. Þar voru haldin ýmis ríkisþing. Það var þó ekki fyrr en á 11. öld sem hið raunverulega blómaskeið borgarinnar hófst en þá voru konungar úr Salier-ættinni við völd.

Ríkisþing breyta

 
Worms 1655. Mynd eftir Matthäus Merian.

1076 hélt Hinrik IV þing í Worms. Hinrik var andsnúinn Gregoríusi VII páfa og gerði sér lítið fyrir og lýsti páfa rekinn úr embætti. Gregoríus var á þessum tíma á leiðinni til Ágsborgar til fundar við kjörfursta ríkisins og leitaði skjóls í virkinu Canossa í Norður-Ítalíu. Páfi lét sér frekju Hinriks ekki lynda og bannfærði hann samstundis. Þar með var Hinrik keisari kominn í alvarleg vandræði, þar sem páfi gaf haft áhrif á næsta konungskjör. Auk þess mátti ekki aðstoða bannfærðan mann. Hinrik fór því í iðrunarför til Canossa og sættist við páfa. Annað mikilvægt ríkisþing í Worms var haldið 1122. Þar voru þýsku staðamálin leidd til lykta. Þar viðurkenndi Hinrik V keisari tilkall kirkjunnar til kirkjustaða og annarra eigna kirkjunnar í þýska ríkinu. Samkomulag þetta var hið fyrsta í evrópskri sögu og gekk í sögubækurnar sem Wormser Konkordat (Worms-samkomulagið). Á hinn bóginn leysti þetta úr læðingi átök um veraldleg yfirráð yfir borginni Worms milli biskupanna og borgarráðs, sem stóð alveg fram á 16. öld. Enn eitt mikilvægt ríkisþing var haldið í Worms 1495. Þar innleiddi Maximilian keisari ný lög um ríkisskatt, ríkisdóma og bann við erfðatengdum ættarerjum.

Marteinn Lúther breyta

 
Marteinn Lúther á ríkisþinginu í Worms 1521. Lúther er lengst til vinstri. Í hásætinu situr Karl V keisari.

1517 hóf Lúther mótmæli sín í borginni Wittenberg. Þetta leysti þvílíka holskeflu úr læðingi að kirkjumenn og keisari vissu ekki hvernig átti að snúa sér í málum. Lúther var yfirheyrður nokkrum sinnum og loks bannfærður. Samt sem áður var honum boðið að mæta á ríkisþingi í Worms 1521, sem Karl V keisari hélt, og svara þar til saka. Á þinginu hélt Lúther mikla varnarræðu, sem endaði á orðunum: „Samviska mín er fönguð orðum Guðs; ég get ekki og vil ekki taka neitt til baka, því það er hættulegt og ómögulegt að misbjóða samviskunni. Svo hjálpi mér Guð. Amen.“ Til er önnur útgáfa af lokaorðum Lúthers en þar átti hann að hafa sagt: „Hér stend ég og get ekki annað. Svo hjálpi mér Guð. Amen.“ Eftir fundinn fordæmdi Karl keisari Lúther í ríkinu og bannaði honum að rita og predika. Sömuleiðis var bannað að aðstoða hann, lesa rit hans eða hýsa hann. Það varð honum til lífs að góðviljaðir menn ‘rændu’ honum meðan hann var enn í Worms og fluttu hann til virkisins Wartburg. En aðeins þremur árum seinna, 1524, var Worms enn miðpunktur siðaskiptanna. Þá var í fyrsta sinn prentuð lútersk messa. Og enn tveimur árum seinna lét Englendingurinn William Tyndale prenta fyrsta enska eintak Nýja Testamentisins í Worms. Afleiðingin af þessu umróti varð til þess að Worms tók heils hugar við siðaskiptunum, þrátt fyrir að kaþólsku biskuparnir voru enn með sterk veraldleg völd þar í borg.

Nýrri tímar breyta

Engar upplýsingar eru til um það hvernig Worms reið af í 30 ára stríðinu. En í 9 ára stríðinu 1689 réðust Frakkar á borgina og nær gjöreyddu henni. 1792 hertók franskur byltingarher borgina aftur og var hún innlimuð Frakklandi. Worms var því frönsk allt til falls Napoleons 1814. Þá varð borgin hluti af stórhertogadæmi Hessen. Á þessum tíma var Worms einungis smáborg í Þýskalandi. Blómatími hennar var löngu liðin. Worms varð fyrir miklum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Þær verstu urðu 21. febrúar og 18. mars 1945. Í þessum tveimur árásum var borgin nær gjöreydd. Við uppbyggingu hennar voru nýtískuleg hús reist í miðborginni, frekar en að endurreisa miðborgarkjarnan eins og hann var áður.

