Skonnorta

(Endurbeint frá Góletta)

Skonnorta (úr ensku: schooner; stundum líka góletta úr frönsku: goélette) er seglskip með tveimur eða fleiri möstrum með gaffalseglum, þar sem fremsta mastrið (framsiglan eða fokkusiglan) er styttra en hin, og stagsegl. Flestar skonnortur eru með bugspjót og þríhyrnda gaffaltoppa. Fullbúin skonnorta er með þrjú til fjögur framsegl (fokku, innri- og ytriklýfi og stundum jagar). Þær voru fyrst notaðar af Hollendingum á 17. öld. Skonnortur geta verið mjög mismunandi að stærð. Stærsta skonnorta sem smíðuð hefur verið var Thomas W. Lawson, smíðuð 1902, sem var 120 metrar að lengd, með sjö möstur og 25 segl.

Skonnortan FS Etoile á Signu

Afbrigði af skonnortum eru toppseglsskonnorta, sem er með tvö rásegl á fokkumastrinu (yfirtoppsegl og undirtoppsegl) og bramseglsskonnorta sem er með þrjú (bramsegl, yfirtoppsegl og undirtoppsegl).

Orðsifjar

breyta

Heitið schooner kemur fyrst fyrir í heimildum frá Bandaríkjunum 1716. Hugsanlega er það dregið af skosku sögninni to scoon („að fleyta kerlingar“). Sagt er að þegar skonnortu var hleypt af stokkunum í nágrenni Boston árið 1713 hafi sjónarvottur kallað „Oh, how she scoons!“ („sjá hvernig hún flýtur“). Margir hafa dregið þessa frásögn í efa og sumir halda því fram að nafnið komi úr hollensku „een schoone Schip“ („fallegt skip“). Elstu heimildir um notkun hugtaksins yfir seglskip af þessari gerð í Evrópu er frá 1736 þegar bandaríska skonnortan St. Ann kom til Portsmouth í Bretlandi.

Franska heitið goëlette er líklega dregið af goéland sem er stór máfur. Þaðan kemur íslenska heitið góletta.

 
Teikning af skonnortu úr Architectura Navalis Mercatoria eftir Fredrik Henrik af Chapman frá 1768

Skonnortan þróaðist upphaflega við strendur Hollands á 17. öld út frá ýmsum gerðum tvímastra jakta. Sum þessara skipa voru hönnuð sem lystiskip fyrir auðmenn og aðalsmenn þar sem þau þóttu bæði meðfærileg og hraðskreið. Eftir að Vilhjálmur 3. af Óraníu varð Englandskonungur var konungsskip, HMS Royal Transport, með skonnortureiða smíðað handa honum í Chatham árið 1695. Skip með þessum reiðabúnaði urðu vinsæl sem fiskiskip á Miklabanka við Nýfundnaland á 18. öld. Skipsgerðin þróaðist aðallega í Bandaríkjunum og Kanada. Þaðan barst hún til Bretagne (Paimpol) og Normandí (Fécamp) í Frakklandi þar sem skonnortur voru gerðar út til þorskveiða á miðum við Nýfundnaland, Grænland og Ísland næstu tvær aldirnar.

Skonnortur voru mikið notaðar sem herskip af hinum unga Bandaríkjaflota í Frelsisstríði Bandaríkjanna. Á tímum gullæðisins voru skonnortur notaðar sem hafnsöguskip í höfnum Boston og New York-borgar. Um miðja 19. öld var farið að nota skonnortur sem fraktskip á leiðum þar sem hraði skipti meira máli en flutningsgeta, eins og í te- og ópíumversluninni milli Englands, Indlands og Kína. Eftir því sem leið á öldina urðu fraktskip með skonnortureiða stærri með fleiri möstur. Eftir miðja 19. öld urðu þrímastra skonnortur algengar í vöruflutningum milli Ameríku og Bretlandseyja. Fyrsta fjórmastra skonnortan var Victoria sem var endursmíði á pramma í San Francisco árið 1863 en fyrsta skipið sem var hannað sem fjórmastra skonnorta var William L White sem var sjósett í Bath í Bandaríkjunum árið 1880. Seint á 19. öld voru vöruflutningaprammar með skonnortureiða algengir á Vötnunum miklu í Norður-Ameríku.

 
America

Skonnortur sem kappsiglingaskútur þróuðust út frá bandarískum hafnsögubátum á fyrri hluta 19. aldar. Þær höfðu mjórra stefni og mestu breidd aftar en hefðbundnar fiskiskonnortur sem gerði þær mun hraðskreiðari. Með frægustu kappsiglingaskonnortum heims eru America (smíðuð 1851) sem Ameríkubikarinn er kenndur við og Atlantic (smíðuð 1903) sem setti hraðamet í siglingu yfir Atlantshafið árið 1905. Kanadíska fiskiskútan Bluenose (smíðuð 1921) varð fræg sem kappsiglingaskúta á 4. og 5. áratugnum og mikilvægt tákn fyrir Nova Scotia.

Um aldamótin 1900 tóku að sjást fimm- og sexsigldar skonnortur sem voru notaðar í kolaflutninga. Árið 1902 var sjösiglda skonnortan Thomas W. Lawson smíðuð í Quincy með stálskrokk. Hún fórst í stormi við Syllinga árið 1907. Stærsta tréskonnorta sem smíðuð hefur verið er sex mastra skipið Wyoming sem var hleypt af stokkunum í Bath árið 1909.

Skonnortur á Íslandi

breyta

Skonnortur voru algeng sjón við Íslandsstrendur við lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar þar sem Frakkar notuðu þær til fiskveiða á Íslandsmiðum. Íslenskir kaupmenn notuðu líka skonnortur til vöruflutninga á síðari hluta 19. aldar. Síðustu skonnorturnar sem keyptar voru til Íslands á skútuöld voru Muninn og Huginn Thors Jensens sem voru notaðar í Spánarsiglingar frá 1917. Nú eru þrjár skonnortur í notkun á Íslandi, Haukur, Hildur og Ópal. Þær eru allar hvalaskoðunarbátar í eigu Norðursiglingar á Húsavík.

Frægar skonnortur

breyta

Í bókmenntum og kvikmyndum

breyta

Skonnortur koma víða fyrir í bókmenntum frá 19. öld. Í skáldsögu Bram Stoker, Drakúla, siglir greifinn til Bretlands á skonnortunni Demeter. Í Gulleyju Robert Louis Stevenson sigla söguhetjurnar til eyjarinnar á skonnortunni Hispaniola.

Skonnortur leika stórt hlutverk í kvikmyndinni Siglingin mikla (The Whole World in His Arms) frá 1952 með Gregory Peck, Ann Blyth og Anthony Quinn í aðalhlutverkum.