Gleraugna-Pétur Einarsson
Pétur Einarsson (d. 1582), kallaður Gleraugna-Pétur, var íslenskur sýslumaður og prestur á 16. öld og kom mjög við sögu siðaskiptanna á Íslandi.
Pétur var sonur Einars Snorrasonar Ölduhryggjarskálds og Guðrúnar Oddsdóttur fylgikonu hans, bróðurdóttur Sveins biskups spaka. Á meðal bræðra hans voru þeir Marteinn Einarsson biskup í Skálholti og Moldar-Brandur, sýslumaður á Snorrastöðum, en systir hans, Guðrún, var kona Daða Guðmundssonar í Snóksdal. Pétur var við nám í Þýskalandi ungur að árum en kom síðar heim og var einn af sveinum Ögmundar biskups. Hann hallaðist þó að siðaskiptamönnum, sem hann hefur kynnst í Þýskalandi, og Ögmundur bannfærði hann en Gissur Einarsson, sem þá var orðinn biskup, studdi hann.
Pétur varð umboðsmaður konungs 1542 og sýslaði meðal annars með eignir klaustranna. Hann settist að í Viðeyjarklaustri og virðist sem honum hafi verið umhugað að eyðileggja allt sem minnti á kaþólsku kirkjuna. Ýmsar sögur gengu um framferði hans þar og var meðal annars sagt að hann hefði leitt skolpræsi frá bænum að kirkjurústunum og kirkjugarðinum. Einnig er sagt að hann hafi rekið munkana berfætta og grátandi úr Helgafellsklaustri. Ekki er þó víst hvað satt er í þessum sögum en siðaskiptamenn voru mjög óvinsælir á þessum tíma og mikið gert úr framferði þeirra.
Umboðsmennsku Péturs lauk 1547 en hann hafði jafnframt verið prestur í Hjarðarholti í Laxárdal frá 1543. Hann hafði seinna umboð Helgafellsklaustursjarða um tíma og bjó þá á Arnarstapa. Sýsluvöld hafði hann líka stundum en var prestur í Hjarðarholti allt til 1581. Hann varð sjóndapur á efri árum og notaði þá gleraugu, sem var þá mjög fátítt; jafnvel er hugsanlegt að hann hafi verið fyrsti Íslendingurinn sem gekk með gleraugu.
Kona Péturs var Ingiríður Guðmundsdóttir, systir Daða í Snóksdal, og voru þeir því tvöfaldir mágar. Hún hafði áður verið fylgikona Ólafs Guðmundssonar, prests í Hjarðarholti. Einkadóttir þeirra Péturs var Katrín, kona Teits Eiríkssonar bónda í Ásgarði í Hvammssveit. Alnafni og langafabarn Gleraugna-Péturs var Pétur Einarsson lögréttumaður og annálaritari að Ballará.