Hinrik 5. Englandskonungur

Hinrik 5. (enska: Henry V) (16. september 138731. ágúst 1422) var konungur Englands frá 1413 til 1422. Á ríkisstjórnarárum hans nutu Englendingar einna mestrar velgengni í Hundrað ára stríðinu.

Hinrik 5.

Uppvöxtur breyta

Hinrik var sonur Hinriks 4. eða Henry Bolingbroke og Mary de Bohun, fyrri konu hans, en hún lést þegar Hinrik var sjö ára. Þegar Hinrik fæddist var hann þó ekki ríkiserfingi og ekkert útlit fyrir að svo yrði þar sem Ríkharður 2. frændi hans, sem þá var konungur, var ungur að árum og líklegur til að eignast erfingja og auk þess stóðu aðrir framar í erfðaröðinni.

En árið 1399 stýrði Bolingbroke uppreisn gegn Ríkharði 2. og var honum steypt af stóli en Bolingbroke krýndur konungur í hans stað. Varð Hinrik yngri þá prinsinn af Wales, eða erfingi krúnunnar. Faðir hans hafði hug á að láta hann giftast Ísabellu, hinni barnungu ekkju Ríkharðs konungs, en ekkert varð þó af því og Ísabella sneri heim til Frakklands en tuttugu árum síðar giftist Hinrik yngstu systur hennar.

Konungur Englands breyta

Hinrik varð hershöfðingi í stjórnartíð föður síns, aðeins sextán ára að aldri, þótti standa sig mjög vel og átti meðal annars þátt í að berja niður uppreisn í Wales og uppreisn Harry Hotspur Percy 1403. Þar særðist hann illa af örvarskoti og hafði því áberandi ör í andliti. Hann tók líka virkan þátt í stjórn ríkisins um tíma, enda var konungur oft illa haldinn af veikindum sem hrjáðu hann, en hætti því árið 1411, eftir ágreining við föður sinn. Hinrik 4. lést svo árið 1413 og var Hinrik krýndur sem Hinrik 5. 9. apríl 1413.

Hinrik 5. er einna frægastur fyrir sigra sína í Hundrað ára stríðinu. Þegar hann varð konungur hafði verið friður á milli Frakka og Englendinga síðan 1389 en Hinrik lýsti yfir stríði og gerði tilkall til stórra svæða í Frakklandi. Árið 1415 sigldi hann með her yfir Ermarsundið og réðst inn í Frakkland. Sama ár vann hann sigur á Frökkum í bardaganum við Agincourt. Sigurinn var einn sá frækilegasti af hálfu Englendinga í stríðinu, þar sem franski herinn var margfalt stærri og ensku hermennirnir þar að auki þreyttir eftir margra daga göngu.

Árið 1417 var Hinrik 5. aftur í Frakklandi og lagði þá undir sig Rouen og fleiri borgir. Árið 1420 undirrituðu hann og Karl 6. Frakklandskonungur svo Troyes-sáttmálann sem kvað á um að Hinrik skyldi erfa krúnu Frakklands en ekki sonur Karls. Einnig var samið um að Hinrik skyldi giftast yngstu dóttur Karls, Katrínu af Valois. Brúðkaup þeirra var haldið 2. júní 1420. Þau héldu svo til Englands, þar sem Katrín var krýnd drottning.

Sumarið 1421 hélt Hinrik í sína síðustu herferð til Frakklands. Katrín var þá barnshafandi og fæddi son 6. desember sama ár, sem látinn var heita Hinrik. Hinrik náði góðum árangri í herför sinni í Frakkland en 31. ágúst 1422 lést hann skyndilega í Château de Vincennes nálægt París, líklega úr blóðkreppusótt. Ef hann hefði lifað tveimur mánuðum lengur hefði hann líklega verið krýndur konungur Frakklands því Karl 6. tengdafaðir hans lést 21. október.

Hinrik sonur hans erfði ríkið sem Hinrik 6., aðeins átta mánaða gamall.

Heimildir breyta


Fyrirrennari:
Hinrik 4.
Konungur Englands
Lávarður Írlands
(1413 – 1422)
Eftirmaður:
Hinrik 6.