Síle

ríki í Suður Ameríku
(Endurbeint frá Lýðveldið Síle)

31°S 71°V / 31°S 71°V / -31; -71

Lýðveldið Síle
República de Chile
Fáni Síle Skjaldarmerki Síle
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Por la razón o la fuerza (spænska)
Með rétti eða mætti
Þjóðsöngur:
Himno Nacional de Chile
Staðsetning Síle
Höfuðborg Santíagó
Opinbert tungumál Spænska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Gabriel Boric
Sjálfstæði frá Spáni
 • Stofnað 18. september 1810 
 • Yfirlýst 12. febrúar 1818 
 • Viðurkennt 25. apríl 1844 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
37. sæti
756.096,3 km²
2,1
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
65. sæti
18.549.457
24/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals $568,319 millj. dala (45. sæti)
 • Á mann 28.526 dalir (62. sæti)
VÞL (2021) 0,855 (42. sæti)
Gjaldmiðill Pesi
Tímabelti UTC-4 og -6 (-3 og -5 á sumrin9
Þjóðarlén .cl
Landsnúmer ++56

Síle eða Chile, formlega Lýðveldið Síle (spænska: República de Chile), er land í Suður-Ameríku á langri ræmu milli Andesfjalla og Kyrrahafsins. Í norðri liggur landið að Perú, Bólivíu í norðaustri, Argentínu í austri og Drakesundi í suðri. Síle er syðsta land heims, og það land sem er næst Suðurskautslandinu. Kyrrahafið er einu landamæri landsins í vestri, þar sem strandlengjan er yfir 6.435 kílómetrar á lengd.[1] Síle er 756 þúsund ferkílómetrar að stærð og þar bjuggu 18,5 milljónir manna árið 2023. Yfirráðasvæði Síle nær út á Kyrrahafið og tekur til Juan Fernández-eyja, Desventuradas-eyja, Salas y Gómez-eyjar og Páskaeyjar, en sú síðastnefnda er í Pólýnesíu. Síle gerir tilkall til 1.250.000 km² af Suðurskautslandinu sem nefnist Yfirráðasvæði Síle á Suðurskautslandinu. Santíagó er höfuðborg og stærsta borg Síle. Spænska er opinbert mál í landinu.

Spænskir landvinningamenn lögðu Inkaveldið, sem náði yfir norðurhluta landsins, undir sig um miðja 16. öld, en tókst ekki að vinna sigur á Mapuche-mönnum sem ríktu yfir mið- og suðurhluta landsins. Síle lýsti yfir sjálfstæði frá Spáni árið 1818. Eftir 1830 varð lýðveldið stöðugra og stækkaði í suðurátt með því að leggja undir sig lönd Mapuche-manna. Á 9. áratug 19. aldar var síðasta mótspyrna Mapuche-manna brotin á bak aftur og með sigri á Bólivíu og Perú í Kyrrahafsstríðinu (1879-1883) náði Síle yfir það land sem það hefur í dag. Aukið lýðræði og þéttbýlisvæðing einkenndu samfélag Síle fram á 8. áratug 20. aldar,[2][3][4] og landið reiddi sig í sífellt meira mæli á tekjur af koparnámum.[5][6] Á 7. og 8. áratug 20. aldar hörðnuðu átök milli vinstrimanna og hægrimanna í síleskum stjórnmálum. Það endaði með valdaráni hersins sem steypti lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn Salvador Allende af stóli árið 1973. Herforinginn Augusto Pinochet varð einræðisherra næstu 16 árin. Í valdatíð hans hurfu 3.000 manns vegna pólitískra ofsókna. Lýðræði var aftur komið á árið 1990 og við tók röð vinstri-miðjustjórna sem fóru með völdin til 2010.

Síle er hátekjuland og eitt af stöðugustu löndum álfunnar í félagslegu og efnahagslegu tilliti. Síle situr efst Suður-Ameríkuríkja á listum yfir samkeppnishæfni, tekjur á mann, hnattvæðingu, frið og viðskiptafrelsi.[7] Landið stendur líka vel hvað varðar sjálfbærni ríkisins og lýðræðisþróun,[8] og er með næst lægstu morðtíðni í Ameríku, á eftir Kanada. Síle er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, CELAC og Kyrrahafsbandalaginu. Síle gerðist aðili að OECD árið 2010.