Viðburðir breyta

  • Backfischfest er þjóðhátíð borgarinnar og er hún mest allra fólks- og vínhátíða við Rínarfljót. Hátíðin er haldin síðustu helgi í ágúst síðan 1933 og er miðpunktur hennar fiskihátíð (Backfisch merkir bakaður fiskur). Hátíðin sjálf er þó ekki bara helguð fiski, heldur almennri skemmtun. Til þess er notað 17 þús m² stórt svæði. Á því er meðal annars boðið upp á 400 mismunandi tegundir vína, bæði rauðvín og hvítvín, auk freyðivína og ýmislegs matarkyns. Hátíð þessi er sótt heim af 700 þúsund gestum árlega.
  • Niflungahátíðin er leiklistarhátíð í borginni, þar sem uppfærslur af sögum úr Niflungahringnum eru settar upp. Hátíðin var fyrst sett upp 1937, enda voru nasistar mjög hrifnir af gömlum hetjusögum. Hún lognaðist hins vegar út af og var ekki endurvakin fyrr en 2002. Í dag þykir hátíðin mjög vinsæl. Leiksýningar eru á markaðstorgi borgarinnar fyrir framan dómkirkjuna.

Vinabæir breyta

 
Skjaldarmerki vinabæja Worms

Worms viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar breyta

Byggingar og kennileiti breyta

 
Dómkirkjan í Worms var reist af Niflungum
 
Niflungasafnið. Turninn við hliðina er frá 11. öld.
 
Niflungabrúin
  • Dómkirkjan í Worms er helguð Pétri postula. Það var Brúnhildur drottning sem lét reisa kirkjuna rétt eftir 600. Það var í þessari kirkju sem Brúnhildur og Grímhildur rifust um það hvor eiginmanna þeirra væri heldri en Grímhildur var eiginkona Sigurðar Fáfnisbana í Niflungasögunni. Kirkjan var síðan stækkuð verulega 1005-1110 af Burchard biskupi. 1048 fór fram páfakjör í kirkjunni og varð Leó IX þá nýr páfi. 1122 voru þýsku staðamálin til lykta leidd í þessari sömu kirkju. 1130-81 var kirkjan enn stækkuð verulega og fékk hún þá núverandi mynd. 1429 hrundi norðvesturturninn og var hann því endurbyggður. 1521 fór fram mikill trúarfundur í kirkjunni er Karl V keisari bauð Marteini Lúther á sinn fund. Þar varði Lúther trú sína með eftirminnilegum hætti. Þetta leiddi til siðaskipta í borginni nokkrum árum seinna. Þegar Frakkar hertóku borgina 1689 í 9 ára stríðinu, brenndu þeir kirkjuna, sem við það skemmdist algjörlega að innan. Viðgerðir fóru seint fram. Þeim var langt í frá lokið þegar franski byltingarherinn hertók borgina 1792. Þeir notuðu kirkjuna sem hesthús og lagerhús. Eftir fall Napóleons var kirkjan tekin í notkun á ný, en náði aldrei fyrri reisn. Í grafhvelfingu kirkjunnar hvíla ættingjar og afkomendur Konráðs II keisara. Síðan árið 2002 eiga sér stað Niflungaleikar fyrir framan kirkjuna, það er að segja leiksýning um Sigurðar sögu Fáfnisbana.
  • Nibelungenmuseum er fyrsta safn heims sem helgar sig að sögusögnum og mítum, og þá sérstaklega sögum tengdum Niflungahringnum. Safnið var opnað 2001 og er til húsa við gamla borgarmúrnum.
  • Niflungabrúin gengur yfir Rínarfljót. Brúin sjálf var smíðuð 1897-1900. Nasistar sprengdu hana á vordögum 1945 til að gera bandamönnum erfiðara fyrir að komast yfir Rín. Hún var ekki endursmíðuð fyrr en 1953. Borgarmegin við brúna stendur hinn fagri Niflungaturn sem áður fyrr var hluti af gamla borgarmúrnum og þjónaði sem hlið við gamla brú sem nú er horfin. Í dag er turninn notaður af skátum.

Tilvísanir breyta

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Worms“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.