Helgafellsklaustur

Ágústínusarklaustur að Helgafelli (1184-1550)

Helgafellsklaustur var munkaklaustur á Helgafelli í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Klaustrið var Ágústínusarklaustur og var upphaflega stofnað í Flatey á Breiðafirði árið 1172 og nefndist þá Flateyjarklaustur en var flutt að Helgafelli 1184 eða 1185, þar sem það var svo til siðaskipta. Fyrsti ábótinn var Ögmundur Kálfsson.

Helgafell.

Helgafellsklaustur var mennta- og fræðamiðstöð. Þar var gott bókasafn og þar voru skrifaðar margar bækur. Meðal annars er talið að Skarðsbók hafi verið rituð þar. Klaustrið var auðugt og við siðaskipti átti það nær allar verstöðvar og útvegsjarðir á utanverðu Snæfellsnesi.

Árið 1425 skutu sveinar hirðstjóranna Hannesar Pálssonar og Balthazars van Damme mann til bana í kirkjugarðinum og brutu klaustrið og var kirkjan og klaustrið talið vanhelgað næstu árin, allt þar til Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup kom árið 1429 og hreinsaði kirkju, klaustur og kirkjugarð og helgaði að nýju.

Árið 1540 kemur fram í skjölum að þá eru þrír bræður í klaustrinu auk Halldórs Tyrfingssonar ábóta og hétu þeir Ólafur, Jón og Gunnar. Árið 1542 gaf konungur út bréf þar sem Halldóri ábóta var boðið að halda skóla í klaustrinu en það var svo tekið aftur og ári síðar tók Gleraugna-Pétur Einarsson klaustrið og allar eigur þess tekið undir konung. Klaustrið og eitt hundrað jarðir sem því fylgdu voru leigð umboðsmönnum og kallaðist það Stapaumboð. Árið 1550 segir í konungsbréfi að í klaustrinu séu aðeins tveir munkar og þeir hegði sér ósæmilega. Konungur fól Laurentius Mule hirðstjóra og Marteini Einarssyni biskupi að koma á skóla á Helgafelli og áttu tekjur klaustursins að ganga til skólahalds en af því varð heldur ekki í þetta skipti. Jón Arason reið til Helgafells sama ár, vígði klaustrið að nýju, en það rann út í sandinn þegar Jón var handtekinn og svo líflátinn um haustið og var þá klausturhaldi á Helgafelli lokið.

Ábótar á Helgafelli breyta

Heimildir breyta

  • „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.