Bram Stoker (8. nóvember 1847 – 20. apríl 1912) var írskur rithöfundur sem er frægastur fyrir að hafa samið gotnesku skáldsöguna Drakúla. Á ævi sinni var Stoker þó kunnari sem aðstoðarmaður leikarans Henry Irving og leikhússtjóri Lyceum-leikhússins í London, sem Irving átti.

Bram Stoker
Bram Stoker
Bram Stoker árið 1906.
Fæddur: 8. nóvember 1847
Clontarf, Dublin, Írlandi
Látinn:20. apríl 1912 (64 ára)
London, Englandi
Starf/staða:Rithöfundur
Þjóðerni:Írskur
Þekktasta verk:Drakúla (1897)
Maki/ar:Florence Balcombe (g. 1878–1912)
Undirskrift:
Heimasíða:http://www.bramstoker.org

Æviágrip

breyta

Bram Stoker fæddist í Clontard í Dublin.[1] Foreldrar hans voru Abraham Stoker og kvenréttindakonan Charlotte Mathilda Thornley. Stoker var þungt haldinn af óþekktum sjúkdómi á ungdómsárum sínum og sagðist hafa orðið mjög íhugull drengur vegna þess hve oft hann var rúmfastur. Þetta hafi síðan komið honum til góðs sem rithöfundur á fullorðinsárum sínum. Hann nam stærðfræði við Trinity-háskólann í Dublin frá 1864 til 1870[2] en var á sama tíma mjög áhugasamur um sagnfræði og heimspeki.

Eftir námsárin hóf Stoker að vinna sem leikhúsgagnrýnandi fyrir tímaritið The Dublin Mail. Þetta var ekki virt starfsgrein en Stoker vakti athygli lesenda fyrir vel skrifaða gagnrýni sína. Stoker kynntist leikaranum Henry Irving og vinskapur tókst með þeim eftir að Stoker skrifaði jákvæða gagnrýni um uppsetningu Irvings á Hamlet í Dublin árið 1876. Stoker fór einnig sjálfur að skrifa smásögur á þessum tíma.

Árið 1878 giftist hann Florence Balcombe, sem hafði áður verið heitkona Oscars Wilde.[3] Hjónin fluttu til London og Stoker var þar ráðinn af Irving vini sínum sem leikhússtjóri Lyceum-leikhússins. Stoker kynntist þar ýmsum rithöfundum síns tíma, þar á meðal James McNeil Whistler og Sir Arthur Conan Doyle.

Stoker hélt sjálfan sig út af fyrir sig en vegna skírlífs hjónabands þeirra Balcombe, aðdáunar Stokers á Walt Whitman, Hall Caine og Henry Irving, og vinskapar þeirra Oscars Wilde, telja sumir fræðimenn að Stoker hafi verið samkynhneigður og hafi skrifað sögurnar sínar til að fá útrás fyrir kynferðislega bælingu sína.[4] Árið 1912 krafðist Stoker þess opinberlega að allir samkynhneigðir rithöfundar í Bretlandi yrðu fangelsaðir. Því hefur verið velt upp að hann hafi lagt þetta til vegna sjálfshaturs eða til þess að vekja ekki grunsemdir á sjálfum sér.[5] Stoker byrjaði að skrifa Drakúla aðeins fáeinum vikum eftir að vinur hans, Oscar Wilde, hafði verið sóttur til saka og dæmdur fyrir samkynhneigð sína.[5][6]

Bram Stoker fékk nokkur heilablóðföll á ævi sinni og lést loks úr einu þeirra á heimili sínu á George's Square þann 20. apríl árið 1912. Sumir ævisöguritarar hafa kennt sárasótt um dauða Stokers[7] en aðrir segja að hann hafi unnið sér til óbóta og dáið úr ofþreytu.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. Belford, Barbara (2002). Bram Stoker and the Man Who Was Dracula. Cambridge, Massachusetts: Da Capo Press, bls. 17.
  2. Bram Stoker (1847–1912) Trinity College Dublin Writers by Jarlath Killeen
  3. Irish Times, 8. mars 1882, bls. 5.
  4. Skal, David J Something in the Blood: The Untold Story of Bram Stoker, Liveright, 2016, bls. 564; [1] "Coming Out Of The Coffin", The New Inquiry, 24. ágúst 2012
  5. 5,0 5,1 [2] "Coming Out Of The Coffin", The New Inquiry, 24. ágúst 2012
  6. Schaffer, Talia "A Wilde Desire Took Me: The Homoerotic History of Dracula", ELH, vol. 61, no. 2 (Summer, 1994), bls. 381–425
  7. Gibson, Peter (1985). The Capital Companion. Webb & Bower, bls. 365–366.
  8. The Discussion (þriðja útgáfa). Grade Eight – Bram Stoker: Oberon Books (f. The London Academy of Music and Dramatic Arts). 2004, bls. 97.