Til eru ýmsar kenningar um uppruna orðsins „Chile“. Samkvæmt einni kenningu kölluðu Inkarnir frá Perú, sem hafði mistekist að sigra Mapuche-mennina, dal fjallsins Akonkagúa Chili eftir Tili, höfðingja ættbálks sem réð ríkjum þar á tímum innrásar Inkanna.[9] Önnur kenning bendir á að Akonkagúadalur og Kasmadalur í Perú séu sviplíkir, en þar var bær og dalur sem hét Chili.[9] Aðrar kenningar segja að nafnið „Chile“ eigi rætur sínar að rekja til orðs Mapuche-manna Chilli sem getur þýtt „þar sem landið endar“[10], „innsti staður Jarðar“ eða „mávar“; eða frá quechua orðinu chin, „kuldi“, eða aímaríska orðinu tchili sem þýðir „snjór“. Önnur merking sem rakin er til Chilli er hljóðlíkingin cheele-cheele, sem er eftirlíking Mapuche-manna af kvakhljóði fugla. Spænsku landvinningamennirnir fréttu af þessu nafni frá Inkunum og þeir fáu sem lifðu af leiðangur Diegos de Almagro suður frá Perú árið 1535-36 kölluðu sig „mennina frá Chilli“.

Fyrir um 10.000 árum settust frumbyggjar Ameríku að í frjóum dölum og við strendur þessa lands sem nú er þekkt sem Síle.

Valdatíð Pinochet

breyta
 
Orrustuþotur varpa sprengjum á forsetahöllina í herforingjabyltingunni 1973.

Allende forseta var steypt af stóli 11. september 1973. Hann er sagður hafa framið sjálfsmorð þegar herinn varpaði sprengjum á forsetahöllina.[11][12] Eftir valdaránið sagði Henry Kissinger Richard Nixon Bandaríkjaforseta að Bandaríkin hefðu „aðstoðað“ við valdaránið.[13]

Herforingjaklíka, undir forystu Augusto Pinochet, tók völdin í landinu. Fyrstu ár stjórnarinnar lituðust af mannréttindabrotum. Síle tók virkan þátt í Kondóraðgerðinni.[14] Í október 1973 voru að minnsta kosti 73 myrt í Dauðalestinni.[15] Samkvæmt Rettig-skýrslunni og Valech-nefndinni voru minnst 2.115 myrt[16] og að minnsta kosti 27.265[17] pyntuð (þar á meðal 88 börn undir 12 ára aldri).[17] Árið 2011 bættust 9.800 fórnarlömb við, þannig að heildarfjöldi myrtra, pyntaðra eða fangelsaðra af pólitískum ástæðum var 40.018 sem vitað er um.[18] Föngum var safnað saman á þjóðarleikvanginn þar sem hinn vinsæli söngvari Victor Jara var myrtur ásamt fleirum.

 
Ættingjar fórnarlamba herforingjastjórnarninnar mótmæla fyrir utan La Moneda-höll.

Ný stjórnarskrá var samþykkt í umdeildri þjóðaratkvæðagreiðslu 11. september 1980 og Pinochet varð forseti lýðveldisins til 8 ára. Eftir valdatöku Pinochet gengu hundruð síleskra byltingarsinna til liðs við Sandínista í Níkaragva, skæruliðahreyfingar í Argentínu eða fóru í þjálfunarbúðir á Kúbu, Austur-Evrópu og Norður-Afríku.[19]

Seint á 9. áratugnum, aðallega vegna ýmissa atburða eins og efnahagshrunsins 1982[20] og fjöldamótmæla 1983-1988, heimilaði ríkisstjórnin smátt og smátt meira fundafrelsi, málfrelsi og félagafrelsi, og starf verkalýðsfélaga og stjórnmálaflokka.[21] Ríkisstjórnin réðist í efnahagsumbætur í anda nýfrjálshyggju, sérstaklega í ráðherratíð Hernán Büchi. Erlendar og innlendar fjárfestingar jukust, þótt kopariðnaðurinn stæði utan við samkeppni. Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1988 var því hafnað að Pinochet fengi að bjóða sig fram til 8 ára í viðbót (56% gegn 44%). Nýr forseti var kosinn auk meirihluta þingsæta 14. desember 1989. Kristilegi demókratinn Patricio Aylwyn sem bauð sig fram fyrir bandalag 17 flokka undir heitinu Concertación náði hreinum meirihluta.[22] Aylwin var forseti frá 1990 til 1994 og í valdatíð hans færðist landið í átt til lýðræðis.

