Staðarhóll er kirkjustaður og gamalt höfuðból í Saurbæ í Dalasýslu. Bærinn stendur í mynni Staðarhólsdals, en er nú í eyði.

Staðarhólskirkja og félagsheimilið Tjarnarlundur.

Samkvæmt Landnámabók var það Víga-Sturla, sonur Þjóðreks sonar Sléttu-Bjarnar landnámsmanns í Saurbæ sem fyrstur byggði bæ á Staðarhóli. Höfðinginn Þorgils Oddason, sem segir frá í Þorgils sögu og Hafliða, bjó þar um miðja 12. öld.

Á Sturlungaöld bjó þar Sturla Þórðarson sagnaritari en á seinni hluta 16. aldar bjuggu á Staðarhóli Páll Jónsson frá Svalbarði, sem kenndur var við bæinn og kallaður Staðarhóls-Páll, og kona hans Helga Aradóttir, og fer miklum sögum af þeim og skrykkjóttri sambúð þeirra. Niðjar þeirra áttu Staðarhól fram undir aldamótin 1900.

Staðarhólskirkja

breyta

Kirkja var á Staðarhóli frá fornu fari og eru elstu heimildir um hana frá því skömmu fyrir 1200. Þá var prestur þar Oddi Þorgilsson, sonur Þorgils Oddasonar.

Núverandi Staðarhólskirkja var reist á nýjum stað árið 1899, þegar Staðarhólssókn var sameinuð Hvolssókn, og er hún meira miðsvæðis í Saurbæ. Kirkjan var endurbyggð í sömu mynd eftir að hún fauk í óveðri 1981. Við kirkjuna er félagsheimilið Tjarnarlundur.

Tenglar

breyta