Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Með Ensku öldinni er átt við þann hluta sögu Íslands sem á oft við alla 15. öldina en nær strangt til tekið frá 1415 til 1475 þegar Englendingar öðrum fremur sigldu til Íslands til að veiða og kaupa skreið og aðra vöru (t.d. vaðmál og brennistein) í skiptum fyrir ensk klæðaefni, mjöl, bjór, vín og fleira.

Upphaf

breyta

Enska öldin hófst skömmu eftir að Svarti dauði herjaði á landið (1402 til 1404) og siglingar frá Noregi lögðust að mestu leyti af í kjölfarið. Um miðja öldina tóku síðan sléttbyrtir, fjölmastra karkarar við af súðbyrtum, einmastra kuggum. Þetta voru stærri skip og gerðu lengra úthald mögulegt.

Englendingar höfðu lengi áður siglt til landsins, einkum til Vestmannaeyja og lagt þar verslunina undir sig svo Skálholtsstaður (sem þá átti eyjarnar) gat lítið að gert. Snemma á öldinni voru eyjarnar því lýstar einkaeign konungs. Einkum var það sókn eftir skreið sem olli því að siglingar Englendinga til Íslands jukust mikið á 15. öld og talið er að um hundrað skip frá mörgum höfnum Englands hafi árlega siglt þangað til veiða.

Verslun

breyta

Jafnframt veiðunum versluðu Englendingar mikið við Íslendinga og var hlutur Íslandsverslunarinnar um 1% af heildarutanríkisviðskiptum Englands en í Bristol var Íslandsverslunin 3% og í Hull 10% heildarverslunar.[1] Á Íslandi er talið hugsanlegt að verslun hafi lagst af á gömlum verslunarstöðum eins og Gásum í Hörgárdal og Maríuhöfn á Hálsnesi vegna breyttra verslunarhátta á Ensku öldinni. Í stað þeirra komu fiskútflutningshafnir eins og Hafnarfjörður (Straumsvík) og Rif.[2]

Samkvæmt ítarlegum tollskýrslum sem varðveist hafa í Englandi kemur fram að það sem skipin fluttu helst til Íslands voru matvæli eins og korn, hunang og smjör, skeifur og ýmsar aðrar járnvörur, svo og ýmiss konar munaðarvörur eins og skartgripir og handtöskur. Auk þess var flutt inn talsvert af bjór og eitthvað af líni og fatnaði en þó hlutfallslega mun minna en til Noregs. Skipin fluttu svo skreið aftur frá Íslandi, svo og brennistein og eitthvað af vaðmáli.[3]

Íslendingar í Englandi

breyta

Í skrám um útlendinga í Englandi sem varðveist hafa má finna nokkrar upplýsingar um fjölda Íslendinga í Englandi; í skrám frá 1440 eru skráðir 16000 útlendingar í landinu öllu (sú tala er þó talin of há), þar af sex Íslendingar, og fræðimaðurinn dr. Wendy Childs, sem hefur rannsakað þessar skrár, telur að á næstu áratugum hafi gjarna verið 40-50 Íslendingar í Englandi, flestir í Bristol, Hull og London. Árið 1483 voru þó skráðir 48 Íslendingar í Bristol, þar af 46 sveinar (þjónar eða vinnumenn). Skrár frá árunum á undan og eftir hafa ekki varðveist og því er óljóst hvort þessi fjöldi var algjör undantekning.[4]

Vitað er að einhverjir Íslendingar voru á skipum sem sigldu frá Bristol til Portúgals og víðar og einn þeirra, Vilhjálmur Yslond eða Willemus Islonde Indigenus, var orðinn kaupmaður og borgari í Bristol 1492 og flutti vefnað til Lissabon.[5]

 
Skreið var mikilvægasta verslunarvara Ensku aldarinnar.

