Henry Kissinger
Henry Kissinger (27. maí 1923 – 29. nóvember 2023) var öryggismálaráðgjafi og utanríkisráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórnum Richards Nixon og Geralds Ford á árunum 1973–1977. Stefna Kissingers hefur verið kennd við realpólitík að hætti Otto von Bismarcks. Hann átti stóran þátt í afvopnunarferli kalda stríðsins, í samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna lagði Kissinger áherslu á slökunarstefnuna (fr. détente).
Henry Kissinger | |
---|---|
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna | |
Í embætti 22. september 1973 – 20. janúar 1977 | |
Forseti | Richard Nixon Gerald Ford |
Forveri | William P. Rogers |
Eftirmaður | Cyrus Vance |
Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna | |
Í embætti 20. janúar 1969 – 3. nóvember 1975 | |
Forseti | Richard Nixon Gerald Ford |
Forveri | Walt Rostow |
Eftirmaður | Brent Scowcroft |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 27. maí 1923 Fürth, Bæjaralandi, Þýskalandi |
Látinn | 29. nóvember 2023 (100 ára) Kent, Connecticut, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur (áður þýskur) |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn |
Maki | Ann Fleischer (g. 1949; skilin 1964) Nancy Maginnes (g. 1974) |
Börn | 2 |
Háskóli | Borgarháskólinn í New York Lafayette-háskóli Harvard-háskóli |
Starf | Erindreki, stjórnmálamaður |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1973) |
Undirskrift |
Kissinger átti þátt í að koma á formlegum samskiptum milli Kína og Bandaríkjanna sem höfðu legið niðri eftir seinni heimsstyrjöldina og hlaut friðarverðlaun Nóbels 1973 fyrir sinn þátt í að binda enda á Víetnamstríðið. Þáttur hans í að fyrirskipa deildum sprengjuflugvéla að sprengja Kambódíu, sem þá var hlutlaust land, á meðan Víetnamstríðinu stóð er mjög umdeildur. Kissinger var virtur og þekktur um allan heim og talinn með fróðari mönnum um alþjóðasamskipti. Undir lok ævi sinnar rak hann fyrirtækið Kissinger Associates, sem er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki.
Æviágrip
breytaHenry Kissinger fæddist í þýsku borginni Fürth sem Heinz Alfred Kissinger. Faðir hans, Louis Kissinger, var bandarískur kennari við stúlknaskólann þar í borg og móðir hans, Paula Stern, var dóttir verslunarmanns af gyðingaættum. Nafnið Kissinger var tekið upp af langalangafa Henrys og er dregið af þýsku borginni Bad Kissingen. Árið 1938 neyddist Kissinger-fjölskyldan til að flýja land, en mýmargir ættingjar voru handteknir og teknir af lífi af nasistum.
Kissinger bjó í New York í Bandaríkjunum. Þar lagði hann stund á nám í endurskoðun jafnhliða því sem hann vann. Kissinger var afburðanemandi en var kvaddur í herinn árið 1943. Á meðan herþjálfun hans stóð var því veitt athygli að hann kunni þýsku og því var hann færður yfir í upplýsingadeild. Í stríðinu var herdeild hans send til Þýskalands, þar sem hann varð undirofursti og barðist í Orrustunni við Ardennafjöll. Þegar Kissinger náði til Þýskalands ásamt herdeild sinni var hann settur yfir borgina Krefeld með það verkefni að hreinsa burt nasista. Honum tókst það ætlunarverk sitt á átta dögum. Þá var hann hækkaður í tign, gerður að liðþjálfa. Því næst var Kissinger gert að elta uppi liðsmenn Gestapo og aðra spellvirkja í Hanover og var hann heiðraður með Bronsstjörnunni fyrir vikið. Undir lok stríðsins var Kissinger settur yfir Bergstraße-svæðið í Hessen. Eftir stríð varð hann eftir í Þýskalandi og þjónaði í upplýsingadeild bandaríska hernámssvæðisins. Deild sú fékk það verkefni að ljóstra upp um stríðsglæpi og að stuðla að því að útrýma nasisma í landinu.
