Balthazar van Damme

Balthazar van Damme var hirðstjóri á Íslandi frá 1423 en óvíst er hvenær hirðstjóratíð hans lauk, líklega á árunum 1426-1428.

Balthazar kom til Íslands 1423 með Hannesi Pálssyni og hafði konungur veitt þeim landið að léni. Líklega var Balthazar hinn eiginlegi hirðstjóri en Hannes fógeti og umboðsmaður konungs en þeir eru þó oft taldir báðir hirðstjórar. Miklar erjur voru milli Englendinga og fulltrúa Danakonungs þessi ár og rændu Englendingar konungsgarðinn á Bessastöðum bæði 1423 og 1424. Þeir fóru að sögn fjörutíu saman til að taka Balthazar og Hannes af lífi en tókst ekki. Þeir Hannes og Balthazar voru hins vegar óvinsælir meðal landsmanna, einkum Hannes, eftir að sveinar hans saurguðu Helgafellsklaustur 1425, brutu upp klaustur og kirkju og skutu mann í kirkjugarðinum. Sama ár drápu Englendingar tvo af mönnum Danakonungs, brutu skip konungsmanna og erkibiskups og réðust enn einu sinni á Bessastaði, tóku Kláus Ólafsson umboðsmann og rændu hann og handtóku svo Ólaf Nikulásson, sendimann norska ríkisráðsins, og fluttu þá báða til Englands ásamt fleirum.

Síðar um sumarið 1425 fóru þeir Hannes og Balthazar að Englendingum í Vestmannaeyjum og ætluðu að taka þá fasta en Englendingar brutu báta þeirra, handtóku þá, rændu fé þeirra og fluttu þá síðan til Englands og „hörmuðu það fáir“, segir í Lögmannsannál. Sennilega hafa þeir þurft að borga ríflegt lausnargjald til að sleppa. Hannes kom ekki til landsins aftur en Balthazar kom með ensku skipi sumarið 1426. Þá var hann samþykktur sem hirðstjóri á Alþingi. Hann fór þó aftur til Englands með skipi um haustið og er ekkert um hann vitað eftir það. Þorsteinn Ólafsson var hirðstjóri norðan lands og vestan frá 1427 en kann að hafa verið það í umboði Balthazars fyrst í stað.

Heimildir

breyta
  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • Íslenskt fornbréfasafn, 9. bindi, Reykjavík 1909-1913.
  • „Enskir. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 28. árgangur 1913“.


Fyrirrennari:
Helgi Styrsson
Þorsteinn Ólafsson
Hirðstjóri
með Hannesi Pálssyni
(15231527 (?))
Eftirmaður:
Þorsteinn Ólafsson