Átök við Englendinga

breyta

Árið 1427 lagði Danakonungur, Eiríkur af Pommern, Eyrarsundstoll á öll skip sem fóru um Eyrarsund. Þegar skip Hansasambandsins rændu síðan Björgvin í Noregi árið eftir og lögðu staðinn undir sig voru nánast öll tengsl Íslendinga við gamla norska konungdæmið úr sögunni. Eiríkur var mágur Hinriks 5. og reyndi að fá hann til að banna siglingar enskra sjómanna til Íslands, en með litlum árangri.

Margvísleg átök milli enskra sjómanna og samherja þeirra á Íslandi (svo sem Jóns Vilhjálmssonar Craxtons, Hólabiskups) og danskra og íslenskra valdsmanna áttu sér stað og í maí 1433 fór hópur Íslendinga og drekkti Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskup í Brúará að undirlagi Englendinga. Eftir þetta fékk Jón Craxton biskupsdæmi í Skálholti og Jón Bloxwich Hóla. Við komu hollenska biskupsins Gozewijns Comhaer til landsins 1435 voru þeir svo hraktir brott.

Það var síðan með valdatöku Kristjáns 1. að tókst að koma einhverjum ráðum gegn siglingum Englendinga. 17. júní 1449 gerðu ríkin með sér samning sem gerði Englendingum áfram kleift að sigla til Íslands að fengnu sérstöku leyfi en fólu jafnframt í sér viðurkenningu á yfirráðum dansk-norska ríkisins yfir Norður-Atlantshafi. Enskir sjómenn hlíttu þessu þó ekki og til átaka kom sem meðal annars leiddu til vígs Björns Þorleifssonar hirðstjóra 1467 í Rifi á Snæfellsnesi. Kristján 1. brást við með því að loka Eyrarsundi fyrir enskum skipum (notaði „Eyrarsundslásinn“) og hvatti jafnframt þýska farmenn til að sigla til Íslands. Árið 1473 voru gerðir friðarsamningar milli Englendinga og Dana til tveggja ára.

Píningsdómur

breyta

Diðrik Píning var gerður að hirðstjóra á Íslandi árið 1478 og var honum var falið að berjast gegn Englendingum, sem seildust æ meira til yfirráða á Íslandi. Hann varð svo aftur hirðstjóri 1490 eða fyrr. Það ár samdi Hans Danakonungur frið við Englendinga snemma árs 1490 og viðurkenndi rétt þeirra til að veiða fisk við Ísland og stunda þar verslun, ef þeir greiddu af þvi gjöld og fengju leyfi hjá konungi.

Þessa friðargerð lagði Diðrik Píning fyrir Alþingi um sumarið við litla hrifningu innlendra höfðingja, sem sáu í henni samkeppni um vinnuafl. Þann 1. júlí 1490 var gerð samþykkt sem síðan nefndust Píningsdómur og var í raun ógilding á samkomulagi konungs og Englendinga. Kom þar meðal annars fram að útlendingum væri bönnuð veturseta eins og verið hafði og að landsmenn væru skyldir að vera í vist hjá bændum ef þeir hefðu ekki efni á að reisa sjálfir bú.[6]

Þýska öldin

breyta

Þegar Hansakaupmönnum tók að fjölga fóru átökin á Íslandi að snúast um einstakar hafnir og áhrif Þjóðverja, einkum frá Hamborg, sem nutu stuðnings konungs, jukust jafnt og þétt á kostnað Englendinga. Þetta leiddi til þess að 16. öldin er stundum kölluð þýska öldin í Íslandssögunni. Siglingar Englendinga til Íslands lögðust þó ekki af og héldust áfram miklar fram á miðja 17. öld.


Tilvísanir

breyta
  1. Samskipti Englendinga og Íslendinga á 15. öld
  2. Hafnarfjörður - ágrip af sögu verslunarstaðar
  3. Samskipti Englendinga og Íslendinga á 15. öld
  4. Samskipti Englendinga og Íslendinga á 15. öld
  5. Úr Birstofu til Íslands og Suðurlanda
  6. [1][óvirkur tengill] Vísindavefurinn. Skoðað 24. október 2010.

Heimildir

breyta