21. öldin

breyta
 
Fimm forsetar Síle frá endurreisn lýðræðis (1990-2022) fagna 200 ára afmæli Síle.

Í desember 1993 fékk Concertación-bandalagið, undir forystu Eduardo Frei Ruiz-Tagle, hreinan meirihluta á þingi með 58% atkvæða.[23] Á eftir Frei Ruiz-Tagle árið 2000 kom sósíalistinn Ricardo Lagos sem sigraði forsetakosningar í annarri umferð gegn hægrimanninum Joaquín Lavín.[24] Í janúar 2006 varð kona í fyrsta sinn forseti þegar Michelle Bachelet Jeria úr sósíalistaflokknum sigraði Sebastián Piñera.[25][26] Árið 2010 kusu Sílebúar Sebastián Piñera sem fyrsta hægrisinnaða forsetann í 20 ár. Vegna takmarkana á lengd kjörtímabils bauð Piñera sig ekki fram aftur 2013 og Michelle Bachelet varð aftur forseti 2014.[27] Sebastián Piñera tók aftur við af Bachelet 2018.[28][29]

Þann 27. febrúar 2010 reið jarðskjálfti sem mældist 8,8 að stærð yfir Síle. Á þeim tíma var þetta stærsti jarðskjálfti sem mælst hafði nokkru sinni. Yfir 500 fórust (aðallega vegna flóðbylgju) og yfir milljón missti heimili sín. Margir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið.[30] Í upphafi var tjónið metið á 15 til 30 milljarða dala, eða um 10 til 15% af vergri landsframleiðslu Síle.[31]

Síle vakti heimsathygli fyrir vel heppnaða björgun 33 námamanna sem höfðu festst á 700 metra dýpi árið 2010. Björgunaraðgerðir síleskra stjórnvalda leiddu til þess að öllum mönnunum var bjargað tveimur mánðum síðar.[32]

 
Mótmælin í Síle 2019-2022 á Plaza Baquedano í Santíagó.

Mótmælin í Síle 2019-2022 hófust vegna óánægju með hækkun fargjalda í neðanjarðarlestir Santíagó, hækkun framfærslukostnaðar, einkavæðingu og viðvarandi ójöfnuð í landinu.[33] Þann 15. nóvember samþykktu flestir flokkar á síleska þinginu að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.[34] Þann 25. október 2025 kusu 78,28% íbúa með nýrri stjórnarskrá. Kosningaþátttaka var 51%. Kosið var til stjórnlagaþings í maí 2021.[35]

Þann 19. desember 2021 varð 35 ára gamall fyrrum stúdentaleiðtogi, Gabriel Boric, yngsti forsetinn í sögu Síle.[36] 14 af 24 ráðherrum ríkisstjórnar Boric eru konur.[37]

Þann 4. september 2022 hafnaði meirihluti kjósenda nýju stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Síle. Nýja stjórnarskráin, sem Boric forseti studdi eindregið, reyndist of róttæk og vinstrisinnuð fyrir meirihluta kjósenda.[38]

Landfræði

breyta
 
Torres del Paine, í Suður-Chile.

Síle er hluti af Suðurkeilunni, vestan megin við Andesfjöll. Landið nær 4300 km frá norðri til suðurs, en er aðeins 350 km breitt þar sem það er breiðast frá austri til vesturs[39] og 64 km þar sem það er grennst. Það er að meðaltali 175 km að breidd. Loftslag og landslag er mjög fjölbreytt, eða allt frá heimsins þurrustu eyðimörk, Atacama, í norðri, í gegnum Miðjarðarhafsloftslag í miðju landsins, til snævi þakinna Andesfjalla í suðri, ásamt jöklum, fjörðum og ám.[40]. Heildarlandsvæði Síle er 756.950 km². Það er hluti af Kyrrahafseldhringnum. Ef Kyrrahafseyjarnar og tilkall til lands á Suðurskautslandinu eru útilokuð, liggur Síle á milli 17. og 56. breiddargráðu suður og 66. og 75. lengdargráðu vestur.

