Jón Sigurðsson (biskup)

Jón Sigurðsson (d. 1348) var biskup í Skálholti frá 1343. Hann var íslenskur og hafði verið munkur en ekkert er vitað um ætt hans og uppruna.

Jón sigldi til Noregs 1341, var vígður af Páli erkibiskupi 1343 og kom heim um haustið með skipi til Reyðarfjarðar. Á leiðinni í Skálholt kom hann við í Kirkjubæjarklaustri og vildi svo til að þá dó Agata abbadís. Jón lét brenna nunnu eina í klaustrinu sem hafði „gefist púkanum“ en það er fyrsta galdrabrenna á Íslandi sem getið er um í heimildum. Í Þykkvabæ handtók hann þrjá munka og setti í járn; þeir höfðu barið Þorlák ábóta og hrakið hann burt, orðið berir að saurlífi og jafnvel barneignum. Einn þeirra var Eysteinn Ásgrímsson, höfundur Lilju.

Jón biskup varð brátt mjög óvinsæll, hvort sem það var af þessari tiltekt í klaustrunum eða einhverju öðru. Hann þótti mjög harður við landsmenn og hið sama var að segja um Orm Ásláksson Hólabiskup, sem var samtímis honum. Þeir fóru báðir út á sama skipi 1347 og var þá biskupslaust í landinu. Jón kom aftur 1348 en veiktist um haustið og dó skömmu fyrir jól "og varð fáum harmdauður", segir í Árbókum Espólíns.


Fyrirrennari:
Jón Indriðason
Skálholtsbiskup
(13431348)
Eftirmaður:
Gyrðir Ívarsson