Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Þýska öldin er það tímabil í Íslandssögunni þar sem þýskir kaupmenn voru ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga og stunduðu einnig veiðar við Íslandsstrendur og útgerð frá íslenskum verstöðvum.

Elsta heimild um siglingu þýskra kaupmanna til Íslands er frá 1432 en frá því um 1470 voru komur þeirra árvissar og er þýska öldin talin hefjast um það leyti. Hún stóð svo alla 16. öldina, eða þar til einokunarverslun var komið á í upphafi 17. aldar. Þýsku kaupmennirnir tilheyrðu miklu verslunarsambandi sem kallaðist Hansasambandið og réði nær allri verslun í Norður-Evrópu og við Eystrasalt. Þeir Hansakaupmenn sem hingað sigldu voru flestir frá Lübeck (Lýbiku), Hamborg og Bremen (Brimum). Voru tengsl Íslendinga við Þýskaland töluvert mikil á þessum tíma og ýmsir ungir Íslendingar fóru t.d. til Þýskalands til náms.

Englendingar höfðu verið allsráðandi í Íslandsverslun frá því um 1415 og kallast það tímabil enska öldin. Þegar þýsku kaupmennirnir komu á vettvang urðu víða átök á milli þeirra og Englendinga um verslunarhafnir og verstöðvar og kom stundum til bardaga. Þjóðverjar náðu smátt og smátt undirtökum í versluninni en Englendingar voru þó áfram við landið í einhverjum mæli, versluðu við Íslendinga og veiddu fisk.

Höfðuðstöðvar Hansakaupmanna voru í Hafnarfirði og má segja að þar hafi helsta höfn og útflutningsmiðstöð landsins verið á þeim tíma. Þar var fyrsta lútherska kirkjan á Íslandi reist, líklega 1533, og stóð hún þar til þýsku öldinni lauk. Þjóðverjar létu sér ekki nægja að versla hér, heldur hófu þeir útgerð, settust að á útvegsjörðum og réðu Íslendinga til að róa til fiskjar fyrir sig, og varð sumstaðar til svolítill vísir að sjávarþorpum. Þetta féll íslenskum bændum og höfðingjum illa því þeir áttu þá erfiðara með að fá vinnufólk.

Píningsdómur

breyta

Árið 1490 gerðu þeir Hans Danakonungur og Hinrik 7. Englandskonungur samning um að Englendingum væri heimilt að versla og fiska við Ísland. Þessum samningi var lýst á Alþingi og um leið að þýskir kaupmenn, þeir sem konungsbréf hefðu, mættu einnig versla hér. En lögmenn og lögréttumenn samþykktu á móti að engir útlendir menn mættu hafa hér vetursetu að nauðsynjalausu, hafa Íslendinga í vinnu eða gera út skip, og engir búðsetumenn mættu vera í landinu sem ekki ættu fénað sér til framfæris, heldu skyldu eignalitlir menn vera vinnumenn hjá bændum. Þessi dómur kallast Píningsdómur, kenndur við Diðrik Píning hirðstjóra, og má leiða að því líkur að þar með hafi verið komið í veg fyrir þéttbýlismyndun á Íslandi í margar aldir.

Þýsku öldinni lauk sem fyrr segir þegar einokunarverslun var komið á 1602 og Danir einir máttu versla á Íslandi en fyrst í stað voru sumir dönsku kaupmannanna raunar leppar fyrir Hansakaupmenn.

Heimildir

breyta
  • „Hvað var Píningsdómur? Vísindavefurinn 9.5.2003, skoðað 3.11.2009“.
  • „Um fiskiveiðar Íslendinga og útlendinga við Ísland að fornu og nýju. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 1883“.

Tenglar

breyta