Síle er eitt af þeim löndum sem ná lengst frá norðri til suðurs. Ef aðeins er litið til meginlands, er Síle einstaklega mjótt miðað við önnur lönd með mikla lengd milli norðurs og suðurs (þar á meðal Brasilíu, Rússland, Kanada og Bandaríkin) sem öll eru minnst 10 sinnum breiðari frá austri til vesturs. Síle gerir líka tilkall til 1.250.000 km² landsvæðis á Suðurskautslandinu (Suðurskautssvæði Síle), en tilkallinu er frestað samkvæmt skilmálum Suðurskautssamningsins sem Síle á aðild að.[41] Síle er syðsta land heims á meginlandi.[42]

Síle ræður yfir Páskaeyju og Sala y Gómez-eyju, sem eru austustu eyjar Pólýnesíu og Síle lagði undir sig árið 1888, auk Juan Fernández-eyja sem eru yfir 600 km frá meginlandinu. Síle ræður líka yfir óbyggðu eyjunum (fyrir utan bækistöðvar fiskimanna) San Ambrosio og San Felix. Þessar eyjar skipta miklu því með þeim stækkar landhelgi Síle út í Kyrrahafið.[43]

Í norðurenda eyðimerkurinnar Atacama er mikið af verðmætum jarðefnum, aðallega kopar og kalkríti. Miðdalurinn, þar sem höfuðborgin Santíagó stendur, er tiltölulega lítill, en þar er mest samþjöppun bæði fólksfjölda og landbúnaðar. Dalurinn er líka hin sögulega miðja þaðan sem Síle óx seint á 19. öld þegar landið lagði suðurhéruðin undir sig. Í suðurhlutanum eru skógar, beitarlönd og röð eldfjalla og stöðuvatna. Suðurströndin er völundarhús af fjörðum, víkum, sundum, skögum og eyjum. Andesfjöllin liggja eftir austurlandamærunum. Þjóðartré Síle er apahrellir.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Árið 1978 var Síle skipt í héruð[44] og 1979 var þeim aftur skipt í sýslur og þeim síðan í sveitarfélög.[45][46] Alls eru 16 héruð,[47][48] 56 sýslur og 348 sveitarfélög.[49]

Hvert hérað fékk nafn og rómverska tölu frá norðri til suðurs, fyrir utan Stórborgarhérað Santíagó, sem fékk ekki númer. Árið 2007 voru tvö ný héruð búin til, Arica y Parinacota (XV) og Los Ríos (XIV), og 2018 var þriðja nýja héraðinu bætt við, Ñuble (XVI), þannig að númeraröðin riðlaðist.

 
Kort af héruðum Síle.
Stjórnsýslueiningar Síle
Hérað[44][47][48] Íbúar[50] Stærð (km2)[51] Íbúaþéttleiki Höfuðstaður
Arica y Parinacota 224 548 16 873,3 13,40 Arica
Tarapacá 324 930 42 225,8 7,83 Iquique
Antofagasta 599 335 126 049,1 4,82 Antofagasta
Atacama 285 363 75 176,2 3,81 Copiapó
Coquimbo 742 178 40 579,9 18,67 La Serena
Valparaíso 1 790 219 16 396,1 110,75 Valparaíso
Stórborgarhérað Santíagó 7 036 792 15 403,2 461,77 Santiago
Libertador General Bernardo O'Higgins 908 545 16 387 54,96 Rancagua
Maule 1 033 197 30 296,1 34,49 Talca
Ñuble 480 609 13 178.5 36.47 Chillán
Biobío 1 556 805 23 890,2 112,08 Concepción
Araucanía 938 626 31 842,3 30,06 Temuco
Los Ríos 380 181 18 429,5 20,88 Valdivia
Los Lagos 823 204 48 583,6 17,06 Puerto Montt
Aysén del General Carlos Ibáñez del Campo 102 317 108 494,4 0,95 Coyhaique
Magallanes og Síleska Suðurskautslandið 165 593 132 297,2(1) 1,26 Punta Arenas
Chile 17 373 831 756 102,4(2) 23,24 Santiago
(1) Ef tilkall Síle á Suðurskautslandinu er talið með er stærðin 1 382 554,8 km2
(2) Ef tilkall Síle á Suðurskautslandinu er talið með er stærðin 2 006 360 km2


