Hannes Pálsson var fógeti eða hirðstjóri á Íslandi á 15. öld og umboðsmaður Danakonungs. Hann var norskur eða danskur að ætt.

Hannes kom fyrst til landsins 1419 með Íslandsfari frá Björgvin ásamt Jóni Tófasyni, nývígðum Hólabiskupi, og fleiri erlendum mönnum, og átti að gefa Eiríki konungi af Pommern skýrslu. Hann er kallaður „kóngsins þénari og kapellán“ og titlaður herra. Hannes virðist hafa verið á Hólum með biskupi um veturinn því á gamlársdag er hann nefndur þar í dóm ásamt öðrum mönnum. Hann er svo nefndur ásamt Helga Styrssyni í bréfi frá 11. apríl 1420, um óleyfilega vetursetu sex enskra kaupmanna í Vestmannaeyjum.

Á Alþingi um sumarið eru þeir Helgi Styrsson og Þorsteinn Ólafsson kallaðir hirðstjórar og skrifa ásamt öðrum undir bréf þar sem sagt er að Hannes hafi rækt erindi þau sem konungur fól honum og muni hann og Þorleifur Árnason geta frætt konunginn um landsins nauð, nauðþurft og gagn. Hannes fékk líka meðmælabréf hjá Jóni biskupi Tófasyni enda mun hann hafa haft illt orð á sér í Björgvin og talið þess þörf. Hann er sagður hafa ferðast víða um land og kannað ástandið, ekki síst yfirgang Englendinga, og segir hann sjálfur í bréfi síðar að þeir hafi meðal annars drepið þjón hans en tekið hann höndum og haldið í skipi sínu í níu daga. Þorleifur Árnason sigldi utan þetta sumar á konungsfund en við Færeyjar réðust Englendigar á skipið, sem þó náði naumlega landi í eyjunum.

Sjálfur mun Hannes hafa farið utan seint um sumarið en kom aftur 1422 ásamt Balthazar van Damme. Fóru þeir í land í Vestmannaeyjum en skipið hélt áfram og ætlaði í Þerneyjarsund en fórst á leiðinni og með því Jón Hallfreðarson ábóti í Þykkvabæjarklaustri.

Næstu ár voru Hannes og Balthazar helstu valdsmenn á landinu. Balthazar hefur líklega verið hinn eiginlegi hirðstjóri en Hannes fógeti og umboðsmaður konungs en þeir eru þó oft taldir báðir hirðstjórar. Miklar erjur voru milli Englendinga og fulltrúa Danakonungs þessi ár og rændu Englendingar konungsgarðinn á Bessastöðum að minnsta kosti tvisvar. Þeir Hannes og Balthazar voru hins vegar óvinsælir meðal landsmanna, einkum Hannes, sem þótti yfirgangssamur og illur, einkum eftir að sveinar hans saurguðu Helgafellsklaustur 1425, brutu upp klaustur og kirkju og skutu mann í kirkjugarðinum.

Sumarið 1425 fóru þeir Hannes og Balthazar að Englendingum í Vestmannaeyjum og ætluðu að taka þá fasta en Englendingar brutu báta þeirra, handtóku þá, rændu fé þeirra og fluttu þá síðan til Englands og „hörmuðu það fáir“, segir í Lögmannsannál. Þegar út kom skrifaði Hannes Englandsstjórn langt og ítarlegt kvörtunarbréf og kærði meðferðina á þeim og skaða sem þeir höfðu hlotið. Sennilega hafa þeir þó þurft að borga ríflegt lausnargjald til að sleppa en úr þessu varð milliríkjamál.

Hannes kom ekki til landsins aftur en Balthazar kom með ensku skipi sumarið 1426.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Helgi Styrsson
Þorsteinn Ólafsson
Hirðstjóri
með Balthazar van Damme
(15231525)
Eftirmaður:
Balthazar van Damme