Hirðstjóri, merkismaður, höfuðsmaður (einkum eftir miðja 16. öld) (da: lensmand, befalingsmand) var titill umboðsmanns konungs á Íslandi frá Gamla sáttmála til ársins 1683 þegar landinu var skipaður stiftamtmaður. Hirðstjóri tók landið að léni og greiddi fyrir ákveðna upphæð fram til loka 14. aldar þegar þeir fengu ákveðinn hluta konungstekna af landinu.

Til að byrja með var hirðstjóri fremstur umboðsmanna eða hirðar konungs (þ.e. sýslumanna) og sá sem varðveitti innsigli hans (sbr. merkismaður). Oftast var einn hirðstjóri skipaður fyrir allt landið, en líka stundum tveir; norðan og vestan og sunnan og austan. Eitt skipti (1357) voru fjórir hirðstjórar skipaðir; einn fyrir hvern fjórðung.

Hlutverk

breyta

Hlutverk hirðstjóra var að hafa eftirlit með sýslumönnum, lesa konungsbréf á Alþingi þar sem hann sat í öndvegi, annast landvarnir, hafa eftirlit með verslun, nefna dóma í stærri málum, staðfesta dóma Lögréttu sem höfðu lagagildi, veita sýslur, skattheimta og hafa umsjón með eignum konungs. Þegar yfirdómur var stofnaður 1593 var það hlutverk hirðstjóra að nefna 24 menn í hann.

Saga embættisins

breyta

Fyrstu hirðstjórar á Íslandi voru höfðingjarnir Ormur Ormsson og Hrafn Oddsson. Sá síðasti var Henrik Bjelke, ríkisaðmíráll. Eftir lát hans var embættið lagt niður.

Til að byrja með var embættið veitt til þriggja ára. Íslendingar gerðu kröfu um að hirðstjóri væri íslenskur og samþykktur af Lögréttu og var því yfirleitt fylgt fram á miðja 15. öld. Íslenskir hirðstjórar sátu á heimili sínu, en erlendir á Bessastöðum. Á 14. öld fóru hirðstjórar oft með sýsluvöld.

Á 16. og 17. öld var hirðstjóri venjulega sjóliðsforingi eða aðmíráll í danska flotanum (sbr. höfuðsmaður), án fastrar búsetu á Íslandi. Í fjarveru þeirra var hlutverkinu sinnt af fógeta.

Tengt efni

breyta