Tilvísanir

breyta
  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2015. Sótt 19. mars 2008.
  2. „Elecciones, sufragio y democracia en Chile (1810–2012)“. Memoria Chilena (spænska). National Library of Chile. Sótt 20. júní 2021.
  3. „Sufragio femenino universal“. Memoria Chilena (spænska). National Library of Chile. Sótt 20. júní 2021.
  4. „Desarrollo y dinámica de la población en el siglo XX“. Memoria Chilena (spænska). National Library of Chile. Sótt 20. júní 2021.
  5. Salazar, Gabriel; Pinto, Julio (2002). Historia contemporánea de Chile III. La economía: mercados empresarios y trabajadores. LOM Ediciones. Pages 124–125.
  6. Villalobos, Sergio; Silva, Osvaldo; Silva, Fernando; Estelle, Patricio (1974). Historia De Chile (14th ed.). Editorial Universitaria. ISBN: 956-11-1163-2. Pages 773–775.
  7. „Human and income poverty: developing countries“. UNDP. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. febrúar 2009.
  8. „World Development Indicators“. World Bank. 17. apríl 2012. Sótt 12. maí 2012.
  9. 9,0 9,1 Encina, Francisco A., and Leopoldo Castedo. Resumen de la Historia de Chile. 4th ed. Santiago: Zig-Zag, 1961.
  10. Hudson, Rex A., ed. "Chile: A Country Study." GPO for the Library of Congress. 1995. February 27, 2005
  11. Soto, Óscar (1999). El último día de Salvador Allende. Aguilar. ISBN 978-956-239-084-2.
  12. Ahumada, Eugeno. Chile: La memoria prohibida.
  13. „KISSINGER AND CHILE: THE DECLASSIFIED RECORD“. The national security archive. 16. september 2013. Sótt 16. september 2013.
  14. Dinges, John. „Operation Condor“. latinamericanstudies.org. Columbia University.
  15. „Flashback: Caravan of Death“. BBC. 25. júlí 2000.
  16. Ministerio del Interior (3. ágúst 1999). „Ministerio del Interior, Programa de Derechos Humanos – ddhh_rettig“. Ddhh.gov.cl. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. desember 2009. Sótt 17. desember 2009.
  17. 17,0 17,1 „Sintesis Ok“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. júlí 2007. Sótt 17. desember 2009.
  18. Eva Vergara (18 August 2015). Chile Recognizes 9,800 More Pinochet Victims Geymt 31 desember 2015 í Wayback Machine. The Associated Press via The Huffington Post. Retrieved 25 August 2015.
  19. Pamela Constable; Arturo Valenzuela (1993). A Nation of Enemies: Chile Under Pinochet. W W Norton & Company Incorporated. bls. 150. ISBN 978-0-393-30985-0.
  20. Klein, Naomi (1. apríl 2010). The Shock Doctrine: The Rise of Disaster Capitalism. Henry Holt and Company (2007). bls. 85. ISBN 978-1-4299-1948-7. Sótt 14. júlí 2013.
  21. Huneeus, Carlos (3. september 2009). „Political Mass Mobilization against Authoritarian Rule: Pinochet's Chile, 1983–88“. Í Adam Roberts; Timothy Garton Ash (ritstjórar). Civil Resistance and Power Politics:The Experience of Non-violent Action from Gandhi to the Present. Oxford University Press. bls. 197–212. ISBN 978-0-19-161917-5. Sótt 14. júlí 2013.
  22. Christian, Shirley (16. desember 1989). „Man in the News: Patricio Aylwin; A Moderate Leads Chile“. The New York Times.
  23. „Chile elects new leader Late president's son wins big“. Encyclopedia.com. 12. desember 1993. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. maí 2008. Sótt 14. júlí 2013.
  24. „Moderate socialist Lagos wins Chilean presidential election“. CNN. 16. janúar 2000. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. maí 2008.