Nám og kennsla
breytaÁrið 1947 sneri Kissinger aftur til Bandaríkjanna og lagði stund á sagnfræði í Harvard-háskóla. Hann lauk B.A.-gráðu þaðan 1950, M.A-gráðu 1952 og doktorsprófi 1954. Doktorsritgerð hans bar heitið „Peace, Legitimacy, and the Equilibrium (A Study of the Statesmanship of Castlereagh and Metternich”. Hann ílentist í skólanum, gerðist þar kennari og starfaði í ýmsum nefndum, þ.á.m. nefnd um þróun vopna. Á árunum 1955 og 1956 var hann yfir sérfræðingahópi um kjarnorkuvopn og utanríkisstefnu hjá Samtökum um alþjóðasamskipti. Árið 1957 gaf Kissinger út fyrstu bók sína Nuclear weapons and foreign policy. Á árunum 1956 til 1958 starfaði hann á Rockefellers Brothers Fund við verkefni sem nefndir Special Studies Project. Kissinger sinnti ráðgjafastörfum samhliða ofangreindu fyrir margar opinberar stofnanir, til að mynda á vegum utanríkisráðuneytisins og Rand Corporation.
Stjórnmál
breytaFyrstu kynni Kissingers af stjórnmálum hófust 1957 er hann varð ráðgjafi Nelsons Rockefeller, sem þá var fylkistjóri í New York. Sem slíkur kynntist hann nokkrum forsetum Bandaríkjanna.
Þegar Richard Nixon var kjörinn forseti 1968, varð Kissinger öryggismálaráðgjafi hans. Á þeim árum stóð Víetnamstríðið enn yfir. Sem ráðgjafi Nixons fór Kissinger í tvær leynilegar sendiferðir til Kína til að undirbúa komu Nixons þangað. Síðan þá litu Kínverjar á Kissinger sem ‘hinn gamla vin kínverska fólksins.’ Í einni ferðinni fór hann til Sovétríkjanna til að undirbúa viðræður um afvopnun.
Sem fyrr segir átti Kissinger stóran þátt í að minnka spennu milli stórveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Kissinger skipulagði SALT-viðræðurnar um afvopnun stórveldanna sem urðu til þess að samningur um takmörkun langdrægra kjarnaflauga (SALT I-samningurinn) og samningur gegn kjarnaskotflaugum um kjarnorkuvopn var undirritaður en óttast var að óbeislað kjarnorkuvopnakapphlaup gæti endað með ósköpum. Kissinger hitti einnig Le Duc Tho frá Víetnam til að undirbúa friðarviðræður og binda enda á Víetnamstríðið. Samkomulag þeirra leiddi til þess að báðir hlutu friðarverðlaun Nóbels 1973 fyrir viðleitni sína um friðsamlega lausn á Víetnamstríðinu.
Utanríkisráðherra
breytaÍ september 1973 varð Kissinger utanríkisráðherra í stjórn Nixons og síðar Geralds Ford. Hann tókst á við ýmis heimsmál á sínum tíma, s.s. viðræður milli þýsku ríkjanna og friðarsamninga milli Ísraels og arabalanda, en hann átti stóran þátt í binda enda á Jom kippúr-stríðið, en í kjölfarið skiluðu Ísraelsmenn Sínaískaga til Egyptalands. Árið 1977 varð Jimmy Carter nýr forseti Bandaríkjanna. Nýr utanríkisráðherra varð Cyrus Vance. Kissinger hætti þá að mestu í stjórnmálum, en tók þó sæti í utanríkismálanefnd. Hann studdi einnig forsetaframboð Ronalds Reagan 1981 og starfaði sem einn ráðgjafa hans, en kom að öðru leyti lítið við sögu í stjórnmálum.
Andlát
breytaKissinger lést 100 ára gamall þann 29. nóvember árið 2023.[1]
Einkalíf
breytaKissinger var tvíkvæntur. 1949 kvæntist hann Ann Fleischer og átti með henni tvö börn. Hjónabandið endaði með skilnaði. 1974 kvæntist hann Nancy Maginnes. Kissinger var sagður hafa átt vingott með ýmsar frægar bandarískar konur. Hann lifði gjarnan í sviðsljósinu og var mikill samkvæmismaður.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Henry Kissinger“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.
Tilvísanir
breyta- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (30. nóvember 2023). „Henry Kissinger látinn 100 ára að aldri“. RÚV. Sótt 30. nóvember 2023.