Skreið er slægður, hausaður og þurrkaður fiskur, oftast þorskur. Þurrkun er gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks sem einkum er notuð á Íslandi og í Noregi. Skreið hefur verið flutt út frá þessum löndum í meira en þúsund ár og í Egils sögu er til dæmis sagt frá því að Þórólfur Kveldúlfsson flutti skreiðfisk frá Noregi til Englands. Helstu markaðir fyrir skreið nú á tímum eru Ítalía og nokkur lönd í vestanverðri Mið-Afríku.

Skreiðarverkun á Íslandi.

Íslendingar hafa þurrkað fisk frá landnámsöld og skreið var um aldaraðir helsta útflutningsvara landsmanna. Átök við útlendinga á miðöldum og erjur erlendra manna við Ísland tengdust fyrst og fremst baráttu um skreiðarverslun og útflutning. Íslendingar borðuðu sjálfir mikið af skreið en í nútímanum má segja að á Íslandi sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar, það er að segja harðfiskur. Öll önnur skreið er framleidd til útflutnings.

Áður var skreiðin öll þurrkuð úti, annaðhvort í þar til gerðum fiskhjöllum eða á trönum, og voru þá fiskarnir slægðir og hausaðir og spyrtir saman tveir og tveir, hengdir upp og sól og vindur látin sjá um þurrkunina. Þetta er enn gert en einnig er fiskurinn þurrkaður inni og er þá jarðhiti gjarnan nýttur til verkunarinnar.

Heimildir

breyta