  25. „Chile elects first woman president“. NBC News. 12. janúar 2006.
  26. Reel, Monte (12. mars 2006). „Bachelet Sworn in As Chile's President“. The Washington Post.
  27. „Michelle Bachelet sworn in as Chile's president“. BBC News. 11. mars 2014. Afrit af uppruna á 12. mars 2014. Sótt 12. ágúst 2021.
  28. „Chile election: Conservative Piñera elected president“. BBC News. 18. desember 2017. Afrit af uppruna á 18. desember 2017. Sótt 12. ágúst 2021.
  29. „Pinera, a conservative billionaire, is sworn in as president of Chile“. Yahoo! News. Agence France Presse. 11. mars 2018. Afrit af uppruna á 1. ágúst 2021. Sótt 12. ágúst 2021.
  30. „US ready to help Chile: Obama“. The Australia Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. apríl 2011. Sótt 3. mars 2010.
  31. More Quakes Shake Chile's Infrastructure, Adam Figman, Contract, 1. mars 2010 Geymt 14 nóvember 2014 í Wayback Machine
  32. „Background Note: Chile“. Bureau of Western Hemisphere Affairs, United States Department of State. 16. desember 2011. Sótt 19. mars 2012.
  33. Naomi Larsson (26. október 2019). „Chile protests: More than one million bring Santiago to a halt“. Al Jazeera.
  34. Sandra Cuffe (19. nóvember 2019). „One month on: Protests in Chile persist despite gov't concessions“. Al Jazeera.
  35. „Presidente Piñera promulga reforma que posterga elecciones al 15 y 16 de mayo“. El Mostrador (spænska). 6. apríl 2021. Sótt 7. apríl 2021.
  36. „Leftist Gabriel Boric to become Chile's youngest ever president“. BBC News. 20. desember 2021.
  37. „Chile's president-elect names progressive, majority-women cabinet“. the Guardian (enska). 21. janúar 2022.
  38. „Chile constitution: Voters overwhelmingly reject radical change“. BBC News. 5. september 2022.
  39. „Chile“. Encyclopædia Britannica. Sótt 7. maí 2013.
  40. [1]
  41. „Antarctic Treaty: Information about the Antarctic Treaty and how Antarctica is governed“. Polar Conservation Organisation. 1. febrúar 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. febrúar 2010. Sótt 11. mars 2010.
  42. Collin, Robert (2015). Trash Talk: An Encyclopedia of Garbage and Recycling around the World. bls. 121.
  43. Blanco, Alejandro Vergara (1998). Derecho de aguas. Editorial Jurídica de Chile. ISBN 978-956-10-1241-7. Sótt 14. júlí 2013.
  44. 44,0 44,1 Ministerio del Interior (10. október 1978). „Decreto ley 2339 de 1978“. Sótt 28. júní 2011.
  45. Ministerio del Interior (26. október 1979). „Decreto ley 2867 de 1979“. Sótt 20. mars 2011.
  46. Ministerio del Interior (26. október 1979). „Decreto ley 2868 de 1979“. Sótt 20. mars 2011.
  47. 47,0 47,1 Ministerio del Interior (5. apríl 2007). „Ley 20174 de 2007“. Sótt 20. mars 2011.
  48. 48,0 48,1 Ministerio del Interior (11. apríl 2007). „Ley 20175 de 2007“. Sótt 20. mars 2011.
  49. Instituto Nacional de Estadísticas (18. mars 2008). División político-administrativa y censal, 2007 (PDF). bls. 12. ISBN 978-956-7952-68-7. Afrit (PDF) af uppruna á 9. október 2022. Sótt 27. febrúar 2013.
  50. „RESULTADOS CENSO 2017“ (PDF). RESULTADOS DEFINITIVOS CENSO 2017. National Statistics Institute. 1. janúar 2018. Afrit (PDF) af uppruna á 9. október 2022. Sótt 18. janúar 2017.
  51. Instituto Nacional de Estadísticas (október 2006). „Compendio estadístico 2006“ (PDF). Afrit (PDF) af uppruna á 9. október 2022. Sótt 29. nóvember 2007.

Tenglar

breyta