Skarðsbók
Skarðsbók er nafn á tveimur fornum íslenskum skinnhandritum.
Skarðsbók Jónsbókar er lögbókarhandrit, sem hefur að geyma Jónsbók og nokkrar réttarbætur. Í handritinu kemur fram að það var skrifað 1363. Talið er að handritið hafi verið skrifað í Helgafellsklaustri, og að verkbeiðandinn hafi verið Ormur Snorrason lögmaður á Skarði á Skarðsströnd. Handritið er í Árnasafni, og hefur safnnúmerið AM 350 fol.
Skarðsbók postulasagna var lengi í eigu kirkjunnar á Skarði á Skarðsströnd, en hvarf þaðan um 1820. Handritið kom síðar fram á Englandi og var þar í einkaeign. Það var selt á uppboði 30. nóvember 1965 og var keypt til landsins af íslensku bönkunum og gefið íslensku þjóðinni. Var það fyrsta handritið sem afhent var Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi til varðveislu, og hlaut safnmerkið SÁM 1 fol.