Thor Philip Axel Jensen (f. 3. desember 1863 í Danmörku, d. 12. september 1947) var danskur athafnamaður sem fluttist ungur til Íslands og varð þjóðþekktur fyrir umsvif sín á fyrri hluta 20. aldar. Útgerðarfélag hans Kveldúlfur hf. var það stærsta á Íslandi á millistríðsárunum. Synir hans urðu þjóðþekktir sömuleiðis, Ólafur Thors var forsætisráðherra Íslands og Thor Thors var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Eiginkona Björgólfs Guðmundssonar, Þóra Hallgrímsson, er barnabarn Thors Jensens, rétt eins og Thor Vilhjálmsson rithöfundur. Thor er því langafi Guðmundar Andra Thorssonar, ritstjóra og rithöfundar og íslenska athafnamannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Myndartexti á íslensku
Lágmynd í Hallargarðinum í Reykjavík: Thor Jensen og Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir Höfundur: Helgi Gíslason

Faðir Thors, Jens Chr. Jensen, var múrari. Thor átti 11 systkyni og fjórar hálf-systur. Honum gekk vel í námi sínu en þegar hann náði átta ára aldri féll faðir hans frá. Tveimur árum seinna var hann sendur í heimavistarskóla í Kaupmannahöfn sem tók við börnum sem misst höfðu annað foreldrið eða bæði og kenndi þeim endurgjaldslaust. Að náminu loknu, þegar Thor var kominn á fermingaraldur, var hann sendur til Borðeyrar fyrir tilstilli skólastjórans sem þekkti til íslensks kaupmanns sem starfaði þar.

Thor aðlagaðist fljótt að Íslandi, las Íslendingasögurnar og lærði íslensku. Til Borðeyrar fluttist ekkja ásamt tveimur börnum, strák og stelpu. Stúlkan hét Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir og með þeim Thor tókust ástir sem entust í yfir 60 ár. Þau eignuðust saman 12 börn: Camillu 20. apríl 1887, Richard 29. apríl 1888, Kjartan 26. apríl 1890, Ólaf 19. janúar 1892, Hauk 21. mars 1896, Kristínu 16. febrúar 1899, Kristjönu 23. júlí 1900, Margréti Þorbjörgu 22. apríl 1902, Thor 26. nóvember 1903, Lorentz 4. júlí 1904, Louise Andreu 24. ágúst 1906 og Louis Hilmar 7. júlí 1908.

 
Thor Philip Axel Jensen byggði þetta hús 1908 á Fríkirkjuvegi 11, Reykjavík

Árið 1886 fluttu Thor og Margrét til Borgarness. Kaupmaðurinn á staðnum Akra Jón lenti í vanskilum við birgja sinn, norska kaupmanninn Johann Lange pg Johann tók reksturinn upp í skuld. Johann kom sjálfur ekki til Íslands. Hann hafði frétt af dugmiklum dönskum búðardreng á Borðeyri og fól honum að annast reksturinn í sínu nafni. Thor var þá aðeins rúmlega tvítugur. Í Borgarnesi fæddust fyrstu fjögur börn þeirra Margrétar. Verslunin var til húsa í elsta húsi Borgarness sem jafnan hefur verið kallað Búðarklettur. Verslunin blómstraði undir stjórn Thors og hann stóð td fyrir að byggja pakkhús við verlsunarhúsið. Í dag er Landnámssetur Íslands til húsa í þessum sögufrægu húsum.

Thor og Margrét fluttust síðan til Akraness þar sem Thor stofnaði eigin verslun. Fyrst um sinn gekk reksturinn vel en í kringum aldamótin 1900 varð Thor gjaldþrota eftir að skip með vörum hans fórust á leið sinni. Thor fluttist þá ásamt fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar þar sem þau bjuggu uns Thor kom aftur undir sig fótunum og stofnaði verslun á ný í Reykjavík. Vitað mál var að Thor væri röskur maður og „[t]veir af öflugustu útvegsbændum á Seltjarnarnesi, Guðmundur Einarsson í Nesi og Þórður Jónasson í Ráðagerði sögðust skyldu kaupa af honum útgerðarvörur ef hann byði þær á samkeppnishæfu verði.“[1] Guðmundur þessi veitti honum afnot af húsnæði sínu á horni Austurstrætis og Veltusunds og báðir bændurnir skrifuðu víxil upp á 500 kr. til þess að koma fyrirtækinu á laggirnar. Verslunina nefndi hann Godthaab-verzlunina eftir Godthaabsvegi í Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Rekstur verslunarinnar gekk vel og Thor varð á stuttum tíma einn ríkasti maður á Íslandi. Þá byggði hann sér veglegt hús að Fríkirkjuvegi 11 við Tjörnina.

Thor kom að stofnun Miljónafélagsins árið 1907 og sá um kaup á og tók þátt í hönnun á Jóni forseta, fyrsta togara Íslendinga. Hann var einn af forystumönnum um stofnun Eimskipafélags Íslands en var ekki kosinn í stjórn sökum uppruna síns og var hann því fráhverfur Eimskipafélaginu síðan.

Á efri árum réðst Thor í að gera Korpúlfsstaði að stærsta mjólkurbúi Íslands. Til þessa lagði hann mikið fjármagn og tókst honum ætlunarverk sitt. Thor lést að nóttu til eftir að blætt hafði inn á heila hans. Af virðingu við hann höfðu fjöldamörg fyrirtæki lokað daginn sem jarðarför hans fór fram, 18. september.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. Guðmundur Magnússon. Thorsararnir. bls 37
  2. „Fjöldi tilkynninga frá fyrirtækjum“. Morgunblaðið. 18. september 1947.

Heimildir

breyta
  • Guðmundur Magnússon (2006). Thorsararnir: auður - völd - örlög. Almenna bókafélagið. ISBN 9979219912.

Tenglar

breyta